Orkukreppan í Evrópu leikur fyrirtæki í verslun grátt.

Orkukreppan í Evrópu leikur fyrirtæki í verslun grátt.

Orkukreppan sem nú gengur yfir í Evrópu, hefur þegar kveikt á aðvörunarbjöllum hjá fyrirtækjum í verslun, bæði í smásölu og heildsölu. Að mati EuroCommerce, Evrópusamtaka verslunarinnar, mun fjöldi fyrirtækja í greininni stefna í alvarlega rekstrarerfiðleika af völdum orkukreppunnar, komi ekki til opinber aðstoð í einhverri mynd. EuroCommece vekur sérstaka athygli á að í húfi sé framtíð þeirra 5 milljóna fyrirtækja sem starfandi eru í smásölu og heildsölu í álfunni. Þessi fyrirtæki hafa um 26 milljónir starfsmanna, en verslunin er sú atvinnugrein sem veitir flestu fólki vinnu í Evrópu. Um 12% vinnuafls í álfunni starfa við verslun.

Í könnun sem EuroCommerce gerði meðal aðildarfyrirtækja sinna kemur fram að orkukostnaður verslunarfyrirtækja hefur í sumum löndum fjórfaldast á stuttum tíma, eða frá því að stríð braust út í Úkraínu í febrúar s.l. Að mati samtakanna er mikilvægt að veita fyrirtækjum í verslun aðstoð á sama hátt og fyrirtækjum í ýmsum öðrum atvinnugreinum, sem þegar hefur verið veitt umtalsverð opinber aðstoð í einstökum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Ákall EuroCommerce til framkvæmdastjórnarinnar og stjórnvalda í einstökum aðildarríkjum, er því að komið verði til móts við fyrirtæki í verslun á þessum sérstöku tímum. Samtökin leggja áherslu á að þar verði um tímabundna aðgerð að ræða, sem gangi til baka þegar orkumarkaðurinn hefur náð jafnvægi á ný. Samtökin daga sérstaklega fram mikilvægi verslunarinnar sem tengiliðarins milli framleiðenda og neytenda, þannig að ef vegið verður að rekstrargrunvelli fyrirtækja í verslun, muni slíkt hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir afkomu heimilanna.

Sú staða staða sem er uppi í orkumálum í Evrópu varpar skýru ljósi á þá öfundsverðu stöðu sem við Íslendingar erum í að þessu leyti.

Nánar má sjá umfjöllun EuroCommerce á meðfylgjandi tengli:https://www.eurocommerce.eu/2022/09/retail-and-wholesale-and-the-energy-crisis-an-urgent-need-for-support/ 

Umhverfisdagur atvinnulífsins 5.október 2022

Umhverfisdagur atvinnulífsins 5.október 2022

Auðlind vex af auðlind

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2022 verður haldinn miðvikudaginn 5. október í Hörpu Norðurljósum kl. 09:00-10.30 undir yfirskriftinni Auðlind vex af auðlind.

Húsið opnar kl. 08:30 með morgunhressingu.

Dagurinn er árviss viðburður og að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Dagskrá umhverfisdagsins 5. október lýkur með afhendingu Umhverfisverðlauna atvinnulífsins og við tekur tengslamyndun og léttar veitingar fyrir fundargesti til kl. 11:00.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins í ár verða veitt fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel í umhverfismálum. Veitt verða tvenn verðlaun. Annars vegar verðlaun fyrir umhverfisfyrirtæki ársins og hins vegar framtak ársins. Venju samkvæmt afhendir forseti Íslands Umhverfisverðlaun atvinnulífsins.

Í tengslum við Umhverfisdag atvinnulífsins er allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og þá sér í lagi hringrásarhagkerfinu.

