03/03/2023 | Flutningasvið, Fræðsla, Innra starf, Stjórnvöld, Umhverfismál-innri, Viðburðir
Öryggi í alþjóðlegum vöruflutningum á viðsjárverðum tímum.
AEO öryggisvottun er brú inn í framtíðina.
Upptaka frá viðburði 2.mars 2023
Fyrirlesari: Lars Karlsson.
Lars heldur erindi um þá þróun sem átt hefur sér stað í alþjóðlegum vöruflutningum á umliðnum árum og hvernig bregðast skuli við ógnunum sem steðja að til að tryggja öruggt vöruflæði til og frá landinu. Lars fjallar um ávinning fyrir íslensk fyrirtæki að gerast viðurkenndir rekstraraðilar (AEO).
Fyrirtæki geta með fyrirbyggjandi aðgerðum verið betur í stakk búin að fást við truflanir og brugðist hraðar við þegar ófyrirséðir atburðir eiga sér stað.
18/10/2021 | Flutningasvið, Fréttir, Umhverfismál, Upptaka
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu ræddi við Gísla Arnarson, framkvæmdastjóra innanlandssviðs Samskipa um orkuskipti í landflutningum í snörpum 15 mínútna þætti.
Í þættinum er m.a. rætt um áhuga flutningafyrirtækja á orkuskiptum, óvissu sem þeim tengist, þær áskoranir sem fylgja áformum stjórnvalda um hröð orkuskipti og hverskonar skilaboð gætu e.t.v. liðkað fyrir.
Hér fyrir neðan má sjá viðtalið:
Í tengslum við Umhverfisdag atvinnulífsins er allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og málefnum orkuskipta í fróðlegum 20 mínútna umræðuþáttum. Þættirnir eru sýndir á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 10:00 í Sjónvarpi atvinnulífsins og í Samtölum atvinnulífsins á helstu hlaðvarpsveitum.
16/09/2021 | Flutningasvið, Fréttir, Menntun, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Stafræn viðskipti, Stafræna umbreytingin, Stjórnvöld, Upptaka
Nú á dögunum fékk SVÞ til sín frambjóðendur nokkurra helstu flokka sem bjóða fram til Alþingis nú í haust. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, tók viðtölin og frambjóðendur voru spurðir um ýmis mál sem aðildarfyrirtæki SVÞ varðar.
Frambjóðendur fengu spurningarnar sendar fyrirfram svo þeir gætu undirbúið sig. Spurningarnar voru um eftirfarandi mál:
- Hvað þeim fyndist um aðgerðir núverandi stjórnvalda þegar kemur að stafrænni umbreytingu og stafrænni hæfni í atvinnulífinu og á vinnumarkaði.
- Hvort þau styddu aðkomu stjórnvalda að stafrænum hæfniklasa sem í dag standa að SVÞ, VR og Háskólinn í Reykjavík.
- Hvað þau hyggist gera varðandi stafræna hæfni og umbreytingu atvinnulífs og vinnumarkaðar?
- Hvernig tryggja skal að grunnmenntakerfið (grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar) og sí- og endurmenntunarkerfið geti sem best mætt þörfum atvinnulífsins.
- Hvernig þau teldu að bæta mætti gæði opinberra innkaupa.
- Hver afstaða þeirra væri til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu.
- Hvernig þau sæu fyrir sér hlutverk sjálfstætt starfandi sérgreinalækna.
- Hvort þau teldu að heimila ætti starfsemi fleiri sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðva.
- Hver afstaða þeirra væri til útvistunar verkefna hins opinbera til einkaaðila.
- Hvernig þau myndu beita sér fyrir slíkri útvistun.
- Hver þeirra afstaða væri til endurskoðunar fyrirkomulags fasteignaskatta.
- Hvort þau teldu þörf á stuðningi við landbúnaðinn bæði í formi beinna styrkja og tollverndar eða hvort einn stuðningur ætti að nægja.
