Menntadagur atvinnulífsins | Opið fyrir tilnefningar

Menntadagur atvinnulífsins | Opið fyrir tilnefningar

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu þriðjudaginn 14. febrúar 2023. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Einungis skráðir aðildarfélagar SA eru gildir með tilnefningu.

Tilnefningar sendist í tölvupósti til Samtaka atvinnulífsins á verdlaun@sa.is, eigi síðar en mánudaginn 23. janúar n.k.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum;

Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

  • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
  • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
  • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
  • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

  • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja
  • samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.

Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni SamorkuSamtaka ferðaþjónustunnarSamtaka fjármálafyrirtækjaSamtaka fyrirtækja í sjávarútvegiSamtaka iðnaðarinsSamtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

________________

Samkaup hlutu menntaverðlaun atvinnulífsins 2022. F.v. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Að loknum heimsfaraldri | Innherji

Að loknum heimsfaraldri | Innherji

Innherji birtir í dag neðangreinda grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu undir heitinu: Að loknum heimsfaraldri

__________________________________

Nú þegar árið 2022 er á enda komið er vert að staldra við og líta á hvernig fyrirtækin í landinu komu út úr þeirri áraun sem heimsfaraldurinn sannarlega var. Eins og margoft hefur komið fram hitti faraldurinn einstakar atvinnugreinar mjög misjafnlega fyrir. En það sem skipti þó sköpum við að leiða fyrirtækin og samfélagið allt í gegn um þetta sérstaka tímabil voru þær margháttuðu stuðningsaðgerðir sem stjórnvöld innleiddu og voru flestar unnar í nánu samstarfi við hagsmunasamtök í atvinnulífinu. Ekki er neinum vafa undirorpið að þær aðgerðir breyttu miklu og má endlaust velta því fyrir sér hver staðan væri núna í hagkerfi landsins ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu gengu í gegn um erfiða tíma þar sem ferðalög lögðust að mestu af. Ýmsar aðrar atvinnugreinar nutu hins vegar mjög góðs af ástandinu af sömu ástæðu og á það ekki hvað síst við um fyrirtæki í verslun og þjónustu. Þar sem ferðalög erlendis lögðust nær af þann tíma sem heimsfaraldurinn stóð yfir, fór verulegur hluti þeirrar neyslu sem að jafnaði fer fram erlendis, til íslenskra fyrirtækja. Fyrir mörg fyrirtæki í verslun og þjónustu var þetta því alls ekki slæmur tími, og hefur aldrei verið nein dul á það dregin.

Það er því ágætis tilefni til að líta yfir sviðið núna og horfa á hvernig viðskipti hafa þróast á árinu sem kveður brátt. Í því sambandi verður að líta til ársins 2019 til samanburðar þar sem árin þar á milli geta ekki talist samanburðarhæf vegna þeirra sérstöku aðstæðna, sem þá voru til staðar.

Í samanburði við flestar nágrannaþjóðir okkar getum við prísað okkur sæl yfir því að vera laus við þá orkukreppu sem hefur nú alvarlegar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki víða um lönd.
Þegar kortavelta innlendra greiðslukorta innanlands, það sem af er ári 2022 (summa janúar til nóvember) er skoðuð og borin saman við sama tímabil árið 2019 kemur í ljós að kortavelta í verslun hefur aukist um 16% að raunvirði frá árinu 2019 og kortavelta í þjónustu hefur á sama tímabili aukist um 7%, að raunvirði. Nánari greining á þróun einstakra liða má sjá á meðfylgjandi mynd frá Rannsóknarsetri verslunarinnar sem sýnir hvernig breytingin hefur verið í öllum flokkum sem kortavelta rannsóknarsetursins nær til.

Við sem samfélag höfum fulla ástæðu til að horfa björtum augum fram á veginn. Allar forsendur eru til þess að það ár sem brátt gengur í garð verði okkur hagfellt, þó að glíman við verðbólguna verði enn um sinn eitt stóra viðfangsefnið. Í samanburði við flestar nágrannaþjóðir okkar getum við prísað okkur sæl yfir því að vera laus við þá orkukreppu sem hefur nú alvarlegar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki víða um lönd. Við erum því í umtalsvert betri stöðu en flestar aðrar þjóðir að skapa hér grunn að öflugum hagvexti sem allir munu njóta góðs af. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar allra.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

ATH! Skrifstofa SVÞ verður lokuð frá 24.desember til og með 27.desember 2022.

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendir félagsfólki sínu óskir um gleðilega jólahátíð og farsældar á komandi ári.

Starfsfólk SVÞ
Andrés, Benedikt, María Jóna, Ragna Vala og Rúna

Í vasa hvers? | Innherji

Í vasa hvers? | Innherji

Innherji birtir í dag grein eftir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ Samtaka verslunar og þjónustu undir heitinu Í vasa hvers? 

Þar vísar Benedikt m.a. í hádegisfréttir Bylgjunnar, hinn 13. desember síðastliðinn, gagnrýndi formaður Samfylkingarinnar stuðning stjórnvalda vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Í viðtalinu lét hún í ljós afstöðu sem var efnislega á þá leið að svokölluð leigubremsa væri nauðsynleg svo komið yrði í veg fyrir að boðuð 13,8% hækkun húsnæðisbóta færi að öllu leyti til leigusala. Í sama fréttatíma sagði þingmaður Flokks fólksins efnislega að húsnæðisbætur ýttu undir hækkanir og gaf í skyn að þær væru í raun fé sem rynni beint til leigusala.

