Um traust og vantraust | Visir.is

Um traust og vantraust | Visir.is

Visir.is birtir í dag grein eftir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni; ‘Um traust og vantraust’

Um traust og van­traust

Traust er ein meginundirstaða viðskipta. Alþingi hefur í ýmsu tilliti stutt við bak einstaklinga og ýmissa hópa til að stuðla að jafnri stöðu í viðskiptum. Til grundvallar liggur sú hugmynd að jöfn staða stuðli að trausti og tilvist trausts liðki fyrir viðskiptum. Viðskipti eru meðal forsendna þróunar, framleiðni, nýsköpunar, tæknibreytinga o.fl.

Slíkar hugmyndir liggja að baki fjölmörgum lagabálkum sem lúta að samningum. Neytanda sem kaupir vöru í netverslun er samkvæmt lögum heimilt að skila henni allt að 14 dögum eftir pöntun enda hefur hann ekki fengið tækifæri til að sjá hana berum augum. Af svipuðum meiði er í samkeppnislögum lagt bann við ýmiskonar samstarfi fyrirtækja enda geta áhrif þess á neytendur verið alvarleg og þeim algerlega á huldu. Allir þekkja alvarlegar afleiðingar brota gegn því banni og því skapar bannið traust.

Að efla traust

Árið 2021 heimilaði Samkeppniseftirlitið þremur fyrirtækjum á sviði kjötafurða að sameinast þrátt fyrir að slíkt samstarf væri í raun bannað í ljósi neikvæðra áhrifa á samkeppni og þar með á neytendur og bændur. Málinu lauk með sátt, hið sameinaða fyrirtæki skuldbatt sig til að takast á hendur skilyrði sem áttu að tryggja að dregið yrði úr áhrifunum. Í fyrsta lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að standa ekki í vegi fyrir því að bændur færðu viðskipti sín annað eftir sameininguna. Í öðru lagi skuldbatt það sig til að aðgreina slátrun og vinnslu í eigin bókhaldi og lúta skorðum og reglum við verðlagningu á slátrun, sögun og annarri nánar skilgreindri þjónustu í tiltekinn tíma. Í þriðja lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að selja frá sér eignarhluti í samkeppnisaðilum. Í fjórða lagi skuldbatt það sig til að eiga áfram, um tiltekinn tíma, viðskipti við fyrirtæki sem voru því mjög háð þannig að þau dyttu ekki af markaði vegna samrunans. Í fimmta og síðasta lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að setja sér samkeppnisstefnu, tryggja að unnið væri eftir sáttinni og m.a. að haldin yrði skrá um samskipti við samkeppnisaðila. Orðin „gagnsæi“ og „afltakmörkun“ eru e.t.v. ágæt til að lýsa skilyrðunum. Brot gegn sátt hefur afleiðingar.

Annars konar traust

Eins og þekkt er tók Alþingi sérstakt skref fyrir skemmstu. Orð stjórnmálamanna bera með sér að tilteknum fyrirtækjum sé frekar treystandi en öðrum. Nýfengið traust Alþingis endurspeglaðist í breytingum sem gerðar voru á búvörulögum, að frumkvæði meiri hluta atvinnuveganefndar, sem hafa það m.a. í för með sér að skilyrði á borð við þau sem Samkeppniseftirlitið setti árið 2021 þurfa ekki að vera uppfyllt lengur. Það var niðurstaða hagsmunamats Alþingis að traust til eigenda fyrirtækjanna væri svo ríkt að óþarft væri að gæta að stöðu bænda og neytenda, óþarft væri að tryggja gagnsæi og afltakmarkanir væru óþarfar.

Um helgina voru fluttar fréttir af kaupum KS á Kjarnafæði Norðlenska. Af ummælum sem fallið hafa má draga þá ályktun að traust Alþingis hafi í raun ráðið niðurstöðunni. Samþjöppun er leyfileg og markaðsafl sameinaðs fyrirtækis eykst. Stjórnmálamenn og talsmenn bænda virðast í ýmsu tilliti enn sannfærðir, leyfa sér að treysta því að stöðu bænda verði ekki ógnað og að ekki verði gengið á stöðu neytenda. Hryggilegast er að það gætti sameiginlegs skilnings á hagræðingarþörf í framleiðslu nautgripa- og lambakjöts og að stöðu bænda þyrfti að bæta. Það var viðfangsefni lagafrumvarps matvælaráðherra sem Alþingi breytti með þeim hætti að stuðningurinn sem til stóð að veita endaði hjá viðsemjendum þeirra. Þá hefur engin vakið máls á vanda framleiðslu svína- og kjúklingakjöts eða eggja. Afurðastöðvum í þeim bransa treysti Alþingi á sama hátt og öðrum.

