18/06/2025 | Fréttir, Greining, Verslun
Ný gögn RSV sýna mikla aukningu í netinnkaupum Íslendinga – fatnaður og byggingavörur leiða sóknina.
Erlend netverslun Íslendinga heldur áfram að vaxa og hefur náð nýjum hæðum á fyrsta fjórðungi ársins 2025. Samkvæmt nýjustu gögnum Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) jókst byggingavöruverslun um 50,3% á tímabilinu – sem endurspeglar auknar þarfir og væntingar neytenda gagnvart hagkvæmum og fjölbreyttum innkaupamöguleikum.
Heildarvelta erlendrar netverslunar tæpum milljarði króna, sem er 22,7% aukning miðað við sama tímabil árið áður. Mikil aukning mældist einnig í fataverslun (18%) og öðrum vöruflokkum (22,3%).
Þessar tölur sýna greinilega hvernig íslenskir neytendur nýta sér erlenda netverslun í auknum mæli – þróun sem kallar á vandaða greiningu og aðlögun að nýjum aðstæðum.
RSV býður upp á ítarlega skýrslu þar sem farið er í spálíkön, sundurliðaðar tölur og kaupvenjur Íslendinga á erlendum mörkuðum. Félagsfólk SVÞ fá skýrsluna með afslætti – verð er 69.900 kr.
Pantaðu skýrsluna með því að senda póst á: rsv(hjá)rsv.is
18/06/2025 | COVID19, Fréttir, Greining, Verslun, Þjónusta
Neytendur treysta sínum nánustu – ekki áhrifavöldum
Ný McKinsey-grein varpar ljósi á breytta kauphegðun neytenda frá 2019.
Ný skýrsla McKinsey, State of the Consumer 2025, sýnir að kauphegðun neytenda er að breytast hratt um allan heim. Netverslun og afhendingarþjónusta halda áfram að vaxa og þjónusta sem skilar hraða, þægindum og einfaldleika hefur aldrei verið mikilvægari. Í dag eru 21% máltíða borðaðar heima með aðstoð afhendingarþjónustu – tvöföldun frá 2019.
En það sem vekur sérstaka athygli er að neytendur taka ákvarðanir byggðar á trausti – og það traust byggir ekki á áhrifavöldum eða samfélagsmiðlum, heldur fjölskyldu, vinum og persónulegum tengslum. Samfélagsmiðlar eru taldir minnsti traustvekjandi þátturinn í kaupákvörðunum.
McKinsey greinin bendir á mikilvægi á:
-
Nýja nálgun í markaðssetningu: minna af ópersónulegum skilaboðum – meira af tengslamarkaðssetningu.
-
Endurmat á þjónustuferli: hversu hratt og þægilega getum við afhent vörur og þjónustu?
-
Nýsköpun og samvinna: ný tækifæri til að þróa staðbundnar lausnir með alþjóðlegri innblástur.
Kynntu þér niðurstöður skýrslu McKinsey – State of the Consumer 2025: When disruption becomes permanent SMELLTU HÉR!
16/06/2025 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Verslun
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, VR og Landssamband íslenskra verzlunarmanna (LÍV) hafa tekið höndum saman vegna vaxandi áhyggna af ofbeldi og áreitni gagnvart starfsfólki verslana. Í dag, 16. júní var undirritað sameiginlegt minnisblað sem markar upphaf samstarfs um þetta mikilvæga samfélagsmál.
Settur verður á laggirnar vinnuhópur skipaður fulltrúum atvinnurekenda og launafólks sem er meðal annars ætlað að draga fram áskoranir og hættur m.t.t. öryggis starfsfólks verslana. SVÞ munu tryggja aðkomu atvinnurekenda að hópnum en m.a. er ætlunin að á vettvangi hópsins verði deilt reynslu, þekkingu og viðbrögðum verslunarfyrirtækja á ólíkum sviðum.
Hlutverk hópsins er að taka saman og greina viðfangsefnið og kortleggja úrræði sem fyrirtæki hafa þegar gripið til eða gætu gripið til. Standa vonir til þess að úr verði sameiginlegar hugmyndir að viðbrögðum og góðum starfsvenjum sem auka öryggi allra í verslunum.
Ætlunin er að vinnuhópurinn ljúki störfum fyrir lok október 2025 og niðurstöður hans verða nýttar til að þróa frekara samstarf og samtal við stjórnvöld.
Nýleg könnun VR sýnir að 54% félagsmanna hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi á starfsferlinum. SVÞ tekur þessar niðurstöður alvarlega og fagnar því að atvinnurekendur og launþegar sameinist um mikilvægt verkefni sem ætti styðja bæði öryggi og heilbrigt starfsumhverfi. Sjá minnisblað HÉR!

Frá undirritun samstarfssamnings milli SVÞ, VR & LÍV 16. júní 2025
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, Eiður Stefánsson, formaður LÍV, og Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ
03/06/2025 | Fréttir, Greining, Greiningar, Verslun
Verðbólga á matvöru heldur áfram að hækka
RSV birtir nýjustu tölur frá maí 2025 – fylgstu með þróun á Veltan.is.
Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) hefur birt verðbólgutölur fyrir maímánuð á vefnum veltan.is. Þar kemur fram að hækkun á matvælum heldur áfram að tengjast við þróun á alþjóðlegu hrávöruverði og aukinn innflutning.
Mesta verðhækkun mældist á súkkulaði (22,7%), sem skýrist af hækkun á heimsmarkaðsverði kakós. Næst mest var hækkun á kartöflum (19,8%), káli (15,6%) og nautakjöti (14,5%). Athygli vekur að innflutningur á nautakjöti jókst um rúm 60% á fyrstu fjórum mánuðum ársins, en verðmæti innflutnings jókst um tæp 90%.
RSV birtir reglulega verðþróun eftir vöruflokkum sem og þróun hrávöruverðs, sem styður við að greina kostnaðarþróun og meta áhrif á rekstur og verðlag.
Nánari upplýsingar og tölur má nálgast á veltan.is.
14/05/2025 | Fréttir, Greining, Stafræna umbreytingin, Verslun
RSV – Rannsóknasetur verslunarinnar hefur kynnt nýja og yfirgripsmikla skýrslu um erlenda netverslun sem gefur íslenskum verslunar- og þjónustufyrirtækjum einstakt tækifæri til að greina áhrif erlendrar netverslunar á þeirra starfsemi.
Skýrslan er sérsniðin að þörfum fyrirtækja sem vilja skilja þróun markaðarins og nýta sér innsýnina til stefnumótunar.
Skýrslan inniheldur m.a.:
- Spálíkan um þróun innlendrar verslunar og netverslunar til ársins 2030.
- Spálíkan um þróun erlendrar netverslunar til ársins 2030.
- Nýjustu tölur um erlenda netverslun, brotnar niður eftir:
- Stærstu útflutningslöndum.
- Grófum verslunarflokkum.
- Undirflokkum og yfirtollflokkum.
Fyrirtæki fá því nákvæma yfirsýn yfir hvað Íslendingar eru að panta á netinu og frá hvaða löndum. Auk þess eru birtar niðurstöður rannsókna frá 2020, 2021 og 2024 sem skoða meðal annars hvort íslenskar verslanir séu nýttar sem „mátunarklefar“ og hvernig neytendur kjósa að fá vörur afhentar úr netverslunum.
Til að tryggja skýra kynningu á efni skýrslunnar er boðið uppá frían persónulegan kynningafund á Teams þar sem farið er yfir helstu niðurstöður.
Verð á skýrslunni fyrir áskrifendur Veltunnar 69.900 kr. en fyrir aðra 79.900 kr.
Við hvetjum stjórnendur í verslunar- og þjónustugeiranum til að nýta þetta tækifæri til að dýpka skilning sinn á markaðnum og aðlaga rekstraráætlanir að þróuninni.
Fyrir frekari upplýsingar hafið samband við forstöðumann RSV Klöru Símonardóttur á netfangið: klara(hja)rsv.is
12/05/2025 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Verslun
SVÞ kallar eftir aðgerðum til að tryggja öryggi neytenda og jafnan grundvöll samkeppni
Í frétt á Vísir , frá 11. maí sl., er sagt frá áhyggjum íslenskra stjórnvalda kaupa neytenda á vörum frá kínversku netrisunum Temu og Shein. Af þessu tilefni vilja SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu leggja áherslu á mikilvægi neytendaverndar og jafnan grundvöll samkeppni.
Úrtaksrannsóknir hafa gefið til kynna að allt að 70% af vörum sem seldar eru á þessum síðum geti innihaldið skaðleg efni sem eru bönnuð á EES-svæðinu.
„Við höfum áhyggjur af því að íslenskir neytendur setji sig í hættu“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ og bætir við „Þetta snýst hins vegar ekki aðeins um neytendavernd heldur einnig um stöðu íslenskrar verslunar sem þarf ávallt að ganga úr skugga um að þær vörur sem hér eru seldar uppfylli settar kröfur og sætir innlendu eftirliti.“
SVÞ hefur á síðastliðnu ári átt samstarf við norræn systursamtök á vettvangi EuroCommerce þar sem þrýst hefur verið á að sömu kröfur séu sannarlega gerðar til allra sem selja evrópskum neytendum vörur. Það er bæði versluninni og neytendum til hagsbóta að traust ríki, neytendur njóti þess öryggis sem ætlunin er að tryggja og að jöfn samkeppni ríki á markaði.
SVÞ fylgist náið með þróun mála. „Neytendur velja við hverja þeir eiga viðskipti. Það eru þeirra hagsmunir að eiga viðskipti við söluaðila sem fylgja settum reglum.“ bætir Benedikt við. “Ef skaði hlýst af notkun vöru getur neytandinn verið ansi berskjaldaður í viðskiptum við söluaðila í fjarlægum heimshluta þar sem jafnvel gilda allt aðrar reglur um ábyrgð þeirra á tjóni en hér tíðkast”.