Lýsa yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup heilbrigðisþjónustu

Lýsa yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup heilbrigðisþjónustu

Í grein sem birtist á Vísi í dag lýsa forsvarsmenn fimm félaga í heilbrigðisþjónustu yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu og krefjast þess að stjórnvöld grípi inní áður en varanlegar skemmdir verða á mikilvægum lykilþáttum heilbrigðisþjónustu landsmanna.

Í nýrri úttekt KPMG kemur fram að verulegar brotalamir eru á núverandi kerfi sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjónustuveitanda og þjónustuþega. Ennfremur segja greinarhöfundar að Sjúkratryggingar Íslands valdi ekki núverandi hlutverki sínu og séu engan veginn í stakk búnar til að taka við innkaupum á allri heilbrigðisþjónustu, líkt og fyrirhugað er skv. núverandi heilbrigðisstefnu.

Greinina í heild sinni má lesa hér á vefnum visir.is.

Greinina skrifa:
Elín Sigurgeirsdóttir, f.v. formaður Tannlæknafélags Íslands
Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Haraldur Sæmundsson, formaður samninganefndar sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara
Jón Gauti Jónsson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur

Skólakerfi til framtíðar!

Skólakerfi til framtíðar!

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla skrifaði á Vísi um skólakerfi framtíðarinnar þann 7. nóvember sl.

Tveir áhugaverðir viðburðir um menntakerfið okkar voru haldnir í vikunni, árlegt skólaþing sveitarfélaganna og kynning Samtaka atvinnulífsins á áherslum samtakanna í menntamálum. Á skólaþingi sveitarfélaganna var verið að ræða hina einu sönnu spurningu: Hvað er menntun? Það gladdi okkur sem stöndum að Samtökum sjálfstæðra skóla að þingið sýndi það hugrekki í fyrsta sinn að hafa á dagskrá sinni erindi frá sjálfstætt reknum grunnskóla.

Erum við á réttu róli? var yfirskrift þingsins. Mikilvæg spurning og eins og oft áður er allt undir. Mikilvægi raungreina, styrk stoðþjónusta, vellíðan, sameining sveitarfélaga og allt þar á milli. Þegar við veltum fyrir okkur hvernig skólakerfi við viljum þá eru allar spurningar mikilvægar. Sjálfstæði skóla og sjálfstætt starfandi skólar, breytt aldursbilsdreifing skólastiga, fækkun grunnskólaáranna um eitt ár, framhaldsskóli og háskóli í meiri samfellu. Sveitarfélög og ríki þurfa að móta samfelluna á milli grunn- og framhaldsskólans í rekstrarlegu tilliti. Allt eru þetta mikilvæg mál og miseldfim. Við höfum rætt þau oft áður, en án nokkurrar niðurstöðu eða aðgerða í kjölfarið.

En viljum við í raun einhverjar aðgerðir? Eða komum við einhvern tímann til með að sammælast um hvaða aðgerðir eru þær réttu fyrir blessað kerfið? Er það lengd grunnskólans? Árabilin á milli skólastiga? tenging á milli skólastiga eða jafnvel meiri stuðningur við fjölbreytt rekstrarform?

Samhljóminn var einna helst að finna í því að gera kerfið okkar betra.

Við gætum þokast í átt að lausn með því að vera opin og taka fjölbreytileika fagnandi. Samrekstur leik- og grunnskóla er ein leið til að skapa faglegan styrk, svo kerfið nái að mæta hverjum nemanda á hans forsendum. Þekking sérfræðinga á ólíkum aldursskeiðum vinnur saman og getur þokað okkur áfram með velferð og menntun barna í fyrirrúmi. Sjálfstætt starfandi skólar er önnur leið, innan þeirra vébanda eru litlir skólar með, óhefðbundna nálgun á nám og kennslu. Slíkt felur í sér nýsköpun í skólastarfi, þar sem hugmyndafræði afmarkast við ákveðna þætti eins og jafnrétti, vellíðan eða lestrarfræði. Og er nýr kostur fyrir börn, ungmenni og foreldra, en ekki síður kennara um annars konar starfsvettvang.

Um skólakerfið vitum við fyrir víst að þar eru nemendur með alls konar þarfir. Sumir geta farið hraðar yfir þá grunnmenntun sem grunnskólinn byggir á, en mætti þó efla og dýpka til að auka almennan lesskilning, bæta stærðfræði og raungreinakennslu og ekki væri verra ef verk- og listgreinar fengju um leið aukið vægi. Aðrir þyrftu að komast út fyrir hefðbundna kerfið og fá að spreyta sig í annars konar námi líkt og sjálfstæðir skólar og lýðskólar bjóða upp á. Enn aðrir þyrftu að eiga aðgang að skóla þar sem meiri áhersla er á verk- og listgreinar. Loks er svo hópurinn sem er sáttastur við hefðbundnu 10 ára grunnskólaleiðina.

