20/12/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun
Í Kjarnanum þann 19. desember birtist enn frekari umfjöllun um tollkvótamálið í framhaldi af grein Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra SVÞ, í Morgunblaðinu sama dag. Umfjöllunina má lesa hér: https://kjarninn.is/frettir/2019-12-19-breytingar-hindradar-sem-hefdu-faert-neytendum-hundrud-milljona-abata/
20/12/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 19. desember sl.:
Eitt af síðustu verkum þingheims fyrir jólafrí var að samþykkja lög um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir. Helsta markmið frumvarpsins var að koma úthlutunarreglum tollkvótanna í það horf að verð innfluttra landbúnaðarvara gæti lækkað, íslenskum neytendum til hagsbóta. Vegna þeirra lagareglna sem gilt hafa hingað til hafa neytendur ekki notið markverðs ábata af innfluttum landbúnaðarvörum, jafnvel þó að þær megi í sumum tilvikum flytja inn á lægri tollum en ella. Frumvarpið hafði alla burði til að breyta þessari stöðu, bæði hvað varðar úthlutunaraðferðir og opnunartímabil tollkvóta fyrir vörur sem hér hefur oft og tíðum skort. SVÞ lýsti yfir stuðningi við frumvarpið þar sem með samþykkt þess hefði verið stigið skref í rétta átt.
Þegar leið að því að frumvarpið yrði afgreitt úr þingnefnd, gerðist sá fáheyrði atburður að ellefu félög hagsmunaaðila ályktuðu gegn frumvarpinu. Fyrir utan Bændasamtök Íslands og ýmis aðildarfélög þeirra, stóðu að ályktuninni Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins. Til grundvallar ályktuninni voru færð afar mótsagnakennd rök, þ.e. að finna þyrfti málinu heppilegri farveg, m.a. til að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunna að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð er veðurfari og öðrum ytri aðstæðum. Neytendasamtökin sáu góðu heilli að sér og drógu þátttöku sína í ályktuninni til baka. Þingheimur skákaði í skjóli þessa atburðar og gerði víðtækar breytingar sem taka mjög mið af sérkröfum innlendra framleiðenda og eru alfarið á kostnað neytenda.
Maður hefði nú að fyrra bragði ekki búist við að samtök á borð við Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins sem, í orði kveðnu a.m.k., haldið hafa á lofti sjónarmiðum viðskiptafrelsis og frjálsrar samkeppni, sameinist um að leggja stein í götu frumvarps, sem hafði það að raunverulegu markmiði að færa íslenskum neytendum ábata upp á fleiri hundruð milljónir króna á ári.
Það er til kínverskur málsháttur sem segir: Það heyrist jafnan meira í því sem þú gerir en í því sem þú segir. Vörslumenn sérhagsmuna leynast greinilega víðar en margur heldur.
16/12/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Rætt er við Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ, í Viðskiptablaðinu þann 12. desember sl. um rétt til dráttarvaxta vegna ofgreiðslu opinberra gjalda, sem áætlað er að taki breytingum með nýrri heildarlöggjöf um innheimtu skatta og gjalda. Breytingin er m.a. studd þeim rökum að sumir gjaldendur átti sig ekki á því að rétturinn sé til staðar.
Í grein Viðskiptablaðsins segir m.a.: „Loku verður skotið fyrir það að einstaklingar og lögaðilar geti gert sér það að leik að oftelja viljandi skattstofna með það að marki að gera síðan endurkröfu á ríkið og njóta ávöxtunar á féð í formi dráttarvaxta.“
„Benedikt bendir á að þegar núgildandi endurgreiðslulög voru sett hafi verið vangaveltur um það að dráttarvextir yrðu skilyrðislaust greiddir þegar ofgreiðsla hefði átt sér stað. Hins vegar hafi sú leið verið farin að gjaldendur þyrftu að setja fram kröfu um endurgreiðslu til að fyrirbyggja að ekki væri verið að oftelja að gamni sínu.
„Nú verður það stjórnvalda að ákveða hvenær ofgreiðsla virkjar rétt til dráttarvaxta. Það er ekki hægt að sætta sig við slíkt. Af skoðun á dómaframkvæmd má ráða að þeir sem eignast inneign samkvæmt dómum eru undantekningalaust gjaldendur sem hafa staðið rétt að greiðslu skatta og greitt þær kröfur sem yfirvöld hafa sett fram. Þessi hópur á ekki að lýða fyrir það bótalaust með því að fá ekki dráttarvexti á ofgreiðslur eða oftekin gjöld,“ segir Benedikt.“
Úrdrátt úr greininni má sjá á vef vb.is hér og greinina í heild sinni má lesa í Viðskiptablaðinu sem út kom 12. desember sl.