- Hversu langt þeim finnist að stjórnvöld eigi að ganga í viðleitni sinni til að hraða orkuskiptum í landflutningum.
- Hvaða þáttum stjórnvöld þurfi að gæta í vegferð sinni til að hraða orkuskiptum í landflutningum.
- Hvaða vegaframkvæmdir þau vilji sjá settar á oddinn í samgönguáætlun.
- Hvernig þau hygðust stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi.
Þegar hafa svör nokkurra frambjóðenda um hin ýmsu mál verið birt á Facebook síðu SVÞ (facebook.com/samtok.vth) en verulega verður gefið í næstu daga og hver málaflokkur tekinn fyrir einn dag í einu.
ATH! Ekki eru öll svör allra frambjóðenda birt heldur er valið úr.
Viðmælendur
Eftirfarandi frambjóðendur voru teknir tali. Öll eiga þau það sameiginlegt að vera ný á vettvangi Alþingiskosninga og að vera í sætum sem gera þau nokkuð líkleg til að komast inn á þing.
- Björn Leví Gunnarsson, Píratar – 1. sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður
- Fjóla Hrund Björnsdóttir, Miðflokki – 1. sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður
- Guðrún Hafsteinsdóttir, Sjálfstæðisflokki – 1. sæti í Suðurkjördæmi
- Gunnar Smári Egilsson, Sósíalistaflokki – 1. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður
- Hólmfríður Árnadóttir, Vinstri grænum – 1. sæti í Suðurkjördæmi
- Jóhann Friðrik Friðriksson, Framsókn – 2. sæti í Suðvesturkjördæmi
- Sigmar Guðmundsson, Viðreisn, 2. sæti í Suðvesturkjördæmi
- Valgarður Lyngdal, Samfylkingunni – 1. sæti í Norðvesturkjördæmi
Hvenær get ég séð hvað?
Hér má sjá hvenær hver málaflokkur verður birtur*:
Þegar er búið að birta nokkur viðtöl í nokkrum málaflokkum. Á næstunni verða svo öll viðtölin birt eftir málaflokkum.
Stafræn hæfni og umbreyting – 15. september – hefur þegar verið birt
Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu – 16. september
Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu – 17. september
Menntakerfið – 18. september
Opinber innkaup, útvistun hins opinbera og fasteignaskattar – 19. september
Tollar og landbúnaður – 20. september
Fjölbreyttara atvinnulíf – 21. september
Forgangsmál í innviðauppbyggingu og orkuskipti í landflutningum – 22. september
*tímasetningar geta breyst
24/06/2021 | Flutningasvið, Fréttir, Greinar, Umhverfismál
Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur SVÞ
Trukkur, samkvæmt orðabók, er stór og kraftmikill vörubíll. Trukkar eru okkur mikilvægir þó flest okkar leiði hugann sjaldnast að þeim. Trukkar eru ekki bara öskubílar, olíubílar og mjólkurbílar heldur flutningabílar sem færa vörur milli staða. Trukkar færa t.d. matinn í verslanirnar, byggingarefnið á byggingastað og fiskinn í útflutning. Sérstakir trukkar flytja túrista en eru þá kallaðir rútur, sem væntanlega á að vísa til dálítils kassa af öli. Í þessu ljósi má t.d. ímynda sér að heiti trukksins, sem er frábær réttur á matseðli Gráa Kattarins, vísi til gagnsemi trukksins enda er hann samansettur úr fjölmörgum hráefnum og fullnægir daglegum þörfum afar vel. Það er sennilega ekki tilviljun að þegar rætt er um að taka eitthvað með trukki er gjarnan skírskotað til þess að gera eitthvað að afli, almennilega, fara alla leið.
Tökum það með trukki
Stjórnvöld hafa sett fram afar metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Í gildandi aðgerðaáætlun er m.a. fjallað um hvernig megi draga úr losun koltvísýrings í samgöngum. Ein af aðgerðunum snýr að því hvernig draga megi úr losun í þungaflutningum innanlands, m.ö.o. hvernig tökum við trukkana með trukki án þess að missa trukkið.
