Vilt þú hafa áhrif á framtíðina? Stjórnarkjör SVÞ 2025

Vilt þú hafa áhrif á framtíðina? Stjórnarkjör SVÞ 2025

Leitum að leiðtogum innan samfélags fólks og fyrirtækja í SVÞ sem vilja breyta samfélaginu til hins betra!

Kjörnefnd SVÞ kallar eftir þér – já, þér!

Við leitum nú að áhugasömum, framsýnum og fjölbreyttum einstaklingum til að taka sæti í stjórn Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) og í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins (SA).

Í stjórn SVÞ eiga sæti formaður og sex meðstjórnendur.

Eftirtaldir meðstjórnendur eiga sæti í stjórninni til loka næsta starfsárs, 2025/2026:

  • Edda Rut Björnsdóttir, Eimskipafélag Íslands hf.
  • Guðrún Aðalsteinsdóttir, Festi hf.
  • Pálmar Óli Magnússon, Dagar hf.

Þetta er einstakt tækifæri til að hafa bein áhrif á mótun rekstrarumhverfis fyrirtækja í verslunar- og þjónustugreinum á Íslandi.

Nú er rétti tíminn til að stíga fram, taka þátt og segja: „Ég vil vera með!“

Hvað er í boði?

Við leitum eftir:

  • Formanni og þremur meðstjórnendum í stjórn SVÞ til næstu tveggja ára.
  • Fulltrúum í fulltrúaráð SA til eins árs.

Rétt er að minna á að tillögur um breytingar á samþykktum SVÞ þurfa að berast stjórn samtakanna eigi síðar en 4 vikum fyrir aðalfund, eða 12. febrúar 2023.

Við hvetjum þig til að bjóða þig fram eða senda inn tilnefningu fyrir lok miðvikudagsins 19. febrúar nk. en framboðsfrestur samkvæmt samþykktum rennur út þremur vikum fyrir upphaf aðalfundar. Aðalfundur SVÞ verður haldinn 13. mars nk

Af hverju þú?

Við þurfum fólk úr öllum áttum samfélagsins – óháð kyni, uppruna, aldri eða bakgrunni. Við vitum að fjölbreytt sýn leiðir til betri ákvarðana og meiri árangurs. Með þátttöku þinni hjálpar þú til við að skapa meira jafnvægi og fjölbreytileika í forystu sem hefur raunveruleg áhrif.

Hvernig hefur þú áhrif?

Heimsfaraldur, átök á alþjóðavettvangi og umbreytingar í atvinnulífinu hafa kallað á nýjar leiðir í rekstri og stefnumótun. Fram undan eru áframhaldandi áskoranir í stafrænum lausnum, sjálfbærni, orkuskiptum og mannauðsmálum. Þetta er tíminn til að mæta áskorunum með sameiginlegri sýn og skýrum markmiðum.

Með setu í stjórn SVÞ verður þú hluti af forystu sem mótar framtíð atvinnulífsins. Þú tekur þátt í að byggja upp samfélag þar sem verslun og þjónusta blómstra í þágu allra.

Er þetta ekki eitthvað fyrir þig – eða einhvern sem þú veist að er tilbúinn að hafa áhrif?

Sendu inn tilnefningu til stjórnar SVÞ og/eða fulltrúaráðs SA á netfangið kosning@svth.is eða merkt „Kjörnefnd SVÞ“ í pósti á: SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, Borgartún 35, 105 Reykjavík.

Við höfum trú á þér – nú er bara spurningin: Ertu tilbúin/n til að taka þátt í að skapa betri framtíð?

„Ef þú kaupir rusl endar það sem rusl“Kastljós fjallar um áhrif erlendra netverslana á samfélagið

„Ef þú kaupir rusl endar það sem rusl“Kastljós fjallar um áhrif erlendra netverslana á samfélagið

Í nýlegum þætti Kastljóss var fjallað um áhrif erlendra netverslana á borð við Temu og Shein þar sem Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ talaði um um neytendahegðun, umhverfisáhrif og þá ábyrgð sem fylgir því að velja hvar og hvernig við verslum.