Viðurkennum ólíkar leiðir og gerum þeim jafnhátt undir höfði í stað þess að togast endalaust á um hvort skólinn eigi að vera svona eða hinsegin. Því fyrst og fremst snýst þetta um menntun og líðan barna og ungmenna til að geta eflst, þroskast og fundið sinn tilgang í lífinu. Til þess þurfum við fjölbreytta skóla, sjálfstæða, litla og stóra.

Engin verður þróunin ef engir eru kennararnir. Síðast en ekki síst þurfum við fleiri öfluga, unga kennara. Kennara sem þora og vilja takast á við faglega þróun og færa menntakerfið okkar inn í framtíðina í sátt við væntingar okkar og þarfir.

SVÞ óskar eftir upplýsingum frá félagsmönnum sem mætti nýta við vinnu við einföldun regluverks

SVÞ óskar eftir upplýsingum frá félagsmönnum sem mætti nýta við vinnu við einföldun regluverks

Um þessar mundir stendur yfir vinna í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem miðar að einföldun regluverks. Verkefnið verður unnið í nokkrum áföngum.

Fyrsti áfangi verkefnisins er tvíþættur:

  1. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra birti drög að lagafrumvarpi á samráðsgátt stjórnvalda, Ísland.is., þar sem lagt er felldar verði niður nokkrar leyfisveitingar og skráningar sem ekki er talið nauðsynlegt að séu í lögum, sjá nánar: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1514
  2. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur kynnt áform um að fella brott 1.090 reglugerðir á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar, sjá nánar: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/10/21/Vel-yfir-thusund-reglugerdir-felldar-brott/

Vegna undirbúnings næsta áfanga hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kallað eftir virkri aðkomu atvinnulífsins. Óskað hefur verið eftir því að SVÞ sýni frumkvæði og sendi ráðuneytinu tillögur að frekari breytingum eða eftir atvikum afnámi reglna sem hafa stjórnsýslubyrði í för með sér.

Til að nauðsynleg yfirsýn starfsmanna SVÞ verði tryggð þurfa aðildarfyrirtækin að koma að verkefninu með virkum hætti.

SVÞ óska eftir því að aðildarfyrirtæki sendi samtökunum reynslusögur og ábendingar sem t.d. geta snúið að:

  1. Erfiðleikum við að nálgast hjá stjórnvöldum upplýsingar um laga- og framkvæmdarlega umgjörð starfsemi.
  2. Erfiðleikum eða flækjum í tengslum við öflun starfsleyfis.
  3. Örðugleikum sem kunna að hafa komið upp í samskiptum við eftirlitsstofnanir eða fyrirtæki í eigu hins opinbera.
  4. Mikilli vinnu við öflun gagna og upplýsinga vegna umsókna um leyfi eða annars sem snertir samskipti við opinbera aðila.
  5. Síendurtekinni vinnu við að afla og afhenda opinberum aðilum sömu upplýsingarnar.
  6. Eftirliti sem er þannig háttað að fleiri en ein eftirlitsstofnun virðast hafa eftirlit með sömu þáttum starfsemi.
  7. Flækjum sem komið hafa fram í því að eftirlitsstjórnvöld á sama sviði gera ólíkar eða ósamræmdar kröfur.

Tíminn er ekki að vinna með SVÞ en samtökin hafa aðeins eina viku til að koma tillögum sínum á framfæri við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Allar upplýsingar og ábendingar aðildarfyrirtækja verða hins vegar afar vel þegnar og munu nýtast í næstu áföngum, jafnvel þó að þær berist ekki í tæka tíð. Allt sem þið sendið okkur mun gagnast og allt verður tekið til skoðunar, hversu smávægilegt sem þið teljið það vera.

Vinsamlegast sendið upplýsingar og ábendingar varðandi málið á lögfræðing samtakanna, Benedikt S. Benediktsson á benedikt(hjá)svth.is

Facebook hópur fyrir félagsmenn helgaður stafrænni verslun

Facebook hópur fyrir félagsmenn helgaður stafrænni verslun

Nýr Facebook hópur hefur verið settur á laggirnar í tengslum við Faghóp stafrænnar verslunar innan SVÞ. Hópurinn er fyrir félagsmenn SVÞ sem hafa áhuga á efni tengdu stafrænni verslun, omnichannel og tengdum málum. Tilgangur hópsins er einkum að geta með öflugri hætti deilt sérhæfðu efni sem tengist stafrænni verslun, omnichannel og tengdum málum og að skapa vettvang fyrir félaga til að ræða málefni tengd stafrænni verslun.

Við bjóðum SVÞ félaga velkomna. Vinsamlegast smellið hér og sækið um inngöngu. Gefa þarf upp nafn fyrirtækis sem er aðili að SVÞ og netfang viðkomandi hjá því fyrirtæki. Athugið að lesa leiðarljós hópsins, þegar inn er komið, og sérstaklega þau gögn sem vísað er í varðandi samkeppnismál.