Menntamálaráðherra hitti nemendur á nýrri stafrænni stúdentsbraut

Menntamálaráðherra hitti nemendur á nýrri stafrænni stúdentsbraut

Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, ásamt forsvarsfólki SVÞ og skólastjórnendum í Verzlunarskóla Íslands hittu á dögunum nemendur á nýrri stúdentsbraut skólans þar sem áherslan er á stafræna verslun og viðskipti. Brautin er samstarfsverkefni SVÞ, Verzló og fleiri aðila og er ætlað að undirbúa nemendur betur undir störf í viðskiptalífi þar sem stafrænar lausnir skipa sífellt stærri sess. Spennandi nýbreytni í náminu er náið samstarf skólans og atvinnulífsins, en nemendur á brautinni munu stunda starfsnám innan hinna ýmsu fyrirtækja. Er starfsnáminu ætlað að styrkja bönd menntunar og atvinnulífs, undirbúa nemendur undir störf í raunumhverfi og skapa hagnýta leið til kennslu.

Fjör var á viðburðinum þar sem til máls tóku menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, skólastjóri Verzlunarskólans, Ingi Ólafsson, þróunarstjórinn Guðrún Inga Sívertsen auk Jóns Ólafs Halldórssonar, formanns SVÞ.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandsklippu frá þessum skemmtilega morgni:

Hagsmunasamtök mótmæla UPU lögum

Hagsmunasamtök mótmæla UPU lögum

Nýlega sendi fjöldi hagsmunasamtaka í verslun víða um heim frá sér sameiginlegt bréf til samkeppnisyfirvalda Evrópusambandsins þar sem farið var fram á að jöfnuð væri samkeppnisstaða evrópskra verslana (hefðbundinna og vefverslana) gagnvart ríkjum á borð við Kína þegar kemur að sendingarkostnaði. Vegna samnings UPU, Universan Postal Union, sem á rætur sínar að rekja allt til ársins 1874, eru sendingar frá svokölluðum þróunarríkjum, þ.á.m. Kína, verulega niðurgreiddar af þróuðum ríkjum.

Samningurinn hefur litlum breytingum tekið í gegnum tíðina eða engan veginn nægum til að mæta þeirri gríðarlegu breytingu sem alþjóðleg netverslun hefur haft í för með sér. Í dag þýðir samningurinn í raun að ríki á borð við Kanada, Bandaríkin og EES ríki, þ.m.t. Ísland, niðurgreiða verulega póstsendingar frá löndum á borð við Kína og verslun í þessum löndum á því mjög undir högg að sækja vegna þessarar ójöfnu samkeppnisstöðu. Nú í september verður haldið sérstakt þing um þessi mál í Genf og hvetja hagsmunasamtökin hlutaðeigandi aðila til að nota þetta einstaka tækifæri til að gera endurbætur á UPU samningnum. Eru mismuandi leiðir kynntar til sögunnar, sem ýmist fela í sér takmarkaða aukningu á föstum gjöldum frá þróunarlöndum, að gera sendingarþjónustuaðilum kleift að rukka sendingarkostnað að fullu eða einhverskonar blanda af þessum leiðum. Líklegt þykir að fyrsta leiðin, takmörkuð aukning á föstum gjöldum, hugnist fólki ekki og hafa Bandaríkjamenn hafa hótað að draga sig úr UPU verði sú leið valin eða ef samningunum verður ekki breytt yfir höfuð.

Ljóst er að málið er gríðarlega mikilvægt fyrir verslun um allan heim, og ekki síst á Íslandi, sem finnur verulega fyrir áhrifum m.a. frá kínverskum verslunarrisum sem eru ráðandi á markaðnum í krafti stærðar, lágra verða og niðurgreidds sendingarkostnaðar.

Undir bréfið rita fulltrúar hagsmunasamtaka verslunar frá 14 löndum, þ.á.m. Norðurlöndunum, Þýskalandi, Ástralíu. Samtök verslunar og þjónustu eru ein þeirra samtaka sem undirrita bréfið.

