02/07/2020 | Fréttir, Greinar, Stjórnvöld
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið, 2. júlí:
Það er almennt talið góð leið til árangurs í rekstri að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni. Þetta á við um allan rekstur hvort sem hann er á vegum hins opinbera og einkafyrirtækja. Það getur t.d. ekki talist kjarnastarfsemi sveitarfélaga að annast þrif á húsnæði í eigu viðkomandi sveitarfélags. Sama lögmál gildir um starfsemi einkafyrirtækja, enda fela þau flest sérhæfðum fyrirtækjum að annast slíkt fyrir sig, m.ö.o þau útvista þrifunum.
Þetta fyrirkomulag er eiginlega svo sjálfsagt að það ætti ekki að þurfa að nefna það. Enda gera flestir atvinnurekendur sér grein fyrir að það felst í því veruleg hagræðing að kaupa þjónustu af aðilum sem hafa sérhæft sig á tilteknum sviðum. Gildir þar einu hvort um er að ræða starfsemi á borð við þrif, bókhald, hugbúnaðarþjónustu, vöruflutninga eða starfsmannaráðningar.
Það er nú samt einhvern veginn þannig að pólitísk umræða um þessi mál nær aldrei neinu flugi. Þeir sem aðhyllast ríkisumsvif eru vafalaus mjög sáttir við það. Á hinn bóginn hlýtur það að umhugsunarefni fyrir alla þá sem draga vilja úr umsvifum hins opinbera, hversu hægt miðar. Það virðist alls ekki eftirsóknarvert að setja þessi mál á oddinn í pólitískri umræðu, sem leiðir til þess að allar breytingar á þessu sviði gerast á hraða snigilsins.
Í þessu sambandi er ástæða til að rifja upp að árið 2006 höfðu þáverandi stjórnvöld uppi háleitar hugmyndir um útvistun verkefna frá hinu opinbera til einkaaðila. Þar voru sett metnaðarfull markmið. Síðan eru liðin fjórtán ár. Á þessum árum hefur það helst gerst að umsvif hins opinbera hafa aukist verulega og meiri tregða en nokkru sinni fyrr er á að fela einkafyrirtækjum verkefni sem eru betur komin þar en hjá hinu opinbera.
Innan Samtaka verslunar og þjónustu er fjöldinn allur af fyrirtækjum sem eru sérhæfð á þeim sviðum sem hér um ræðir. Þessi fyrirtæki eru meira en tilbúin til að taka þessi verkefni að sér, sannfærð um að í felist veruleg hagræðing og góð nýting á almannafé. Nú styttist óðum í næstu alþingiskosningar. Þá gefst þeim stjórnmálamönnum sem draga vilja úr opinberum umsvifum enn eitt tækifærið til að sýna hvað í þeim býr með því að setja raunhæf markmið um tilfærslu verkefna frá hinu opinbera til einkafyrirtækja.
30/06/2020 | Fréttir, Stjórnvöld
Forystufólk úr atvinnulífinu fundaði í gær með Guðlaugi Þór Þórðarssyni utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um fríverslunarviðræður Íslands, Noregs og Liechtenstein við Bretland. Samtök atvinnulífsins boðuðu til umræðnanna að ósk Guðlaugs Þórs. Brýnt er að samkomulag náist um nýjan fríverslunarsamning áður en Bretland hverfur úr EES samningnum, sem verður að óbreyttu þann 31. janúar næstkomandi.
„Samtök atvinnulífsins fagna því frumkvæði utanríkisráðherra að efna til virks samtals við atvinnulífið um hvernig hag íslenskra fyrirtækja sé best borgið í nýjum fríverslunarsamningi við Breta í kjölfar Brexit. Samstarfið hefur verið árangursríkt og verið byggt á þeirri forsendu að tryggja útflutningshagsmuni Íslands með sem bestum hætti. Ljóst er að í samningnum er feiknarlega mikið í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf og því til mikils að vinna að hafa fengið hagaðila snemma að borðinu nú þegar fríverslunarviðræður eru að bresta á,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, en samráð atvinnulífsins og stjórnvalda hefur staðið yfir síðan stuttu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um útgöngu úr ESB í júní 2016.
Fyrir hönd atvinnulífsins sátu fundinn Helga Árnadóttir og Halldór Benjamín Þorbergsson fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, Guðrún Jóhannesdóttir og Andrés Magnússon fyrir hönd Samtaka verslunar og þjónustu, Ingibjörg Ólafsdóttir og Jóhannes Þór Skúlason fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar, Árni Sigurjónsson og Sigríður Mogensen fyrir hönd Samtaka iðnaðarins, Ægir Páll Friðbertsson og Heiðrún Lind Marteinsdóttir fyrir hönd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Katrín Júlíusdóttir fyrir hönd Samtaka fjármálafyrirtækja, og Páll Erland fyrir hönd Samorku. Fyrir hönd utanríkisráðuneytisins sátu fundinn, auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Sturla Sigurjónsson, Þórir Ibsen, Borgar Þór Einarsson og Ögmundur Hrafn Magnússon.