Athygli vekur að hvorki formaðurinn né þingmaðurinn nefndu framboðsskort á húsnæði sem rót hækkunar húsnæðiskostnaðar.

Þá heldur Benedikt áfram og segir; Skilja verður formanninn og þingmanninn þannig að með leigubremsu sé átt við það sem hefur verið nefnt leiguþak, eða á ensku rent control. Þar er á ferðinni eitt umdeildasta fyrirbæri leiguréttar þar sem í sögunni er að finna dæmi um að tilvist leigubremsu hafi til lengri tíma litið fækkað leiguhúsnæði í tilteknum borgum um allt að 15%. Auðsætt er að slík niðurstaða mundi gagnast fáum. Orð þeirra má einnig skilja þannig að húsnæðisbætur séu óþarfar sé litið til hagsmuna leigjenda. Má jafnvel, með skreytni, skilja þær þannig að það sé í raun formsatriði að greiða húsnæðisbætur til leigjenda, einfaldara væri að greiða fjárhæðir þeirra beint til leigusala. Slíkur skilningur endurspeglar raunveruleikann hins vegar ekki vel.

Fyrir það fyrsta eru fjölmargir þættir sem jafnan hafa áhrif á rekstrarforsendur leigusala, meðal annars viðhaldskostnaður, fasteignagjöld, kostnaður vegna trygginga, breytingar á húsgjöldum og breytingar á öðrum kostnaði. Þá getur fjárhæð húsaleigu tekið mið af því hvort sett sé trygging fyrir skilvísri greiðslu eður ei og hvort leiga hafi verið greidd fyrirfram. Í öðru lagi eru flestir húsaleigusamningar gerðir til nokkurs tíma, þeim þinglýst og engin dæmi virðast um að í þeim sé kveðið á um að leigufjárhæð breytist til samræmis við breytingar á húsnæðisstuðningi.

Í þriðja lagi er það ófrávíkjanleg regla húsaleigulaga að þrátt fyrir að aðilum sé frjálst að semja um fjárhæð húsaleigu og hvernig hún skuli breytast á leigutíma skuli hún vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja. Þar gildir það meginviðmið að markaðsleiga sambærilegs húsnæðis skuli lögð til grundvallar ásamt atriðum á borð við almennan húsnæðiskostnað, staðsetningu, ástand og gerð eignar, endurbætur og viðhald, leigutíma og fyrirframgreidda leigu. Í framkvæmd hefur því verið slegið föstu að leigusala sé ekki heimilt að hækka leigufjárhæð einhliða á leigutíma nema að því leyti sem kveðið er á um í leigusamningi. Strangar kröfur eru gerðar til leigusala þegar kemur að hækkun leigu á leigutíma þó hún sé heimil samkvæmt húsaleigusamningi.

Í fjórða lagi þarf að horfa til þess að þegar samið hefur verið um húsaleigu er samningurinn annað hvort tímabundinn eða ótímabundinn. Sé hann ótímabundinn er sex mánaða lágmarksuppsagnarfrestur lögbundinn í tilviki íbúðarhúsnæðis en tólf mánaða frestur sé samningurinn til lengri tíma en tólf mánaða í tilviki leigusala sem leigja íbúðarhúsnæði í atvinnuskyni.

Húsaleigusamningar eru gagnkvæmir og jafnan gerðir í ljósi þess að báðir aðilar telja sig betur setta en án þeirra. Það eru hagsmunir beggja að hið leigða húsnæði sé vel úr garði gert og endurspeglar leigufjárhæð jafnan slíka stöðu. Það eru jafnframt hagsmunir beggja að framboð leiguhúsnæðis sé nægt. Það er ekki rétt, sem virðist hafa verið gefið í skyn, að aukinn húsnæðisstuðningur renni nær beint og óskipt í vasa leigusala. Þó húsaleiga geti vissulega tekið hækkun á sama tíma og húsnæðisbætur hækka eru fjölmargir aðrir þætti sem hafa áhrif bæði til lækkunar á hækkunar. Myndin er ekki eins svarthvít og gefið er til kynna. Hins vegar er alveg ljóst að framboð á húsnæði er ekki nægilegt.

SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA ALLA GREININA Á INNHERJA

Dagur einhleypra [Singles Day] stærsti kortaveltudagurinn!

Dagur einhleypra [Singles Day] stærsti kortaveltudagurinn!

Ný greining frá RSV Rannsóknasetri verslunarinnar á innlendri kortaveltu í nóvember sl., með daglegri tíðni, sýndi að Singles day er vinsælasti afsláttardagur mánaðarins í netverslun en Black Friday vinsælastur í verslun á staðnum (e. in-store).

Það sama kemur í ljós þegar dagleg velta nóvembermánaðar er skoðuð fyrir árin 2021 og 2020.

Rúmlega 4,9% af kortaveltu á staðnum í nóvember sl. fór í gegnum greiðslukerfi fyrirtækja þann 25.11 á Black Friday. Hlutfall kortaveltu á staðnum er að jafnaði 3,2% á meðaldegi í nóvember. Rúmlega 12,4% af kortaveltu á staðnum fóru í gegnum greiðslukerfi fyrirtækja þessa þrjá afsláttadaga mánaðarins. Það jafngildir meðalveltu upp á tæpa 3,2 milljarða kr. hvern afsláttadag á meðan meðalvelta var rúmlega 1,8 milljarður kr. aðra daga mánaðarins.

SMELLTU HÉR TIL AÐ SJÁ TILKYNNINGU FRÁ RSV