Bréfið  sjá hér: Joint industry letter Creating a level playing field for European retail and ecommerce through Universal Postal Union reform

Umbreyting í smásölu – störf hverfa og ný verða til

Umbreyting í smásölu – störf hverfa og ný verða til

Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur SVÞ, skrifar í Viðskiptablaðið 29. maí sl.:

Umhverfi þeirra sem vinna við smásölu breytist hratt um þessar mundir. Á sama tíma og hlutfall atvinnulausra lækkar í Bandaríkjunum og störfum fjölgar á heildina litið í apríl um rúmlega fjórðung úr milljón fækkar störfum í smásölu þó velta hafi aukist.

Upplýsingar um þróun starfa í Bandaríkjum gefa glögga mynd af þeirri hröðu þróun sem á sér stað um þessar mundir í verslun og þjónustu. Grunngerð verslunarinnar er að breytast, m.a. vegna aukinnar netverslunar og annarra tengdra tæknibreytinga. Unnt er að greina áhrif bandarísku uppsveiflunnar á marga mismunandi vegu eftir því hvaða atvinnugrein á í hlut en upplýsingar um hlutfall atvinnulausra eftir atvinnugreinum gefa ágæta vísbendingu um hvert stefnir í þeim efnum.

Þegar heildarsamhengið er skoðað virðast þau störf sem skapast samfara aukinni smásöluverslun vegna góðs efnahagsástands einkum hafa orðið til í starfsemi sem flokkast undir vöruflutninga og vörugeymslu. Þetta bendir til þess að smásölustarfsemi sé í auknum mæli að færast yfir á netið og að stórir smásöluaðilar hafi í auknum mæli beint sjónum að rekstri vörugeymslu- og dreifingarmiðstöðva í stað hefðbundinna smásöluverslana. Þeir geta þannig jafnvel sleppt því að reka hefðbundnar sölubúðir. Afleiðingin er sú, að í stað þess að aukin umsvif í smásölu komi fram í auknum umsvifum í hefðbundnum verslunum, aukast vöruflutningar og umsvif í vörugeymslum (tiltektir og frágangur sendinga) í takt við stóraukin umsvif netverslananna.

Það er eðlilegt að undrun séu fyrstu viðbrögð margra við þessari þróun. Það er jafnframt eðlilegt að þeir sem þekkja vel til hefðbundins verslunarreksturs spyrji hvort þróunin sé alfarið af hinu góða. Þegar litið er til framþróunar í atvinnugreinum og þeirra áhrifa sem slíkar breytingar hafa á þjóðfélög og efnahagslíf virðast kostir netbundinnar verslunar yfirgnæfandi. Leiguverð vörugeymslu er mun lægra en leiguverð verslunarhúsnæðis í miðborgum eða í verslunarkjörnum. Auðveldara er að nýta sjálfvirkni í netbundinni verslun en í hefðbundinni verslun. Ný framleiðslutækni eykur jafnan framleiðni vinnuaflsins og aukin sjálfvirkni í framleiðslu getur lækkað kostnað fyrirtækja og þar með verðlag. Samhliða þessu verða oft til ný störf ásamt tilfærslu á vinnuafli milli atvinnugreina.

