06/10/2025 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun, Þjónusta
Ný grein Benedikts S. Benediktssonar, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, var birt á Vísi í dag þar sem hann fjallar um mikilvægi verslunar- og þjónustugreina í íslensku samfélagi.
Í greininni kemur fram að um 49 þúsund manns – tæplega fjórði hver starfandi Íslendingur – starfi í verslun og þjónustu, og að greinin gegni lykilhlutverki í að skapa verðmæti, atvinnu og tækifæri fyrir ungt fólk og fólk af erlendum uppruna.
Benedikt bendir á að verslun og þjónusta sé í dag einn stærsti vettvangur framtíðarstarfa á Íslandi, þar sem margir hefja feril sinn og vinna sig áfram í ábyrgðarstöður.
„Mannauður verslunar og þjónustu er einn af sprotum Íslands – verðmæti sem erlendir fjárfestar sjá og kunna að meta.“ segir Benedikt m.a. í greininni.
Greinina má lesa í heild sinni á Vísir.is.
29/09/2025 | Fræðsla, Fréttir, Greinar
Ég veit ekki hvort þú veist það en það eru allar líkur á að í dag, í gær eða a.m.k. í vikunni eigir þú viðskipti við fyrirtæki sem er í SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu. Fyrirtækin stuðla að frjósemi, reka leikskóla, selja matvörur, föt og byggingarvörur, miðla líftryggingum, leigja fasteignir, selja og gera við bíla, reka kvikmyndahús og veita útfararþjónustu – og allt þar á milli.
SVÞ eru málsvari um 430 fyrirtækja sem fylgja þér frá getnaði til grafar.
Þetta er ekki aðeins áhugaverð staðreynd því einkennandi greinar verslunar og þjónustu hafa mikil áhrif á samfélagið:
- Um 19% verðmætasköpunar þjóðarbúsins má rekja til verslunar og þjónustu en fyrir þá fjárhæð mætti kaupa hátt í 280 milljónir brauðosta af dýrari gerðinni.
- Um 40% einkaneyslunnar fer um hendur greinanna en fyrir þá fjárhæð mætti kaupa um 130 þúsund bíla af gerðinni Suzuki Vitara.
- Um 50 þúsund manns starfa í greinunum en með þeim fjölda væri unnt að kjaftfylla Laugardalsvöllinn rúmlega fimm sinnum.
- Árlega skila greinarnar 200 milljörðum króna í opinber gjöld sem er svipað og það kostar að mennta hátt í 70 þúsund grunnskólabörn.
Án fyrirtækjanna væri lítið um útrás annarra atvinnugreina. Hvar væri sjávarútvegurinn án eldsneytis og orku, varahluta og vöruflutnings? Hvernig stæði hugverkasköpunin án tæknibúnaðar? Hvernig ætli starfsmönnum í iðnaði liði án vinnufatnaðar? Væru allir ferðamennirnir enn í Reykjanesbæ ef engir væru bílarnir? Með hverju á að hræra í pottunum ef engar eru sleifarnar?
Það er hlutverk SVÞ að minna á þetta samhengi – og skapa vettvang þar sem fólk stillir saman strengi, ræðir áskoranir og horfir til framtíðar. Hinn 7. október næstkomandi fara fram Haustréttir SVÞ – leiðtogafundur verslunar og þjónustu.
Frá getnaði til grafar og inn í framtíðina. SVÞ standa vörð um hagsmuni sem snerta alla landsmenn, á hverjum einasta degi.
Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
Grein á Vísi Við fylgjum þér frá getnaði til grafar – Vísir
14/05/2025 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Greinar, Greinaskrif, Stjórnvöld
Ísland hefur tekið upp strangara regluverk um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í bílasölu en Evrópa. Þetta hefur valdið bílaumboðum og bílasölum miklum vanda, þar sem þeim er gert skylt að safna viðkvæmum gögnum um viðskiptavini sína, halda úti ferlum og verklagi og tryggja varðveislu safnaðra upplýsinga. Það sem ætti að vera einfalt viðskiptasamband hefur breyst í flókna eftirlitsstarfsemi þar sem sölufólk er sett í hlutverk lögreglu.
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, bendir á að þessi þróun hafi gert verslunarfólk að óviljugum eftirlitsaðilum. „Verslunarfólk upplifir sig sem sakamenn í eigin starfsemi. Við erum að tala um kerfi sem líkist forvirkri lögreglurannsókn,“ segir Benedikt í nýrri grein.
