Enn má Daði leiðrétta

Enn má Daði leiðrétta

Eftirfarandi grein frá Benedikt S. Benediktssyni, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu birtist á VISI í dag.

Í umræðum um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum á Alþingi, hinn 29. janúar 2026, svaraði fjármála- og efnahagsráðherra spurningu um hvernig ráðherrann ætlaði sér að bregðast við í ljósi fréttaflutnings af aukinni verðbólgu. Í svari ráðherra kom eftirfarandi m.a. fram:

„[Þ]að er auðvitað mikið áhyggjuefni að verðbólga sé að hækka. Það er hins vegar mjög mikilvægt að við rýnum þessar tölur og skoðum í grunninn hver ástæðan er. Það hefur orðið töluverð umræða um það, og kemur raunar fram í máli hv. þingmanns, að stjórnarandstaðan hafi varað við áhrifum breytinga á kílómetragjaldi og vörugjöldum af bifreiðum á vísitölu neysluverðs. Nú liggur mat Hagstofu Íslands fyrir og það kemur í ljós að áhrifin eru nákvæmlega í samræmi við það sem fjármálaráðuneytið spáði og að hækkunin sem er að verða núna á verðbólgu er vegna annarra þátta, þ.e. hækkunar á eldsneytisverðinu sjálfu og álagningar eldsneytis eða annarra slíkra þátta og álagningar á bifreiðar. Það er auðvitað slæmt þegar breytingar eru notaðar til að réttlæta hækkanir.“

Lög og regla

Það dylst fáum að með framangreindum orðum fór ráðherra þá leið að frábiðja sér gagnrýni á gerðir eigin ríkisstjórnar og stjórnarmeirihluta með því að benda á aðra meinta sökudólga. Með öðrum orðum skellti ráðherra skuldinni á aðra, gerði þá að blóraböggli eða benti á meintar syndir annarra (e. whataboutism). Þá bætti ráðherra um betur og gaf til kynna að niðurstaðan hefði að verið í samræmi við væntingar og mat ráðuneytis hans.

Það er ekki laust við að manni verði hugsað til texta viðlagsins í „Lög og regla“ eftir Bubba Morthens.

Þetta var ekki ég, þetta voru bílasalarnir!

Í tilefni af ásökun ráðherra gagnvart söluaðilum ökutækja er rétt að benda á eftirfarandi:

  • Undirritaður fékkst nýverið við það verkefni að benda ráðherra penlega á að skýring sem hann veitti í fréttaviðtali um sama málefni ætti sér ekki stoð í raunveruleikanum.1
  • Þegar ráðuneyti ráðherrans bað efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að hækka vörugjöld af ökutækjum var tekið fram að breytingar í samræmi við tillögu ráðuneytisins mundu hafa í för með sér 0,1% hækkun á vísitölu neysluverðs.2 SVÞ og Bílgreinasambandið sendu nefndinni m.a. þá ábendingu að áhrifin væru vanmetin.3
  • Í mati ráðuneytisins um vörugjaldsbreytingar mundu hafa í för með sér 0,1% hækkun á vísitölu neysluverðs er tekið fram að „[m]eð því að aðlaga breytingarnar að kaupmynstri heimilanna eru áhrifin lágmörkuð […]. Framar í minnisblaðinu, á bls. 2, er fjallað um markmið vörugjaldabreytingarinnar og þar segir m.a.: „Í Ijósi þess að um 60% af nýskráðum fólksbílum heimila eru rafmagnsbílar, eru áhrifin á heimili og fjölskyldur lágmörkuð. Þá má gera ráð fyrir að aukin tekjuöflun ríkissjóðs dragi úr þenslu í hagkerfinu og þar með almennum verðbólguþrýstingi.“ Í þessu samhengi er rétt að taka fram að þó ráðuneyti ráðherrans vilji horfa til hegðunarbreytinga í tengslum við breytingu á skattlagningu þá verður sá vilji ekki þess valdandi að mælingar Hagstofu Íslands breytist. Í skýringum Hagstofunnar kemur nefnilega fram að þar á bæ sé mælingum á bílum skipt í þrjá flokka, rafmagnsbíla, tvinnbíla og bensín- og dísilbíla og til að lágmarka áhrif sveiflna í innflutningi hafi verið notað þriggja ára meðaltal nýskráninga til að ákvarða hlutföll. Í öllu byggði því mat ráðuneytis ráðherrans, sem hann segir í þokkabót að hafi staðist fyllilega, á óskhyggju en ekki mæliaðferðum Hagstofunnar. Matið skilaði því ekki aðeins rangri niðurstöðu heldur getur ekki verið að það hafi staðist.
  • Við meðferð efnahags- og viðskiptanefndar á beiðni ráðuneytis ráðherrans um breytingu á vörugjöldum varð ljóst að ekki hafði verið tekið tillit til breytinga sem hafa orðið á aðferðarfræði við prófun tengiltvinnbifreiða sem leiðir til hærri skattlagningar. Á þetta bentu SVÞ og Bílgreinasambandið.4 Ráðuneytið sendi nefndinni í kjölfarið minnisblað, taldi hugmyndir SVÞ og Bílgreinasambandsins óþarfar en stakk þó að nefndinni hugmynd að því hvernig mætti koma til móts við sjónarmið þeirra. Nefndin ákvað hins vegar að bregðast lítt við. Það er dagljóst að upphaflegt mat ráðuneytisins á áhrifum á vísitölu neysluverðs gat með tilliti til framangreinds ekki staðist enda hafði það ekki áttað sig á áhrifum prófunaraðferðarbreytinganna þegar beiðninni var komið á framfæri við efnahags- og viðskiptanefnd.
  • Í frétt á vef Hagstofu Íslands er eftirfarandi enda tekið fram: „Um áramótin voru gerðar ýmsar breytingar á gjöldum tengdum ökutækjum sem höfðu áhrif á vísitölu neysluverðs.“

