LEITAÐ ER TILLAGNA UM ÞRJÁ MEÐSTJÓRNENDUR Í STJÓRN SVÞ OG FULLTRÚA SVÞ Í FULLTRÚARÁÐ SAMTAKA ATVINNULÍFSINS.
Kjörnefnd SVÞ leitar að áhugasömum stjórnendum til setu í stjórn SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.
Þrír stjórnarmenn taka sæti til næstu tveggja starfsára. Þá er leitað eftir fulltrúum til setu í fulltrúaráði SA til eins árs.
Við hvetjum félagsfólk innan samfélags verslunar og þjónustu SVÞ, til að bjóða þig fram eða senda inn tilnefningu fyrir kl. 12:00 hinn 16. febrúar nk. en framboðsfrestur samkvæmt samþykktum rennur út 22. febrúar. Aðalfundur verður haldinn 14. mars nk.
Í stjórn SVÞ eiga sæti formaður og sex meðstjórnendur.
– Formaður SVÞ til loka starfsársins 2024/2025 er Jón Ólafur Halldórsson, Marga ehf.
Eftirtaldir meðstjórnendur eiga sæti í stjórninni til loka næsta starfsárs, 2024/2025:
Egill Jóhannsson, Brimborg ehf.
Guðrún Jóhannesdóttir, Kokka ehf.
Árni Stefánsson, Húsasmiðjan ehf.
Þrír meðstjórnendur skulu kosnir til setu í stjórn SVÞ fyrir næstu tvö starfsár.
Tilnefningar til stjórnar SVÞ og fulltrúaráðs SA skulu sendar til SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, Borgartúni 35, 105 Reykjavík, merktar „Kjörnefnd SVÞ“ eða á netfangið: kosning@svth.is
Rétt er að minna á að tillögur um breytingar á samþykktum SVÞ þurfa að berast stjórn samtakanna eigi síðar en 16. febrúar 2023.
Fólk af öllum kynjum er hvatt til að gefa kost á sér í stjórn SVÞ og í fulltrúaráð SA.
Kjörnefnd SVÞ
___________________
Viltu hafa áhrif á mótun samfélagsins?
Hagsmunagæsla á tímum umbreytinga.
Síðustu ár hafa fyrirtæki í verslun og þjónustu tekist á við við miklar áskoranir. Heimsfaraldur og sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda kölluðu sífellt á ný viðfangsefni og vinnubrögð. Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu hefur breytt heimsmyndinni. Áhrif átaka í Mið-Austurlöndum eru tekin að koma fram. Brestir í aðfangakeðjunni, erfiðar aðstæður á flutningamarkaði og eftirspurnarbreytingar valda breytingum á rekstraraðstæðum. Á sama tíma blasa við fyrirtækjum áskoranir á sviði stafvæðingar, sjálfbærni og orkuskipta og mannauðs. Kjaraviðræður eru yfirstandandi. Sjaldan hefur verið mikilvægara að aðildarfyrirtæki SVÞ leggi sitt af mörkum á vettvangi samtakanna.
Með setu í stjórn SVÞ gefst þér tækifæri á að hafa áhrif á mótun rekstrarumhverfis fyrirtækja í verslun og þjónustu.
Fimmtudaginn 23.nóvember s.l. tók María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri BGS þátt í sérstökum norrænu málþingi í beinni fyrir hönd SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, undir heitinu:
SKILLS NEEDED FOR THE GREEN TRANSITION FROM A NORDIC PERSPECTIVE AND EXISTING POLICIES IN THE NORDIC REGION
Aðaláherslan á þessum vef-viðburði, sem var á ensku, var að skoða hæfnisþörfina í grænum umbreytingum frá Norrænu sjónarhorni.
Í erindi Maríu Jónu kom m.a. eftirfarandi fram:
Hröð aðlögun að rafbílum á Íslandi:
María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins undirstrikaði mikla breytingu í bílaiðnaði Íslands í átt að rafbílum og bílum með núllútblástur. Þá bendir hún á að 67,9% allra nýlega einkabíla keyptra á þessu ári eru rafbílar, og 99,6% af farþegabílaflota eru með núllútblástur. Þessi umbreyting krefst skjótrar þjálfunar bæði fyrir söluaðila og þjónustustarfsmenn til að aðlagast þessum nýju tækni.
Skilningur á fjórðu og fimmtu iðnbyltingunni:
Mikilvægi þess að skilja muninn á milli fjórðu (sem snýst um tækni, skilvirkni og sjálfvirkni) og fimmtu iðnbyltingarinnar (sem sameinar tækni við mannlega meðvitund og tilfinningagreind). Áhersla er lögð á þörfina fyrir leiðtoga til að vega og meta tækniframfarir með mannmiðuðum gildum til að aðlagast þessum breytingum á árangursríkan hátt.
