Útflutningshagsmunir Íslands séu tryggðir í nýjum fríverslunarsamningi

Útflutningshagsmunir Íslands séu tryggðir í nýjum fríverslunarsamningi

Forystufólk úr atvinnulífinu fundaði í gær með Guðlaugi Þór Þórðarssyni utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um fríverslunarviðræður Íslands, Noregs og Liechtenstein við Bretland. Samtök atvinnulífsins boðuðu til umræðnanna að ósk Guðlaugs Þórs. Brýnt er að samkomulag náist um nýjan fríverslunarsamning áður en Bretland hverfur úr EES samningnum, sem verður að óbreyttu þann 31. janúar næstkomandi.

„Samtök atvinnulífsins fagna því frumkvæði utanríkisráðherra að efna til virks samtals við atvinnulífið um hvernig hag íslenskra fyrirtækja sé best borgið í nýjum fríverslunarsamningi við Breta í kjölfar Brexit. Samstarfið hefur verið árangursríkt og verið byggt á þeirri forsendu að tryggja útflutningshagsmuni Íslands með sem bestum hætti. Ljóst er að í samningnum er feiknarlega mikið í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf og því til mikils að vinna að hafa fengið hagaðila snemma að borðinu nú þegar fríverslunarviðræður eru að bresta á,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, en samráð atvinnulífsins og stjórnvalda hefur staðið yfir síðan stuttu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um útgöngu úr ESB í júní 2016.

Fyrir hönd atvinnulífsins sátu fundinn Helga Árnadóttir og Halldór Benjamín Þorbergsson fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, Guðrún Jóhannesdóttir og Andrés Magnússon fyrir hönd Samtaka verslunar og þjónustu, Ingibjörg Ólafsdóttir og Jóhannes Þór Skúlason fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar, Árni Sigurjónsson og Sigríður Mogensen fyrir hönd Samtaka iðnaðarins, Ægir Páll Friðbertsson og Heiðrún Lind Marteinsdóttir fyrir hönd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Katrín Júlíusdóttir fyrir hönd Samtaka fjármálafyrirtækja, og Páll Erland fyrir hönd Samorku. Fyrir hönd utanríkisráðuneytisins sátu fundinn, auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Sturla Sigurjónsson, Þórir Ibsen, Borgar Þór Einarsson og Ögmundur Hrafn Magnússon.

 

Auglýst eftir tilboðum í kynningarherferð stjórnvalda og atvinnulífsins

Auglýst eftir tilboðum í kynningarherferð stjórnvalda og atvinnulífsins

Ríkiskaup fyrir hönd atvinnuvega‐ og nýsköpunarráðuneytisins hefur óskað eftir tilboðum í kynningarherferð um að verja störf og auka verðmætasköpun í íslensku samfélagi og stýra birtingu hennar í fjölmiðlum. Skilafrestur er til föstudagsins 26. júní næstkomandi og er fjárheimild til átaksins 90 milljónir kr. með virðisaukaskatti.

Í auglýsingunni fyrir útboðið kemur fram að með kynningarátakinu skuli leggja áherslu á mikilvægi hringrásarinnar og keðjuverkandi áhrifanna sem verða til þegar fólk velur að skipta við innlend fyrirtæki sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf almennings eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin.

Nánari upplýsingar um útboðið er að finna í útboðskerfi Ríkiskaupa, TendSign.

Að kynningarherferðinni standa ferðamála-, iðnaðar‐ og nýsköpunarráðherra og sjávarútvegs‐ og landbúnaðarráðherra, f.h. ríkissjóðs, Samtök atvinnulífsins (SA), Samtök iðnaðarins (SI), Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ), Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samorka og Bændasamtök Íslands.

„Það er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf snúi bökum saman nú þegar efnahagslífið er að ganga í gegnum miklar þrengingar vegna COVID-19. Með þessu kynningarátaki vilja Samtök atvinnulífsins, sex aðildarfélög SA og Bændasamtökin leggja sitt af mörkum til að hvetja landsmenn til að velja fjölbreyttar vörur og þjónustu af innlendum fyrirtækjum,“ sagði Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins við undirritun samnings um verkefnið milli stjórnvalda og fulltrúa atvinnulífsins í lok apríl.

