27/09/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Stjórnvöld
Sameiginleg yfirlýsing ASÍ og SA gegn vinnumannsali.
Í gær, fimmtudaginn 26.september tóku Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins höndum saman gegn vinnumansali á vel heppnaðari ráðstefnu í Norðurljósasal Hörpu.
Vinnumansal er að mati ASÍ og SA ólíðandi og nauðsynlegt að leita lausna til þess að uppræta slíka háttsemi. Áhyggjur ASÍ og SA lúta ekki síst að stöðu erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði enda sýna dæmin bæði hérlendis og erlendis að einstaklingar í viðkvæmri stöðu sem flutt hafa um langan veg í leit að betra lífi eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir vinnumansali. Sameiginlegir hagsmunir allra eru að tryggja heilbrigðan vinnumarkað sem tekur vel á móti því fólki sem kemur hingað í atvinnuskyni.
Með vísan í allt framangreint skora ASÍ og SA á stjórnvöld að grípa til almennra aðgerða með sameiginlegri yfirlýsingu sem lesa má á hlekknum hér fyrir neðan.
Yfirlysing-ASI-SA.pdf (vinnan.is)
25/06/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun
VISIR.is birtir í dag eftirfarandi grein frá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu um umræðu í áfengismálum.
__________________
Undanfarið hafa átt sér stað endurteknar umræður um verslun með áfengi. Í þessum áfanga má segja að ÁTVR hafi slegið tóninn og ýmsir sungið með, þ. á m. stjórnmálamenn, hver með sínu nefi.
Áfengi og menning
Það ætti að teljast nokkuð óumdeilt að óhófleg áfengisneysla er hættuleg þeim sem hana stunda auk þess sem hún hefur jafnan neikvæð á áhrif á aðstandendur, vinnuveitendur og fleiri. Sjálf tilvist áfengis skapar þannig samfélagslega áhættu. Það ætti að einnig að teljast nokkuð óumdeilt að tilvist áfengis og neysla þess er ekki aðeins samfélagslega viðurkennd, a.m.k. í vestrænum ríkjum, heldur er hún hluti af menningu, m.a. matarmenningu.
Segja má að samfélagið hafi ákveðið að áfengisneysla sé í menningarlegu tilliti þess virði að ástæða sé til að sætta sig við þá áhættu sem henni fylgir. Fáir hafa talað fyrir því að banna áfengi. Hins vegar hafa margir skoðun á því hvernig eigi að hafa áhrif á neyslu þess.
Færa má rök fyrir því að nokkur sátt ríki um að það sé eitt af verkefnum löggjafans að hafa áhrif á áfengisneysluna með lagasetningu. Fólk er hins vegar alls ekki sammála um hvernig það er gert.
Óþroskuð umræða
Umræðan verður að þroskast. Allra mikilvægast er þó að löggjafinn meðtaki skilaboðin sem fram eru sett, skilji kjarnann frá hisminu, framkvæmi hagsmunamat og komist að niðurstöðu. Á lóðarskálunum eru annars vegar áhættan sem fylgir áfengi og hins vegar nútíminn, veruleikinn og vilji fólks.
Þó sett hafi verið stefna er það óhjákvæmilegur fylgifiskur stefnumótunar að markmið, aðgerðir og mælikvarða þarf að endurskoða með reglubundnum hætti. Er markmiðið enn raunhæft? Er aðgerð enn til þess bær að markmiðinu verði náð? Gerir mælikvarðinn okkur enn fært leggja mat á hvar við stöndum gagnvart markmiðinu?
Af hálfu SVÞ eru skilaboðin skýr; einkarekin verslun á að annast áfengissölu innan ramma skýrs regluverks. Skilaboð andstæðinga verslunar með áfengi hafa ekki verið eins skýr; minna aðgengi að áfengi en ekkert má breytast nema þá mögulega að ríkið verði opnað á sunnudögum.