Samstarf og samningur um hæfniþróun:
Talað var um samstarfssamning SVÞ og VR/LÍV um hæfnikröfur starfsfólks í verslunar og þjónustugreinum sem gerður var í mars s.l. Þessi samningur beinist að því að auka hæfni starfsfólks í smásölu- og þjónustugeiranum allt til ársins 2030. Markmiðið er að tryggja að 80% starfsmanna í þessum geirum taki þátt í reglulegri og viðvarandi þjálfun til að aðlagast hratt breytast vinnuumhverfi.
Stuðningur við mannauðinn sem talar íslensku sem annað mál:
Í samstarfssamningi SVÞ og VR/LÍV kemur einnig fram að sérstök áhersla er lögð á að bæta færni starfsfólks í smásölu- og þjónustufyrirtækjum sem tala íslensku sem annað tungumál. Þetta er hluti af stærra markmiði um að aðlaga vinnuafl að breyttum kröfum markaðarins.
Árlegar kannanir á hæfni og færni:
María Jóna talaði einnig um skuldbindingu SVÞ og VR/LÍV til að framkvæma árlegar kannanir til að meta mikilvægustu hæfnisþætti í nútíma og framtíðar vinnumarkaði. Þessar kannanir eru ætlaðar til að skilja sjónarmið bæði atvinnurekenda og starfsmanna um nauðsynlega færni, og tryggja samræmi í þjálfun og ráðningarvenjum til að m.a. auðvelda græna umbreytingu.
Stjórnvöld virðast ekki vita í hvorn fótinn þau eiga að stíga þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Glundroði ríkir.
Stjórnvöld hafa undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um samdrátt losunar á beinni ábyrgð Íslands sem nemur um 29% árið 2030 miðað við stöðuna árið 2005. Þau hafa sett sér enn metnaðarfyllri markmið í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg um 55% samdrátt sama ár og stefna að heimsmeti með því að Ísland verði fyrsta jarðefnaeldsneytislausa land heims árið 2040. Ef illa tekst til blasa við allt að 10 milljarða kr. ríkisútgjöld á ári vegna kaupa á losunarheimildum eða innflutningur á rándýrum íblöndunarefnum sem margfalda gjaldeyrisútstreymi.
Árið 2022 átti 33% af losun koltvísýrings á beinni ábyrgð Íslands uppruna sinn að rekja til vegasamgangna. Í þeim flokki hefur losun aukist með auknum efnahagsumsvifum. Í vegasamgöngum liggja þó mestu tækifærin til losunarsamdráttar þar sem nýting hreinorkutækni er þar lengst komin. Til að ná settum markmiðum hafa stjórnvöld m.a. ráðist í aðgerðir sem eiga að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum.
Aðgerðir hafa skilað árangri.
Frá því skattívilnanir litu fyrst dagsins ljós árið 2012 hefur hlutdeild hreinorkuökutækja í árlegum nýskráningum vaxið og nemur það sem af er líðandi ári ríflega 40%. Ökutækjafloti Íslendinga er hins vegar stór en við lok árs 2022 voru hér 278.528 ökutæki í umferð. Við búum í stóru landi undir skilyrðum vaxandi efnahagsumsvifa. Umsvif iðnaðar og ferðaþjónustu hafa m.a. leitt til gríðarlegrar fólksfjölgunar.
Þrátt fyrir ágætan árangur erum við enn langt frá fullum orkuskiptum. Hreinorkuökutæki voru aðeins 18.054 í lok árs 2022 eða 6,5% af heildarfjöldanum. Því er ljóst að það þarf að gera enn betur. Búast má við að ökutækjaflotinn í landinu nemi 328 þúsund ökutækjum árið 2030 og hreinorkubílar verði aðeins um 104 þúsund talsins eða 32%. Líklegt er að losun frá vegasamgöngum nemi þá 893 þúsund tCO2íg (koltvísýringsígildi) og verði í raun 15% meiri en árið 2005 en ekki 55% minni.
Á stuttum tíma hafa stjórnvöld gripið til eftirfarandi aðgerða:
Tekið hefur verið upp lágmarksvörugjald á hreinorkubíla og sparneytna bíla og þar með hefur dregið úr verðmun slíkra bíla og eyðslufrekra bíla.