Hringrásarhagkerfið snýst um hvernig nýta má hráefni á sem skilvirkastan hátt og fyrirbyggja t.a.m. sóun og losun gróðurhúsalofttegunda með breyttum áherslum í vöru- og þjónustuhönnun. Rannsóknir sýna að búast má við að hringrásarhagkerfinu fylgi jákvæð áhrif á efnahagslífið og landsframleiðslu. Einnig má búast við aukinni samkeppnishæfni hagkerfisins.

Smelltu HÉR fyrir nánari dagskrá og skráningu.

Umhverfisdagur 2022 dagskrá

Frá lögfræðisviði SVÞ | Hækkun úrvinnslugjalds framundan

Frá lögfræðisviði SVÞ | Hækkun úrvinnslugjalds framundan

Um þessar mundir er frumvarp til fjárlaga 2023 til umfjöllunar á Alþingi. Því fylgir svokallaður bandormur sem inniheldur tillögur um breytingar á ýmsum skattalögum. Meðal þeirra atriða sem eru til umfjöllunar í bandorminum eru breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds.

Næstu áramót taka gildi lög sem hafa það í för með sér að Evrópuskuldbindingar sem snúa að hringrásarhagkerfinu verða innleiddar í innlendan rétt. Í þeim felst m.a. að lögð verður skylda á innflytjendur og framleiðendur ýmissa vara til að fjármagna úrvinnslu úrgangs fleiri vöruflokka en áður. Jafnframt ber þessum aðilum að fjármagna sérstaka söfnun heimilisúrgangs en samhliða verða merkingar sorptunna samræmdar um allt land, þeim fjölgað, ásamt fjölgun íláta á grenndarstöðvum.

Af bandorminum leiðir að í farvatninu er umtalsverð hækkun úrvinnslugjalds sem er annars vegar er lagt á innflutning samhliða tollafgreiðslu vara og hins vegar á innlenda framleiðslu. Eru dæmi um að hækkun muni í tilviki nokkurra vöruflokka verða allt að þreföld. Grundvallast hækkunin á mati Úrvinnslusjóðs á væntum kostnaðarauka sem innleiðing hringrásarhagkerfisins hefur í för með sér.

Rétt er að taka fram að frekari breytinga er að vænta á næstunni þar sem Evrópuskuldbindingarnar fela m.a. í sér skyldu aðildarríkjanna til að aðlaga gjaldhæð úrvinnslugjalds að endurnýtingar- og endurvinnslumöguleikum vara.

Skrifstofa SVÞ hyggst á næstunni boða til félagsfundar þar sem framangreindar breytingar og forsendur þeirra verða kynntar. Meira um það síðar.

Nánari upplýsingar veitir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, benedikt(hjá)svth.is, s. 864-9136.

 

Ríkisstjórn Íslands leggst gegn hröðum orkuskiptum – eða hvað?

Ríkisstjórn Íslands leggst gegn hröðum orkuskiptum – eða hvað?

Vísir [umræðan] birtir í dag grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann Samtaka verslunar og þjónustu og Egil Jóhannsson, forstjóra Brimborgar undir heitinu: „Ríkisstjórn Íslands leggst gegn hröðum orkuskiptum – eða hvað?“

Þar benda þeir m.a. á að Ísland hefur skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar um 29% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sett fram enn metnaðarfyllra landsmarkmið um 55% samdrátt. Það þýðir að draga þarf úr losun um 1,3 milljónir tonna koltvísýringsígilda (CO2í) á næstu 8 árum. Að auki hefur kolefnishlutleysi árið 2040 verið lögfest.

En aðgerðir stjórnvalda hafa undanfarið ekki verið í neinu samræmi við skuldbindingar og metnaðarfull markmið. Á ríkið getur fallið kostnaður sem nemur allt að 10 milljörðum kr. á ári náist samdráttarskuldbindingar ekki í tæka tíð og í því samhengi er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt fjármálafrumvarpinu sem lagt var fram í vikunni áformar ríkið að greiða 800 milljónir kr. í ljósi vanefnda á þessu sviði. Nýkynnt fjárlagafrumvarp varpar ljósi á áform sem munu vinna harkalega gegn því að við stöndum við skuldbindingar. Allt útlit er fyrir að útsöluverð rafbíla muni hækka um þriðjung á næsta ári vegna aðgerða stjórnvalda.