26/06/2020 | Fréttir, Greining
Birt hefur verið samantekt á verðlagsbreytingum fyrir júní 2020. Í samantektinni má sjá verðlagsþróun nokkurra flokka afurða á neytenda- og þáttamarkaði.
22/06/2020 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Eftirfarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, birtist í Morgunblaðinu í dag, 22. júní:
Ánægjulegur viðsnúningur
Verslunin fór ekki varhluta af afleiðingum samkomubannsins sem sett var þegar útbreiðsla kórónuveirunnar stóð sem hæst. Verulegur samdráttur mældist í einkaneyslu bæði í mars og apríl miðað við sömu mánuði árið áður. Þetta kom engan veginn á óvart enda lá þjóðfélagið meira og minna í dvala á þessum tíma.
Það er þess vegna ánægjulegt að sjá hversu viðsnúningurinn er afgerandi nú þegar slakað hefur verið á samkomubanni og lífið að verulegu leyti að sækja í eðlilegt horf. Velta innlendra greiðslukorta í maí sýnir svo ekki verður um villst að áfram er sterkur kaupmáttur meðal þorra almennings.Við Íslendingar höfum áður sýnt hvað í okkur býr þegar á móti blæs og bendir allt til að við ætlum einnig að sýna það núna. Við erum ólm í að mála húsin okkar og smíða palla við sumarbústaðina og svo þykir okkur áfram gott að gera vel við okkur í mat og drykk. Allt þetta lýsir íslenskri þjóðarsál vel og sýnir að sennilega erum við einfaldlega sterkust þegar mest á reynir.
Það er ljóst að vilji landans til að ferðast erlendis verður takmarkaður á þessu ári. Önnur hagkerfi munu því ekki njóta einkaneyslu okkar íslendinga í sama mæli og áður. Þetta hjálpar vissulega til. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að sú aukning sem greinilega er að verða í einkaneyslunni, skiptir miklu við endurreisn efnahagslífsins. Öflug íslensk verslun mun gegna þar lykilhlutverki.
15/06/2020 | Fréttir, Hagsmunahópur bókhaldsstofa
Föstudaginn 11. júní sl. var Hagsmunahópur bókhaldsstofa stofnaður innan SVÞ. Hópurinn var stofnaður í samráði við Félag bókhaldsstofa og mun hagsmunagæsla fyrir bókhaldsstofur með því færast frá FBO til SVÞ. FBO mun eftir sem áður annast mikilvægt fræðslu- og upplýsingahlutverk fyrir bókhaldsstofur og bókara. Tilgangur hópsins að gæta hagsmuna bókhaldsstofa, skapa faglegan og gagnsæjan vettvang til skoðanaskipta og vera í fyrirsvari gagnvart opinberum aðilum. Lögaðilar innan SVÞ sem annast rekstur bókhaldsstofu geta verið aðilar að hópnum.
Í þessari fyrstu stjórn hópsins sitja:
Erla Jónsdóttir, Lausnamið ehf.
Jón Þór Eyþórsson, Reikningshald og skattskil ehf.
Rannveig Lena Gísladóttir, Húnabókhald ehf., formaður
Sigfús Bjarnason, Bókhald og þjónusta ehf.
Sigurjón Bjarnason, Skrifstofuþjónustu Austurlands ehf.
10/06/2020 | Fréttir, Stjórnvöld
Ríkiskaup fyrir hönd atvinnuvega‐ og nýsköpunarráðuneytisins hefur óskað eftir tilboðum í kynningarherferð um að verja störf og auka verðmætasköpun í íslensku samfélagi og stýra birtingu hennar í fjölmiðlum. Skilafrestur er til föstudagsins 26. júní næstkomandi og er fjárheimild til átaksins 90 milljónir kr. með virðisaukaskatti.
Í auglýsingunni fyrir útboðið kemur fram að með kynningarátakinu skuli leggja áherslu á mikilvægi hringrásarinnar og keðjuverkandi áhrifanna sem verða til þegar fólk velur að skipta við innlend fyrirtæki sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf almennings eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin.
Nánari upplýsingar um útboðið er að finna í útboðskerfi Ríkiskaupa, TendSign.
Að kynningarherferðinni standa ferðamála-, iðnaðar‐ og nýsköpunarráðherra og sjávarútvegs‐ og landbúnaðarráðherra, f.h. ríkissjóðs, Samtök atvinnulífsins (SA), Samtök iðnaðarins (SI), Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ), Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samorka og Bændasamtök Íslands.
„Það er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf snúi bökum saman nú þegar efnahagslífið er að ganga í gegnum miklar þrengingar vegna COVID-19. Með þessu kynningarátaki vilja Samtök atvinnulífsins, sex aðildarfélög SA og Bændasamtökin leggja sitt af mörkum til að hvetja landsmenn til að velja fjölbreyttar vörur og þjónustu af innlendum fyrirtækjum,“ sagði Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins við undirritun samnings um verkefnið milli stjórnvalda og fulltrúa atvinnulífsins í lok apríl.