Hámark á milligjöld lögfest

Hámark á milligjöld lögfest

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ skrifar:

Alþingi hefur samþykkt samhljóða sem lög frumvarp til laga um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur. Er hér um að ræða innleiðingu á Evrópulöggjöf um þetta efni sem er búin að vera í undirbúningi mjög lengi. Eins og komið hefur fram í fyrri fréttum frá SVÞ um þetta mál, þá hefur baráttan fyrir lækkun milligjalda í kortaviðskiptum verið eitt helsta hagsmunamál hagsmunasamtaka verslunarinnar í Evrópu um langt árabil. Lögin taka gildi 1. september n.k.

Meginefni laganna er að sett eru hámörk á milligjöld vegna neytendagreiðslukorta, 0,2% af fjárhæð greiðslu vegna debetkorta og 0,3% vegna kreditkorta. Milligjöldin er sú þóknun sem útgefendur greiðslukorta, oftast bankar eða sparisjóðir, fá greitt frá færsluhirði (á Íslandi einkum Borgun, Valitor og Kortaþjónustan). Sérstakt þjónustugjald kemur síðan til viðbótar í öllum kortaviðskiptum, en það er gjaldið sem færsluhirðir fær greitt frá söluaðila fyrir þjónustu sína.

Söluaðilar eru að jafnaði ekki í góðri stöðu til að hafna algengum greiðslukortum, þrátt fyrir mikinn kostnað af notkun þeirra, enda eru greiðslukort orðin langalgengasti greiðslumátinn. Korthafar hafa að sama skapi yfirleitt lítinn eða engan hvata til að velja ódýrari greiðslumáta enda er kostnaðinum venjulega jafnað niður á neytendur. Hérlendis birtist það m.a. í mikilli notkun kreditkorta þótt kostnaður vegna notkunar þeirra sé meiri en vegna debetkorta.

Sú þóknun sem verslunin og aðrir söluaðilar hafa þurft að greiða í milligjöld og þjónustugjöld fyrir notkun greiðslukorta í viðskiptum, hefur lengi verið mikill þyrnir í þeirra augum. Samkeppnisyfirvöld hér á landi hafa brugðist við þessum aðstæðum. Þann 18. desember 2014 tilkynnti Samkeppniseftirlitið um að Arion banki hf., Íslandsbanki hf., Landsbankinn hf., Borgun hf. og Valitor hf. hefðu hvert fyrir sig gert sátt við eftirlitið vegna rannsóknar þess á samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði. Sú sátt birtist í  ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 frá 30. apríl 2015 þar sem fyrirtækin féllust  m.a. á hámörk á milligjöld vegna neytendagreiðslukorta, 0,2% fyrir debetkort og 0,6% fyrir kreditkort. Hámörkin voru að hluta til hugsuð sem aðlögun að ákvæðum í fyrirhugaðri reglugerð Evrópusambandsins um milligjöld, þeirri sem nú hefur verið lögfest hér á landi.

Samtök verslunar og þjónustu brýna fyrir aðildarfyrirtækjum sínum að fylgjast náið með því að tilskyldar breytingar verði á milligjöldum í kortaviðskiptum þegar lögin taka gildi þann 1. september n.k.

Ritz Carlton þjónustuskólinn – sérkjör fyrir SVÞ félaga

Ritz Carlton þjónustuskólinn – sérkjör fyrir SVÞ félaga

Hvenær: Fimmtudaginn 12. september kl. 8:30-12:30

Hvar: Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut, Reykjavík

Í september næstkomandi verður boðið upp á einstakt námskeið frá Ritz Carlton á sérkjörum fyrir SVÞ félaga. Ritz Carlton eru margrómaðir fyrir frábæra þjónustu og hafa í næstum tvo áratugi kennt öðrum fyrirtækjum aðferðafræðina til að tryggja topp þjónustugæði. Meðal þeirra framúrskarandi fyrirtækja sem hafa notað aðferðafræði Ritz Carlton við mótun á allri sinni þjónustu eru Apple, en verslanir þeirra vekja heimsathygli fyrir frábæra þjónustu, með hlutum eins og „genius bar“ og fleiru.