Af hverju ættu neytendur að hugsa sig tvisvar?

  1. Ódýrt á kostnað gæða: Netverslanir á borð við Temu og Shein bjóða vörur á mjög lágu verði, en oft á kostnað gæðastjórnunar og öryggisstaðla sem Evrópusambandið gerir kröfu um.
  2. Hætta á skaðlegum efnum: Rannsóknir hafa sýnt að margar vörur frá þessum síðum innihalda efni sem eru bæði hormónatruflandi og krabbameinsvaldandi, og geta haft skaðleg áhrif á börn og fullorðna.
  3. Skammlíf vara veldur sorpvanda: Lítil ending vara leiðir til aukins rusls, sem eykur álag á endurvinnslustöðvar og umhverfið. Eða eins og fulltrúi Rauða krossins benti skýrt á í Kastljós þættinum þegar hún sagði „Þegar þú kaupir rusl, endar það sem rusl.“

Samfélagsleg ábyrgð neytenda

Í þættinum var lögð áhersla á mikilvægi ábyrgðrar neyslu. Fjallað var um hvernig ódýrar vörur frá erlendum netverslunum, á borð við Temu og Shein, hafa oft falinn kostnað. Starfsfólk í framleiðslunni býr við ómannúðlegar aðstæður og umhverfið ber þungann af mengun og sóun.

Neytendur eru hvattir til að hugsa „Hver borgar raunverulega verðið?“ Meðvitund um uppruna og áhrif vara er lykillinn að því að gera upplýstari val sem styðja við samfélagslega og umhverfislega ábyrgð.

Þegar við verslum við erlenda netverslun, renna skattar og gjöld til að styrkja innviði þess lands – heilbrigðisþjónustu, samgöngur og menntakerfi viðkomandi ríkis. Hins vegar, þegar við styðjum íslenskar verslanir, hjálpum við til við að byggja upp okkar eigin innviði hér á landi, þar á meðal íslenska heilbrigðiskerfið, vegakerfið og skólana okkar. Neytendur hafa því raunverulegt vald með veskinu sínu til að ákveða hvaða kerfi og samfélag þeir vilja styðja við með sínum kaupum.

Þáttinn má sjá í heild sinni á RÚV vefnum.

Að velja upplýst og ábyrgt er fyrsta skrefið til að draga úr neikvæðum áhrifum.  

Framtíð starfa: Helstu niðurstöður WEF skýrslu 2025

Framtíð starfa: Helstu niðurstöður WEF skýrslu 2025

Alþjóðaefnahagsráðið (WEF) gaf í upphafi árs út nýja skýrslu um þróun vinnumarkaðarins, þar sem tækniframfarir, efnahagsáhrif og samfélagslegar breytingar eru í brennidepli.

  1. Tækniframfarir í fararbroddi:
    Stækkun aðgengis að stafrænum lausnum og þróun gervigreindar eru helstu drifkraftarnir fyrir umbreytingu fyrirtækja. Áætlað er að 60% vinnustaða muni nýta þessar lausnir til að þróa rekstur sinn.
  2. Græn umbreyting:
    Loftslagsbreytingar og aðlögun að þeim knýja fram ný störf, sérstaklega á sviði sjálfbærni, t.d. í endurnýjanlegri orku og vistvænum farartækjum.
  3. Breytt aldursdreifing vinnumarkaðar:
    Eldri vinnuafl í hátekjulöndum skapar aukna þörf fyrir heilsutengdar og menntatengdar greinar, á meðan ung vinnuafl í lágtekjulöndum ýtir undir menntunar- og þróunarverkefni.
  4. Ný hæfni á vinnumarkaði:
    Skapandi hugsun, leiðtogahæfni og tæknifærni eru meðal þeirra hæfileika sem verða eftirsóttir. Um 59% starfsmanna þurfa endurmenntun eða nýja hæfni fyrir árið 2030.
  5. Fjölbreytt vinnuumhverfi:
    Fyrirtæki leggja aukna áherslu á fjölbreytni og jafnvægi til að auka aðgengi að hæfu starfsfólki.