Hann útskýrir að íslensk löggjöf gangi lengra en Evróputilskipanir kveða á um, þar sem bílasölur eru skyldugir til að safna upplýsingum sem jafnvel bankar hafa þegar aflað. Þetta auki kostnað, flækjustig og óöryggi í atvinnulífinu.
„Þetta er sjálfnærandi kerfi þar sem breytilegar og huglægar kröfur leiða alltaf til sektar. Eina leiðin út er að samþykkja sekt og borga eða leita til dómstóla,“ segir Benedikt.
SVÞ kallar eftir endurskoðun á núverandi regluverki. Fyrirtæki eru hvött til að fylgjast með.
_____
SMELLTU HÉR til að nálgast alla greinina.
SMELLTU HÉR til að lesa umfjöllun Viðskiptablaði Morgunblaðsins.
13/05/2025 | Fréttir, Greinar, Greinaskrif, Í fjölmiðlum, Umhverfismál
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, varar við að fyrirhugaðar breytingar á frumvarpi til laga um kílómetragjald gætu leitt til aukins flækjustigs og kostnaðar, sérstaklega m.t.t. vöruflutninga. Þetta kemur fram í nýrri grein Benedikts þar sem hann greinir frá áhyggjum sínum vegna áforma stjórnvalda um að skipta út eldsneytissköttum fyrir víðtækt kílómetragjald.
Í greininni bendir Benedikt á að núverandi kerfi eldsneytisskatta hafi verið álitið einfalt, skilvirkt og sanngjarnt, þar sem þeir sem nota meira eldsneyti greiða meira. Með fyrirhugaðri breytingu, þar sem kílómetragjald verður lagt á alla bíla, óháð eldsneytistegund, skapast verulegar flækjur fyrir rekstraraðila vöruflutningabíla.
„Rekstraraðilar vörubíla munu þurfa að halda utan um skráningu fjölmargra bíla sem er ekið af mörgum bílstjórum. Þar sem kílómetragjald á bílana og eftirvagnana verður hátt mun nákvæmt utanumhald og regluleg skráning skipta sköpum,“ segir Benedikt í greininni.
Benedikt lýsir einnig áhyggjum sínum af því að nýja fyrirkomulagið auki álag á fyrirtæki og ríkissjóð þar sem eftirlit og skráningarkröfur verði flóknari. Hann varar við að rekstraraðilar vörubíla gætu lent í miklum viðbótarkostnaði og að aukinn rekstrarkostnaður skili sér að lokum í hærra verði.
SVÞ mun halda áfram að fylgjast með þróun málsins og beita sér fyrir skýru og sanngjörnu fyrirkomulagi sem tekur tillit til hagsmuna aðildarfyrirtækja samtakanna. Fyrirtæki eru hvött til að fylgjast með og kynna sér áhrif breytinganna á rekstur.
SMELLTU HÉR til að lesa alla greinina.
SMELLTU HÉR fyrir frétt á VB.is
29/04/2025 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, vekur athygli á áformum stjórnvalda um auknar álögur á fyrirtæki og einstaklinga í tengslum við vegamál. Í nýrri grein á Vísi bendir hann á mikilvægi þess að tryggja að nýir skattar renni raunverulega til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins.
„Það er ekki ósanngjörn krafa að nægilegu fjármagni sé á hverjum tíma veitt í vegamál,“ segir Benedikt og undirstrikar að góð vegamannvirki séu lykilforsenda verðmætasköpunar og hagkvæmrar nýtingar framleiðsluþátta.
Benedikt gagnrýnir einnig skort á gagnsæi í skattlagningu og bendir á að stjórnvöld hafi ekki alltaf tryggt að tekjur af ökutækjum og eldsneyti fari beint í vegamál. Hann kallar eftir ábyrgð og skýrleika í fjármálum ríkisins til að endurheimta traust almennings og atvinnulífsins.
Grein Benedikts má lesa í heild sinni á Vísi: Smelltu HÉR!
23/12/2024 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Viðskiptablaðið birti 21.desember sl. grein eftir Kristinn Má Reynisson, lögfræðing SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu:
Þegar stjórnvöld vita betur
Þegar stjórnvöld eru innt eftir því hvers vegna matvælaverð er hærra á Íslandi en á víðast hvar á meginlandi Evrópu, ætti svarið að vera einfalt. Ísland er fámenn eyja á norðurhjara veraldar. Punktur! Ekkert annað ætti að geta útskýrt stöðuna. Við nánari skoðun kemur því miður í ljós að aðkoma stjórnvalda er meðal ástæðna fyrir þessum verðmun.