Stjórnandi frá Ritz Carlton mun leiða hálfs dags vinnustofu sem hjálpar þátttakendum, á hagnýtan hátt, að láta sín fyrirtæki skara framúr með fyrsta flokks þjónustu.

 

Námskeiðslýsing

 

  • Farið verður yfir fimm lykilþætti sem viðskiptavinir þurfa og vilja að sá sem veitir þjónustu búi yfir, óháð því fyrir hvaða fyrirtæki eða í hvaða geira viðkomandi starfar.
  • Lykilþjónustuþættir Ritz-Carlton: Yfirlit yfir þá þjónustueiginleika sem leiða til raunverulegra sambanda og mikilvægi sálfræði í þjónustu.
  • Skýr þjónustustefna: Það er lykilatriði að þjónustupplifun viðskiptavinarins sé alltaf sú sama. Ein leið til að tryggja það hjá Ritz-Carlton er með því að nota hin þrjú þrep þjónustu.
  • Máttur ráðandi þjónustu: Þú munt komast að því hvernig á að sjá fyrir og vinna með þarfir viðskiptavinarins í gegnum þjónustuupplifunina, þar með talið hvernig á að bæta skynjun með því að nýta augnablikið, hvernig nýta á lykilatriði úr CRM fræðum og hvernig á að notfæra sér það að koma viðskiptavinum á óvart og gleðja þá.
  • Tilfinningalegar tengingar: Umræða um muninn á hlutlægum og tilfinningalegum eiginleikum og af hverju þessi munur er lykilatriði þegar kemur að vörumerkjatryggð.

 

Hagnýtu upplýsingarnar

 

Hvenær: fimmtudaginn 12. september, kl. 8:30-12:30 – Ath! Aðeins þessi eina dagsetning og takmarkað sætaframboð.

Hvar: Hilton Reykjavík Nordica

Fyrir hverja hentar þetta: Námskeiðið er fyrir alla sem stjórna, móta eða hafa áhrif á þjónustuupplifun viðskiptavina fyrirtækja af öllum stærðum, og í öllum atvinnugreinum.

Verð: Verð fyrir SVÞ félaga er 54.900 kr. per þátttakanda ef bókað er fyrir 7. júní (annars 69.900 kr).

 

Kaupauki fyrir SVÞ félaga!

 

SVÞ félagar eiga að auki kost á tveggja klst. framhaldsvinnustofu þann 16. september þar sem þeir Guðmundur Arnar Guðmundsson frá Markaðsakademíunni og Árni Árnason frá Árnasonum fara dýpra í efni vinnustofunnar. Nánari upplýsingar síðar.

Takmarkað sætaframboð á framhaldsvinnustofuna – fyrstir koma fyrstir fá!

 

smelltu hér til að skrá þig

 

 

 

ATHUGIÐ! TIL AÐ VIRKJA AFSLÁTTINN ÞARF AÐ SETJA (SVÞ)“ Á EFTIR NAFNI FYRIRTÆKIS VIÐ SKRÁNINGU!

Sæfivörur: Kynningarfundur um skyldur framleiðenda og innflytjenda

Sæfivörur: Kynningarfundur um skyldur framleiðenda og innflytjenda

Vissir þú að sótthreinsivörur þurfa markaðsleyfi?

 

Umhverfisstofnun og Samtök verslunar og þjónustu bjóða til kynningarfundar um sæfivörur og skyldur framleiðenda og innflytjenda.

Hvenær: miðvikudaginn 29. maí kl. 10:30-11:30

Hvar: Hyl, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík

Aðildarfyrirtækjum Samtaka iðnaðarins og Félags atvinnurekenda er einnig boðið til fundarins.

 

Fyrir hverja er fundurinn?

Fyrirtæki innan SVÞ, SI og FA sem flytja inn, markaðssetja og nota sæfivörur.

 

Hvað eru sæfivörur?

