04/11/2024 | Bílgreinasambandið, Fréttatilkynningar, Fréttir, Í fjölmiðlum
Á næstu einni til tveimur vikum ætlar Alþingi að fá lagagildi fjárlagafrumvarpi 2025 ásamt fylgitunglum.
Meðal fylgitunglanna er frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til laga um kílómetragjald, 7 milljarða
kr., skattahækkunarjólapakki fyrir næsta ár og tugmilljarða skattapakki til jóla næstu ára.
Jólagjöfin er kynnt undir formerkjum nokkurs konar dyggðar. Með hana eiga þegnarnir að vera
ánægðir þar sem henni er ætlað að leiða til jafnræðis, allir borgi. Gjöfin er svo skreytt með borða, u.þ.b.
100% hækkun kolefnisgjalds.
Máttlaus önd
Ríkisstjórnin er starfsstjórn eftir að einn stjórnarflokkanna boðaði skilnað í vor, annar ákvað að þá réttast að slíta sambandinu strax og var
í kjölfarið kallaður svikari. Þriðja flokknum finnst þetta vandræðalegt. Sumir ráðherrar skilnaðarstjórnarinnar gegna enn hlutverki sem embættismenn en eru sem slíkir
ekki í pólitísku hlutverki. Aðrir eruað gera eitthvað allt annað. Erlendis eru starfsstjórnir á ensku nefndar lame duck, máttlaus önd. Upprunalega voru orðin notuð til að lýsa önd sem getur ekki
haldið í við andahópinn og verður af þeim sökum skotspónn ránfugla. Seinna meir voru orðin notuð til að lýsa ógjaldfærum fyrirtækjum og einstaklingum. Á síðari tímum hafa orðin
máttlaus önd verið notuð til að lýsa því pólitíska samhengi þegar þing eða ríkisstjórn missa mátt sinn, t.d. í aðdraganda kosninga.
Er sælla að gefa en þiggja?
Skammur tími er frá því að drög að jólagjöfinni voru kynnt og enn skemmra síðan hún var afhent Alþingi til útdeilingar. Nú er orðið ljóst
að hún er til allra þegnanna. Jólagjöfin leiðir til þess að fyrirtæki sem annast flutning á fiski, matvöru, heyrúlluplasti, skepnufóðri og iðnaðarvöru munu þurfa að huga að því hvernig þau geta mætt 8-10% hækkun
rekstrarkostnaðar á næsta ári og sennilega um 15% hækkun árið 2027. Til viðbótar munu fyrirtækin standa frammi fyrir sambærilegri áskorun vegna hækkandi rekstrarkostnaðar eigin véla og tækja ásamt auknum rekstrarkostnaði þeirra sem veita fyrirtækjunum þjónustu. Skreyting gjafarinnar ber hins vegar vott um glamúr. Hver vill ekki að rekstrarkostnaður strandsiglinga hækki í ofanálag líka fyrst menn eru á annað borð byrjaðir að gefa? Í því samhengi er best af öllu að sú hækkun kemur til viðbótar sambærilegum álögum frá ESB. Gjöf sem heldur áfram að gefa. Allir vita að kostnaðarhækkanir leiðast í ríkum mæli út í verðlagningu. Hækkandi verðlagning hækkar
verðlag, m.a. verðlag á mat og öðrum nauðsynjum. En sanngirni er dyggð er það ekki?
Hangið kjöt
Þegar fjármála- og efnahagsráðherra kynnti jólagjöfina fyrir Alþingi gaf hann til kynna að hún gæti lækkað húsnæðisreikninga allra. Þunnu
hljóði muldraði hann hins vegar að hann vissi ekki alveg hvernig Hagstofan mundi bregðast við. Nú eru viðbrögðin komin í ljós því Hagstofan skaut öndina og nú hangir
hún til meyrnunar. Andfætlingar raunhagkerfisins á fjármálamarkaði andvörpuðu. Alþingi ætlar að ljúka afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og fylgihnatta
um miðjan nóvember. Samkvæmt orðum sem hafa fallið í viðtölum verður unnið eftir þeirri meginreglu að afgreiða málin eins og þau eru lögð fram.
Koma jólin?
Þingmenn geta varla beðið eftir að losna við þingstörfin, komast á kosningaferðalag og halda svo jólin. Þeir mega þó ekki gleyma því að
þeirra hlutverki er ekki lokið því það er m.a. þeirra að passa upp á að jólapakkarnir innihaldi raunverulegar gjafir og en ekki kartöflur og
ýsubein. Undir þessum kringumstæðum vil ég segja við þingmenn: Við vitum að þið eruð í spreng en þetta er
ekki rétti tíminn til að segja „þetta reddast“.
Benedikt S. Benediktsson
Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ
– Samtaka verslunar og þjónustu
25/10/2024 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Umhverfismál
Nýtt kílómetragjald þrengir að grænum skrefum fyrirtækja og heimila, þrátt fyrir yfirlýst loftslagsmarkmið stjórnvalda
Í nýju frumvarpi um kílómetragjald er stefnt að því að allir notendur vegakerfisins leggi til jafns í ríkissjóð eftir því sem þeir aka. Þótt markmið frumvarpsins sé að tryggja sanngirni, mun nýtt gjald sennilega auka kostnað grænni samgangna og í raun refsa þeim sem hafa þegar fjárfest í umhverfisvænum ökutækjum. Þeir sem áður treystu á fyrri hvata stjórnvalda til að skipta yfir í rafmagns- eða sparneytna bíla standa nú frammi fyrir verulega auknum álögum, á meðan kostnaður við rekstur eyðslufrekari ökutækja lækkar. Á sama tíma munu hækkanir einnig falla á ýmsar atvinnugreinar utan vegakerfisins, sem í ljósi aukins skattburðar gætu átt í erfiðleikum með að halda uppi sömu samkeppnisstöðu og lífskjörum.
Morgunblaðið birtir í dag grein frá Maríu Jónu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktssyni, framkvæmdastjória SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni;
UM FARNA KÍLÓMETRA Í ÓHAMINGJUSÖMU HJÓNABANDI
Næsta skref í nýju tekjuöflunarkerfi fyrir ökutæki og eldsneyti var lagt fram á Alþingi þann 22. október af fjármála- og efnahagsráðherra, í formi lagafrumvarps um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja. Eigendur raf- og tengiltvinnbíla þekkja fyrsta skrefið. Markmiðið, samkvæmt frumvarpshöfundi, er að allir sem nota vegakerfið greiði gjald í samræmi við notkunina, innan sama kerfis.
Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti
Þrátt fyrir ætlað sanngirnimarkmið frumvarpsins mun það hafa verulegar afleiðingar og margir munu finna fyrir ójafnri ábyrgð.
Á næsta ári munu:
1. Eigendur rafmagnsfólksbíla greiða um 12% hærra kílómetragjald en á þessu ári.
2. Eigendur smábíla sem eyða 5 lítrum af bensíni á hundraðið greiða 19,2% meira en á þessu ári.
3. Eigendur jeppa og annarra stærri fólksbíla sem eyða 15 lítrum á hundraðið greiða 7% minna en á þessu ári.
4. Eigendur eyðslufrekra vöruflutningabíla greiða 8,9% minna en á þessu ári.
5. Eigendur hreinorku vöruflutningabíla greiða 3,1% meira en á þessu ári.
Samkvæmt frumvarpshöfundi er markmiðið að tryggja að allir greiði sanngjarnt gjald fyrir notkun vegakerfisins. Sanngirni er honum augljóslega ofarlega í huga. Hins vegar sýna áhrifin, sem rakin hafa verið, að þeir sem hafa fjárfest í grænni tækni munu bera þyngri byrðar á meðan þeir sem nýta eyðslufrekari ökutæki hagnast.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“
Í aðdraganda hjúskapar síðustu ríkisstjórnar var gerður kaupmáli sem frumvarpið vísar til. Samkvæmt skoðanakönnunum voru skilnaðarbörnin, þegnarnir, því fegnir að því sambandi lyki. Ekkert barnanna átti hins vegar von á að fá reikning fyrir búskiptunum.