LESA ALLA GREININA HÉR

Frá lögfræðisviði SVÞ | Hækkun úrvinnslugjalds framundan

Frá lögfræðisviði SVÞ | Verulegar breytingar á smásöluumhverfi nikótínvara.

Verulegar breytingar á smásöluumhverfi nikótínvara (m.a. nikótínpúða), rafrettna og áfyllingar fyrir þær.

Upplýsingar frá lögfræðisviði SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

Hinn 24. júní síðastliðinn voru gerðar töluverðar breytingar á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018.
Með breytingunum voru nikótínvörur * felldar undir löggjöf um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Undir lok ágústmánaðar setti heilbrigðisráðherra tvær reglugerðir sem útfæra breytingarnar nánar.

Í sem allra stystu máli munu smásöluaðilar þurfa að takast á við eftirfarandi meginbreytingar:

  1. Öllum þeim sem hyggjast halda áfram smásölu varanna eða hefja slíka sölu er skylt að sækja um sérstakt smásöluleyfi hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Sækja þarf sérstaklega um leyfi fyrir hvern sölustað og mun kostnaður vegna hverrar leyfisveitingar nema 72.864 kr.
  2. Aðeins verður heimilt að selja í smásölu vörur sem hafa innflytjendur eða framleiðendur hafa tilkynnt til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
  3. Einungis verður heimilt að selja nikótínvörur sem innihalda að hámarki 20 mg/g af nikótíni.
  4. Smásöluaðilar munu sæta markaðseftirliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Stofnunin mun innheimta eftirlitsgjald í kjölfar eftirlitsferðar sem nemur 18.216 kr. á klst. auk tilfallandi kostnaðar á borð við ferðakostnað.

Eftirfarandi eru vefslóðir á þær reglugerðir sem hafa verið settar:

Til upplýsingar munu kröfur um merkingar varanna taka gildi hinn 1. desember nk. Þó hefur skylda til að tilgreina hlutfall nikótíns í mg/g og magn nikótíns í hverjum skammti eða púða, á einingapökkum og öllum ytri umbúðum nikótínvara, þegar tekið gildi.

Viðtakendur eru hvattir til að kynna sér efni reglugerðanna vel.

Búist er við því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun muni birta ýmsar upplýsingar á vefsvæði sínu, hms.is.
Nánari upplýsinga má leita hjá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ, benedik(hjá)svth.is, s. 864-9136.

* Vörur sem innihalda nikótín, hvort sem nikótínið er unnið úr tóbaki eða ekki, og varan inniheldur að öðru leyti ekki efni sem unnin eru úr tóbaki, t.d. nikótínpúði, en er ekki til innöndunar

Netverslun stórmarkaða og dagvöruverslana jókst um 37,9% frá fyrra ári!

Netverslun stórmarkaða og dagvöruverslana jókst um 37,9% frá fyrra ári!

Kortavelta erlendra ferðamanna aldrei mælst hærri samkvæmt nýjustu skýrslu ágúst mánaðar frá Rannsóknasetri verslunarinnar sem kom út á dögunum.

Kortavelta erlendra ferðamanna hefur aldrei mælst hærri en í ágúst sl. og nam hún rúmum 37,9 milljörðum kr. Veltan jókst um tæp 7,3% á milli mánaða en um 56,8% á milli ára. Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var 30,3% í ágúst sl. sem er næstum jafnt því sem var í ágúst 2019, en sama hlutfall var þá tæp 30,6%.

Netverslun heldur áfram að aukast og þá mesti í flokki stórmarkaða og dagvöruverslana en þar jókst hún um tæp 37,9% frá fyrra ári.

SJÁ NÁNAR HÉR!