Pure North hlýtur Kuðunginn 2024 – leiðandi afl í sjálfbærni og nýsköpun

Pure North Recycling, eitt af félagsaðilum SVÞ, hefur hlotið Kuðunginn 2024 – umhverfisverðlaun Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins – fyrir framúrskarandi árangur í umhverfismálum og hringrásarhagkerfi.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Pure North hafi með afgerandi hætti markað sér sess sem leiðandi umhverfistæknifyrirtæki á Íslandi. Með nýtingu jarðhita við plastendurvinnslu hefur fyrirtækið náð að draga úr kolefnisspori framleiðslunnar um 82% miðað við sambærilega starfsemi í Evrópu – sem gerir plastið þeirra að einu því umhverfisvænsta sem í boði er á markaði.

Pure North hefur einnig lokað hringrás endurvinnslunnar með því að hefja eigin framleiðslu á vörum úr því plasti sem þau taka til endurvinnslu. Þá ber að nefna þróun háþróaðra úrgangslausna á borð við gervigreindarkerfið Úlli úrgangsþjarkur, sem greinir úrgangsgögn fyrirtækja og sveitarfélaga, og móttökustöðina Auðlind. Með samþættingu þessara kerfa hefur fyrirtækið skapað fyrirmyndarumgjörð fyrir skilvirka úrgangsstjórnun og hringrásarhugsun á Íslandi.

SVÞ fagnar þessum árangri félagsaðila síns og lítur á verkefni á borð við Pure North sem kraftmikil dæmi um hvernig framsýni, nýsköpun og sjálfbærni geta farið saman – með augljósum ávinningi fyrir atvinnulífið og samfélagið allt.

Sjá upphaflega frétt á MBL.is – Smelltu HÉR!

*Mynd frá MBL.is

 

 

 

 

Skattahækkanir á vegum ríkisins: SVÞ kallar eftir skýrleika og ábyrgð

Skattahækkanir á vegum ríkisins: SVÞ kallar eftir skýrleika og ábyrgð

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, vekur athygli á áformum stjórnvalda um auknar álögur á fyrirtæki og einstaklinga í tengslum við vegamál. Í nýrri grein á Vísi bendir hann á mikilvægi þess að tryggja að nýir skattar renni raunverulega til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins. 

„Það er ekki ósanngjörn krafa að nægilegu fjármagni sé á hverjum tíma veitt í vegamál,“ segir Benedikt og undirstrikar að góð vegamannvirki séu lykilforsenda verðmætasköpunar og hagkvæmrar nýtingar framleiðsluþátta.

Benedikt gagnrýnir einnig skort á gagnsæi í skattlagningu og bendir á að stjórnvöld hafi ekki alltaf tryggt að tekjur af ökutækjum og eldsneyti fari beint í vegamál. Hann kallar eftir ábyrgð og skýrleika í fjármálum ríkisins til að endurheimta traust almennings og atvinnulífsins.

Grein Benedikts má lesa í heild sinni á Vísi: Smelltu HÉR! 

Enn sem komið er hefur tollastríð ekki haft áhrif á verðlag á Íslandi

Enn sem komið er hefur tollastríð ekki haft áhrif á verðlag á Íslandi

Samtök verslunar og þjónustu fylgjast grannt með þróun í alþjóðaviðskiptum, sérstaklega í ljósi nýrra tolla sem Bandaríkin hafa innleitt á fjölbreyttan vöruinnflutning. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, að áhrifin séu enn óljós hér á landi – en mikilvægt sé að vera viðbúinn.

„Enn sem komið er er ekki unnt að koma auga á bein áhrif tollahækkana og verðlag á neytendamarkaði á Íslandi,“ segir Benedikt.

Bandaríkin hafa beitt 10% viðbótartollum á fjölbreyttan innflutning vegna ágreinings um viðskiptahætti. Ísland hefur ekki gripið til hefndaraðgerða, en fylgst er með hvort áhrif gætu birst í verðlagi á íslenskum markaði.

