Kristinn Már Reynisson ráðinn lögfræðingur SVÞ

Kristinn Már Reynisson ráðinn lögfræðingur SVÞ

Kristinn Már Reynisson hefur verið ráðinn til SVÞ – samtaka verslunar og þjónustu og mun hann hefja störf 1. september næstkomandi. Kristinn mun starfa sem lögfræðingur samtakanna og staðgengill framkvæmdastjóra.

Kristinn Már útskrifaðist með M.A. gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands 2010, LL.M. gráðu frá Háskólanum í Stokkhólmi 2012 og doktorsgráðu frá Háskólanum í Árósum 2015.

Á starfsferlinum hefur Kristinn Már m.a. annast kennslu á háskólastigi, starfað sem fulltrúi á lögmannsstofu, unnið ráðgjafarstörf fyrir opinberar stofnanir og starfað sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu, Íslandspósti ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur.

Kristinn Már segir starfið leggjast afar vel í sig: „Ég er ákaflega ánægður með tækifærið sem felst í því að ganga til liðs við SVÞ. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til þess sem samtökin standa fyrir ásamt nýju samstarfsfólki og aðildarfélögunum sjálfum. Miklar breytingar standa yfir í rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem ekki sér fyrir endann á og margar áhugaverðar áskoranir til að takast á við.“

Benedikt S. Benediktsson, verðandi framkvæmdastjóri SVÞ, hefur lýst ánægju með ráðningu Kristins Más: Kristinn Már býr yfir bæði þekkingu og reynslu sem mun gagnast samtökunum og aðildarfyrirtækjum þeirra afar vel. Umhverfismál eru þegar orðin umfangsmikið viðfangsefni aðildarfyrirtækjanna auk þess sem þekking hans á réttarhagfræði, fyrirtækjarétti, skattarétti og samkeppnisrétti verður mjög góð viðbót við þá þekkingu sem þegar er til staðar hjá SVÞ.  Við á skrifstofu SVÞ hlökkum mikið til að Kristinn Már bætist í okkar hóp á komandi hausti. 

 

 

Ný stjórn Sjálfstæðra skóla kjörin á aðalfundi 23.apríl 2024

Ný stjórn Sjálfstæðra skóla kjörin á aðalfundi 23.apríl 2024

Aðalfundur Sjálfstæðra skóla 2024 var haldinn þriðjudaginn 23. apríl í Húsi atvinnulífsins.

Eftirtaldir voru kjörnir í stjórn Samtaka sjálfstæðra skóla 2024-2025:

Formaður – Alma Guðmundsdóttir, Hjallastefnan
Varaformaður – Kristrún Birgisdóttir, Skóli í skýjum
Meðstjórnandi og gjaldkeri – Jón Örn Valsson, Korpukot
Meðstjórnandi – María Sigurjónsdóttir, Arnarskóli
Meðstjórnandi – Sigríður Stephensen, Félagsstofnun stúdenta
Varastjórn – Bóas Hallgrímsson, Hjallastefnan
Varastjórn – Guðmundur Pétursson, Skólar
Varastjórn – Hildur Margrétardóttir, Waldorfskóli Lækjarbotnum

Úr stjórn fara Íris Jóhannesdóttir og Atli Magnússon, nýjar inn, Kristrún Birgisdóttir og María Sigurjónsdóttir.

Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.

Eftir að hefðbundnum aðalfundastörfum lauk fór Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, yfir stöðuna í samningaviðræðunum við Reykjavikurborg.

Ólafur Þór Kristjánsson, skólastjóri Tónasala, var með kynningu á skólanum fyrir félagsmenn. Tónsalir er nýr félagsmaður og fyrsti tónlistarskólinn sem gengur í samtökin.

Fundarstjóri var Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla.

___________________________________________________

 

Benedikt S. Benediktsson ráðinn nýr framkvæmdastjóri SVÞ

Benedikt S. Benediktsson ráðinn nýr framkvæmdastjóri SVÞ

Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og mun hann hefja störf 1. september nk.

Benedikt útskrifaðist með Mag. Jur. gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands 2010. Hann var nefndarritari á nefndasviði Alþingis 2010–2015, deildarsérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti 2015–2019 og hefur frá ársbyrjun 2019 gegnt starfi lögfræðings SVÞ ásamt því að vera staðgengill framkvæmdastjóra.

Benedikt hefur sem lögfræðingur SVÞ aðstoðað aðildarfyrirtæki samtakanna á breiðu sviði, ásamt því að annast almenna og sértæka hagsmunagæslu fyrir hönd samtakanna. Hann þekkir því starfsemi samtakanna afar vel.

Benedikt segir starfið leggjast afar vel í sig: „Starfsemi aðildarfyrirtækja SVÞ er á afar breiðu sviði, viðfangsefnin fjölbreytt og við stjórnendum blasa sífelldar áskoranir. Við finnum að fyrirtækin reiða sig oft samtakamáttinn sem starf SVÞ grundvallast á og það er verðugt verkefni að gæta hagsmuna rúmlega fjögur hundruð fyrirtækja. Það er eitt megin verkefni SVÞ að tryggja að til staðar séu tækifæri til hagræðingar, ekki síst með nýtingu stafrænnar tækni og gervigreindar. EES-samningurinn hefur reynst okkur afar vel en honum fylgja líka áskoranir. Innleiðing viðbótakrafna verður að taka mið af mati á getu fyrirtækja til að takast á við þær. Ég þakka traustið og stuðninginn sem stjórn SVÞ hefur sýnt mér en vil nota tækifærið og hrósa starfsfólki aðildarfyrirtækja samtakanna því án ykkar stæðum við ekki í þeim sporum sem við stöndum nú.“

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ kveðst afar ánægður með þessa niðurstöðu: „Það var einhugur innan stjórnar samtakanna um að ráða Benedikt sem framkvæmdastjóra. Hann hefur sýnt það í störfum sínum fyrir samtökin sl. fimm ár að hann hefur víðtæka þekkingu og reynslu til að bera sem án vafa mun nýtast vel í starfi hans sem framkvæmdastjóra. Hann þekkir innviði stjórnsýslunnar, er vanur samskiptum við stjórnvöld og hefur haldgóða þekkingu og reynslu af áskorunum sem blasa við atvinnulífinu á borð við stafræna umbreytingu, sí- og endurmenntun starfsfólks og auknar kröfur um sjálfbærni.“

25 ára afmælisráðstefna SVÞ í máli og myndum.