Þrátt fyrir þá óvissu sem verið hefur í Bretlandi vegna BREXIT hefur eftirspurn eftir vinnuafli aukist í Bretlandi að undanförnu. Atvinnustig þar er nú afar hátt í sögulegu samhengi. Samkvæmt gögnum frá systursamtökum SVÞ í Bretlandi (British Retail Consortium/BRC) fækkaði störfum í smásölu hins vegar á fjórða ársfjórðungi 2018 og fyrsta ársfjórðungi 2019. Er þá byggt á upplýsingum frá aðildarfyrirtækjum BRC sem saman telja rúman fimmtung af veltu á breskum smásölumarkaði. Tölurnar endurspegla leitni niður á við í smásölu sem einnig má sjá í gögnum bresku hagstofunnar. Eins og í Bandaríkjunum er atvinnuþróun í breskri smásöluverslun önnur en í hagkerfinu í heild en um þessar mundir er atvinnuþátttaka með því mesta sem um getur. Ástæðan virðist vera sú að smásölugeirinn þar er að ganga í gegnum sömu breytingar og í Bandaríkjunum. Ljóst er að ráðast þarf í fjárfestingar til að ná árangri á tímum umbreytinga en hætt er við að hiks gæti þar sem útlit er fyrir kostnaðarútlát vegna óvissu sem ríkir um stefnumörkun stjórnvalda.

Nýir möguleikar

Einhverjum kann að þykja sú þróun sem nú á sér stað í Bretlandi og Bandaríkjunum varhugaverð. Það er hins vegar vafasamt að horfast ekki í augu við framtíðina, láta skeika að sköpuðu, því eins og rakið hefur verið geta breytingar orðið á grunngerð þjóðarbúskaparins samfara tæknivæðingu og mörg störf tapast í einni atvinnugrein/geira á stuttum tíma. Sterkar vísbendingar eru hins vegar uppi um að á sama tíma opnist möguleikar á fjölgun starfa annarsstaðar í hagkerfinu. Það er því full ástæða til að gæta varúðar og undirbúa hraða aðlögun að breytingum og nýjum tækifærum sem skapast. Breytingar í rekstrarumhverfi verslunar og þjónustu kalla m.a. á nýja hugsun og breytt vinnubrögð innan menntakerfisins svo búa megi starfsfólk framtíðarinnar undir nýjan veruleika.

Þegar áætlanir eru gerðar og ákvarðanir teknar um framkvæmdir þurfa atvinnurekendur að velja milli fleiri eða færri möguleika við notkun á því fjármagni sem er fyrir hendi á hverjum tíma. Jafnan verður margt útundan og annað dregst úr hömlu. Við áætlunargerð þarf ekki aðeins að velja verkefni heldur einnig að ákveða tímasetningu og staðsetningu á markaði. Staðsetning á markaði skiptir oft ekki minna máli en tímasetningar og jafnvel ákvarðanataka um hvort ráðist er í aðgerð eður ei. SVÞ leggja áherslu á mikilvægi þess að fagfólk í verslun og þjónustu verði sem best í stakk búið til að aðlagast fyrirsjáanlegum breytingum og  geti nýtt sér tækifæri í heimi stafrænna lausna. Slíkur undirbúningur þarf að eiga sér stað í frum- og endurmenntun sem standi öllum landsmönnum til boða.

Nám á framhaldsskólastigi

Mjór er mikils vísir segir máltækið en næstkomandi haust hefst kennsla á nýrri stafrænni viðskiptalínu á framhaldsskólastigi í Verzlunarskóla Íslands. Línan er svar við örum breytingum á vinnumarkaði og þá sérstaklega í starfsumhverfi verslunar og þjónustu. Námslínan brýtur blað í sögu Verzlunarskólans þar sem vinnustaðanám í stafrænni verslun og þjónustu er hluti af náminu. Þannig tengir námið nemendur við atvinnulífið með beinum hætti og veitir þeim innsýn í starfsumhverfið en heldur einnig að þeim þeirri hröðu þróun sem á sér stað í verslun og þjónustu um þessar mundir. Með hvata að og aðkomu að undirbúningi þessa náms leggur SVÞ sitt lóð á vogarskálarnar til að mæta breyttum veruleika í íslenskri smásölu.