Vantraust?

Ekki fyrr en eftir u.þ.b. þrjú ár mun matvælaráðherra flytja Alþingi skýrslu og segja frá hvernig til tókst, upplýsa hvort fyrirtækjunum hafi í raun og veru verið treystandi. Í millitíðinni er Samkeppniseftirlitinu ætlað að passa upp á að fyrirtækin sem Alþingi treysti safni afurðum frá öllum bændum á sama verði, selji þær öðrum fyrirtækjum á sömu viðskiptakjörum og tengdum fyrirtækjum, hamli því ekki að bændur fari með viðskipti sín annað og haldi úti þjónustuúrvali við bændur um afmarkaða þætti. Á þeim tíma má beinlínis gera má ráð fyrir að mun fleiri fyrirtæki muni hefja samstarf, sameinast og efla afl sitt í ljósi þess trausts sem Alþingi hefur sýnt þeim enda mega þau óáreitt bergja af þeim brunni. Afleiðingar yfirsjóna verða engar.

Að rúmlega þremur árum liðnum verður fyrst hægt að sjá hvernig ógagnsæið og aflaukningin nýttist fyrirtækjunum, hvort traustið var þess virði. Á þeim tímapunkti verður okkur fyrst fært að átta okkur á hvort og hvernig þau huguðu að stöðu bænda og neytenda og gengu ekki á stöðu samkeppnisaðila. Þá fyrst er okkur ætlað að ræða hvers vegna fyrirtækjunum var treyst og þá fyrst ræðum við mögulega um fyrirtækið eitt, kjötafurðastöð Íslands.

Á tímum vantrausts

Samkeppniseftirlitið hefur verið vængstíft m.t.t. háttsemi tiltekinna fyrirtækja og við það munum við því miður búa næstu árin. Undir þeim kringumstæðum getum við annað hvort látið þetta yfir okkur ganga eða gripið til eigin aðgerða.

Verkefnið er að veita aðhald sem jafnast á við það sem Samkeppnieftirlitið getur ekki veitt lengur. Verslunin og samkeppnisaðilar verða að beita sér og tjá sig og neytendur líka, m.a. með buddunni. Bændur verða að gæta sín og vera tilbúnir til viðspyrnu. Að óbreyttu mun engin annar gæta þess að ábati hagræðis rati til neytenda og bænda en ekki eitthvert annað.

Greinin inn á visir.is

6 milljarðar í erlenda netverslun frá Kína 2023 | RSV

6 milljarðar í erlenda netverslun frá Kína 2023 | RSV

Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) birtir í dag niðurstöður netverslunar fyrir árið 2023.  Þar kemur m.a. fram að Íslendingar versluðu mest í erlendri netverslun frá Kína eða fyrir rúmlega 6 milljarða króna árið 2023 en við Íslendingar versluðum fyrir 27,4 milljarða króna í erlendri netverslun árið 2023. Í öðru sæti eru Bandaríkin með 4,2 milljarða króna en Bretland situr í þriðja sæti með 3,2 milljarða króna. Þýskaland og Holland fylgja svo fast á eftir. Hollendingar slá Víetnam úr fimmta sæti frá árinu 2022 en innflutningur frá Hollandi tvöfaldaðist milli ára. Kína sat einnig á toppnum fyrir árið 2022 með 6,2 milljarða króna af 23,9 milljörðum sem fóru í erlenda netverslun.

Innlend netverslun hækkar um 20,8% á milli ára

Innlend netverslun fyrir árið 2023 nam 50,4 milljörðum króna og hækkar um 20,8% á milli ára á meðan erlend netverslun nemur 27,4 milljörðum króna og hækkar um 14,6% á milli ára. Verslun á netinu í dagvöruverslunum innanlands hefur aukist um 48,7% á milli ára og má telja að landsmenn hafi verið duglegir að nýta sér tækni dagvöruverslana á árinu sem leið.