Hvernig virkar samkomubannið fyrir verslanir (uppfært 23. mars 2020)

Hvernig virkar samkomubannið fyrir verslanir (uppfært 23. mars 2020)

Sóttvarnalæknir að höfðu samráði við landlækni, ríkislögreglustjóra og formann farsóttarnefndar Landspítala óskaði eftir því við heilbrigðisráðherra, þann 21.03.2020, að gefin yrðu út ný fyrirmæli um samkomubann á Íslandi. Ákvörðunin er byggð á 2. mg. 12. gr sóttvarnalaga. Tillagan var samþykkt og er svohljóðandi:

Ráðherra hefur ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að setja á samkomubann. Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar sem fleiri en 20 manns koma saman. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum. Þessi fyrirmæli til landsins alls.

Sérstök útfærsla á starfsemi verslana til að tryggja aðgang almennings á nauðsynjavörum

  • Eitt hundrað manns geta á sama tíma verið inn í verslunum upp að 1.000m2 og síðan einn viðskiptavinur til viðbótar fyrir hverja 10m2 umfram það, þó að hámarki tvö hundruð.
  • Tryggt verði að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum.
  • Verslanir skulu með áberandi hætta merkja við inngang hversu mörgum er heimilt að vera í versluninni á hverjum tíma.
  • Við alla innganga skal tryggja viðskiptavinum aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um verslun og talin er þörf á skal hið sama vera í boði. Við afgreiðslukassa skal einnig vera sótthreinsandi vökvi.
  • Öllum starfsmönnum verslana skal standa til boða andlitsgrímur við störf sín.
  • Hvatt er til þess að aðeins einn aðili af hverju heimili komi í verslun á hverjum tíma.
Formaður SVÞ hjá Jóni G á Hrinbraut: Íslendingar eru meistarar að fara í gegnum krísur!

Formaður SVÞ hjá Jóni G á Hrinbraut: Íslendingar eru meistarar að fara í gegnum krísur!

Jón Ólafur Halldórsson var gestur Jóns G. á Hringbraut þann 18. mars þar sem hann ræddi ástandið í atvinnulífinu á tímum COVID19, aðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans, stöðuna í versluninni, mikilvægi stafrænnar þróunar – ekki síst í þessu samhengi, olíuverð og sameiningarkraft þjóðarinnar. Hér fyrir neðan má lesa viðtalið (ath. ekki alveg orðrétt) og horfa á viðtalið sem hefst ca. 8 mínútur og 45 sekúndur inn í þáttinn:

Mig langar að byrja á því að koma á framfæri þökkum til Samhæfingarnefndar almannavarna fyrir fumlaus og frábær viðbrögð við þessari aðstöðu sem er komin upp og við glímum við. Manni er mikið þakklæti í huga því þetta færir manni ákveðna ró og okkur öllum vonandi í samfélaginu.

Það er mjög mikilvægt [að allir standi saman] og mér hefur sýnst á flestu sem ég hef séð að það hafi verið samstillt og góð viðbrögð allra í atvinnulífinu þannig að menn eru með sínar aðgerðaáætlanir en fyrst og fremst er að fara að tilmælum samhæfingarnefndarinnar sem mér sýnist meira og minna allir vera að gera. Huga að sjálfum sér og að hvort öðru.

Það blasir við verkefnaskortur [hjá fyrirtækjum]. Ég er líka mjög ánægður með hvernig ríkisstjórnin stígur fram með sitt aðgerðaplan. Vissulega á eftir að útfæra mikið af því, en stóra málið er að þetta séu heildstæðar aðgerðir sem snúa að öllu atvinnulífinu. Vissulega hefur ferðaþjónustan fengið fyrsta höggið en það eru margar aðra greinar sem eru samofnar ferðaþjónustunni og þurfa svo sannarlega, og munu svo sannarlega þurfa á stuðningi að halda þegar fram í sækir og þess vegna verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þetta mun spilast En aðalmálið núna er að það þarf að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi, verja störfin í landinu, og það er það sem er lykilatriði núna. Forðast mikið atvinnuleysi.