Fjárhæð virðisaukaskattsívilnunar hreinorkuökutækja hefur lækkað og verður hún alfarið lögð af um næstu áramót.
Lágmarks bifreiðagjald var tvöfaldað um síðustu áramót og losunarmörk gjaldtökunnar hækkuð og því hefur dregið hlutfallslega úr mun á rekstrarkostnaði hreinorkubifreiða og eyðslugrannra bifreiða annars vegar og eyðslufrekra jarðefnaeldsneytisbifreiða hins vegar.
Sérstakt úrvinnslugjald er lagt á drifrafhlöður á hreinorkuökutækja við nýskráningu.
Tilkynnt hefur verið um upptöku notkunargjalds m.a. á hreinorkubíla þannig að dragi úr mun á rekstrarkostnaði þeirra og jarðefnaeldsneytisbíla.
Tilkynnt hefur verið að til standi að gera frekari breytingar á skattlagningu eldsneytis sem gætu lækkað útsöluverð jarðefnaeldsneytis með þeim afleiðingum að dragi enn frekar úr mun á rekstrarkostnaði hreinorkubíla og jarðefnaeldsneytisbíla.
Stefnubreyting?
Samkvæmt umfjöllun í frumvarpi til fjárlaga 2024 mun ný gerð stuðnings vegna kaupa á hreinorkubílum taka gildi um næstu áramót. Orkusjóður mun úthluta fjárstyrkjum. Samhliða er ætlunin að draga umfang stuðningsins saman um sem nemur meira en 35% á nafnverði milli áranna 2023 og 2024 ef miðað er við umfang ívilnunar í virðisaukaskattskerfinu sem mun falla niður. Útfærsla nýja stuðningsins liggur enn ekki fyrir en ljóst er að fjármála- og efnahagsráðherra fellir breytinguna í flokk aðhaldsaðgerða sem ætlað er að vinna gegn verðbólgu.
Tvístígandi stjórnvöld hafa misst móðinn og hafa þau áhyggjur af dvínandi skatttekjum af ökutækjum og eldsneyti. Staðan hefur hins vegar verið fyrirséð allt frá þeim tíma þegar ákveðið var að beita efnahagslegum hvötum skattkerfisins til að vinna að orkuskipta- og loftslagsmarkmiðum. Hinar nýtilkomnu áhyggjur ríkisstjórnarinnar hafa leitt hana inn á ranga braut viðbragða sem draga úr virkni eigin aðgerða og hægja hraða orkuskipta. Fyrir vikið mun Ísland fjarlægjast sett markmið.
Einstaklingar og fyrirtæki eru um þessar mundir að velta fyrir sér hvernig sé skynsamlegt að haga sér við fjárfestingu í ökutækjum á næsta og þar næsta ári. Hvaða bíla geta söluaðilar boðið upp á? Hvað munu bílar kosta? Hvað mun kosta að reka bíla? Er e.t.v. skynsamlegra að fjárfesta í bíl sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti þar til framtíðin verður skýrari? Þetta eru stórar spurningar en svörin fá í þeirri óvissu sem nú er uppi. Undirbúningur fjárlaga hefst að jafnaði að vori og því hlýtur að vera unnt að gera þá kröfu að stjórnvöld skipuleggi sig, vandi undirbúning og kynningu, svo fyrirsjáanleiki verði tryggður.
Einfalt að snúa blaðinu við.
Stjórnvöld geta með einföldum hætti snúið við blaðinu og stutt við eigin markmið í loftslagsmálum næstu fimm árin með eftirfarandi aðgerðum og það án aukinna útgjalda á heildina litið.
Fellt niður lágmarksvörugjald af hreinorkubílum sem lagt var á um áramót en í staðinn lækkað losunarviðmið og gjaldþyngd vörugjalds af bílum sem ganga að hluta eða öllu leiti fyrir jarðefnaeldsneyti.
Aukið fjárhagslegt umfang stuðnings í gegnum Orkusjóð vegna kaupa á hreinorkubílum á árunum 2024 og 2025 en dregið á móti úr umfanginu sem aukningunni nemur árin 2027 og 2028.
Innleitt aðgerðir til hröðunar orkuskipta í vegasamgöngum sem vinnuhópur Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandsins og Samtaka ferðaþjónustunnar skilaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í júní síðastliðnum í tengslum við loftslagsvegvísa atvinnulífsins.
Frestað upptöku notkunargjalds á hreinorkubíla a.m.k. til ársins 2025. Þar með gefst betri tími til undirbúnings og upptöku gjaldanna á alla ökutækjaflokka eftir vandlega greiningu og tímanlega kynningu fyrir almenningi og fyrirtæki.
