Við minnum á að nú má ekki lengur gefa burðarpoka

Við minnum á að nú má ekki lengur gefa burðarpoka

Frá og með 1. september nk. verður verslunum alfarið óheimilt að gefa viðskiptavinum burðarpoka. Bannið nær til allrar afhendingar burðarpoka og ekki skiptir máli úr hvaða efni þeir eru. Koma verður fram á kassakvittun hvert endurgjaldið er.

Nokkurs ruglings hefur gætt um þær breytingar sem eru að eiga sér stað því eftir rúmlega eitt og hálft ár, þ.e. hinn 1. janúar 2021, tekur gildi algert bann við afhendingu burðarpoka úr plasti jafnvel þó endurgjald verði innheimt fyrir afhendingu þeirra. Frá og með þeim tíma verður hins vegar heimilt að afhenda burðarpoka úr öðru en plasti, en þá eingöngu gegn endurgjaldi.

Með burðarpoka úr plasti er átt við alla burðarpoka sem innihalda eitthvert magn plasts. Bannið nær ekki til lífbrjótanlega poka úr maís sem ekki innihalda plast eða poka úr pappír. Slíka poka má afhenda gegn endurgjaldi frá og með 1. september nk. og það mun ekki breytast.

Skyldan til að innheimta endurgjald fyrir burðarpoka nær aðeins til burðarpoka, þ.e. poka sem eru afhentir neytendum á sölustað, hvort sem þeir eru með eða án halda. Þetta hefur ekki áhrif á poka sem t.d. eru seldir á rúllum, í pökkum eða öðrum sölueiningum í verslunum, s.s. ruslapoka, poka fyrir gæludýraúrgang eða klakapoka.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur tekið saman afar gagnlegar upplýsingar um málið sem gott er að glöggva sig á: https://www.stjornarradid.is/default.aspx?PageID=f178b0cc-2b5a-4861-9c4c-cc446b1a6443

Umsögn SVÞ um fjármálaáætlun ríkisins 2020-2024

Umsögn SVÞ um fjármálaáætlun ríkisins 2020-2024

SVÞ hafa veitt fjárlaganefnd Alþingis umsögn um fjármálaáætlun 2020–2024.

Í ljósi breyttra efnahagshorfa standa stjórnvöld frammi fyrir umtalsverðum áskorunum í ríkisfjármálum. Í umsögninni fjalla samtökin um áherslur við stjórn efnahagsmála í samhengi við helstu áherslumál verslunar og þjónustu. Mikilvægt er að SVÞ komi skilaboðum atvinnugreinanna á framfæri við meðferð málsins á Alþingi.

Smelltu hér til að lesa umsögn SVÞ um fjármálaáætlun 2020-2024 í heild sinni

SVÞ og önnur hagsmunasamtök í atvinnulífinu styðja þriðja orkupakkann

SVÞ og önnur hagsmunasamtök í atvinnulífinu styðja þriðja orkupakkann

SVÞ hefur sent inn umsögn sem styður þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann sem nú er til meðferðar á Alþingi. Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands styðja einnig tillöguna.

Samtökin leggja í þessu sambandi sérstaka áherslu á mikilvægi EES-samningsins fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag. Mikilvægi samningsins verða seint ofmetin enda er öllum ljós sú mikla og jákvæða breyting sem orðið hefur á samfélaginu öllu þann aldarfjórðung sem EES-samningurinn hefur verið í gildi. Samningurinn veitir, sem kunnugt er, Íslendingum aðgang að þeim 500–600 milljón manna markaði sem er innri markaður ESB- og EFTA-ríkjanna. Það skiptir afar miklu að þessu farsæla samstarfi verði ekki teflt í tvísýnu. Sú umræða sem farið hefur fram í þjóðfélaginu að undanförnu um það mál sem hér er til umfjöllunar, er með þeim hætti að full ástæða er til að staldra við og vekja athygli á mikilvægi málsins.

SVÞ telja mikilvægt að hafa í huga að orkulöggjöfinni er ætlað að efla samkeppni á því sviði sem löggjöfin nær til. Slíkt styrkir stöðu orkukaupenda, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar, gagnvart þeim sem framleiða og dreifa orku. Eins og á öðrum sviðum þar sem virk samkeppni er til staðar, kemur það öllum kaupendum til góða, hvort sem er í formi betri þjónustu eða lægra verði. Sterkar vísbendingar eru um að samþykkt tillögunnar muni hafa ábata í för með sér.

Þeir annmarkar á innleiðingu þriðja orkupakkans sem teflt hefur verið fram í almennri umræðu að undanförnu eru illa skilgreindir og óljósir að mati samtakanna. Verði ákvörðunartaka um samþykkt tillögunnar byggð á tilvist þeirra er ekki einungis hætt við að meiri hagsmunum verði fórnað fyrir minni heldur einnig að ríkum og skýrum hagsmunum verði fórnað fyrir óljósa, illa skilgreinda og í öllu falli takmarkaða hagsmuni. Þar með yrði skýrum heildarábata fórnað af þarfleysu. Þeir hagsmunir sem Ísland og íslenskt samfélag hefur af því að af innleiðingu verði, eru í öllu tilliti mun ríkari, enda tekur orkupakkinn ekki yfirráð yfir orkuauðlindunum úr höndum íslensku þjóðarinnar.

Smelltu hér til að lesa umsögnina í heild sinni