Facebook hópur fyrir félagsmenn helgaður stafrænni verslun

Facebook hópur fyrir félagsmenn helgaður stafrænni verslun

Nýr Facebook hópur hefur verið settur á laggirnar í tengslum við Faghóp stafrænnar verslunar innan SVÞ. Hópurinn er fyrir félagsmenn SVÞ sem hafa áhuga á efni tengdu stafrænni verslun, omnichannel og tengdum málum. Tilgangur hópsins er einkum að geta með öflugri hætti deilt sérhæfðu efni sem tengist stafrænni verslun, omnichannel og tengdum málum og að skapa vettvang fyrir félaga til að ræða málefni tengd stafrænni verslun.

Við bjóðum SVÞ félaga velkomna. Vinsamlegast smellið hér og sækið um inngöngu. Gefa þarf upp nafn fyrirtækis sem er aðili að SVÞ og netfang viðkomandi hjá því fyrirtæki. Athugið að lesa leiðarljós hópsins, þegar inn er komið, og sérstaklega þau gögn sem vísað er í varðandi samkeppnismál.

Neysluhegðun unga fólksins breytir verslun

Neysluhegðun unga fólksins breytir verslun

Í sérblaði um netverslun sem fylgdi Fréttablaðinu þann 20. apríl sl. var vitnað í grein Ingvars F. Ingvarssonar, aðalhagfræðings sem birst hafði í Viðskiptablaðinu 24. janúar. Í sérblaði Fréttablaðsins sagði:

Í upphafi árs skrifaði Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu, pistil þar sem kemur fram að þrátt fyrir öran vöxt netverslunar fer enn stærsti hluti smásöluverslunar fram í hefðbundnum verslunum. Mikill uppgangur netverslunar og breytt neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar er að umbylta umhverfi verslunarinnar og felur í sér ögrandi verkefni fyrir alla sem starfa við verslun og þjónustu, segir í pistli Ingvars. Hann bendir á skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar og tekur fram að kaup Íslendinga um netið voru um 2,9% af heildarveltu íslenskrar verslunar á meðan algengt er að netverslun í nágrannalöndum okkar nemi um 10% af heildarveltu.

Ingvar Freyr bendir á að á Norðurlöndum er umfang netverslunar einna hæst í Svíþjóð. Ingvar segir það mikilvægt og nauðsynlegt að íslensk fyrirtæki nýti sér stafræna tækni áður en erlendir keppinautar stíga inn á markaðinn með betri tilboð. Aukin hnattvæðing þar sem samkeppnin um neytandann er hörð skapar jafnframt ný tækifæri. Breytingar í rekstrarumhverfi í verslun og þjónustu kallar á breytta hugsun og breytt vinnubrögð innan menntakerfisins svo búa megi starfsfólk framtíðarinnar undir nýjan veruleika, skrifar Ingvar meðal annars en pistil hans má finna á heimasíðu SVÞ.

Fjármálaráðuneytið fjallar um verðlag á Íslandi

Fjármálaráðuneytið fjallar um verðlag á Íslandi

Í grein á vef Fjármálaráðuneytisins í dag kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Verðlag á Íslandi var 66% hærra en að meðaltali í löndum ESB árið 2017 samkvæmt rannsókn evrópsku hagstofunnar Eurostat sem hefur verið í umræðunni að undanförnu. Í þeim samanburði er verðlag í krónum umreiknað í verðlag í evrum og því hafa gengisbreytingar mikil áhrif á samanburðinn. Þegar krónan styrkist verða vörur sem verðlagðar eru í íslenskum krónum dýrari í evrum talið og því hækkar verðlag sjálfkrafa á þennan samræmda mælikvarða. Styrking krónunnar á árunum 2013-2017 hefur aftur á móti stuðlað að lægra vöruverði hér á landi í íslenskum krónum og þannig aukið kaupmátt heimilanna. Afnám tolla og vörugjalda hefur stuðlað enn frekar að lægra vöruverði í mikilvægum vöruflokkum eins og komist er að í skýrslu Hagfræðistofnunar.

Lesa má greinina í heild sinni á vef fjármálaráðuneytisins hér.