Öflug ný stjórn í stafræna hópnum

Öflug ný stjórn í stafræna hópnum

Aðalfundur faghópsins Stafræn viðskipti á Íslandi fór fram í gær, 27. október.

Á fundinum fór fráfarandi formaður, Bragi Þór Antoníusson, yfir skýrslu stjórnar, þar sem m.a. kom fram að vinna við undirbúning reglulegra netverslunarrannsóknar hefur staðið yfir um nokkurn tíma með Rannsóknarsetrið verslunarinnar, rætt var um hlutverk Tækniþróunarsjóðs, lögð var áhersla á að stafræn færni væri samofin allri menntun og rakinn var undanfari að sameiginlegri hvatningu og tillögum SVÞ og VR til stjórnvalda, sem send var út sama dag.

Því næst kynnti Þóranna K. Jónsdóttir, verkefnastjóri yfir málum tengdri stafrænni þróun innan SVÞ, hvatninguna og tillögurnar og má sjá þá kynningu í myndbandinu hér fyrir neðan. Frekari upplýsingar um kynninguna, auk ítarlegrar greinargerðar sem með henni fylgir, má sjá á svth.is/hvatning-2020.

Að lokum var kjörin ný stjórn, en í henni sitja:

Edda Blumenstein, beOmni – formaður
Ósk Heiða Sveinsdóttir, Pósturinn
Hannes A. Hannesson, TVGXpress
Hanna Kristín Skaftadóttir, Poppins & Partners
Dagný Laxdal, Já
Guðmundur Arnar Þórðarson, Intellecta (varamaður)
Hörður Ellert Ólafsson, Koikoi (varamaður)

SVÞ og VR hvetja stjórnvöld til stefnumótunar og aðgerða í stafrænum málum

SVÞ og VR hvetja stjórnvöld til stefnumótunar og aðgerða í stafrænum málum

SVÞ og VR sendu í dag hvatningu og tillögur til stjórnvalda um stefnumótun og aðgerðir í stafrænum málum. 

Heimsfaraldur COVID-19 hefur hraðað stafrænni þróun gríðarlega og ýtir enn frekar undir það bil sem þegar var farið að myndast meðal þeirra sem hafa og ekki hafa stafræna hæfni, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða einstaklinga. Einnig hafa fjölmargir aðilar, á borð við OECD, World Economic Forum og Sameinuðu þjóðirnar, lýst því yfir að faraldurinn hafi aukið enn á mikilvægi þess að brúa hið stafræna bil og að stafræn þróun muni leika lykilhlutverk við að koma efnahagskerfum heimsins úr kórónuveirukreppunni. 

Í hvatningunni lýsa SVÞ og VR miklum áhyggjum af stöðu stafrænnar þróunar í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði og skorti á stafrænni hæfni. Í greinargerð með tillögunum er m.a. vitnað í alþjóðlegar rannsóknir sem sýna að Ísland er að dragast verulega aftur úr þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við, ekki síst Norðurlandaþjóðunum, sem allar eru í fararbroddi í stafrænni þróun á heimsvísu. Þá er einnig bent á að mikil tækifæri séu til norræns samstarfs á þessu sviði og eru SVÞ og VR til að mynda þegar búin að koma á samstarfi við öfluga norræna aðila, m.a. um samstarf við Stafrænt hæfnisetur, sem er einn hluti af tillögum þeirra. 

Lesa má hvatninguna í heild sinni hér.

Lagðar eru fram fimm tillögur til að hraða stafrænni þróun hjá íslenskum fyrirtækjum og starfsfólki: 

  • Komið verði á samstarfsvettvangi stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífs, vinnumarkaðar og háskólasamfélags til að vinna að öflugri stafrænni framþróun í íslensku samfélagi og atvinnulífi,   
  • Mótuð verði heildstæð stefna í stafrænum málum fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf og farið í markvissar aðgerðir til að stuðla að stafrænni framþróun,   
  • Sett verði á fót Stafrænt hæfnisetur til eflingar stafrænni hæfni í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði, 
  • Skattfrádráttur rannsóknar- og þróunarverkefna verði útvíkkaður til að ná til stafrænna umbreytingaverkefna,
  • Áhersla verði lögð á það í menntastefnu og aðgerðum að efla stafræna færni á öllum skólastigum. 

Þegar er hafið samtal við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og menntamálaráðuneytið og undirbúningur að Stafrænu hæfnisetri er hafinn í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. 

Tillögurnar verða kynntar frekar á aðalfundi faghópsins Stafræn viðskipti á Íslandi sem fram fer í dag og verður sá hluti fundarins sýndur í beinni útsendingu í Facebook hóp SVÞ sem helgaður er stafrænum málum hér.

Nánari upplýsingar um tillögurnar, og greinargerð sem þeim fylgir má lesa hér fyrir neðan:

Click to read Stafræn þróun – hvatning til stjórnvalda

Formaðurinn í Bítinu um eflingu stafrænnar hæfni

Formaðurinn í Bítinu um eflingu stafrænnar hæfni

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, var í Bítinu hjá Heimi og Gulla í morgun þar sem hann ræddi þörfina til að efla Ísland í stafrænni þróun, ekki síst stafrænni hæfni. Ísland stendur mun aftar en mörg þau lönd sem við berum okkur saman við, s.s. Norðurlöndin og ýmis lönd í Vestur-Evrópu og þörf er á því að fara í heildstæða stefnumótun og markvissar aðgerðir til að taka á þessum málum.

SVÞ og VR munu á morgun senda hvatningu og tillögur til ríkisstjórnarinnar um stefnumótun og aðgerðir í stafrænum málum. Á aðalfundi faghópsins Stafræn viðskipti á Íslandi, sem haldin verður í fyrramálið, verður sú hvatning og þær tillögur kynntar og verður sá hluti fundarinns í beinni útsendingu í stafrænum hóp SVÞ á Facebook hér frá 8:30 til ca. 9:30

Hlusta má á viðtalið hér fyrir neðan: