15/09/2022 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Vísir [umræðan] birtir í dag grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann Samtaka verslunar og þjónustu og Egil Jóhannsson, forstjóra Brimborgar undir heitinu: „Ríkisstjórn Íslands leggst gegn hröðum orkuskiptum – eða hvað?“
Þar benda þeir m.a. á að Ísland hefur skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar um 29% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sett fram enn metnaðarfyllra landsmarkmið um 55% samdrátt. Það þýðir að draga þarf úr losun um 1,3 milljónir tonna koltvísýringsígilda (CO2í) á næstu 8 árum. Að auki hefur kolefnishlutleysi árið 2040 verið lögfest.
En aðgerðir stjórnvalda hafa undanfarið ekki verið í neinu samræmi við skuldbindingar og metnaðarfull markmið. Á ríkið getur fallið kostnaður sem nemur allt að 10 milljörðum kr. á ári náist samdráttarskuldbindingar ekki í tæka tíð og í því samhengi er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt fjármálafrumvarpinu sem lagt var fram í vikunni áformar ríkið að greiða 800 milljónir kr. í ljósi vanefnda á þessu sviði. Nýkynnt fjárlagafrumvarp varpar ljósi á áform sem munu vinna harkalega gegn því að við stöndum við skuldbindingar. Allt útlit er fyrir að útsöluverð rafbíla muni hækka um þriðjung á næsta ári vegna aðgerða stjórnvalda.
LESA ALLA GREININA HÉR
14/09/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Stjórnvöld
Verulegar breytingar á smásöluumhverfi nikótínvara (m.a. nikótínpúða), rafrettna og áfyllingar fyrir þær.
Upplýsingar frá lögfræðisviði SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
Hinn 24. júní síðastliðinn voru gerðar töluverðar breytingar á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018.
Með breytingunum voru nikótínvörur * felldar undir löggjöf um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Undir lok ágústmánaðar setti heilbrigðisráðherra tvær reglugerðir sem útfæra breytingarnar nánar.
Í sem allra stystu máli munu smásöluaðilar þurfa að takast á við eftirfarandi meginbreytingar:
- Öllum þeim sem hyggjast halda áfram smásölu varanna eða hefja slíka sölu er skylt að sækja um sérstakt smásöluleyfi hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Sækja þarf sérstaklega um leyfi fyrir hvern sölustað og mun kostnaður vegna hverrar leyfisveitingar nema 72.864 kr.
- Aðeins verður heimilt að selja í smásölu vörur sem hafa innflytjendur eða framleiðendur hafa tilkynnt til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
- Einungis verður heimilt að selja nikótínvörur sem innihalda að hámarki 20 mg/g af nikótíni.
- Smásöluaðilar munu sæta markaðseftirliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Stofnunin mun innheimta eftirlitsgjald í kjölfar eftirlitsferðar sem nemur 18.216 kr. á klst. auk tilfallandi kostnaðar á borð við ferðakostnað.
Eftirfarandi eru vefslóðir á þær reglugerðir sem hafa verið settar:
Til upplýsingar munu kröfur um merkingar varanna taka gildi hinn 1. desember nk. Þó hefur skylda til að tilgreina hlutfall nikótíns í mg/g og magn nikótíns í hverjum skammti eða púða, á einingapökkum og öllum ytri umbúðum nikótínvara, þegar tekið gildi.
Viðtakendur eru hvattir til að kynna sér efni reglugerðanna vel.
Búist er við því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun muni birta ýmsar upplýsingar á vefsvæði sínu, hms.is.
Nánari upplýsinga má leita hjá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ, benedik(hjá)svth.is, s. 864-9136.
* Vörur sem innihalda nikótín, hvort sem nikótínið er unnið úr tóbaki eða ekki, og varan inniheldur að öðru leyti ekki efni sem unnin eru úr tóbaki, t.d. nikótínpúði, en er ekki til innöndunar
13/09/2022 | Fréttir, Greining, Greiningar, Verslun
Kortavelta erlendra ferðamanna aldrei mælst hærri samkvæmt nýjustu skýrslu ágúst mánaðar frá Rannsóknasetri verslunarinnar sem kom út á dögunum.
Kortavelta erlendra ferðamanna hefur aldrei mælst hærri en í ágúst sl. og nam hún rúmum 37,9 milljörðum kr. Veltan jókst um tæp 7,3% á milli mánaða en um 56,8% á milli ára. Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var 30,3% í ágúst sl. sem er næstum jafnt því sem var í ágúst 2019, en sama hlutfall var þá tæp 30,6%.
Netverslun heldur áfram að aukast og þá mesti í flokki stórmarkaða og dagvöruverslana en þar jókst hún um tæp 37,9% frá fyrra ári.
