Pisa og skekkjan í skóla­kerfinu

Pisa og skekkjan í skóla­kerfinu

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, skrifar á Vísi fimmtudaginn 5. desember sl.

Niðurstöður í alþjóðlegu Pisa-könnuninni valda vonbrigðum. Enn á ný vefst lesskilningur, túlkun og ályktunarhæfni fyrir íslenskum nemendum. Skýringa er leitað og nefnt að ekki sé farið nógu djúpt í viðfangsefnin í skólanum; skólakerfið svamli um á yfirborðinu. Er það kannski svo að kerfið sjálft sé statt á endastöð einhvers konar sjálfskapaðrar tilvistarkreppu? Niðurnjörvað í úreltum kjarasamningum fortíðar, sem eru fyrir óralöngu hættir að ríma við nútímann? Mæling kennslustunda upp á mínútur hér og þar virðist upphaf og endir allra kjarasamninga. Ekkert flæði, ekkert svigrúm, engin nýsköpun í uppbyggingu skólanna. Allir skulu mótast í nákvæmlega sama mót. Allir grunnskólar á Íslandi, alls staðar, bjóða upp á allt eins.

Þessi lýsing er mögulega nokkuð harðorð í garð kerfisins en það er full ástæða til að taka djúpt í árinni. Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla höfum talað fyrir sveigjanleika, nýsköpun og frelsi til athafna og á okkur hafa sumir viljað hlusta en svo sannarlega ekki allir. Sjálfstæðir skólar þykja með einhverjum óskiljanlegum hætti ógna kerfinu. Þessu svifaseina kerfi, sem virðist að mörgu leiti komið í þrot.

Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla teljum mikilvægt að búa við fjölbreytta skóla. Skóla sem þora að fara út fyrir hefðbundinn ramma og gefa þannig foreldrum meira vald til ákvarðana. Raunverulegt val um hvað hentar börnum þeirra best hverju sinni. Í skólakerfinu, rétt eins og annars staðar, hentar ekki öllum að vera felldir í sama mótið.  Sjálfstæðir skólar hafa annars konar nálgun á menntun en hefðbundna skólakerfið. Sjálfstæðir skólar hafa sýnt frumkvæði og getu til breytinga og sýna það og sanna að nýsköpun og drifkraftur skiptir máli fyrir alla. Kennara jafnt sem nemendur. Og það er lykilfólkið í menntakerfinu, þegar öllu er á botninn hvolft. Grundvallaratriði er að nemendum farnist vel og að kennurum sé skapað rými og tími til athafna. Sjálfstæðir skólar á Íslandi eru afar fáir og miklu færri en þeir ættu að vera. Aðeins rúm 2% grunnskóla hér á landi eru sjálfstætt starfandi skólar, en svo lágt hlutfall er hvergi að finna í nágrannalöndum okkar, þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og þar sem útkoman í Pisa-könnunum telst góð.

Sjálfstæðir skólar á Íslandi eru fámennir, faglegir og framsæknir. Allt gríðarlegir kostir þegar kemur að því að ná til allra nemenda, hafa yfirsýn og veita hefðbundna kerfinu einhvers konar viðmið eða samanburð. Sjálfstæðir skólar eru hvatning til annarra að fara nýjar leiðir til að breyta kerfinu til batnaðar og rjúfa vítahring endurtekninga.

Við þurfum fjölbreytni og frelsi svo foreldrar geti tekið upplýsta og meðvitaða ákvörðun um skólaval. En ekki síður til þess að kennarar hafi val um ólíkt starfsumhverfi og geti hrist af sér þann doða sem getur svo auðveldlega skapast í kerfi sem er ætlað að vera eins fyrir alla.

Af hverju eru enn svo fáir sjálfstætt starfandi skólar? Við hvað erum við hrædd? Varla óttumst við lélega útkomu í Pisa-könnunum? Væri ekki nær að viðurkenna að við þurfum að rétta þá skekkju í skólakerfinu, sem veldur því að nemendur ná ekki allir að blómstra? Sjálfstæðir skólar geta uppfyllt þarfir þeirra, sem finna sig ekki í hefðbundnu skólakerfi. Og hver veit nema niðurstöður í Pisa-könnunum færu þá batnandi.

Upptökur og efni frá upplýsingafundi Vegagerðarinnar

Upptökur og efni frá upplýsingafundi Vegagerðarinnar

Upptökur og efni frá félagsfundi SVÞ og Samtaka ferðaþjónustunnar með Vegagerðinni eru nú aðgengilegar hér fyrir neðan. Á fundinum fóru fulltrúar frá Vegagerðinni yfir um vetrarþjónustu, viðhald og öryggismál vegakerfisins og svöruðu spurningum fundarmanna.

Upptökur frá fundinum má sjá í einum spilunarlista undir nafninu Öryggi á vegum og vetrarþjónusta 2019-2020 á Facebook hér: https://www.facebook.com/samtok.vth/videos/

Á fundinum kynnti Berglind Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar nýja stefnu Vegagerðarinnar 2020-2025 og hana má nálgast á vef Vegagerðarinnar hér.