09/12/2019 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Stjórnvöld
Eftirfarandi fréttatilkynning var send á fjölmiðla 9. desember 2019:
Um miðjan nóvember s.l. lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram lagafrumvarp á Alþingi sem felur í sér róttækar breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarvörur. Með frumvarpinu vill ráðherra m.a. færa neytendum ábata í formi lægra smásöluverðs tiltekinna matvara.
Sterkar líkur eru á að þær breytingar sem ráðherra hefur mótað og endurspeglast í frumvarpinu muni lækka verð á innfluttum landbúnaðarafurðum, neytendum til hagsbóta.
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur fjallað um frumvarpið að undanförnu. Frumvarpið virðist vandað og m.a. fengu allir helstu hagsmunaðilar að koma sínum sjónarmiðum að á undirbúningsstigum þess. Ekkert benti því til annars en að málið hlyti fremur hefðbundna afgreiðslu. Í síðustu viku, degi fyrir áætlaðan afgreiðsludag atvinnuveganefndar, átti sá fáheyrði atburður sé stað að ellefu félög hagsmunaaðila ályktuðu gegn frumvarpinu. Fyrir utan Bændasamtök Íslands og ýmis aðildarfélög þeirra stóðu að ályktuninni Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og Samtök iðnaðarins. Til grundvallar ályktuninni voru færð afar óljós rök, þ.e. að finna þyrfti málinu heppilegri farveg, m.a. til að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunna að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð er veðurfari og öðrum ytri aðstæðum.
Það kemur vægast sagt mjög á óvart að samtök á borð við Félag atvinnurekenda, Samtök iðnaðarins og Neytendasamtökin sameinist um að leggja stein í götu lagafrumvarps sem hafði það að raunverulega markmið að færa íslenskum neytendum ábata sem numið getur fleiri hundruðum milljóna króna á ári.
Samtök verslunar og þjónustu skora á atvinnuveganefnd Alþingis að afgreiða frumvarpið til 2. umræðu á Alþingi, eftir atvikum án breytinga, og tryggja því þannig eðlilegan þinglegan framgang. Því verður ekki trúað að óreyndu að Alþingi láti mótsagnakennd rök þröngs sérhagsmunahóps, sem hefur hlotið stuðning úr óvæntri átt, stöðva framgang lagafrumvarps sem hefur það raunhæfa markmið að færa íslenskum neytendum ábata sem lengi hefur verið kallað eftir.
04/12/2019 | Fréttir, Stjórnvöld, Verslun
Húsfyllir var á fræðslufundi Matvælastofnunar um breyttar reglur um innflutning á hráu kjöti þann 28. nóvember sl.
Upptöku frá fundinum má sjá hér:
Glærur fyrirlesara má nálgast hér fyrir neðan:
Breyttar reglur um innflutning á fersku hráu kjöti til Íslands og staðan á Íslandi og í Evrópu
Brigitte Brugger og Vigdís Tryggvadóttir, MAST
Kampýlóbakter í alifuglakjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja
Svava Liv Edgarsdóttir, MAST
Salmonella í eggjum og kjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja
Héðinn Friðjónsson, MAST
Eftirlit og viðurlög
Dóra S. Gunnarsdóttir, MAST
02/12/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Umsögn SVÞ og annarra samtaka innan Samtaka atvinnulífsins voru gerð nokkuð góð skil í umfjöllun Viðskiptablaðsins þann 28. nóvember sl. Gagnrýna samtökin harðlega inheimtukafla tekjuskattslaganna og lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda sem fellur inn í hin nýju lög. Harðlega er settt út á þá grein frumvarpsins sem fjallar um endurgreiðslu opinbers fjár og klýkur greininni með tilvitnun í umsögnina með orðunum: „Niðurstaðan á að verða sú að ríkið nýtur fullra bóta vegna vangreiðslu skatta og gjalda í formi dráttarvaxta frá gjalddaga en gjaldendur ekki. Það er hreint út sagt afkáraleg niðurstaða.“
Umfjöllunina í heild sinni má lesa á vef Viðskiptablaðsins hér: https://www.vb.is/frettir/rikid-akvedi-timamark-vaxta-sjalft/158647/