25 ára afmælisráðstefna SVÞ í máli og myndum.

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu héldu hátíðlega uppá 25 ára starfsafmælið sitt á Parliament Hótel Reykjavik v/Austurvöll miðvikudaginn 10.apríl sl., undir þemanu ‘Framtíðin bíður ekki!’

Uppselt var á ráðstefnuna og komust færri að en vildu.

Nú er hægt að nálgast allar upptökur frá 18 viðburðum, fyrirlestrum, pallborðum og Á Trúnó.

Smelltu HÉR til að nálgast sérstaka afmælisútgáfu myndaalbúm sem verður opið til 7.maí nk.
Ath! félagsfólk SVÞ hefur ótakmarkaðan aðgang að öllu efni ráðstefnunnar inn á ‘Mínar síður’

 

Aðalfundur SSSK 2024

Aðalfundur SSSK 2024

Aðalfundur SSSK – Samtaka sjálfstæðra skóla

Dagur: Þriðjudagurinn, 23.apríl 2024
Tími: 15:00 – 17:00
Staður: Hús verslunarinnar, Hylur 1.hæð

_________

Hefðubundin aðalfundastörf skv. 7. grein samþykkta:

  • Skýrsla stjórnar
  • Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga samtakanna
  • Umræður um skýrslu og reikninga
  • Félagsgjöld ársins
  • Kosning formanns og varaformanns
  • Kosning meðstjórnenda og varamanna
  • Kosning tveggja skoðunarmanna
  • Önnur mál

Eftir hefðbundin aðalfundastörf gera félagsmenn sér glaðan dag.

Nánari dagskrá verður auglýst síðar.

SKRÁNING HÉR!

Ertu ekki kjörin/n í stjórn SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu?

Ertu ekki kjörin/n í stjórn SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu?

LEITAÐ ER TILLAGNA UM ÞRJÁ MEÐSTJÓRNENDUR Í STJÓRN SVÞ OG FULLTRÚA SVÞ Í FULLTRÚARÁÐ SAMTAKA ATVINNULÍFSINS.

Kjörnefnd SVÞ leitar að áhugasömum stjórnendum til setu í stjórn SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Þrír stjórnarmenn taka sæti til næstu tveggja starfsára.
Þá er leitað eftir fulltrúum til setu í fulltrúaráði SA til eins árs.

Við hvetjum félagsfólk innan samfélags verslunar og þjónustu SVÞ, til að bjóða þig fram eða senda inn tilnefningu fyrir kl. 12:00 hinn 16. febrúar nk. en framboðsfrestur samkvæmt samþykktum rennur út 22. febrúar. Aðalfundur verður haldinn 14. mars nk.

Í stjórn SVÞ eiga sæti formaður og sex meðstjórnendur.
Formaður SVÞ til loka starfsársins 2024/2025 er Jón Ólafur Halldórsson, Marga ehf.

Eftirtaldir meðstjórnendur eiga sæti í stjórninni til loka næsta starfsárs, 2024/2025:

  •  Egill Jóhannsson, Brimborg ehf.
  •  Guðrún Jóhannesdóttir, Kokka ehf.
  •  Árni Stefánsson, Húsasmiðjan ehf.

Þrír meðstjórnendur skulu kosnir til setu í stjórn SVÞ fyrir næstu tvö starfsár.

Tilnefningar til stjórnar SVÞ og fulltrúaráðs SA skulu sendar til SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, Borgartúni 35, 105 Reykjavík, merktar „Kjörnefnd SVÞ“ eða á netfangið: kosning@svth.is

Rétt er að minna á að tillögur um breytingar á samþykktum SVÞ þurfa að berast stjórn samtakanna eigi síðar en 16. febrúar 2023.

Fólk af öllum kynjum er hvatt til að gefa kost á sér í stjórn SVÞ og í fulltrúaráð SA.

Kjörnefnd SVÞ

___________________

Viltu hafa áhrif á mótun samfélagsins?

Hagsmunagæsla á tímum  umbreytinga.

Síðustu ár hafa fyrirtæki í verslun og þjónustu tekist á við við miklar áskoranir. Heimsfaraldur og sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda kölluðu sífellt á ný viðfangsefni og vinnubrögð. Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu hefur breytt heimsmyndinni. Áhrif átaka í Mið-Austurlöndum eru tekin að koma fram. Brestir í aðfangakeðjunni, erfiðar aðstæður á flutningamarkaði og eftirspurnarbreytingar valda breytingum á rekstraraðstæðum. Á sama tíma blasa við fyrirtækjum áskoranir á sviði stafvæðingar, sjálfbærni og orkuskipta og mannauðs. Kjaraviðræður eru yfirstandandi. Sjaldan hefur verið mikilvægara að aðildarfyrirtæki SVÞ leggi sitt af mörkum á vettvangi samtakanna.

Með setu í stjórn SVÞ gefst þér tækifæri á að hafa áhrif á mótun rekstrarumhverfis fyrirtækja í verslun og þjónustu.