SJÁ NÁNAR HÉR!
05/09/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir
FRÉTTATILKYNNING
Neytendasamtökin, SAF – Samtök ferðaþjónustunnar og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa sent erindi til fjármála- og efnahagsráðherra þar sem farið er fram á að hann beiti sér fyrir niðurfellingu tolla sem lagðir eru á við innflutning á frönskum kartöflum.
Í ljósi þess að framleiðsla franskra kartaflna hefur verið hætt á Íslandi eru ekki lengur til staðar þær verndarforsendur sem liggja til grundvallar 46–76% verðtolli sem lagður er á við slíkan innflutning.
Hagsmunir neytenda, verslana og ferðaþjónustunnar fara saman þegar kemur að niðurfellingu tollanna. Niðurfellingin kemur neytendum til góða þar sem hún stuðlar að lægra vöruverði. Hún kemur versluninni til góða þar sem hún veitir henni færi á að kaupa franskar kartöflur frá fleiri ríkjum en þeim sem falla undir gildandi fríverslunarsamninga og stuðlar þannig bæði að aukinni verðsamkeppni og bættu framboði. Veitingamenn selja töluvert af frönskum kartöflum til viðskiptavina sinna og ætti niðurfellingin að veita þeim tækifæri til verðlækkana sem munu í einhverjum mæli bæta samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu gagnvart erlendri.
Tolltekjur ríkisins af frönskum kartöflum virðast hafa numið um 300 millj. kr. á síðasta ári. Það nemur rúmum 7% allra tolltekna það ár en þó aðeins 0,04% heildarskatttekna ríkisins 2021. Það er ljóst að tekjurnar ríða ekki baggamuninn þegar að tekjuöflun ríkisins kemur. Hins vegar skiptir hver króna máli fyrir mörg heimili í landinu um þessar mundir og ætti niðurfellingin að hafa jákvæð áhrif á verðbólguþróun.
Samtökin hafa m.a. farið fram á að ráðherra svari erindinu og lýsi afstöðu sinni telji hann sér ekki fært að verða við beiðni samtakanna.
05/09/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum
VISIR.IS birtir í dag grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni: „Konungurinn gerir ekki rangt“.
Þar segir Andrés;
Umfang hins opinbera í efnahagslífinu er verulegt og hefur, samkvæmt upplýsingum frá OECD, aukist nokkuð hratt frá árinu 2016. Óvíða er þó umfang hins opinbera meira en í heilbrigðiskerfinu. Nýverið höfum við tekist á við áskoranir þar sem mjög reyndi á heilbrigðiskerfið og innviði þess. Nú þegar allt bendir til þess að við komum út úr þeirri áraun standandi hefur stjórnendum og starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu með réttu verið hampað og þökkuð vel unnin störf við erfiðar aðstæður.
Við megum þó ekki gleyma okkur í neinum fagnaðarlátum. Það virðist stöðugt þurfa að minna á að gagnsæi og heiðarleiki eru grundvallaratriði í skipulagi og starfi handhafa ríkisvaldsins. Þeim sem fara með opinbert vald ber að halda þessi grundvallaraatriði í heiðri í öllum sínum störfum. Það á einnig við um stjórnendur í heilbrigðiskerfinu og eftirlitsstofnanir þess.
Embætti landlæknis
Hinn 22. ágúst síðastliðinn birti embætti landlæknis yfirlýsingu þar sem fram kom að það hefði stefnt einkafyrirtæki fyrir dómstóla. Eyddi embættið mörgum orðum í að réttlæta aðgerðina. Fluttar voru fréttir af yfirlýsingunni sem birtust víða. Rétt er að taka fram að málatilbúnaður embættisins snýr m.a. að því að fyrirtækið hafi runnið út á fresti til að kæra málið til kærunefndar útboðsmála og því hafi nefndin ekki mátt taka kæru þess til umfjöllunar. Það vekur sérstaka athygli að embætti landlæknis kýs að senda frá sér opinbera yfirlýsingu í tilefni af stefnunni enda er það ekki almennur vani hjá opinberum stofnunum að senda út yfirlýsingar af slíku tilefni. Menn geta svo spurt hver ástæðan er!
Í þessu samhengi er rétt að nefna að fjölmiðlafólk, einstaklingar og fyrirtæki hafa ítrekað þurft að leita til úrskurðarnefndar upplýsingamála til að fá aðgang að gögnum landlæknisembættisins, m.a. samningum sem það er aðili að. Í einum úrskurðinum segir m.a.: Það er afstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið sýnt fram á að þær upplýsingar sem fram koma í samstarfssamningnum séu til þess fallnar að valda […] tjóni verði þær gerðar opinberar. Þá lítur nefndin til þess að um er að ræða upplýsingar sem lúta með beinum hætti að ráðstöfun opinberra fjárhagslegra hagsmuna. Að undanförnu hafa Samtök verslunar og þjónustu, fyrir hönd aðildarfyrirtækja sinna, sent embættinu beiðni um upplýsingar. Efnisleg svör hafa ekki borist.