Trukkaland
Hér á landi eru margir trukkar í notkun miðað við höfðatölu eða a.m.k. finnst mér rökrænt að álykta á þennan hátt. Samkvæmt Wikipedíu er Ísland 16. stærsta ríki heims, miðað við höfðatölu. Ef íbúaþéttleiki á Íslandi væri hinn sami og í Mónakó byggju hér tæplega 2 milljarðar Íslendinga. Ef íbúaþéttleiki í Mónakó væri hinn sami og hér á landi byggju þar 8 manns. Ef við gefum okkur að nokkuð margir trukkar séu í notkun í okkar stóra, strjálbýla, veðurbarða og mishæðótta landi, miðað við höfðatölu, má jafnframt álykta sem svo að fjarlægðir manna á milli kalli á töluverðan trukkaakstur.
Réttu trukkarnir
Nýverið keypti ég mér rafmagnsbíl. Kaupin voru ekki sérlega frumleg enda fer hver að verða síðastur að kaupa bensín- eða dísilbíl. Bílinn losar ekki gróðurhúsalofttegundir í akstri og nú kaupi ég eingöngu innlenda orku. Umskiptin voru einföld. Fólksbílar knúnir rafmagni eru vel þróaðir, framleiddir á nokkuð hagkvæman máta og hleðsluinnviðir til staðar, bæði heima hjá mér og víða um landið. En ekki eru allir eins. Hyggist eigandi trukks kaupa nýjan trukk, sem gengur fyrir öðru en dísilolíu, vandast málið. Valkostirnir eru fáir og þeir sem eru þó til staðar kosta svo heiftarlega mikið að kaupin ganga ekki upp. Þá er drægi sumra kostanna enn takmörkuð og flutningagetan óljós. Sé trukki stungið í samband er hætt við að það verði ekki margar innstungur eftir fyrir aðra.
Við þurfum öll á trukkunum að halda. Eigendur trukkanna vilja eiga trukka til að þjónusta okkur. Helst vilja þeir aka trukkunum á innlendri orku. Þar liggur vandinn því slíkir trukkar standa enn vart til boða en eru þó á leiðinni, í framtíðinni og vonandi þeirri nánustu. Að hanna og smíða trukk tekur mörg ár, jafnvel fyrir reyndustu menn, og þegar hann hefur verið smíðaður þarf að prófa hann við ýmsar aðstæður. Þar að auki þarf að koma upp tækjum til að koma orkugjafa á trukkinn, þ.e. hliðstæðu olíudælunnar.
Trukkar í loftslagsvísi atvinnulífsins
Hinn 23. júní var Loftslagsvísir atvinnulífsins gefinn út. Eins og önnur fyrirtæki hafa flutningafyrirtæki verulegan áhuga á að taka virkan þátt í orkuskiptum í samgöngum. Þegar kemur að akstri trukka á lengri leiðum virðist vetnisvæðing helsta lausnin framundan. Nokkrir trukkaframleiðendur eru að prófa sína trukka erlendis en það er enn nokkuð í að hægt verði að kaupa þá. Það er hins vegar ljóst að trukkarnir verða ekki bara dýrir í innkaupum heldur verður það töluvert vesen að fara að nota þá. Til dæmis vantar okkur fjölda vetnisstöðva.
Púslin í nýorkuveruleika trukka eru sannarlega mörg en það er búið að taka lokið af öskjunni. Wasgij-púslið blasir við, menn eru búnir að klóra sér svolítið í hausnum en eru sannfærðir um að þetta muni klárast.
Að lokum skora ég á Gráa köttinn að breyta nafninu á trukknum í vetnistrukkinn, svona til að taka af allan vafa.
Benedikt S. Benediktsson
lögfræðingur SVÞ
—
Greinin birtist fyrst á Vísi.is, fimmtudaginn 24. júní 2021.