Orkuskiptin eru eitt stærsta og mikilvægasta verkefni síðari tíma og þau er mikilvægt að taka föstum tökum. Glundroði getur reynst sandur í vél þeirra. Öllu skiptir að undirbúningur og framkvæmd aðgerða helgist af jafn miklum metnaði og markmiðin sem að er stefnt. Þær séu í samhengi, fyrirsjáanlegar, hagkvæmar, samvirkar og mælanlegar.
Höfundar: Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og Egill Jóhannsson, stjórnarmaður í Bílgreinasambandinu og SVÞ.
__________________________________________________________________
Sjá grein í Morgunblaðinu hér fyrir neðan:
Tekjuöflun stjórnvalda af bílum vinnur beinlínis gegn markmiðum sömu stjórnvalda um orkuskiptin og samdrátt í losun koltvísýrings segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, og stjórnarmaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu í nýjasta hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Egill segir meðal annars;
„Það er svo áhugavert að stefnumótun stjórnvalda er skýr. Þau eru með lögbundin markmið um að draga úr losun í samgöngum. Þetta er alþjóðleg skuldbinding og Guðlaugur Þór var að borga 350 milljónir í losunarheimildir vegna þess að við uppfylltum ekki skilyrðin. Ofan á þetta bætist markmið um 55 prósent lækkun losunar frá 2005 í stjórnarsáttmála og í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg.
Stefnumótunin er skýr en framkvæmdin er eitthvað skrítin. Það er þessi barátta milli tekjuöflunar ríkissjóðs og orkuskipta. Tekjuöflunin vinnur þvert gegn markmiðum orkuskiptanna,“ segir Egill.
„Þetta er sama ríkisstjórnin og þetta er alveg óskiljanlegt. Skilaboðin til bílgreinarinnar og kaupenda eru mjög misvísandi og fólk verður óneitanlega tvístígandi. Nú er að falla niður ívilnun upp á 1.320 þúsund um áramótin en á móti kemur kílómetragjaldið. Fólk veit ekki alveg hvað það á að gera. Það situr við eldhúsborðið og reynir að setja þetta upp í excel en það er ekki hægt að setja upp í excel þegar það vantar allar forsendur.
Við erum með stóráætlunina sem er að 2030 stefna stjórnvöld á að minnka losun koltvísýrings um 55 prósent miðað við árið 2005. Við vorum að losa 3,1 milljón tonna árið 2005 fyrir Ísland í heild, það sem er á beinni ábyrgð Íslands. Þá er ég ekki að tala um flugið og álverin sem eru í sérkerfi. Þetta eru þrjú kerfi og við erum með landnotkunina í þriðja kerfinu.“
Egill segir að á síðasta ári hafi bílar verið með 33 prósent af losuninni en stærsti hlutinn af losuninni er einmitt frá vegasamgöngum Þar af leiðandi liggi mestu tækifærin þar. Þarna sé líka auðveldast að sækja tækifærin vegna þess að tæknin er komin og síðan er búið að vera ívilnanakerfi til að hjálpa. Miklu fleiri aðgerðir þurfi samt..
„Ég fór fyrir vinnuhóp hjá Samtökum atvinnulífsins sem var að vinna með umhverfis- og loftslagsráðherra í því sem kallað er Loftslagsvegvísar atvinnulífsins. Hver atvinnugrein var tekin fyrir og við vorum að vinna með vegasamgöngur.
Við skiluðum af okkur í júlí til umhverfisráðherra 82 blaðsíðna skýrslu þar sem við greindum vegasamgöngur alveg í döðlur; hvað þær eru að losa, hvað það er mikið af bílum í landinu, hvað keyra þeir mikið, hvað brenna þeir miklu af eldsneyti, hvað nota þeir mikla raforku núna og hvað árið 2030, og fórum í gegnum þetta allt.
Ef við heimfærum stóra markmiðið á vegasamgöngur þá er þetta 55 prósent. Við losuðum 775 þúsund tonn árið 2005. Árið 2022 losuðum við 860 þúsund tonn þannig að þetta var upp einhver 11-12 prósent. Svo reiknuðum við okkur niður með tvær sviðsmyndir til ársins 2030. Þá þurfum við að vera niður um 55 prósent, eða niður í 350 þúsund tonn.
Í sviðsmynd eitt, sem við teljum vera raunhæfari sviðsmyndina, verður losunin 2030 12-15 prósentum meiri en árið 2005 en ekki 55 prósent minni.“
SMELLTU HÉR fyrir nánari upplýsingar og hlusta á þáttinn.