SMELLTU HÉR fyrir greinina inná RSV.

Íslensk kortavelta var 91,64 milljarður króna í nóvember s.l.

Íslensk kortavelta var 91,64 milljarður króna í nóvember s.l.

Kortavelta Íslendinga í nóvember fór uppí  91,64 milljarða króna, sem er hækkun um 5,6% á ári samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknasetri verslunarinnar [RSV].

Erlend kortavelta nemur 17,15 milljörðum króna og hækkar um 3,7% á ári.

RSV bendir einnig á í tilkynningu sinni að;

  • Netverslun Íslendinga eykst um 15,1% á s.l. 12 mánuðum og er 18 milljarðar króna í nóvember mánuði.
  • Kortaverslun í dagvöruverslunin blómstrar líka í nóvember á 23,2 milljörðum krónum, sem er hækkun um 17,2% á ári.
  • Fataverslunin nýtir einnig vel af sér, með 4,07 milljörðum króna kortaveltu í nóvember, sem er hækka um 8,8% á ári.

Rannsóknasetur verslunarinnar RSV birtir reglulega kortaveltugögn á Veltunni, www.veltan.is.

Kortaveltan er sundurliðuð eftir þjóðerni og tegundum verslana og þjónustu auk þess sem netverslun er sundurgreind frá verslun í búðum og kortavelta erlendra ferðamanna er skoðuð sérstaklega.

Glundroði stjórnvalda í loftlagsmálum

Glundroði stjórnvalda í loftlagsmálum

Heimsmet í hættu.

Stjórnvöld virðast ekki vita í hvorn fótinn þau eiga að stíga þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Glundroði ríkir.

Stjórnvöld hafa undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um samdrátt losunar á beinni ábyrgð Íslands sem nemur um 29% árið 2030 miðað við stöðuna árið 2005. Þau hafa sett sér enn metnaðarfyllri markmið í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg um 55% samdrátt sama ár og stefna að heimsmeti með því að Ísland verði fyrsta jarðefnaeldsneytislausa land heims árið 2040. Ef illa tekst til blasa við allt að 10 milljarða kr. ríkisútgjöld á ári vegna kaupa á losunarheimildum eða innflutningur á rándýrum íblöndunarefnum sem margfalda gjaldeyrisútstreymi.

Árið 2022 átti 33% af losun koltvísýrings á beinni ábyrgð Íslands uppruna sinn að rekja til vegasamgangna. Í þeim flokki hefur losun aukist með auknum efnahagsumsvifum. Í vegasamgöngum liggja þó mestu tækifærin til losunarsamdráttar þar sem nýting hreinorkutækni er þar lengst komin. Til að ná settum markmiðum hafa stjórnvöld m.a. ráðist í aðgerðir sem eiga að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum.

Aðgerðir hafa skilað árangri.

Frá því skattívilnanir litu fyrst dagsins ljós árið 2012 hefur hlutdeild hreinorkuökutækja í árlegum nýskráningum vaxið og nemur það sem af er líðandi ári ríflega 40%. Ökutækjafloti Íslendinga er hins vegar stór en við lok árs 2022 voru hér 278.528 ökutæki í umferð. Við búum í stóru landi undir skilyrðum vaxandi efnahagsumsvifa. Umsvif iðnaðar og ferðaþjónustu hafa m.a. leitt til gríðarlegrar fólksfjölgunar.

Þrátt fyrir ágætan árangur erum við enn langt frá fullum orkuskiptum. Hreinorkuökutæki voru aðeins 18.054 í lok árs 2022 eða 6,5% af heildarfjöldanum. Því er ljóst að það þarf að gera enn betur. Búast má við að ökutækjaflotinn í landinu nemi 328 þúsund ökutækjum árið 2030 og hreinorkubílar verði aðeins um 104 þúsund talsins eða 32%. Líklegt er að losun frá vegasamgöngum nemi þá 893 þúsund tCO2íg (koltvísýringsígildi) og verði í raun 15% meiri en árið 2005 en ekki 55% minni.

