Þegar kjörbúð lokar – versnar staða samfélaga

Þegar kjörbúð lokar – versnar staða samfélaga

SVÞ kallar eftir breytingum á rekstrarumhverfi verslana í landsbyggðunum 

Lokun verslunarinnar Hamonu á Þingeyri er meira en hefðbundin fækkun búða. Lífsgæði íbúa við Dýrafjörð skerðast.
Íbúar þurfa nú að aka 48 kílómetra í næstu verslun, fjarlægð sem er löng og oft erfið í vetrarfærð.  

„Þegar verslun lokar í litlu byggðarlagi skerðist ekki bara aðgengi að vörum – heldur kemur það niður að þjónustu, mannlífi og samfélagslegum gæðum“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, sem birti grein sem á Vísi í dag. 

Verslun sem samfélagsleg lífæð 

Hamona var ekki einungis dagvöruverslun heldur einnig afhendingastaður fyrir ÁTVR.   Sex aðrar verslanir víða um land, svo sem í Gunnubúð á Raufarhöfn og Jónsabúð á Grenivík eru einnig afhendingastaðir ÁTVR. Þessar verslanir halda uppi þjónustu sem er nauðsynleg til að byggðir dafni.  Samkvæmt áætlunum SVÞ nam framlegð ÁTVR af sölu til íbúa Þingeyrar árið 2024 nær sexfaldri afkomu Hamonu árið 2022.  Þessi ávinningur féll Hamonu hinsvegar ekki í skaut. 

„Þetta eru fjárhæðir sem skipta sköpum í rekstri smærri verslana – fjárhæðir sem gætu jafnvel stuðlað að því að til staðar verði sæmilegar forsendur til heilsársreksturs.“ segir Benedikt. 

Tími til að endurskoða leikreglurnar 

SVÞ hafa lengi talað fyrir breytingum á fyrirkomulagi smásölu áfengis og leggja áherslu samkeppnishæfni.

„Við þurfum að skoða hvort núverandi fyrirkomulag þjónar landsbyggðinni eins og það á að gera,“ segir Benedikt. „Ef við viljum tryggja byggðafestu og mannlíf, þurfum við að huga að því hvernig við dreifum verðmætunum – ekki bara vörunum.“ 

Tilvist verslunar er nánast forsenda byggðar á hverjum stað. Því er mikið undir að smærri verslanir fái svigrúm til að auka tekjur, þróa þjónustu og bæta rekstrarskilyrði.
Grein Benedikts S. Benediktssonar í heild má lesa á Vísi: Smelltu HÉR! 

Sjá viðtal við Benedikt á VISI.is 2.nóvember 2025: Smelltu HÉR!

Fjórði hver Íslendingur vinnur í verslun og þjónustu

Fjórði hver Íslendingur vinnur í verslun og þjónustu

Ný grein Benedikts S. Benediktssonar, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, var birt á Vísi í dag þar sem hann fjallar um mikilvægi verslunar- og þjónustugreina í íslensku samfélagi.

Í greininni kemur fram að um 49 þúsund manns – tæplega fjórði hver starfandi Íslendingur – starfi í verslun og þjónustu, og að greinin gegni lykilhlutverki í að skapa verðmæti, atvinnu og tækifæri fyrir ungt fólk og fólk af erlendum uppruna.

Benedikt bendir á að verslun og þjónusta sé í dag einn stærsti vettvangur framtíðarstarfa á Íslandi, þar sem margir hefja feril sinn og vinna sig áfram í ábyrgðarstöður.

Mannauður verslunar og þjónustu er einn af sprotum Íslands – verðmæti sem erlendir fjárfestar sjá og kunna að meta.“ segir Benedikt m.a. í greininni.

Greinina má lesa í heild sinni á Vísir.is.