[Það þarf einhvern veginn að skoða greiðslustöðu einstaklinga og fyrirtækja] Já, ríkisstjórnin er líka að leggja sitt af mörkum í þessu með því t.d. að blása lífi í bankana, að gera þeim auðveldara fyrir að fylgja eftir fyrirtækjum og einstaklingum og ég held að það sé einmitt mikil þörf á að það verði samhæfðar aðgerðir. Fyrirtæki geti búist við því að það verði skilningur á aðstæðum og mögulega lengt í lánum eða hvernig sem það nú er. Og ríkið kemur þá líka að þessu með sínar aðgerðir sem gætu verið að fresta skattgreiðslum eða með einhverju slíku. Þannig að það skiptir gríðarlega miklu máli að við höldum sjó núna næstu mánuði. Við vitum ekki nákvæmlega hvað þetta tekur langan tíma, en það að koma í veg fyrir atvinnuleysi, að fyrirtækin nái að lifa þessa erfiðu tíma, skiptir bara öllu máli um þessar mundir.

[Að segja upp fólki tekur þrjá mánuði og þá kannski er kúfurinn, eða skaflinn, að baki] Já, það leysir kannski ekki málin nema einhvern stuttan tíma að ráðast í slíkar aðgerðir en mér finnst almennt séð fyrirtæki vera að sýna mikla ábyrgð, reyna að verja störfin, og síðan þetta útspil ríkisstjórnarinnar og atvinnulífsins, og reyndar verkalýðsforystunnar, um það hvernig við ætlum að taka á málum núna, annars vegar þegar fólk situr í sóttkví, og síðan í framhaldinu hvernig atvinnutryggingasjóður mun koma að málum með atvinnulífinu, að fólk haldi launum. Því það versta sem gæti komið fyrir okkur núna er ef einkaneyslan dregst mikið saman, því það er ekki margt sem er að knýja hagvöxtinn áfram í dag eins og við þekkjum.

[Hvernig er staðan í versluninni, er nóg til af birgðum og vörum í landinu?] Já, það er nóg til af öllu og það er ástæða til að hvetja til varkárni í öllu og ég held að það sé ekki nein ástæða fyrir fólk að fara í þetta hamstur eins og við sáum í síðustu viku. Það er nóg til, hvort sem það eru matvæli eða lyf, það er tryggt. Þannig að ég held að ef við bara sýnum smá hyggjuvit í þessu, förum okkur hægt, og gerum okkur grein fyrir því að þegar við erum að hamstra þá erum við að taka eitthvað frá öðrum og ganga bara hægt um í þessu, af skynsemi. Og það er líka mikið álag sem fylgir þessu í verslunum og ég held að með því að sýna bara ró og skynsemi þá eigum við að geta farið í gegnum þetta.

Það sem er hinsvegar alvarlegt núna er að við sjáum það að verslunin er að dragast saman almennt. Við vitum af því að t.d. inni í verslunarmiðstöðvum er u.þ.b. 40% minna af traffík nú þegar og við höfum heyrt af því að samdráttur í fataverslun sé allt að 80%. Þannig að þetta eru vissulega erfiðir tímar og það eru þrengingar í verslun og þjónustu núna. Og ég hef líka velt fyrir mér, þegar maður hugsar um veikingu á krónunni, sem dæmi, að þetta getur þýtt það að verðlagið muni hækka og þá kemur þrýstingur á þetta sem náðist þó að koma böndum á í lífskjarasamningnum, að halda aftur af verðbólgunni, lækka vexti og hafa kaupmáttinn.

[Vefverslun hefur blómstrað sem aldrei fyrr] Já, vefverslunin hefur verið að styrkjast hér á landi undanfarin misseri sérstaklega og við sjáum það að þau fyrirtæki sem riðu á vaðið með matvöruna, þau eru sjálfsagt að uppskera akkúra núna í þessum töluðu orðum. Og ég held að hefðbundin verslun þurfi að sjálfsögðu, bara almennt séð, að finna út þetta samspil hefðbundinnar verslunar og vefverslunar því að það er það sem er að koma, og þess vegna þessi ráðstefna okkar um daginn um stafræna þróun og og framtíð, þar einmitt kristallast svo vel hver áskorunin er í rauninni.