Vandinn sem ætla má að þingmenn standi frammi fyrir felst að ákveðnu leyti í því að það hafa orðið og eru að eiga sér stað breytingar m.a. á verslunarháttum og menningu, bæði hér heima og erlendis. Í því samhengi væri eðlilegt að umræða um verslun með áfengi snerist um það hvernig sé skynsamlegt að hafa áhrif neyslu þess. Í því tilliti virðist hins vegar helst upp á það boðið að banni gegn innlendri netverslun með áfengi verði við haldið en fólki sætti sig áfram við um fimmtíu útsölustaði ÁTVR, netverslun ÁTVR, erlenda netverslun, áfengissölu á veitinga- og öldurhúsum, áfengissölu hjá smáframleiðendum og jafnvel stöku vegasjoppum.
Þegar umræðan er skoðuð nánar og öllu er á botninn hvolft hefur umræðan um áhrif á neyslu áfengis upp á síðkastið hvað helst snúist um tilvist og afkomu ÁTVR og hvort netverslun verður kennd við Hagkaup. Ekki örlar t.d. á umræðum um hvers vegna það þykir forsvaranlegt að halda úti rekstri fimmtíu útsölustaða ÁTVR í því skyni að takmarka aðgengi að áfengi. Er hægt að ná sama árangri með tuttugu og fimm útsölustöðum, tíu eða e.t.v. með allt öðrum hætti? Ef svo er af hverju er það þá ekki gert? Ekki er heldur rætt um hvernig takast eigi að halda loki á aðgengi að áfengi með því að viðhalda banni gegn innlendri netverslun með áfengi en sætta sig áfram við netverslun ÁTVR og alla erlenda netverslun. Af hverju dó t.d. umræðan um netverslun Costco með áfengi nánast um leið og hún hófst en ekki þegar rótgróin íslensk verslun er kennd við slíka sölu?
Ábyrg umræða?
Hvernig gerðist það að forstjóri ÁTVR ræsti umræðuna með því að bera því við að reksturinn væri að lenda í járnum vegna umfangs netverslunar með áfengi, Hagkaup ræddu sín áform og í kjölfarið fóru menn að ræða stöðuna á svipuðum nótum og þegar náttúruógn er yfirvofandi?
Getur talist eðlilegt að bjóða eigendum fyrirtækja upp á þá óvissureið að málsmetandi einstaklingar í stjórnmálum fullyrði að eitthvað sé bannað og aðrir hið gagnstæða? Þeir sem þekkja til rekstrar vita að pólitísk óvissa er slæm og hvað þá þegar í pólitískri umræðu er misvísandi lagaskilningi beinlínis haldið á lofti.
Upp úr hjólförunum
Viðfangsefni umræðunnar er áhrif á áfengisneyslu. Hana þarf að taka á vettvangi Alþingis. Væri ekki tilvalið fyrir þingið að ræða málið af alvöru?
Benedikt S. Benediktsson
lögfræðingur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
Sjá grein inná VISIR.is
Sjá viðtal á síðdegisútvarpi Rásar II (hefst á 47:15 mín) HÉR!
25/11/2023 | Fréttir, Stjórnvöld
Fyrsti Atvinnulífsfundur Reykjavíkurborgar var haldinn í Höfða 22.nóvember s.l. og tók Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu þátt fyrir hönd samtakanna.
Atvinnulífsfundur er liður í atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar, Nýsköpun alls staðar, sem snýr að því að skapa sameiginlega framtíðarsýn milli borgar og atvinnulífs um áskoranir og markmið. Helstu niðurstöður þessa fundar var að móta þarf sameiginlega framtíðarsýn, setja aukinn kraft í innviðauppbyggingu og efla stuðning við nýsköpun.
Fundurinn var í boði borgarstjóra og forseta borgarstjórnar í Höfða. Þar komu saman fulltrúar Reykjavíkurborgar, atvinnulífs, háskóla, klasa og verkalýðsfélaga og ræddu hvernig efla mætti alþjóðlega samkeppnishæfni Reykjavíkur og skapa borg þar sem nýsköpun þrífst.
Virkt samtal var meðal 36 þátttakenda undir fundarstjórn Guðfinnu Bjarnadóttur um þá þætti sem þyrfti að huga sérstaklega að til að skapa sannkallaða nýsköpunarborg. Óhætt er að segja að almenn ánægja var með samtalið meðal fundargesta og mikill samhljómur um helstu áskoranir og næstu skref.
Gestir voru beðnir að forgangsraða verkefnum tengdum samkeppnishæfni úr atvinnu- og nýsköpunarstefnu og völdu þeir að leggja mesta áherslu á að setja aukinn kraft í innviðauppbyggingu, setja fram sameiginlega og skýra framtíðarsýn, auka stuðning við nýsköpun og efla klasasamstarf.