Lesa má skýrsluna í heild sinni á vef Alþjóðaefnahagsráðsins og HÉR!

Óbreyttir styrkir til rafbílakaupa

Norðmenn auka hlutfall rafbíla á meðan Íslendingar minnka það

Samkvæmt frétt frá RÚV 3.janúar sl., hafa Norðmenn náð glæsilegum árangri í aukningu hlutfalls rafbíla í bílaflota sínum. Í Noregi eru rafbílar nú tæplega 90% nýskráninga, en á sama tíma hefur hlutfallið hér á landi minnkað úr um 75% árið 2022 niður í 47% árið 2023.

Í viðtali við RÚV segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og SVÞ, að skýringar á þessari þróun megi m.a. rekja til breyttra skattareglna og ónógra innviða fyrir rafbílaeigendur á Íslandi.

„Það skiptir máli að stjórnvöld veiti stöðugan stuðning við orkuskipti, bæði með fjárhagslegum hvötum og markvissri uppbyggingu innviða,“ segir Benedikt.

Norðmenn sýni fyrirsjáanleika sem skorti hér

„Munurinn liggur kannski í grundvallaratriðum í því að Norðmenn tilkynntu það fyrir einhverjum áratug að þeir ætluðu að halda úti ívilnunarkerfi sem að myndi lifa væntanlega, ef ég man rétt, út árið 2025. Þeir hafa frá þeim tíma ekki gert grundvallarbreytingar á því kerfi og það er þá fólgið í vaskniðurfellingu, það er eftirgjöf á því sem mætti kalla ígildi vörugjalds hér og það í raun og veru hefur skilað rafbílakaupendum þar verulega hagstæðu verði.“

Kerfið í Noregi, segir Benedikt, er svipað og það var hér árið 2022 þegar ívilnanir voru hvað mestar. Eina ívilnunin hér núna er 900 þúsund króna styrkur úr Orkusjóði, á síðasta ári fyrir kaup á bíl upp að verðmæti tíu milljónir króna, en um áramótin hækkaði sú upphæð í tólf milljónir. Þá hafi hér bæst við kílómetragjald á rafbíla, sem ekki sé í Noregi og tiltölulega hátt bifreiðagjald. Breytingar sem hafi verið gerðar hafi verið óskynsamlegar, en fyrst og fremst skorti fyrirsjáanleika.

Fyrir áhugasama má sjá upphaflega frétt RÚV hér: Norðmenn auka hlutfall rafbíla.

Hátt matvælaverð og vannýtt tækifæri

Hátt matvælaverð og vannýtt tækifæri

Viðskiptablaðið birti 21.desember sl. grein eftir Kristinn Má Reynisson, lögfræðing SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu:

Þegar stjórnvöld vita betur

Þegar stjórnvöld eru innt eftir því hvers vegna matvælaverð er hærra á Íslandi en á víðast hvar á meginlandi Evrópu, ætti svarið að vera einfalt. Ísland er fámenn eyja á norðurhjara veraldar. Punktur! Ekkert annað ætti að geta útskýrt stöðuna. Við nánari skoðun kemur því miður í ljós að aðkoma stjórnvalda er meðal ástæðna fyrir þessum verðmun.

Virk samkeppni virkar

Eitt öflugasta verkfærið sem stjórnvöld hafa til að bæta hag neytenda er að tryggja virka samkeppni. Í virku samkeppnisumhverfi hagnast neytendur, því þeir geta valið hagstæðustu tilboðin, út frá verði og gæðum.