„Á íslenskum neytendamarkaði eru ýmsar bandarískar vörur á boðstólum á borð við sætar kartöflur, morgunkorn, ávexti, sósur, rúsínur, brauð, gosdrykki, safa, baunir og kornmeti, grænmeti, hveiti, fæðubótarefni, hjólbarða, matarolíur og margt fleira. Við sjáum ekki að verðlagning þessara vara ætti að breytast beinlínis vegna tolla, a.m.k. enn sem komið er,“ segir Benedikt.

Hann bendir á að svigrúm til að meta langtímaáhrif tollanna sé enn af skornum skammti, en að það sé brýnt að hafa auga með þróuninni: „Ef svo óheppilega myndi fara að Ísland yrði fyrir barðinu á breiðvirkum hefndartollum annara ríkja, sem myndu þá væntanlega helgast af einhvers konar einangrunarstefnu, gætu áhrifin orðið allt önnur, beinni og miklu meiri. Á þessum tímapunkti virðist það þó heldur ólíkleg sviðsmynd,“ segir Benedikt.

SVÞ tekur undir mikilvægi þess að greina möguleg áhrif tolla á aðfangakeðjur íslenskra fyrirtækja, sérstaklega þar sem vörur framleiddar eða seldar undir bandarískum vörumerkjum kunna að verða fyrir verðbreytingum.

Aðildarfélög SA og ASÍ sameinast í baráttunni gegn vinnumansali

Aðildarfélög SA og ASÍ sameinast í baráttunni gegn vinnumansali

Sameiginleg yfirlýsing ASÍ og SA gegn vinnumannsali.

Í gær, fimmtudaginn 26.september tóku Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins höndum saman gegn vinnumansali á vel heppnaðari ráðstefnu í Norðurljósasal Hörpu.

Vinnumansal er að mati ASÍ og SA ólíðandi og nauðsynlegt að leita lausna til þess að uppræta slíka háttsemi. Áhyggjur ASÍ og SA lúta ekki síst að stöðu erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði enda sýna dæmin bæði hérlendis og erlendis að einstaklingar í viðkvæmri stöðu sem flutt hafa um langan veg í leit að betra lífi eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir vinnumansali. Sameiginlegir hagsmunir allra eru að tryggja heilbrigðan vinnumarkað sem tekur vel á móti því fólki sem kemur hingað í atvinnuskyni.

Með vísan í allt framangreint skora ASÍ og SA á stjórnvöld að grípa til almennra aðgerða með sameiginlegri yfirlýsingu sem lesa má á hlekknum hér fyrir neðan.

Yfirlysing-ASI-SA.pdf (vinnan.is)

Áfengisumræða?

Áfengisumræða?

VISIR.is birtir í dag eftirfarandi grein frá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu um umræðu í áfengismálum.

__________________

Undanfarið hafa átt sér stað endurteknar umræður um verslun með áfengi. Í þessum áfanga má segja að ÁTVR hafi slegið tóninn og ýmsir sungið með, þ. á m. stjórnmálamenn, hver með sínu nefi.

Áfengi og menning

Það ætti að teljast nokkuð óumdeilt að óhófleg áfengisneysla er hættuleg þeim sem hana stunda auk þess sem hún hefur jafnan neikvæð á áhrif á aðstandendur, vinnuveitendur og fleiri. Sjálf tilvist áfengis skapar þannig samfélagslega áhættu. Það ætti að einnig að teljast nokkuð óumdeilt að tilvist áfengis og neysla þess er ekki aðeins samfélagslega viðurkennd, a.m.k. í vestrænum ríkjum, heldur er hún hluti af menningu, m.a. matarmenningu.

Segja má að samfélagið hafi ákveðið að áfengisneysla sé í menningarlegu tilliti þess virði að ástæða sé til að sætta sig við þá áhættu sem henni fylgir. Fáir hafa talað fyrir því að banna áfengi. Hins vegar hafa margir skoðun á því hvernig eigi að hafa áhrif á neyslu þess.

Færa má rök fyrir því að nokkur sátt ríki um að það sé eitt af verkefnum löggjafans að hafa áhrif á áfengisneysluna með lagasetningu. Fólk er hins vegar alls ekki sammála um hvernig það er gert.