Við fylgjum þér frá getnaði til grafar

Við fylgjum þér frá getnaði til grafar

Ég veit ekki hvort þú veist það en það eru allar líkur á að í dag, í gær eða a.m.k. í vikunni eigir þú viðskipti við fyrirtæki sem er í SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu. Fyrirtækin stuðla að frjósemi, reka leikskóla, selja matvörur, föt og byggingarvörur, miðla líftryggingum, leigja fasteignir, selja og gera við bíla, reka kvikmyndahús og veita útfararþjónustu – og allt þar á milli.

SVÞ eru málsvari um 430 fyrirtækja sem fylgja þér frá getnaði til grafar.

Þetta er ekki aðeins áhugaverð staðreynd því einkennandi greinar verslunar og þjónustu hafa mikil áhrif á samfélagið:

  • Um 19% verðmætasköpunar þjóðarbúsins má rekja til verslunar og þjónustu en fyrir þá fjárhæð mætti kaupa hátt í 280 milljónir brauðosta af dýrari gerðinni.
  • Um 40% einkaneyslunnar fer um hendur greinanna en fyrir þá fjárhæð mætti kaupa um 130 þúsund bíla af gerðinni Suzuki Vitara.
  • Um 50 þúsund manns starfa í greinunum en með þeim fjölda væri unnt að kjaftfylla Laugardalsvöllinn rúmlega fimm sinnum.
  • Árlega skila greinarnar 200 milljörðum króna í opinber gjöld sem er svipað og það kostar að mennta hátt í 70 þúsund grunnskólabörn.

Án fyrirtækjanna væri lítið um útrás annarra atvinnugreina. Hvar væri sjávarútvegurinn án eldsneytis og orku, varahluta og vöruflutnings? Hvernig stæði hugverkasköpunin án tæknibúnaðar? Hvernig ætli starfsmönnum í iðnaði liði án vinnufatnaðar? Væru allir ferðamennirnir enn í Reykjanesbæ ef engir væru bílarnir? Með hverju á að hræra í pottunum ef engar eru sleifarnar?

Það er hlutverk SVÞ að minna á þetta samhengi – og skapa vettvang þar sem fólk stillir saman strengi, ræðir áskoranir og horfir til framtíðar. Hinn 7. október næstkomandi fara fram Haustréttir SVÞ – leiðtogafundur verslunar og þjónustu.

Frá getnaði til grafar og inn í framtíðina. SVÞ standa vörð um hagsmuni sem snerta alla landsmenn, á hverjum einasta degi.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

 Grein á Vísi Við fylgjum þér frá getnaði til grafar – Vísir

Ísland gengur lengra en Evrópa – Bílasala í uppnámi vegna reglna um peningaþvætti

Ísland gengur lengra en Evrópa – Bílasala í uppnámi vegna reglna um peningaþvætti

Ísland hefur tekið upp strangara regluverk um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í bílasölu en Evrópa. Þetta hefur valdið bílaumboðum og bílasölum miklum vanda, þar sem þeim er gert skylt að safna viðkvæmum gögnum um viðskiptavini sína, halda úti ferlum og verklagi og tryggja varðveislu safnaðra upplýsinga. Það sem ætti að vera einfalt viðskiptasamband hefur breyst í flókna eftirlitsstarfsemi þar sem sölufólk er sett í hlutverk lögreglu. 

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, bendir á að þessi þróun hafi gert verslunarfólk að óviljugum eftirlitsaðilum. „Verslunarfólk upplifir sig sem sakamenn í eigin starfsemi. Við erum að tala um kerfi sem líkist forvirkri lögreglurannsókn,“ segir Benedikt í nýrri grein. 

Hann útskýrir að íslensk löggjöf gangi lengra en Evróputilskipanir kveða á um, þar sem bílasölur eru skyldugir til að safna upplýsingum sem jafnvel bankar hafa þegar aflað. Þetta auki kostnað, flækjustig og óöryggi í atvinnulífinu. 