Á stuttum tíma hafa stjórnvöld gripið til eftirfarandi aðgerða:

  • Tekið hefur verið upp lágmarksvörugjald á hreinorkubíla og sparneytna bíla og þar með hefur dregið úr verðmun slíkra bíla og eyðslufrekra bíla.
  • Fjárhæð virðisaukaskattsívilnunar hreinorkuökutækja hefur lækkað og verður hún alfarið lögð af um næstu áramót.
  • Lágmarks bifreiðagjald var tvöfaldað um síðustu áramót og losunarmörk gjaldtökunnar hækkuð og því hefur dregið hlutfallslega úr mun á rekstrarkostnaði hreinorkubifreiða og eyðslugrannra bifreiða annars vegar og eyðslufrekra jarðefnaeldsneytisbifreiða hins vegar.
  • Sérstakt úrvinnslugjald er lagt á drifrafhlöður á hreinorkuökutækja við nýskráningu.
  • Tilkynnt hefur verið um upptöku notkunargjalds m.a. á hreinorkubíla þannig að dragi úr mun á rekstrarkostnaði þeirra og jarðefnaeldsneytisbíla.
  • Tilkynnt hefur verið að til standi að gera frekari breytingar á skattlagningu eldsneytis sem gætu lækkað útsöluverð jarðefnaeldsneytis með þeim afleiðingum að dragi enn frekar úr mun á rekstrarkostnaði hreinorkubíla og jarðefnaeldsneytisbíla.

Stefnubreyting?

Samkvæmt umfjöllun í frumvarpi til fjárlaga 2024 mun ný gerð stuðnings vegna kaupa á hreinorkubílum taka gildi um næstu áramót. Orkusjóður mun úthluta fjárstyrkjum. Samhliða er ætlunin að draga umfang stuðningsins saman um sem nemur meira en 35% á nafnverði milli áranna 2023 og 2024 ef miðað er við umfang ívilnunar í virðisaukaskattskerfinu sem mun falla niður. Útfærsla nýja stuðningsins liggur enn ekki fyrir en ljóst er að fjármála- og efnahagsráðherra fellir breytinguna í flokk aðhaldsaðgerða sem ætlað er að vinna gegn verðbólgu.

Tvístígandi stjórnvöld hafa misst móðinn og hafa þau áhyggjur af dvínandi skatttekjum af ökutækjum og eldsneyti. Staðan hefur hins vegar verið fyrirséð allt frá þeim tíma þegar ákveðið var að beita efnahagslegum hvötum skattkerfisins til að vinna að orkuskipta- og loftslagsmarkmiðum. Hinar nýtilkomnu áhyggjur ríkisstjórnarinnar hafa leitt hana inn á ranga braut viðbragða sem draga úr virkni eigin aðgerða og hægja hraða orkuskipta. Fyrir vikið mun Ísland fjarlægjast sett markmið.

Einstaklingar og fyrirtæki eru um þessar mundir að velta fyrir sér hvernig sé skynsamlegt að haga sér við fjárfestingu í ökutækjum á næsta og þar næsta ári. Hvaða bíla geta söluaðilar boðið upp á? Hvað munu bílar kosta? Hvað mun kosta að reka bíla? Er e.t.v. skynsamlegra að fjárfesta í bíl sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti þar til framtíðin verður skýrari? Þetta eru stórar spurningar en svörin fá í þeirri óvissu sem nú er uppi. Undirbúningur fjárlaga hefst að jafnaði að vori og því hlýtur að vera unnt að gera þá kröfu að stjórnvöld skipuleggi sig, vandi undirbúning og kynningu, svo fyrirsjáanleiki verði tryggður.

Einfalt að snúa blaðinu við.

Stjórnvöld geta með einföldum hætti snúið við blaðinu og stutt við eigin markmið í loftslagsmálum næstu fimm árin með eftirfarandi aðgerðum og það án aukinna útgjalda á heildina litið.

  • Fellt niður lágmarksvörugjald af hreinorkubílum sem lagt var á um áramót en í staðinn lækkað losunarviðmið og gjaldþyngd vörugjalds af bílum sem ganga að hluta eða öllu leiti fyrir jarðefnaeldsneyti.
  • Aukið fjárhagslegt umfang stuðnings í gegnum Orkusjóð vegna kaupa á hreinorkubílum á árunum 2024 og 2025 en dregið á móti úr umfanginu sem aukningunni nemur árin 2027 og 2028.
  • Innleitt aðgerðir til hröðunar orkuskipta í vegasamgöngum sem vinnuhópur Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandsins og Samtaka ferðaþjónustunnar skilaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í júní síðastliðnum í tengslum við loftslagsvegvísa atvinnulífsins.
  • Frestað upptöku notkunargjalds á hreinorkubíla a.m.k. til ársins 2025. Þar með gefst betri tími til undirbúnings og upptöku gjaldanna á alla ökutækjaflokka eftir vandlega greiningu og tímanlega kynningu fyrir almenningi og fyrirtæki.