Sæfivörur (biocides) eru efnavörur sem innihalda eitt eða fleiri virk efni sem ætlað er að eyða hættulegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar með efna- eða líffræðilegum aðferðum. Sæfivörur skiptast í 22 vöruflokka, sem tengjast notkun þeirra. Þar er að finna m.a. sótthreinsandi vörur fyrir menn og dýr, einnig vörur til sótthreinsunar á yfirborðsflötum, viðarvarnarefni, skordýraeyða, nagdýraeitur, gróðurhindrandi vörur (t.d. botnmálning á skipum), og ýmis rotvarnarefni til nota í iðnaði.

 

Umsögn SVÞ um fjármálaáætlun ríkisins 2020-2024

Umsögn SVÞ um fjármálaáætlun ríkisins 2020-2024

SVÞ hafa veitt fjárlaganefnd Alþingis umsögn um fjármálaáætlun 2020–2024.

Í ljósi breyttra efnahagshorfa standa stjórnvöld frammi fyrir umtalsverðum áskorunum í ríkisfjármálum. Í umsögninni fjalla samtökin um áherslur við stjórn efnahagsmála í samhengi við helstu áherslumál verslunar og þjónustu. Mikilvægt er að SVÞ komi skilaboðum atvinnugreinanna á framfæri við meðferð málsins á Alþingi.

Smelltu hér til að lesa umsögn SVÞ um fjármálaáætlun 2020-2024 í heild sinni

Samstarf um orku- og loftslagsmál er nauðsyn

Samstarf um orku- og loftslagsmál er nauðsyn

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 8. maí sl. Greinin er eftir Eyjólf Árna Rafnsson formann Samtaka atvinnulífsins, Bjarnheiði Hallsdóttur formann Samtaka ferðaþjónustunnar, Guðrúnu Hafsteinsdóttur formann Samtaka iðnaðarins, Helga Bjarnason formann Samtaka fjármálafyrirtækja, Helga Jóhannesson formann Samtaka orku- og veitufyrirtækja, Jens Garðar Helgason formann Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Jón Ólaf Halldórsson formann Samtaka verslunar og þjónustu og Magnús Þór Ásmundsson formann Samtaka álfyrirtækja.

EES-samningurinn er eitt stærsta hagsmunamál íslensks atvinnulífs og hornsteinn að bættum lífskjörum almennings. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar byggist á viðskiptafrelsi sem er grundvallað á EES-samningnum. EES-samstarfið hefur fært Íslendingum mikinn ábata á liðnum aldarfjórðungi, lífskjör hafa batnað og atvinnulífið eflst.

Farsælt EES samstarf, sem nú fagnar 25 ára afmæli, tryggir með fjórfrelsinu frjálsa för fólks, vöru, þjónustu og fjármagns um alla Evrópu. Þetta er afar mikilvægt og ekki síst fámennum löndum eins og Ísland sannarlega er.

EES-samstarfið nær ekki til nýtingar auðlinda eins og sést af því að það eru Norðmenn sjálfir sem ákveða hvernig nýta skuli olíu- eða gaslindirnar þar. Það eru Finnar og Svíar sem ákveða hvernig skuli höggva skóga hjá sér. Og það eru Íslendingar sem ákveða hvort eða hvernig nýta eigi jarðhitann, vatnsaflið eða vindinn sem stöðugt blæs. Þessar ákvarðanir eru ekki teknar af Evrópusambandinu.

Samstarfið nær hins vegar til þess að vörur sem eru á markaði þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur um orkunýtingu og tæknilega staðla á hverju sviði fyrir sig. Gert er ráð fyrir að samkeppni ríki á sem flestum sviðum þar á meðal um orkusölu enda sé það fyrst og fremst til hagsbóta fyrir neytendur.

Smám saman hafa kröfur aukist um betri nýtingu orku, aukna notkun endurnýjanlegra orkulinda og um orkusparnað. Jafnt og þétt verða loftslagsmál og orkumál samofnari enda er notkun jarðefnaeldsneytis meginorsök þeirra loftslagsbreytinga sem við verðum að takast á við.