Framleiðendur keppast þá við að framleiða vöru eða þjónustu sem hefur ákjósanlegustu samsetningu verðs og gæða í augum neytenda. Sé samkeppni ekki til staðar, er hætt er við því að verð og gæði endi hins vegar í því sem hentar framleiðandanum best. Þetta er í hugum flestra nokkuð auðskilið. Og þess vegna er samkeppnislöggjöfinni ætlað að standa vörð um samkeppni, ekki einstaka samkeppnisaðila.

„Við nánari skoðun kemur því miður í ljós að aðkoma stjórnvalda er meðal ástæðna fyrir þessum verðmun.“ ~ Kristinn Már Reynisson

Hver kýs hærra matvælaverð?

Með því að leggja tolla á innflutta matvöru hamla stjórnvöld virkri samkeppni á grundvelli verðs og gæða. Sú afleiðing, að verð til neytenda hækki, er ekki hliðarvirkni af tollafyrirkomulagi, heldur bókstaflega tilgangur tolla.

„Með tollum á innflutta matvöru halda stjórnvöld því matvælaverði á Íslandi viljandi hærra en þörf krefur.“

Ólíklegt hlýtur að teljast að kjósendur í nýafstöðnum Alþingiskosningum hafi greitt hærra matvælaverði sitt atkvæði og því verður að spyrja hvers vegna stjórnvöld ættu að kjósa hærra matvælaverð til hins almenna borgara.

Alþjóðleg viðskipti eru forsenda lífsgæða á Íslandi

Þrátt fyrir að tollar hækki verð til neytenda á Íslandi eiga tollar sína fylgismenn. Sú afstaða er m.a. varin með þeim rökum að án verndartolla leggist íslensk framleiðsla af. Þetta útskýrir þó illa hvers vegna verndartollar eru á vörum sem ekki eru framleiddar á Íslandi. Eða hvers vegna íslensk framleiðsla hefur ekki hafist á vörum sem njóta nú þegar tollverndar. Líkast til er það vegna þess að tollar eru klunnalegt verkfæri sem getur aðeins hækkað verð, meðan hvatar til framleiðslu eru vandmeðfarnari nákvæmnistól.

Þá ber einnig að hafa í huga að frá því Ísland byggðist, hefur lykillinn að velsæld falist í viðskiptum við útlönd. Vissulega er Ísland og íslensk efnahagslögsaga gríðarlega rík af auðlindum. En þessar auðlindir eru hins vegar ekki mjög fjölbreyttar. Þess vegna hafa Íslendingar ávallt verið og munu líkast til ávallt verða, háðir því að flytja út eigin framleiðslu, sem gerir kleift að kaupa fjölbreyttari framleiðslu hvaðanæva að úr heiminum.

Virk samkeppni um að selja íslenska vöru út og erlenda vöru til Íslands ætti því að vera keppikefli íslenskra stjórnvalda, sem umhugað er um velsæld almennings.

Hræðsluáróður um að Ísland þurfi að vera sjálfbært um allar lífsins nauðsynjar, og að án tolla á innfluttan varning verði því markmiði stefnt í hættu, stenst ekki skoðun. Sér í lagi vegna þess að hversu óraunhæft slíkt markmið er. Til að taka slíkan áróður trúanlegan þarf því að horfa frekar valkvætt bæði á Íslandsöguna og meginkenningar hagfræðinnar.

Þegar horft er til þess að það er íslenskur almenningur sem á endanum fjármagnar tolla á matvöru, hlýtur að mega krefja stjórnvöld um útskýringar á því hvers vegna hefðbundnar hagfræðikenningar um hagkvæmni og virka samkeppni skuli ekki eiga við um matarinnkaup almennings.

Gegn betri vitund

Því miður er ástæðan fyrir því að matvælaverð er hærra á Íslandi en á meginlandi Evrópu, ekki aðeins sú að við búum á fámennri eyju á norðurhjara veraldar, heldur er skýringa einnig að leita hjá stjórnvöldum og þeirri meðvituðu ákvörðun að nýta ekki til fulls það augljósa verkfæri sem virk samkeppni er. Stjórnvöld ættu að vita betur.

Sjá grein á VB.is HÉR!