Landspítali
Landspítalinn er langstærsti veitandi heilbrigðisþjónustu í landinu. Spítalinn er í ljósi stærðar sinnar stærsti og jafnvel eini viðskiptavinur margra fyrirtækja sem starfandi eru á heilbrigðissviðinu, bæði sem birgjar og þjónustuveitendur. Mörg þeirra eru aðildarfyrirtæki Samtaka verslunar og þjónustu. Þó að samskiptin hafi breyst til batnaðar hafa samtökin oftlega þurft að aðstoða fyrirtækin vegna viðskipta þeirra við Landspítalann, einkum vegna aðstæðna sem rekja má til þeirrar yfirburðarstöðu sem spítalinn hefur sem kaupandi vöru eða þjónustu.
Fjárfrekur málaflokkur
Innkaup hins opinbera eru umfangsmikil, ekki síst á sviði heilbrigðismála. Miklir fjármunir renna til málaflokksins, enda eru útgjöld til heilbrigðismála stærsti útgjaldaliður hin opinbera. Ákvæðum laga um opinber innkaup er bæði ætlað að stuðla að hagkvæmum innkaupum og virkri samkeppni. Í eðli sínu geta innkaupin talist ígildi úthlutunar takmarkaðra gæða. Því hefur verið
lagt kapp á að veita fyrirtækjum rétt til að láta reyna á hvort rétt hafi verið að innkaupum staðið. Það eru hagsmunir allra að bæði fyrirtækin og hið opinbera nái sem bestri niðurstöðu.
Eitt er að handhafar ríkisvaldsins vilji gera góð kaup eða séu ósáttir við lagatúlkun og leiti leiða til að fá hana endurskoðaða. Farvegur fyrir slíkt er til staðar og er öllum kunnur. Annað er þegar því fylgja orð og athafnir sem hafa það yfirbragð að þeir átti sig hvorki á stöðu sinni né beri virðingu fyrir mögulegum viðsemjendum sínum. Í því endurspeglast hið forna viðhorf að konungurinn gerir ekki rangt.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
LESA GREININA INNÁ VÍSIR.IS
01/09/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Samtök sjálfstæðra skóla
RÚV birtir í dag úrtekt frá yfirlýsingu Samtaka sjálfstæðra skóla sem undrast að ekki hafi verið leitað til þeirra vegna úttektar innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum. Í úttektinni segir meðal annars að nokkrir sjálfstætt starfandi leikskólar greiði út umtalsverðan arð af starfsemi sinni og að engar reglur séu um nýtingu opinberra framlaga og rekstrarafgang þessara skóla. Alma Guðmundsdóttir, stjórnarformaður samtakanna, segir dæmi um rangfærslu í úttektinni.
Þar kemur m.a. fram að Alma segir að best hefði verið ef Reykjavíkurborg hefði borið athugasemdir í úttektinni undir skólana sjálfa áður en hún var birt. Úttektin var gerð í mars. Í henni eru gerðar alvarlegar athugasemdir við háar arðgreiðslur einkarekinna leikskóla.
Alma segir að heppilegra hefði verið að ræða beint við þá skóla sem athugasemdir snúa að, til að leita skýringa, áður en úttektin var birt.
„Í tilviki eins skóla er hreinlega verið að segja rangt frá. Það er vísað í ólöglegan gjörning en engra skýringa leitað.“ Alma segist þó ekki geta tjáð sig um einstaka skóla. Hún telur að það hefði verið heillavænlegt hjá innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar að vera í sambandi við samtökin og einstaka skóla til að dýpka úttektina.
Alma segir að jafnvel þótt athugasemd feli ekki í sér rangfærslu, gætu verið eðlilegar skýringar á málinu og skólinn ekki að misnota fjárveitingar borgarinnar. „Í allri umfjöllun er verið að ýja að því að verið sé að fara illa með almannafé.“
Í yfirlýsingu Samtaka sjálfstæðra skóla segjast samtökin fagna málefnalegri umfjöllun „sem kallar bæði á að fyrir liggi gagnsæjar og skýrar reglur og að í samskiptum Reykjavíkurborgar og leikskóla innan borgarinnar liggi fyrir skýr markmið, mælikvarðar og aðgerðir.“
SMELLIÐ HÉR TIL AÐ LESA ALLA FRÉTTINA