Hér fyrir neðan má sjá glærur þeirra sem héldu erindi:

Glærur Einars Pálssonar, forstöðumanns þjónustudeildar um þjónustu Vegagerðarinnar

Glærur frá Auði Þóru Árnadóttur, forstöðumanns umferðardeildar Vegagerðarinnar um umferðaröryggi

Glærur Óskars Arnar Jónssonar, forstöðumanns framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar um framkvæmdir

Lyfja­verð lækkað um helm­ing frá alda­mót­um

Lyfja­verð lækkað um helm­ing frá alda­mót­um

Í umfjöllun á mbl.is fimmtudaginn 21. nóvember sl. kemur fram að lyfjaverð á Íslandi hefur lækkað um helming frá aldamótum. Fréttir af samanburði Medicine Price Index á lyfjaverði í 50 löndum sýndu að Ísland er meðal þeirra landa þar sem lyfjaverð er hæst. Í umfjölluninni er rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, en í máli hans kemur fram að ýmislegt hafi áhrif til hækkunar lyfjaverðs hérlendis, ekki síst smæð markaðarins og mikilvægt sé að skoða hlutina í samhengi.

Umfjöllunina í heild sinni má lesa hér.

Fjölmenni á málþingi um annmarka á ríkiskaupum í heilbrigðisþjónustu

Fjölmenni á málþingi um annmarka á ríkiskaupum í heilbrigðisþjónustu

Fjölmenni var á Hótel Reykjavík Natura sl. þriðjudag þar sem fjallað var um annmarka við kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu. Að málþinginu stóðu stærstu viðsemjendur Sjúkratrygginga Íslands: Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Læknafélag Reykjavíkur, Félag sjúkraþjálfara og Tannlæknafélag Íslands. 

Á málþinginu kynnti Svanbjörn Thoroddsen, stjórnarformaður KPMG niðurstöður greiningar fyrirtækisins á starfsumhverfi þjónustuveitenda í heilbrigðisþjónustu sem benda til mikilla brotalama í innkaupaferlum ríkisins við kaup á þessari þjónustu 

Í skýrslunni kemur m.a. eftirfarandi fram: 

  • vinnubrögð og fyrirkomulag við innkaup eru óskýr,  
  • starfsumhverfi rekstraraðila sem semja við SÍ er ótryggt,  
  • hlutverk aðila í stjórnkerfinu og ábyrgð eru óskýr og  
  • vegna skorts á mannafla sé takmörkuð fagþekking er hjá SÍ til að annast greiningar, gerð og eftirlit samninga.  


Vantrausti lý
st á gallað fyrirkomulag

Niðurstöður skýrslunnar voru ennfremur staðfestar í máli frummælenda, forsvarsmanna ofangreindra félaga auk Daggar Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanns og lögmanns Læknafélags Íslands. Í grein sem birtist sl. mánudag höfðu fulltrúar félaganna jafnframt lýst yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup á heilbrigðisþjónustu og krafist þess að stjórnvöld gripu inn í áður en varanlegar skemmdir yrðu á mikilvægum lykilþáttum heilbrigðisþjónustu landsmanna. 


V
innubrögð SÍ gagnrýnd

Í máli frummælenda kom ítrekað fram gagnrýni á vinnubrögð Sjúkratrygginga Íslands í viðræðum við aðila um kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu og staðfestu þar með flest af því sem kom fram í skýrslu KPMG. Þau atriði sem einkum hlutu gagnrýni voru þau að samningaferli stofnunarinnar þykir óskýrt, misræmi tí undirbúningi og gerð samninga, lítil formfesta sé við samningsgerð og vantraust ríki í samskiptum auk þess sem misræmi sé milli verðlagningar og kröfulýsingar. Af því sem hér kemur fram má ráða að flest, sem aflaga getur farið í samskiptum Sjúkratrygginga Íslands við viðsemjendur stofnunarinnar, geri það. Umræður á málþinginu endurspegluðu þessa stöðu mjög vel og sú skýlausa krafa var uppi að stofnunin tæki þegar upp ný og bætt vinnubrögð.  

Þeir sem að málþinginu stóðu hvetja stjórnvöld og stofnanir til að skoða vel þær ábendingar sem þar komu fram og beita sér fyrir því að koma á samskiptum og samningaviðræðum milli aðila sem byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu. Með því móti verði ferlið við kaup á heilbrigðisþjónustu markvissara, þannig að fjármagn nýtist sem best við að hámarka gæði og þjónustu fyrir notendurna, sem er meginmarkmið okkar allra. 

Lýsa yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup heilbrigðisþjónustu

Lýsa yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup heilbrigðisþjónustu

Í grein sem birtist á Vísi í dag lýsa forsvarsmenn fimm félaga í heilbrigðisþjónustu yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu og krefjast þess að stjórnvöld grípi inní áður en varanlegar skemmdir verða á mikilvægum lykilþáttum heilbrigðisþjónustu landsmanna.