Fyrirsögnin hér að ofan er tekin úr kaupmálanum en óhætt er að segja að efni hans endurspeglaði bjartsýni. „Markmiðið er að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Áfram verður unnið að því að breytingar á sköttum og gjöldum styðji við loftslagsmarkmið.“
Um síðustu áramót tóku gildi lagabreytingar sem urðu þess valdandi að dýrara varð að fjárfesta í fólksbifreið sem eyðir litlu eða engu. Á sama tíma var eignarhald bifreiðanna gert óhagstæðara með hækkun bifreiðagjalds og upptöku kílómetragjalds.
Lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er ætlað að bæta ríkinu tekjumissi vegna ökutækja og það mun að óbreyttu raungerast. Í þeim efnum er markmiðið að tekjurnar nemi rúmum 102 milljörðum kr. árið 2029, sé tekið mið af spá Hagstofunnar um þróun landsframleiðslu. Til samanburðar námu tekjurnar tæpum 52 milljörðum kr. árið 2023.
Markviss skot geiga síður
Með frumvarpinu er ætlunin að afnema aðra eldsneytisskatta en kolefnisgjald sem hækka mun 100%. Kílómetragjaldið á að stoppa í gatið sem myndast og rúmlega það. Hugmyndafræðin er sú að allir ökutækjaeigendur sem teljast hafa sambærileg áhrif á vegakerfið greiði það sama.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“ sagði ríkisstjórnin.
Afleiðingar frumvarpsins, sem voru raktar hér að framan, bera þess ekki vott að loftslagsmál séu lengur í forgangi. Ekki er lengur gert ráð fyrir að skattar á eigendur ökutækja styðji loftslagsmarkmið. Sjálfur vegurinn er mönnum hins vegar ofarlega í huga og það á að sækja meira skattfé í hann og ríkissjóð en hliðaráhrifin eru orðin aukaatriði.
Hliðaráhrifin
Eins og glögglega má sjá af framangreindri upptalningu afleiðinga mun frumvarpið veikja hvata til orkuskipta í samgöngum. Núverandi kerfi hefur veitt talsverða hvata til einstaklinga og fyrirtækja sem hafa aðlagað sig bæði með kaupum á eyðslugrönnum og umhverfisvænum ökutækjum sem eyða engu eða litlu jarðefnaeldsneyti. Með þessu frumvarpi, ásamt skattabreytingum síðasta árs, birtist sú mynd að þessi aðlögun hafi frekar verið eins og að taka lán og nú sé gjalddagi kominn. Þeir sem hafa fylgt hvötum standa nú frammi fyrir auknum kostnaði, sem birtist hver á fætur öðrum.
Umfjöllun frumvarpsins beinist nær öll að umferð á vegum. Þess er hins vegar lítt getið að áhrifin verði víðtækari en svo að aðeins notkun veganna sé undir. Tvöföldun kolefnisgjalds lendir á þeim sem ekki nota vegi í sinni starfsemi. Eigendur báta, þeir sem hita hús með olíu, iðnaðurinn, landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og eigendur staðbundinna tækja á borð við ljósavélar taka á sig verulega hækkun álaga. Ef fram fer sem horfir munu álögur á strandsiglingar hækka á sama tíma og Vegagerðin er að skoða hvernig þá megi efla eftir skipun hins nýfráskilda innviðaráðherra.
Úr hvaða veski?
En hver mun greiða? Atvinnulífið, svaraði nýskilinn innviðaráðherrann. Flestir gera sér grein fyrir að svarið er ekki einlægt því skattar rata í verðlag vöru og þjónustu. Þeir sem hafa fjárfest í eyðslugrannri bifreið munu greiða og þá helst þeir sem fara þurfa langan veg. Sama á við um þá sem þurfa á vöruflutningi að halda og þá helst þeir sem reka starfsemi langt frá vörudreifingarmiðstöðvum og verslunum. Eigendur smábáta munu greiða, bændur munu greiða, iðnaðurinn mun greiða o.fl.