[Erum við eitthvað aðeins á eftir í upplýsingatækni?] Já, rannsóknir, bæði innlendar og það sem við höfum séð erlendis, á því sem hér er að gerast benda til þess að við höfum dregist heldur aftur úr þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við og það þarf að taka á þessu. Mér finnst nú ráðamenn þjóðarinnar, sem koma að málum með okkur, þeir hafa alveg góðan skilning á þessu. Það er búið að, t.d. að ráða stafrænan leiðtoga inn í stjórnarráðið sem dæmi, þannig að það er vel og stjórnarráðið sjálft er að stíga fram, og það er vel. Og ef að þeirra aðgerðir næstu 3-5 árin ganga eftir þá mun kostnaður ríkisins lækka um 10 milljarða bara af því að menn fara þessa stafrænu vegferð. Og það er þetta sem við erum að segja að atvinnulífið, stjórnvöld og háskólasamfélagið þurfi að gera, við þurfum svolítið að ráðast í það saman að móta einhverja stefnu, eins og nágrannaþjóðirnar hafa gert, finna einhvern vettvang, þar sem við munum búa til stefnuna og eftir það er miklu auðveldara fyrir okkur að vinna okkur í haginn fyrir framtíðina.

[Hráolía hefur verið að lækka á heimsmörkuðum. Færri ferðalög þýðir minni tekjur á bensínstöðvum. Hvernig sérðu það högg fyrir þér?] Við finnum fyrir þessu, eins og bara öll fyrirtæki í landinu. Við erum nátengd ferðaþjónustunni, þannig að við merkjum þetta mjög vel. Og það er allt rétt sem þú segir. Auðvitað er þó jákvætt í þessu að olíuverð lækkar, það minnkar verðbólguþrýstinginn sem við erum kannski að horfast í augu við að einhverju leyti í dag. En það er alveg rétt, það er keyrt minna, það eru færri á ferðinni í dag, og við sjáum það alveg klárlega að þetta mun rífa í hjá okkur sem og annarri verslun í landinu. Þannig að ég er ekki að segja að ég sé kvíðinn, einhvern tímann rís þetta nú allt aftur, og ég geri nú ráð fyrir því að olíuverð muni nú hækka sosum aftur, þetta er takmörkuð auðlind sem hefur þá tilhneigingu að hækka.

[Það er svolítill sameiningarkraftur í þjóðinni þessa dagana, er það ekki?] Jú, ég tek undir þetta. Mér finnst ég finna fyrir mikilli samkennd. Mér finnst alveg til fyrirmyndar að sjá hvernig starfsfólk tekur þessu almennt af ró og yfirvegun. Það skiptir gríðarlega miklu máli, að sýna einmitt þessa miklu yfirvegun þegar kemur að þessu ástandi. Ég get vel skilið að fólk beri kvíða í brjósti fyrir ástandinu og þetta er mikill vágestur sem er í okkar samfélagi og herjar á heimsbyggðina alla en mér finnst ég samt á þessum tíma finna fyrir því að það er samstaða og að við Íslendingar erum alveg meistarar í því að fara í gegnum krísur. Við höfum séð það.

 

>> SMELLTU HÉR TIL AÐ HORFA Á VIÐTALIÐ Á VEFNUM 

Ávarp ráðherra á ráðstefnu SVÞ 12. mars 2020

Ávarp ráðherra á ráðstefnu SVÞ 12. mars 2020

Hér fyrir neðan má horfa á  ávarp ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur,  á ráðstefnu SVÞ, Kveikjum á okkur! – um stafræna tækni og nýtt hugarfar, sem fram fór þann 12. mars 2020.

Við erum sérstaklega ánægð með frábærar undirtektir ráðherra við tillögum samtakanna í stafrænum málum og hlökkum til að taka verkefnið áfram með Þórdís og hennar fólki, háskólasamfélaginu og fleirum á næstu vikum, mánuðum og árum.
 
„Forráðamenn SVÞ heimsóttu mig ekki fyrir löngu og lögðu fram vel útfærða hvatningu til stjórnvalda, hvatningu um stefnumótun og aðgerðir í stafrænum málum. Og það þurfti ekki langar samræður til að leiða í ljós að kjarninn í þeirri hvatningu fer fullkomlega saman við þær áherslur sem að nýsköpunarstefnan byggir á.“
 
„Ég hlakka til að taka höndum saman með SVÞ til að nýta þau tækifæri sem felast í nýrri tækni. Tillögur ykkar og áherslur liggja fyrir og ég er bæði jákvæð fyrir þeim, og ég þakka fyrir þá vinnu sem þið hafið lagt af mörkum við að móta þær, og ég mun gera mitt til þess að hrinda þeim í framkvæmd. Ég held að við getum lagst á eitt til að tryggja að íslensk verslun og þjónusta standist þær áskoranir sem framtíðin leggur fyrir okkur.“


 

>> Hér má lesa tillögur SVÞ.