Óþroskuð umræða

Umræðan verður að þroskast. Allra mikilvægast er þó að löggjafinn meðtaki skilaboðin sem fram eru sett, skilji kjarnann frá hisminu, framkvæmi hagsmunamat og komist að niðurstöðu. Á lóðarskálunum eru annars vegar áhættan sem fylgir áfengi og hins vegar nútíminn, veruleikinn og vilji fólks.

Þó sett hafi verið stefna er það óhjákvæmilegur fylgifiskur stefnumótunar að markmið, aðgerðir og mælikvarða þarf að endurskoða með reglubundnum hætti. Er markmiðið enn raunhæft? Er aðgerð enn til þess bær að markmiðinu verði náð? Gerir mælikvarðinn okkur enn fært leggja mat á hvar við stöndum gagnvart markmiðinu?

Af hálfu SVÞ eru skilaboðin skýr; einkarekin verslun á að annast áfengissölu innan ramma skýrs regluverks. Skilaboð andstæðinga verslunar með áfengi hafa ekki verið eins skýr; minna aðgengi að áfengi en ekkert má breytast nema þá mögulega að ríkið verði opnað á sunnudögum.

Vandinn sem ætla má að þingmenn standi frammi fyrir felst að ákveðnu leyti í því að það hafa orðið og eru að eiga sér stað breytingar m.a. á verslunarháttum og menningu, bæði hér heima og erlendis. Í því samhengi væri eðlilegt að umræða um verslun með áfengi snerist um það hvernig sé skynsamlegt að hafa áhrif neyslu þess. Í því tilliti virðist hins vegar helst upp á það boðið að banni gegn innlendri netverslun með áfengi verði við haldið en fólki sætti sig áfram við um fimmtíu útsölustaði ÁTVR, netverslun ÁTVR, erlenda netverslun, áfengissölu á veitinga- og öldurhúsum, áfengissölu hjá smáframleiðendum og jafnvel stöku vegasjoppum.

Þegar umræðan er skoðuð nánar og öllu er á botninn hvolft hefur umræðan um áhrif á neyslu áfengis upp á síðkastið hvað helst snúist um tilvist og afkomu ÁTVR og hvort netverslun verður kennd við Hagkaup. Ekki örlar t.d. á umræðum um hvers vegna það þykir forsvaranlegt að halda úti rekstri fimmtíu útsölustaða ÁTVR í því skyni að takmarka aðgengi að áfengi. Er hægt að ná sama árangri með tuttugu og fimm útsölustöðum, tíu eða e.t.v. með allt öðrum hætti? Ef svo er af hverju er það þá ekki gert? Ekki er heldur rætt um hvernig takast eigi að halda loki á aðgengi að áfengi með því að viðhalda banni gegn innlendri netverslun með áfengi en sætta sig áfram við netverslun ÁTVR og alla erlenda netverslun. Af hverju dó t.d. umræðan um netverslun Costco með áfengi nánast um leið og hún hófst en ekki þegar rótgróin íslensk verslun er kennd við slíka sölu?

Ábyrg umræða?

Hvernig gerðist það að forstjóri ÁTVR ræsti umræðuna með því að bera því við að reksturinn væri að lenda í járnum vegna umfangs netverslunar með áfengi, Hagkaup ræddu sín áform og í kjölfarið fóru menn að ræða stöðuna á svipuðum nótum og þegar náttúruógn er yfirvofandi?

Getur talist eðlilegt að bjóða eigendum fyrirtækja upp á þá óvissureið að málsmetandi einstaklingar í stjórnmálum fullyrði að eitthvað sé bannað og aðrir hið gagnstæða? Þeir sem þekkja til rekstrar vita að pólitísk óvissa er slæm og hvað þá þegar í pólitískri umræðu er misvísandi lagaskilningi beinlínis haldið á lofti.

Upp úr hjólförunum

Viðfangsefni umræðunnar er áhrif á áfengisneyslu. Hana þarf að taka á vettvangi Alþingis. Væri ekki tilvalið fyrir þingið að ræða málið af alvöru?

Benedikt S. Benediktsson
lögfræðingur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

Sjá grein inná VISIR.is

Sjá viðtal á síðdegisútvarpi Rásar II (hefst á 47:15 mín) HÉR!