11/11/2025 | Fréttir, Stjórnvöld, Umhverfismál
Ný reglugerð Nr. 1144/2025 frá 5. nóvember 2025 um plastvörur hefur tekið gildi.
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu vekja sérstaka athygli á að við setningu reglugerðarinnar gætti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson, íslenskra hagsmuna.
Í stað þess að gerð yrði sú stífa krafa að ýmsar vörur sem innihalda plast, á borð við dömubindi, beri forprentaðar merkingar á íslensku ákvað ráðherra að merkingar innfluttra vara megi bera upprunalegan texta á dönsku, norsku, sænsku eða ensku.
„Þetta er mjög jákvætt og óhætt að hrósa ráðherra fyrir framtakið. Við fögnum því að ráðherra hafi valið að fara þessa leið enda ljóst að ESB fór fram úr sér við setningu merkingarkrafna. Við berum virðingu fyrir viðhorfum þeirra sem leggja áherslu á íslenskt mál en teljum að fórnarkostnaðurinn vegna kröfunnar um íslenskar merkingar hefði orðið mikill og ósanngjarn og slík niðurstaða hefði ekki verið neinum til framdráttar.“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ.
Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að tilteknar einnota plastvörur – eins og blautþurrkur, drykkjarglös og tóbakssíur – eigi að vera merktar á íslensku nema í tilviki innfluttra vara, þær megi verka merktar á dönsku, norsku, sænsku eða ensku. Það þýðir að ekki þarf að útbúa séríslenskar vörur ef fyrirliggjandi vörur uppfylla þegar merkingarkröfur í nágrannalöndunum. Fyrir vikið minnka líkur á verðhækkunum verulega og ekki verður þörf á að taka af markaði vörur þeirra framleiðenda sem ekki uppfylla merkingakröfur.
SVÞ telur þetta gott dæmi um þegar stjórnvöld og atvinnulíf ganga í takt.
10/11/2025 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur óskað eftir því að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis leggi til hækkun vörugjalda af ökutækjum sem ætlað er að auka vörugjaldstekjur um hátt í 67% milli ára.
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ og Bílgreinasambandsins (BGS), fjallar í grein á Vísi í dag, ‘Pops áttu p?‘ um áhrif þessara breytinga.
Hvað gerist að öllu óbreyttu?
Fallist efnahags- og viðskiptanefnd á beiðni ráðuneytisins getur eftirfarandi gerst, um næstu áramót:
- Verð á meðalrafmagnsbíl hækkar um 66 þúsund krónur.
- Verð á meðaltengiltvinnbíl sem brennir bensíni eða dísilolíu og er líka hægt að stinga í samband við raftengil hækkar um 815 þúsund krónur.
- Verð á meðalbensínbíl hækkar um 847 þúsund krónur.
- Verð á meðaltvinnbíl sem gengur fyrir bensíni eða dísilolíu og er með rafhlöðu sem er ekki hægt að stinga í samband við raftengil hækkar um rúmlega eina milljón króna.
- Verð á meðaldísilbíl hækkar um tæplega 1,5 milljónir króna.
- Meðalkassabíll sem gengur fyrir dísilolíu og er væntanlega einkum notaður til að dreifa vörum innanbæjar hækkar um tæpar 2,8 milljónir króna.
En þetta er vitaskuld einungis leiðrétting!
SMELLTU HÉR til að lesa greinina inn á VISI.
13/10/2025 | Fréttir, Greining, Stjórnvöld, Verslun, Viðburðir
Ójafnar leikreglur í alþjóðlegri netverslun skapa aukinn samkeppnishalla fyrir íslensk og evrópsk fyrirtæki.
Ný skýrsla frá EuroCommerce – samtökum evrópskra verslunar- og þjónustufyrirtækja – varpar ljósi á hvernig stórir alþjóðlegir netmarkaðir á borð við Temu og Shein hafa skapað nýjar áskoranir í netverslun frá þriðju ríkjum.
Í skýrslunni kemur fram að innlend og evrópsk fyrirtæki, sem fylgja ströngum reglum um vöruöryggi, umhverfi og skatta, standi frammi fyrir ósanngjarnri samkeppni gagnvart seljendum utan EES sem oft sleppa við slíkar skyldur.
Þetta leiðir til verulegs samkeppnishalla, en jafnframt hættu fyrir neytendur þar sem fjöldi vara sem seldar eru beint frá þriðju ríkjum stenst ekki evrópska staðla.
Ótryggar vörur, skert öryggi – og skakkur leikvöllur
Samkvæmt EuroCommerce uppfylla allt að 80% vara sem seldar eru í gegnum netmarkaði á borð við Temu og Shein ekki öryggis- og gæðakröfur Evrópu.