„Þetta er sjálfnærandi kerfi þar sem breytilegar og huglægar kröfur leiða alltaf til sektar. Eina leiðin út er að samþykkja sekt og borga eða leita til dómstóla,“ segir Benedikt. 

SVÞ kallar eftir endurskoðun á núverandi regluverki. Fyrirtæki eru hvött til að fylgjast með.
_____

SMELLTU HÉR til að nálgast alla greinina.
SMELLTU HÉR til að lesa umfjöllun Viðskiptablaði Morgunblaðsins.

Fyrirkomulag kílómetragjalds skerðir skilvirkni – SVÞ varar við auknu flækjustigi

Fyrirkomulag kílómetragjalds skerðir skilvirkni – SVÞ varar við auknu flækjustigi

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, varar við að fyrirhugaðar breytingar á frumvarpi til laga um kílómetragjald gætu leitt til aukins flækjustigs og kostnaðar, sérstaklega m.t.t. vöruflutninga. Þetta kemur fram í nýrri grein Benedikts þar sem hann greinir frá áhyggjum sínum vegna áforma stjórnvalda um að skipta út eldsneytissköttum fyrir víðtækt kílómetragjald.

Í greininni bendir Benedikt á að núverandi kerfi eldsneytisskatta hafi verið álitið einfalt, skilvirkt og sanngjarnt, þar sem þeir sem nota meira eldsneyti greiða meira. Með fyrirhugaðri breytingu, þar sem kílómetragjald verður lagt á alla bíla, óháð eldsneytistegund, skapast verulegar flækjur fyrir rekstraraðila vöruflutningabíla.

„Rekstraraðilar vörubíla munu þurfa að halda utan um skráningu fjölmargra bíla sem er ekið af mörgum bílstjórum. Þar sem kílómetragjald á bílana og eftirvagnana verður hátt mun nákvæmt utanumhald og regluleg skráning skipta sköpum,“ segir Benedikt í greininni.

Benedikt lýsir einnig áhyggjum sínum af því að nýja fyrirkomulagið auki álag á fyrirtæki og ríkissjóð þar sem eftirlit og skráningarkröfur verði flóknari. Hann varar við að rekstraraðilar vörubíla gætu lent í miklum viðbótarkostnaði og að aukinn rekstrarkostnaður skili sér að lokum í hærra verði.

SVÞ mun halda áfram að fylgjast með þróun málsins og beita sér fyrir skýru og sanngjörnu fyrirkomulagi sem tekur tillit til hagsmuna aðildarfyrirtækja samtakanna. Fyrirtæki eru hvött til að fylgjast með og kynna sér áhrif breytinganna á rekstur.

SMELLTU HÉR til að lesa alla greinina.
SMELLTU HÉR fyrir frétt á VB.is

Skattahækkanir á vegum ríkisins: SVÞ kallar eftir skýrleika og ábyrgð

Skattahækkanir á vegum ríkisins: SVÞ kallar eftir skýrleika og ábyrgð

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, vekur athygli á áformum stjórnvalda um auknar álögur á fyrirtæki og einstaklinga í tengslum við vegamál. Í nýrri grein á Vísi bendir hann á mikilvægi þess að tryggja að nýir skattar renni raunverulega til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins. 

„Það er ekki ósanngjörn krafa að nægilegu fjármagni sé á hverjum tíma veitt í vegamál,“ segir Benedikt og undirstrikar að góð vegamannvirki séu lykilforsenda verðmætasköpunar og hagkvæmrar nýtingar framleiðsluþátta.

Benedikt gagnrýnir einnig skort á gagnsæi í skattlagningu og bendir á að stjórnvöld hafi ekki alltaf tryggt að tekjur af ökutækjum og eldsneyti fari beint í vegamál. Hann kallar eftir ábyrgð og skýrleika í fjármálum ríkisins til að endurheimta traust almennings og atvinnulífsins.

Grein Benedikts má lesa í heild sinni á Vísi: Smelltu HÉR!