Sjá nánari frétt inná vef Reykjavikurborgar, hér!
20/11/2023 | Fréttir, Stjórnvöld
Frá Ríkisskattstjóra.
Ríkisskattstjóri vekur athygli á ríkjum sem teljast áhættusöm, ósamvinnuþýð eða með annmarka á aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í því skyni er vísað til yfirlýsingar Financial Action Task Force (FATF) frá 27. október um ríki undir sérstöku eftirliti auk ríkja sem Evrópusambandið hefur tilgreint sem áhættusöm þriðju lönd, sbr. reglugerð nr. 725/2022, um breytingu á reglugerð um áhættusöm þriðju lönd vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 105/2020.
Í yfirlýsingu FATF frá því í október kemur fram að ríki skuli grípa til sérstakra fyrirbyggjandi varúðarráðstafana gagnvart Norður-Kóreu, Íran og Mjanmar/Búrma, enda steðji viðvarandi ógn að hinum alþjóðlega fjármálamarkaði vegna aðgerðarleysis ríkjanna í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Þau ríki sem eru talin áhættusöm, ósamvinnuþýð eða með annmarka í framangreindum skilningi eru eftirfarandi:
- Afganistan
- Albanía
- Alþýðulýðveldið Kórea
- Barbados
- Búlgaría
- Búrkína Fasó
- Cayman eyjar
- Filippseyjar
- Gíbraltar
- Haítí
- Íran
- Jamaíka
- Jemen
- Jórdanía
- Kambódía
- Kamerún
- Króatía
- Lýðstjórnarlýðveldið Kongó
- Malí
- Marokkó
- Mjanmar/Búrma
- Mósambík
- Nígería
- Panama
- Sameinuðu arabísku furstadæmin
- Senegal
- Suður Afríka
- Suður-Súdan
- Sýrland
- Tansanía
- Trinidad og Tóbagó
- Tyrkland
- Úganda
- Vanúatú
- Víetnam
Í samræmi við 6. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skulu tilkynningarskyldir aðilar gefa aðilum frá nefndum ríkjum sérstakan gaum, m.t.t. aukinnar hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við 13. og 14. gr. laga nr. 140/2018.
SJÁ FRÉTT FRÁ SKATTURINN.IS
08/11/2023 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Viðskiptablaðið birtir í blaði sínu í dag viðtal við Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu um þá óvissu og aukinn kostnað sem blasir við skipafélögum samkvæmt drögum að frumvarpi um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir – ETS-kerfið svokallaða. En þau voru birt í samráðsgátt á dögunum. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á nokkrum EES-gerðum, þar á meðal að sjóflutningar muni frá áramótum færast undir kerfið. Samkvæmt þeim munu skipafélögin því þurfa að kaupa losunarheimildir á markaði til að gera upp losun sína frá og með 2025.
Ákvörðunin um að fella skipaflutninga undir ETS-kerfið hefur vakið athygli en Samtök verslunar og þjónustu, Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð skiluðu inn sameiginlegri umsögn þegar áform um lagafrumvarpið komu fram í samráðsgátt stjórnvalda í lok september síðastliðnum.
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur hjá Samtökum verslunar og þjónustu, segir enn margt á huldu. „Það sem fyrst og fremst blasir við skipafélögunum núna er bara óvissa og hún helgast í fyrsta lagi af því að þau vita ekki undir lögsögu hvaða ríkis siglingarnar verða felldar og það gerist ekki fyrr en framkvæmdastjórnin er búin að birta sinn lista. Svo hef ég haft veður af því að það sé mjög erfitt að nálgast upplýsingar um það erlendis frá hvernig fyrirkomulagið verður í raun og veru á gagnaskilum um losun.“
Sjá heildar viðtal inná Viðskiptablaðinu: Óvissa og aukinn kostnaður blasir við (vb.is)
Mynd frá VB.is
04/11/2023 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Heimsmet í hættu.
Stjórnvöld virðast ekki vita í hvorn fótinn þau eiga að stíga þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Glundroði ríkir.