Orkuskiptin eru eitt stærsta og mikilvægasta verkefni síðari tíma og þau er mikilvægt að taka föstum tökum. Glundroði getur reynst sandur í vél þeirra. Öllu skiptir að undirbúningur og framkvæmd aðgerða helgist af jafn miklum metnaði og markmiðin sem að er stefnt. Þær séu í samhengi, fyrirsjáanlegar, hagkvæmar, samvirkar og mælanlegar.

Höfundar: Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og Egill Jóhannsson, stjórnarmaður í Bílgreinasambandinu og SVÞ.

__________________________________________________________________
Sjá grein í Morgunblaðinu hér fyrir neðan:

Morgunblaðið 4.nóvember 2023 Umhverfismál

 

 

 

Rýnt í leiguverð |  Visir.is

Rýnt í leiguverð | Visir.is

Visir.is birtir í dag, 17.maí 2023,  grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Þar segir m.a.:
Umræða um leiguverð á íbúðarmarkaði hefur verið nokkuð hávær að undanförnu. Í þeirri umræðu hefur verið fullyrt að verðhækkanir á þessum markaði hafi verið úr öllu hófi og ekki í samræmi við almenna verðlagsþróun í landinu. Af þeirri ástæðu er rétt að staldra við og benda á nokkur einföld atriði:

  • a. Húsnæðiskostnaður hefur ávallt verið stærsti útgjaldaliður hverrar fjölskyldu, hvort sem fólk býr í eigin húsnæði eða er á leigumarkaði. Þannig hefur það ávallt verið og verður að öllum líkindum áfram.
  • b. Á tímabilinu frá desember 2019 til mars 2023 lækkaði leiguverð á höfuðborgarsvæðinu um 4,8% á föstu verðlagi á meðan kaupverð á íbúðarhúsnæði hækkaði um 22,4% á sama tíma. Ef horft er á þróunina út frá breytingu á launavístölu á sama tímabili á hækkaði launavísistalan um 31,2%, eða um tæplega 7% á föstu verðlagi. Leiguverð sem hlutfall af launum lækkaði því um 11 % á tímabilinu.
  • c. Fært yfir á mannamál merkir þetta að húsaleigan er hlutfallslega lág í samanburði við verð á fasteignum og fjármagnskostnað. Telja verður meiri líkur en minni á að húsaleigan aðlagist að einhverju leyti þegar horft er til þess að íbúafjölgun hér á landi hefur verið meiri undanfarna mánuði en nokkru sinni fyrr á svo skömmum tíma og framboð á leiguhúsnæði er augljóslega ekki í takt við þarfir markaðarins. Hér mun lögmálið um framboð og eftirspurn einfaldlega ráða þróuninni.
  • d. Könnun sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur gert bendir eindregið til þess að stærri hluti leigjenda sé ánægðari með stöðu sína en oft áður, enda liggur það fyrir að útgjöld vegna húsaleigu hafa verið svipað hlutfall ráðstöfunartekna allan undangenginn áratug.
  • e. Samkvæmt lífskjarakönnun Hagstofu Íslands töldu 13,8% heimila á leigumarkaði sig búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað árið 2022 í samanburði við 25,4% árið 2015. Þessi niðurstaða bendir eindregið til þess að fólk hafi það almennt betra á leigumarkaði en oft áður.

Sú lýsing á ástandinu á leigumarkaði fyrir íbúðarhúsnæði sem birst hefur að undanförnu er því ekki í samræmi við þann raunveruleika sem opinber gögn segja til um. Hér gildir því hið sígilda að yfirveguð umræða, byggð á staðreyndum máls, er líklegust til að leiða umræðuna inn á réttar brautir.

SMELLTU HÉR til að lesa greinina inná Visir.is