Þrátt fyrir að milljarðar sendinga berist árlega inn á markaðinn bera netmarkaðstorgin sjálf enga lagalega ábyrgð á vörunum sem þau selja – ólíkt innlendum dreifingaraðilum sem þurfa að uppfylla strangar reglur.
Á Haustréttum SVÞ 7. október sl., sagði Runar Wilksnes aðalhagfræðingur VIRKE, systursamtök SVÞ í Noregi, að þar í landi kæmu á hverjum degi 30.000.- sendingar frá Temu og Shein.
Þetta veldur tvöföldu tjóni:
- Neytendur standa frammi fyrir óöruggum vörum, efnainnihaldi og rafmagnstækjum sem ekki uppfylla staðla.
- Fyrirtæki innan EES missa markaðshlutdeild vegna ólöglega lágs verðs sem byggir á því að sleppa við kostnað sem fylgir ábyrgri starfsemi.
__________
Fundur SVÞ 29. október – Alþjóðlegar netverslanir… hvað er að gerast?
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu bjóða stjórnendum í verslun og þjónustu á upplýsingafund þann 29. október þar sem farið verður yfir stöðuna á Íslandi.
Skráðu þig hér:
👉 Alþjóðlegar netverslanir… hvað er að gerast? – Upplýsingafundur SVÞ
Hlaðið niður skýrslunni
Aðildarfélög SVÞ geta nú nálgast “Minni útgáfu” af EuroCommerce-skýrslunni um netverslun frá þriðju ríkjum. Skýrslan dregur fram lykilatriði um ósanngjarna samkeppni, lagaleg glufur og tillögur til að tryggja jafnvægi á evrópskum markaði.
📄EuroCommerce Report 2025 – Light Version
03/10/2025 | Fréttir, Stjórnvöld, Verslun, Viðburðir, Þjónusta
Þriðjudaginn 7. október verða haldnir fyrstu Haustréttir SVÞ – Leiðtogafundur verslunar og þjónustu í Vinnustofu Kjarvals, Fantasía 2. hæð við Austurstræti 10, 101 Reykjavík
Rétt eins og í haustréttum landsbyggðarinnar er markmiðið að smala saman, taka stöðuna og horfa fram á veginn. Á fundinum koma fram öflugir fulltrúar atvinnulífsins, stjórnmálanna og alþjóðlegra systursamtaka. Þar verða kynnt ný gögn um stöðu greinarinnar, rætt um forystu og framtíð, og deilt reynslusögum sem varpa ljósi á möguleika íslenskra fyrirtækja á alþjóðavísu.
Markmið Haustrétta er skýrt: að skapa vettvang þar sem æðstu stjórnendur í verslun og þjónustugreinum koma saman, eiga samtal sem verður að stefnu – og stefna að aðgerðum.
Skráning er í fullum gangi og hvetjum við félagsfólk til að tryggja sér sæti.
Athugið: Viðburðurinn er einungis í boði fyrir æðstu stjórnendur aðildarfélaga SVÞ.
🔗 Skráðu þig hér á Haustrétti SVÞ 2025
26/09/2025 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
24/09/2025 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Þjónusta
Óljós áform um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti
Í frétt Morgunblaðsins í dag, 24. september, kemur fram að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé gert ráð fyrir 7,5 milljarða króna tekjuöflun undir liðnum „endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis“.
Samkvæmt fréttinni er óljóst hvernig áform stjórnvalda eru útfærð, en flest bendir til þess að auknar tekjur verði sóttar með hækkun vörugjalda á ökutæki.
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, segir að áformin séu bæði óljós og illa tímasett:
„Í fjárlagafrumvarpinu er boðuð mjög mikil skattahækkun á almenning og fyrirtæki. Óljóst er hvaða breytingar eigi að ráðast í til að afla þeirra 7,5 milljarða sem eru merktir sem endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Flest bendi til að það fé eigi að sækja með hækkun vörugjalda af ökutækjum. Þetta er hrikalegur tímapunktur til að koma fram með svo óljós áform þar sem innflytjendur eru einmitt um þessar mundir að skila innkaupaáætlunum vegna næsta árs.“
SVÞ telur brýnt að stjórnvöld útskýri skýrt hvernig þau hyggjast standa að slíkri skattheimtu og hvaða áhrif hún muni hafa á markaðinn. Óvissa af þessu tagi torveldar áætlanagerð fyrirtækja og getur grafið undan stöðugleika í atvinnulífinu á viðkvæmum tíma.

Síða 1 af 2412345...1020...»Síðasta »