Það þarf varla að rekja frekar að þegar ráðherra benti á aðra beindust a.m.k. fjórir fingur að honum sjálfum.

Þetta var ekki ég þetta voru olíufélögin!

Samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,2% síðastliðna tólf mánuði og hækkaði hún um 0,38% á milli mánaða. Í fréttinni er stiklað á stóru m.t.t. undirliða sem tóku milli mánaða breytingum og m.a. tekið fram að bensínverð hafi lækkað um 27,4%, dísilverð um 24,2% en veggjöld hækkað um 633,4% vegna kílómetragjalds.

Í tilefni af ásökun ráðherra gagnvart söluaðilum eldsneytis er rétt að benda á eftirfarandi:

  • Samantekið lækkaði sjálf vísitala neysluverðs um 0,94% vegna breytinga á eldsneytisverði. Hins vegar hækkaði vísitalan meira, eða um 0,99% vegna hækkunar kílómetragjalds.
  • Í áhrifamati greinargerðar frumvarps til laga um kílómetragjald var tekið fram að áhrif kílómetragjaldsins mundu hafa áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar en afnám olíugjalds og vörugjalda á eldsneyti mundi hins vegar hafa áhrif til lækkunar. Þá sagði: „Gert er ráð fyrir að heildarbreytingin hafi óveruleg áhrif á vísitölu neysluverðs eða u.þ.b. 0–0,1% hækkun á vísitölunni.“
  • Það vill svo til að sú hækkun vísitölu neysluverðs, 0,05%, sem í frétt Hagstofunnar er sögð hafa orðið vegna upptöku kílómetragjald og niðurfellingar eldsneytisgjalda er mitt á milli þeirrar 0% og 0,1% hækkunar á vísitölunni sem ráðherra vænti. Ráðherra sló því naglann nánast lóðbeint á höfuðið í þessu tilliti þegar hann sagði hækkunina í samræmi við væntingar hans og ráðuneytis hans. Það sætir því furðu að ráðherra hafi af einhverjum orsökum talið tilefni til að halda því fram að það sé orsök hækkandi verðbólgu að álagning hafi aukist hjá söluaðilum eldsneytis.
  • Eftir eftirgrennslan komst skrifstofa SVÞ að því að útreikningar ráðuneytis ráðherrans, sem væntanlega eiga að gefa þá niðurstöðu að álagning söluaðila eldsneytis hafi hækkað, eru byggðir á afar sérstökum forsendum. Til grundvallar er nefnilega lögð svokölluð fastskattavísitala neysluverðs sem sýnir mat á breytingum á vísitölu neysluverðs ef ekki hefðu orðið breytingar á tilteknum sköttum, þ. á m. hinum niðurfelldu eldsneytissköttum. Í engu er tekið tillit til þess að hvorki kolefnisgjald né niðurfelldu eldsneytisskattarnir eru eða hafa verið lagðir á íblöndunarefni sem samkvæmt lögum er skylt að blanda í eldsneyti áður en það er selt til neytenda. Líkast til er þessi mælikvarði sem ráðuneytið styðst við því haldinn ágalla og niðurstöðurnar þess því vafasamar.