27/11/2019 | Flutningasvið, Fréttir
Upptökur og efni frá félagsfundi SVÞ og Samtaka ferðaþjónustunnar með Vegagerðinni eru nú aðgengilegar hér fyrir neðan. Á fundinum fóru fulltrúar frá Vegagerðinni yfir um vetrarþjónustu, viðhald og öryggismál vegakerfisins og svöruðu spurningum fundarmanna.
Upptökur frá fundinum má sjá í einum spilunarlista undir nafninu Öryggi á vegum og vetrarþjónusta 2019-2020 á Facebook hér: https://www.facebook.com/samtok.vth/videos/
Á fundinum kynnti Berglind Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar nýja stefnu Vegagerðarinnar 2020-2025 og hana má nálgast á vef Vegagerðarinnar hér.
Hér fyrir neðan má sjá glærur þeirra sem héldu erindi:
Glærur Einars Pálssonar, forstöðumanns þjónustudeildar um þjónustu Vegagerðarinnar
Glærur frá Auði Þóru Árnadóttur, forstöðumanns umferðardeildar Vegagerðarinnar um umferðaröryggi
Glærur Óskars Arnar Jónssonar, forstöðumanns framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar um framkvæmdir
16/05/2018 | Flutningasvið, Fréttir
Tollstjóri hefur að undanförnu unnið að innleiðingu á AEO-vottun hér á landi. AEO er alþjóðleg gæðavottun sem felur í sér að fyrirtækið er talið vera öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni, hefur tileinkað sér ábyrga tollmeðferð og uppfyllir kröfur um alþjóðlega vöruflutninga.
Markmiðið með innleiðingu á AEO öryggisvottun er að tryggja samkeppnishæfni íslensks útflutnings og stuðla að bættu markaðsaðgengi íslenskra útflutningsgreina. Fyrirtæki sem eru með starfsemi hér á landi og eru hluti af alþjóðlegu aðfangakeðjunni geta sótt um vottunina. Þessi fyrirtæki geta verið eftirfarandi: Inn- og útflytjendur, framleiðendur, farmflytjendur og tollmiðlarar.
Embætti Tollstjóra leitar eftir fyrirtækjum til að taka þátt í tilraunverkefninu „Viðurkenndir rekstraraðilar“ (AEO-vottun). Valin verða nokkur fyrirtæki sem gegna mismunandi hlutverkum í aðfangakeðjunni til að vera þátttakendur í verkefninu. Markmiðið er að prófa umsóknar- og vottunarferlið áður en AEO-vottunin verður formlega tekin í notkun. Í lok verkefnisins mun fyrirtækið hljóta AEO-vottun þar sem það staðfestist að fyrirtækið stenst öll öryggisskilyrðin og getur sýnt fram á fullnægjandi ferla í tollframkvæmd.
Við val á fyrirtækjum í tilraunaverkefnið verður meðal annars tekið tillit til eftirfarandi atriða:
- Umfang viðskipta, fjölda tollskýrslna og heildarfjárhæðir viðskipta.
- Víðtæk alþjóðleg viðskipti og millilandaflutningar.
- Staða öryggismála og öryggisvitund innan fyrirtækisins, einkum m.t.t. öryggis alþjóðlegu aðfangakeðjunnar.
- Til staðar sé virkt gæðakerfi, hugað sé að meðhöndlun frávika, innra eftirliti og umbótastarfi.
- Dótturfyrirtæki eða móðurfyrirtæki sem hlotið hafa AEO-viðurkenningu erlendis.
- Hlutverk fyrirtækisins í aðfangakeðjunni.
Þeir rekstraraðilar sem hafa áhuga á að taka þátt í tilraunaverkefninu eru beðnir um að senda inn beiðni um þátttöku með því að senda tölvupóst á aeo@tollur.is. Nánari upplýsingar veitir Elvar Örn Arason, umsjónarmaður AEO, í gegnum tölvupóst elvar.arason@tollur.is eða í síma 894 2409. Fresturinn til að senda inn umsókn er miðvikudagurinn 6. júní 2018.
AEO kynningarbæklingur