Í nýrri úttekt KPMG kemur fram að verulegar brotalamir eru á núverandi kerfi sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjónustuveitanda og þjónustuþega. Ennfremur segja greinarhöfundar að Sjúkratryggingar Íslands valdi ekki núverandi hlutverki sínu og séu engan veginn í stakk búnar til að taka við innkaupum á allri heilbrigðisþjónustu, líkt og fyrirhugað er skv. núverandi heilbrigðisstefnu.

Greinina í heild sinni má lesa hér á vefnum visir.is.

Greinina skrifa:
Elín Sigurgeirsdóttir, f.v. formaður Tannlæknafélags Íslands
Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Haraldur Sæmundsson, formaður samninganefndar sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara
Jón Gauti Jónsson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur

Skólakerfi til framtíðar!

Skólakerfi til framtíðar!

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla skrifaði á Vísi um skólakerfi framtíðarinnar þann 7. nóvember sl.

Tveir áhugaverðir viðburðir um menntakerfið okkar voru haldnir í vikunni, árlegt skólaþing sveitarfélaganna og kynning Samtaka atvinnulífsins á áherslum samtakanna í menntamálum. Á skólaþingi sveitarfélaganna var verið að ræða hina einu sönnu spurningu: Hvað er menntun? Það gladdi okkur sem stöndum að Samtökum sjálfstæðra skóla að þingið sýndi það hugrekki í fyrsta sinn að hafa á dagskrá sinni erindi frá sjálfstætt reknum grunnskóla.

Erum við á réttu róli? var yfirskrift þingsins. Mikilvæg spurning og eins og oft áður er allt undir. Mikilvægi raungreina, styrk stoðþjónusta, vellíðan, sameining sveitarfélaga og allt þar á milli. Þegar við veltum fyrir okkur hvernig skólakerfi við viljum þá eru allar spurningar mikilvægar. Sjálfstæði skóla og sjálfstætt starfandi skólar, breytt aldursbilsdreifing skólastiga, fækkun grunnskólaáranna um eitt ár, framhaldsskóli og háskóli í meiri samfellu. Sveitarfélög og ríki þurfa að móta samfelluna á milli grunn- og framhaldsskólans í rekstrarlegu tilliti. Allt eru þetta mikilvæg mál og miseldfim. Við höfum rætt þau oft áður, en án nokkurrar niðurstöðu eða aðgerða í kjölfarið.

En viljum við í raun einhverjar aðgerðir? Eða komum við einhvern tímann til með að sammælast um hvaða aðgerðir eru þær réttu fyrir blessað kerfið? Er það lengd grunnskólans? Árabilin á milli skólastiga? tenging á milli skólastiga eða jafnvel meiri stuðningur við fjölbreytt rekstrarform?

Samhljóminn var einna helst að finna í því að gera kerfið okkar betra.

Við gætum þokast í átt að lausn með því að vera opin og taka fjölbreytileika fagnandi. Samrekstur leik- og grunnskóla er ein leið til að skapa faglegan styrk, svo kerfið nái að mæta hverjum nemanda á hans forsendum. Þekking sérfræðinga á ólíkum aldursskeiðum vinnur saman og getur þokað okkur áfram með velferð og menntun barna í fyrirrúmi. Sjálfstætt starfandi skólar er önnur leið, innan þeirra vébanda eru litlir skólar með, óhefðbundna nálgun á nám og kennslu. Slíkt felur í sér nýsköpun í skólastarfi, þar sem hugmyndafræði afmarkast við ákveðna þætti eins og jafnrétti, vellíðan eða lestrarfræði. Og er nýr kostur fyrir börn, ungmenni og foreldra, en ekki síður kennara um annars konar starfsvettvang.

Um skólakerfið vitum við fyrir víst að þar eru nemendur með alls konar þarfir. Sumir geta farið hraðar yfir þá grunnmenntun sem grunnskólinn byggir á, en mætti þó efla og dýpka til að auka almennan lesskilning, bæta stærðfræði og raungreinakennslu og ekki væri verra ef verk- og listgreinar fengju um leið aukið vægi. Aðrir þyrftu að komast út fyrir hefðbundna kerfið og fá að spreyta sig í annars konar námi líkt og sjálfstæðir skólar og lýðskólar bjóða upp á. Enn aðrir þyrftu að eiga aðgang að skóla þar sem meiri áhersla er á verk- og listgreinar. Loks er svo hópurinn sem er sáttastur við hefðbundnu 10 ára grunnskólaleiðina.

Viðurkennum ólíkar leiðir og gerum þeim jafnhátt undir höfði í stað þess að togast endalaust á um hvort skólinn eigi að vera svona eða hinsegin. Því fyrst og fremst snýst þetta um menntun og líðan barna og ungmenna til að geta eflst, þroskast og fundið sinn tilgang í lífinu. Til þess þurfum við fjölbreytta skóla, sjálfstæða, litla og stóra.

Engin verður þróunin ef engir eru kennararnir. Síðast en ekki síst þurfum við fleiri öfluga, unga kennara. Kennara sem þora og vilja takast á við faglega þróun og færa menntakerfið okkar inn í framtíðina í sátt við væntingar okkar og þarfir.