Íslendingar hafa sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og eru í samstarfi við Evrópulöndin um sameiginlegar skuldbindingar gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Hagsmunir Íslands af þessu samstarfi eru mjög miklir og þátttaka í viðskiptakerfi Evrópu með losunarheimildir tryggir jafna samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar og fleiri fyrirtækja hér á landi og annars staðar á EES-svæðinu.

Löggjöf um orku- og loftslagsmál mun halda áfram að þróast og auk löggjafar sem nú er til meðhöndlunar á Alþingi (þriðji orkupakkinn) eru á döfinni enn frekari breytingar á lögum og reglum sem þessu sviði tengjast. Íslensk raforkulög taka þegar mið af því að Íslendingar hafa  innleitt fyrsta og annan orkupakka ESB og hefur sú ákvörðun reynst farsæl hingað til.

Það er mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands, atvinnulífsins og fólksins í landinu að halda áfram samstarfinu við ESB um orku- og loftslagsmál með innleiðingu 3. orkupakkans. Alþjóðleg samvinna á þessu sviði mun auðvelda viðureignina við loftslagsbreytingar og gagnast ekki einungis okkar kynslóð heldur börnum okkar og barnabörnum.

SVÞ og önnur hagsmunasamtök í atvinnulífinu styðja þriðja orkupakkann

SVÞ og önnur hagsmunasamtök í atvinnulífinu styðja þriðja orkupakkann

SVÞ hefur sent inn umsögn sem styður þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann sem nú er til meðferðar á Alþingi. Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands styðja einnig tillöguna.

Samtökin leggja í þessu sambandi sérstaka áherslu á mikilvægi EES-samningsins fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag. Mikilvægi samningsins verða seint ofmetin enda er öllum ljós sú mikla og jákvæða breyting sem orðið hefur á samfélaginu öllu þann aldarfjórðung sem EES-samningurinn hefur verið í gildi. Samningurinn veitir, sem kunnugt er, Íslendingum aðgang að þeim 500–600 milljón manna markaði sem er innri markaður ESB- og EFTA-ríkjanna. Það skiptir afar miklu að þessu farsæla samstarfi verði ekki teflt í tvísýnu. Sú umræða sem farið hefur fram í þjóðfélaginu að undanförnu um það mál sem hér er til umfjöllunar, er með þeim hætti að full ástæða er til að staldra við og vekja athygli á mikilvægi málsins.

SVÞ telja mikilvægt að hafa í huga að orkulöggjöfinni er ætlað að efla samkeppni á því sviði sem löggjöfin nær til. Slíkt styrkir stöðu orkukaupenda, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar, gagnvart þeim sem framleiða og dreifa orku. Eins og á öðrum sviðum þar sem virk samkeppni er til staðar, kemur það öllum kaupendum til góða, hvort sem er í formi betri þjónustu eða lægra verði. Sterkar vísbendingar eru um að samþykkt tillögunnar muni hafa ábata í för með sér.

Þeir annmarkar á innleiðingu þriðja orkupakkans sem teflt hefur verið fram í almennri umræðu að undanförnu eru illa skilgreindir og óljósir að mati samtakanna. Verði ákvörðunartaka um samþykkt tillögunnar byggð á tilvist þeirra er ekki einungis hætt við að meiri hagsmunum verði fórnað fyrir minni heldur einnig að ríkum og skýrum hagsmunum verði fórnað fyrir óljósa, illa skilgreinda og í öllu falli takmarkaða hagsmuni. Þar með yrði skýrum heildarábata fórnað af þarfleysu. Þeir hagsmunir sem Ísland og íslenskt samfélag hefur af því að af innleiðingu verði, eru í öllu tilliti mun ríkari, enda tekur orkupakkinn ekki yfirráð yfir orkuauðlindunum úr höndum íslensku þjóðarinnar.

Smelltu hér til að lesa umsögnina í heild sinni