Það þarf varla að rekja frekar að þegar ráðherra benti á aðra beindust a.m.k. fjórir fingur að honum sjálfum, aftur.

Að handboltanum

Góður íþróttafréttamaður sagði eitt sinn: „Hvaðan kom hann, hvert er hann að fara. Hver er hann?“ Ég geri þennan endapunkt að mínum en spyr um ráðherrann en ekki Alexander Peterson.

 

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og Bílgreinasambandsins

 

  1. https://vb.is/skodun/dadi-ma-leidretta/
  2. Sjá bls. 6 hér: https://www.althingi.is/altext/erindi/157/157-417.pdf
  3. Sjá bls. 5 hér: https://www.althingi.is/altext/erindi/157/157-729.pdf
  4. Sjá hér: https://www.althingi.is/altext/erindi/157/157-1203.pdf

 

Daði má leiðrétta!

Daði má leiðrétta!

Það er óhætt að segja að margir innan bílgreinarinnar hafi hváð þegar þeir hlýddu á orð fjármálaráðherra.

Miðvikudaginn 13. janúar 2026 var birt frétt á Vísi þar sem fjallað var um viðbrögð fjármála- og efnahagsráðherra vegna tíðinda af spám greiningardeilda bankanna um þróun verðbólgu í janúar. Í fréttinni mátti finna myndband með viðtali við ráðherra þar sem hann sagðist ekki rengja spá Landsbankans um 0,7 prósentustiga hækkun verðbólgu sem ætti að miklu leyti rót sína að rekja til þróunar á verðlagningu fólksbifreiða. Í viðtalinu sagði ráðherra m.a. eftirfarandi:

Það er hins vegar þannig að núna um áramótin eru ekki bara að verða breytingar á vörugjöldum heldur er það líka þannig að verð á bílum hefur verið að hækka alþjóðlega þannig að ég ætla ekki að rengja spánna en þetta er meira en það sem við höfðum gert ráð fyrir.

Stöðugt verð þrátt fyrir að ráðherra segi annað

Það er óhætt að segja að margir innan bílgreinarinnar hafi hváð þegar þeir hlýddu á þessi orð þar sem þeir telja sig ekki hafa orðið vara við þessa alþjóðlegu verðþróun ráðherrans. Nægir því til stuðnings að benda á að ekkert í fyrirliggjandi gögnum Hagstofu Íslands gefur til kynna að innkaupsverð bifreiða hafi farið hækkandi svo einhverju nemi að undanförnu. Sömu sögu segja gögn sem endurspegla þróun kaupverðs frá Hagstofu Íslands, Eurostat og Evrópska Seðlabankanum. Þvert á móti má halda því fram að verð hafi verið óvenjulega stöðug, a.m.k. frá byrjun árs 2024, og litlum breytingum tekið eftir að verð hækkuðu á árunum í kringum heimsfaraldur og upphaf Úkraínustríðsins. Þá hafa erlendir fjölmiðlar sagt í fréttum frá spám greiningaraðila sem eru heilt yfir á þeirri skoðun að verðstöðugleika muni áfram gæta á alþjóðavísu en verð fólksbifreiða muni þó áfram verða há árið 2026.

Ekki brugðist við

Það má hins vegar segja í hálfkæringi að ákveðið sannleikskorn sé fólgið í orðum ráðherra ef horft er til framtíðarþróunar innkaupsverðs nýrra tengiltvinnbifreiða eftir að hærra vörugjaldi hefur við það verið bætt. Þannig vill nefnilega til að SVÞ og Bílgreinasambandið bentu efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ítrekað og með rökstuddum hætti á að gera þyrfti breytingar á tillögum nefndarinnar, um hækkun vörugjalds, í ljósi breytinga á alþjóðlegri prófunaraðferð tengiltvinnbifreiða. Við því var hins vegar ekki nægilega brugðist og af þeim sökum mun hækkun vörugjalda koma mun harðar niður á kaupendum slíkra bifreiða en annarra á næstu árum.