Á endanum munu tveir hópar fá reikninginn, annars vegar neytendur, líklega fá neytendur á landsbyggðinni hann hæstan, og hins vegar viðskiptavinir útflutningsfyrirtækjanna. Verði staða útflutningsfyrirtækjanna slík að þau geti ekki hækkað verð munu þau sitja uppi með reikninginn með mögulegum áhrifum í heimabyggð.
Tækifæri til úrbóta
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu og Bílgreinasambandið hafa þegar komið á framfæri ábendingum um hvernig megi milda áhrif frumvarpsins og munu halda því áfram. Fróðlegt verður að sjá hvort þingmenn í kosningaham muni gefa sér tíma til að leggja við hlustir.
Höfundar: María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
_____________________
12/07/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Innra starf
Kristinn Már Reynisson hefur verið ráðinn til SVÞ – samtaka verslunar og þjónustu og mun hann hefja störf 1. september næstkomandi. Kristinn mun starfa sem lögfræðingur samtakanna og staðgengill framkvæmdastjóra.
Kristinn Már útskrifaðist með M.A. gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands 2010, LL.M. gráðu frá Háskólanum í Stokkhólmi 2012 og doktorsgráðu frá Háskólanum í Árósum 2015.
Á starfsferlinum hefur Kristinn Már m.a. annast kennslu á háskólastigi, starfað sem fulltrúi á lögmannsstofu, unnið ráðgjafarstörf fyrir opinberar stofnanir og starfað sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu, Íslandspósti ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur.
Kristinn Már segir starfið leggjast afar vel í sig: „Ég er ákaflega ánægður með tækifærið sem felst í því að ganga til liðs við SVÞ. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til þess sem samtökin standa fyrir ásamt nýju samstarfsfólki og aðildarfélögunum sjálfum. Miklar breytingar standa yfir í rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem ekki sér fyrir endann á og margar áhugaverðar áskoranir til að takast á við.“
Benedikt S. Benediktsson, verðandi framkvæmdastjóri SVÞ, hefur lýst ánægju með ráðningu Kristins Más: Kristinn Már býr yfir bæði þekkingu og reynslu sem mun gagnast samtökunum og aðildarfyrirtækjum þeirra afar vel. Umhverfismál eru þegar orðin umfangsmikið viðfangsefni aðildarfyrirtækjanna auk þess sem þekking hans á réttarhagfræði, fyrirtækjarétti, skattarétti og samkeppnisrétti verður mjög góð viðbót við þá þekkingu sem þegar er til staðar hjá SVÞ. Við á skrifstofu SVÞ hlökkum mikið til að Kristinn Már bætist í okkar hóp á komandi hausti.
26/04/2024 | Fréttir, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Aðalfundur Sjálfstæðra skóla 2024 var haldinn þriðjudaginn 23. apríl í Húsi atvinnulífsins.
Eftirtaldir voru kjörnir í stjórn Samtaka sjálfstæðra skóla 2024-2025:
Formaður – Alma Guðmundsdóttir, Hjallastefnan
Varaformaður – Kristrún Birgisdóttir, Skóli í skýjum
Meðstjórnandi og gjaldkeri – Jón Örn Valsson, Korpukot
Meðstjórnandi – María Sigurjónsdóttir, Arnarskóli
Meðstjórnandi – Sigríður Stephensen, Félagsstofnun stúdenta
Varastjórn – Bóas Hallgrímsson, Hjallastefnan
Varastjórn – Guðmundur Pétursson, Skólar
Varastjórn – Hildur Margrétardóttir, Waldorfskóli Lækjarbotnum
Úr stjórn fara Íris Jóhannesdóttir og Atli Magnússon, nýjar inn, Kristrún Birgisdóttir og María Sigurjónsdóttir.
Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.
Eftir að hefðbundnum aðalfundastörfum lauk fór Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, yfir stöðuna í samningaviðræðunum við Reykjavikurborg.
Ólafur Þór Kristjánsson, skólastjóri Tónasala, var með kynningu á skólanum fyrir félagsmenn. Tónsalir er nýr félagsmaður og fyrsti tónlistarskólinn sem gengur í samtökin.
Fundarstjóri var Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla.
___________________________________________________
16/04/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Innra starf
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og mun hann hefja störf 1. september nk.
Benedikt útskrifaðist með Mag. Jur. gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands 2010. Hann var nefndarritari á nefndasviði Alþingis 2010–2015, deildarsérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti 2015–2019 og hefur frá ársbyrjun 2019 gegnt starfi lögfræðings SVÞ ásamt því að vera staðgengill framkvæmdastjóra.
Benedikt hefur sem lögfræðingur SVÞ aðstoðað aðildarfyrirtæki samtakanna á breiðu sviði, ásamt því að annast almenna og sértæka hagsmunagæslu fyrir hönd samtakanna. Hann þekkir því starfsemi samtakanna afar vel.
Benedikt segir starfið leggjast afar vel í sig: „Starfsemi aðildarfyrirtækja SVÞ er á afar breiðu sviði, viðfangsefnin fjölbreytt og við stjórnendum blasa sífelldar áskoranir. Við finnum að fyrirtækin reiða sig oft samtakamáttinn sem starf SVÞ grundvallast á og það er verðugt verkefni að gæta hagsmuna rúmlega fjögur hundruð fyrirtækja. Það er eitt megin verkefni SVÞ að tryggja að til staðar séu tækifæri til hagræðingar, ekki síst með nýtingu stafrænnar tækni og gervigreindar. EES-samningurinn hefur reynst okkur afar vel en honum fylgja líka áskoranir. Innleiðing viðbótakrafna verður að taka mið af mati á getu fyrirtækja til að takast á við þær. Ég þakka traustið og stuðninginn sem stjórn SVÞ hefur sýnt mér en vil nota tækifærið og hrósa starfsfólki aðildarfyrirtækja samtakanna því án ykkar stæðum við ekki í þeim sporum sem við stöndum nú.“
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ kveðst afar ánægður með þessa niðurstöðu: „Það var einhugur innan stjórnar samtakanna um að ráða Benedikt sem framkvæmdastjóra. Hann hefur sýnt það í störfum sínum fyrir samtökin sl. fimm ár að hann hefur víðtæka þekkingu og reynslu til að bera sem án vafa mun nýtast vel í starfi hans sem framkvæmdastjóra. Hann þekkir innviði stjórnsýslunnar, er vanur samskiptum við stjórnvöld og hefur haldgóða þekkingu og reynslu af áskorunum sem blasa við atvinnulífinu á borð við stafræna umbreytingu, sí- og endurmenntun starfsfólks og auknar kröfur um sjálfbærni.“
15/04/2024 | Fréttir, Innra starf, Stafræna umbreytingin, Upptaka, Verslun, Þjónusta
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu héldu hátíðlega uppá 25 ára starfsafmælið sitt á Parliament Hótel Reykjavik v/Austurvöll miðvikudaginn 10.apríl sl., undir þemanu ‘Framtíðin bíður ekki!’
Uppselt var á ráðstefnuna og komust færri að en vildu.
Nú er hægt að nálgast allar upptökur frá 18 viðburðum, fyrirlestrum, pallborðum og Á Trúnó.
Smelltu HÉR til að nálgast sérstaka afmælisútgáfu myndaalbúm sem verður opið til 7.maí nk.
Ath! félagsfólk SVÞ hefur ótakmarkaðan aðgang að öllu efni ráðstefnunnar inn á ‘Mínar síður’
Síða 2 af 24«12345...1020...»Síðasta »