Virk samkeppni virkar
Eitt öflugasta verkfærið sem stjórnvöld hafa til að bæta hag neytenda er að tryggja virka samkeppni. Í virku samkeppnisumhverfi hagnast neytendur, því þeir geta valið hagstæðustu tilboðin, út frá verði og gæðum.
Framleiðendur keppast þá við að framleiða vöru eða þjónustu sem hefur ákjósanlegustu samsetningu verðs og gæða í augum neytenda. Sé samkeppni ekki til staðar, er hætt er við því að verð og gæði endi hins vegar í því sem hentar framleiðandanum best. Þetta er í hugum flestra nokkuð auðskilið. Og þess vegna er samkeppnislöggjöfinni ætlað að standa vörð um samkeppni, ekki einstaka samkeppnisaðila.
„Við nánari skoðun kemur því miður í ljós að aðkoma stjórnvalda er meðal ástæðna fyrir þessum verðmun.“ ~ Kristinn Már Reynisson
Hver kýs hærra matvælaverð?
Með því að leggja tolla á innflutta matvöru hamla stjórnvöld virkri samkeppni á grundvelli verðs og gæða. Sú afleiðing, að verð til neytenda hækki, er ekki hliðarvirkni af tollafyrirkomulagi, heldur bókstaflega tilgangur tolla.
„Með tollum á innflutta matvöru halda stjórnvöld því matvælaverði á Íslandi viljandi hærra en þörf krefur.“
Ólíklegt hlýtur að teljast að kjósendur í nýafstöðnum Alþingiskosningum hafi greitt hærra matvælaverði sitt atkvæði og því verður að spyrja hvers vegna stjórnvöld ættu að kjósa hærra matvælaverð til hins almenna borgara.
Alþjóðleg viðskipti eru forsenda lífsgæða á Íslandi
Þrátt fyrir að tollar hækki verð til neytenda á Íslandi eiga tollar sína fylgismenn. Sú afstaða er m.a. varin með þeim rökum að án verndartolla leggist íslensk framleiðsla af. Þetta útskýrir þó illa hvers vegna verndartollar eru á vörum sem ekki eru framleiddar á Íslandi. Eða hvers vegna íslensk framleiðsla hefur ekki hafist á vörum sem njóta nú þegar tollverndar. Líkast til er það vegna þess að tollar eru klunnalegt verkfæri sem getur aðeins hækkað verð, meðan hvatar til framleiðslu eru vandmeðfarnari nákvæmnistól.
Þá ber einnig að hafa í huga að frá því Ísland byggðist, hefur lykillinn að velsæld falist í viðskiptum við útlönd. Vissulega er Ísland og íslensk efnahagslögsaga gríðarlega rík af auðlindum. En þessar auðlindir eru hins vegar ekki mjög fjölbreyttar. Þess vegna hafa Íslendingar ávallt verið og munu líkast til ávallt verða, háðir því að flytja út eigin framleiðslu, sem gerir kleift að kaupa fjölbreyttari framleiðslu hvaðanæva að úr heiminum.
Virk samkeppni um að selja íslenska vöru út og erlenda vöru til Íslands ætti því að vera keppikefli íslenskra stjórnvalda, sem umhugað er um velsæld almennings.
Hræðsluáróður um að Ísland þurfi að vera sjálfbært um allar lífsins nauðsynjar, og að án tolla á innfluttan varning verði því markmiði stefnt í hættu, stenst ekki skoðun. Sér í lagi vegna þess að hversu óraunhæft slíkt markmið er. Til að taka slíkan áróður trúanlegan þarf því að horfa frekar valkvætt bæði á Íslandsöguna og meginkenningar hagfræðinnar.
Þegar horft er til þess að það er íslenskur almenningur sem á endanum fjármagnar tolla á matvöru, hlýtur að mega krefja stjórnvöld um útskýringar á því hvers vegna hefðbundnar hagfræðikenningar um hagkvæmni og virka samkeppni skuli ekki eiga við um matarinnkaup almennings.
Gegn betri vitund
Því miður er ástæðan fyrir því að matvælaverð er hærra á Íslandi en á meginlandi Evrópu, ekki aðeins sú að við búum á fámennri eyju á norðurhjara veraldar, heldur er skýringa einnig að leita hjá stjórnvöldum og þeirri meðvituðu ákvörðun að nýta ekki til fulls það augljósa verkfæri sem virk samkeppni er. Stjórnvöld ættu að vita betur.
Sjá grein á VB.is HÉR!
Síða 1 af 1712345...10...»Síðasta »