Á þennan hátt má sumsé halda því fram að þróun á sviði prófunaraðferða í samblandi við innlent fyrirkomulag vörugjalds muni leiða til mikillar hækkunar bæði innanlands sem og í öðrum þeim ríkjum sem leggja skatta á eigendur ökutækja með vísan til skráðrar losunar, a.m.k. að því marki sem þau hafa ekki brugðist við og lagfært fyrirkomulag skattlagningarinnar til mótvægis. Með svona leiðréttingu, sem er sett fram af ákveðinni lagni, getur ráðherra áfram haldið því fram að verðþróun fólksbifreiða hér á landi tengist þróun alþjóðlega.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ og Bílgreinasambandsins.

Grein Benedikts S. Benediktssonar má lesa í Viðskiptablaðinu Smelltu HÉR! 

 

Fréttamolar SVÞ | Desember 2025

Fréttamolar SVÞ | Desember 2025

Desember einkenndist af virkri hagsmunagæslu þar sem augu beindust að samkeppnishæfni verslunar og þjónustu í breyttu evrópsku og íslensku umhverfi, áhrif skatta og regluverks á rekstur og rekstrarkostnað.

Þá er undirbúningur að ráðstefnunni UPPBROT SVÞ 2026 sem haldin verður á Parliament Hótel Reykjavík við Austurvöll 12. mars nk., í fullum gangi.

 

SVÞ FRÉTTAMOLAR DESEMBER 2025.pdf
Árið sem er að líða – staða atvinnulífsins og áskoranir fram undan

Árið sem er að líða – staða atvinnulífsins og áskoranir fram undan

Í nýrri grein á Innherja fjallar Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, um árið sem er að líða og þær áskoranir sem íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir. Hann bendir á að samspil verðbólgu, vaxta og skatta, ásamt auknum reglu- og kostnaðarbyrðum, hafi þrengt verulega að rekstrarumhverfi fyrirtækja og grafið undan samkeppnishæfni.

Jafnframt er lögð áhersla á skort á fyrirsjáanleika í stefnu stjórnvalda sem geri fyrirtækjum erfiðara að taka langtímaákvarðanir um fjárfestingar og mannauð. Benedikt varar við að án markvissra aðgerða til að bæta rekstrarskilyrði geti samkeppnishæfni Íslands veikst til framtíðar og undirstrikar mikilvægi raunverulegs samstarfs stjórnvalda og atvinnulífs til að skapa skýrari leikreglur og styðja við verðmætasköpun.

👉 Lesa greinina í heild sinni:
https://www.visir.is/g/20252822845d/arid-sem-er-ad-lida

Eru grænu skattarnir orðnir… gráir? Ábending frá SVÞ, SAF & SFS

Eru grænu skattarnir orðnir… gráir? Ábending frá SVÞ, SAF & SFS

Í gær, 4. desember 2025, birtist á Vísi sameiginleg grein Benedikts S. Benediktssonar, framkvæmdastjóra SVÞ, ásamt Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS og Jóhannesi Þór Skúlason, framkvæmdastjóra SAF.

Í greininni er bent á að þó grænir skattar eigi að hvetja til losunarsamdráttar geti greiðendur í ýmsu tilliti ekki breytt hegðun sinni. Fyrir vikið hækkar skattarnir kostnað heimila og fyrirtækja. Stjórnvöld hafi á undanförnum árum lagt nýja skatta og kvaðir ofan á þá skatta og kvaðir sem fyrir eru, án þess að nokkuð liggi fyrir um hvort hvatarnir skili árangri.

Þar með skapist hætta á að skattlagningin verði „grá“ – hvorki gagnsæ né markviss.

Greinina á Vísi má lesa í heild sinni á visir.is.- HÉR! 

Fréttamolar SVÞ | Nóvember 2025

Fréttamolar SVÞ | Nóvember 2025

Í fréttamolum nóvembermánaðar dregur SVÞ saman helstu mál sem snertu verslun og þjónustu í mánuðinum: frá áhrifum nýrrar PPWR-reglugerðar ESB á umbúðir og ábyrga markaðssetningu, yfir í fyrirhugaðar skattbreytingar á ökutækjum og hækkandi kostnað í bílageiranum, niðurstöður könnunar Rannsóknaseturs verslunarinnar um jólagjafir ársins, stöðu neysluhegðunar Íslendinga og áberandi árangur félagsmanna SVÞ í Umhverfisverðlaunum atvinnulífsins — allt sett fram í hnitmiðuðu yfirliti í meðfylgjandi Fréttamolum.

 

FRÉTTAMOLAR SVÞ NÓVEMBER 2025.pdf