Stjórnvöld hafa undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um samdrátt losunar á beinni ábyrgð Íslands sem nemur um 29% árið 2030 miðað við stöðuna árið 2005. Þau hafa sett sér enn metnaðarfyllri markmið í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg um 55% samdrátt sama ár og stefna að heimsmeti með því að Ísland verði fyrsta jarðefnaeldsneytislausa land heims árið 2040. Ef illa tekst til blasa við allt að 10 milljarða kr. ríkisútgjöld á ári vegna kaupa á losunarheimildum eða innflutningur á rándýrum íblöndunarefnum sem margfalda gjaldeyrisútstreymi.
Árið 2022 átti 33% af losun koltvísýrings á beinni ábyrgð Íslands uppruna sinn að rekja til vegasamgangna. Í þeim flokki hefur losun aukist með auknum efnahagsumsvifum. Í vegasamgöngum liggja þó mestu tækifærin til losunarsamdráttar þar sem nýting hreinorkutækni er þar lengst komin. Til að ná settum markmiðum hafa stjórnvöld m.a. ráðist í aðgerðir sem eiga að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum.
Aðgerðir hafa skilað árangri.
Frá því skattívilnanir litu fyrst dagsins ljós árið 2012 hefur hlutdeild hreinorkuökutækja í árlegum nýskráningum vaxið og nemur það sem af er líðandi ári ríflega 40%. Ökutækjafloti Íslendinga er hins vegar stór en við lok árs 2022 voru hér 278.528 ökutæki í umferð. Við búum í stóru landi undir skilyrðum vaxandi efnahagsumsvifa. Umsvif iðnaðar og ferðaþjónustu hafa m.a. leitt til gríðarlegrar fólksfjölgunar.
Þrátt fyrir ágætan árangur erum við enn langt frá fullum orkuskiptum. Hreinorkuökutæki voru aðeins 18.054 í lok árs 2022 eða 6,5% af heildarfjöldanum. Því er ljóst að það þarf að gera enn betur. Búast má við að ökutækjaflotinn í landinu nemi 328 þúsund ökutækjum árið 2030 og hreinorkubílar verði aðeins um 104 þúsund talsins eða 32%. Líklegt er að losun frá vegasamgöngum nemi þá 893 þúsund tCO2íg (koltvísýringsígildi) og verði í raun 15% meiri en árið 2005 en ekki 55% minni.
Á stuttum tíma hafa stjórnvöld gripið til eftirfarandi aðgerða:
- Tekið hefur verið upp lágmarksvörugjald á hreinorkubíla og sparneytna bíla og þar með hefur dregið úr verðmun slíkra bíla og eyðslufrekra bíla.
- Fjárhæð virðisaukaskattsívilnunar hreinorkuökutækja hefur lækkað og verður hún alfarið lögð af um næstu áramót.
- Lágmarks bifreiðagjald var tvöfaldað um síðustu áramót og losunarmörk gjaldtökunnar hækkuð og því hefur dregið hlutfallslega úr mun á rekstrarkostnaði hreinorkubifreiða og eyðslugrannra bifreiða annars vegar og eyðslufrekra jarðefnaeldsneytisbifreiða hins vegar.
- Sérstakt úrvinnslugjald er lagt á drifrafhlöður á hreinorkuökutækja við nýskráningu.
- Tilkynnt hefur verið um upptöku notkunargjalds m.a. á hreinorkubíla þannig að dragi úr mun á rekstrarkostnaði þeirra og jarðefnaeldsneytisbíla.
- Tilkynnt hefur verið að til standi að gera frekari breytingar á skattlagningu eldsneytis sem gætu lækkað útsöluverð jarðefnaeldsneytis með þeim afleiðingum að dragi enn frekar úr mun á rekstrarkostnaði hreinorkubíla og jarðefnaeldsneytisbíla.
Stefnubreyting?
Samkvæmt umfjöllun í frumvarpi til fjárlaga 2024 mun ný gerð stuðnings vegna kaupa á hreinorkubílum taka gildi um næstu áramót. Orkusjóður mun úthluta fjárstyrkjum. Samhliða er ætlunin að draga umfang stuðningsins saman um sem nemur meira en 35% á nafnverði milli áranna 2023 og 2024 ef miðað er við umfang ívilnunar í virðisaukaskattskerfinu sem mun falla niður. Útfærsla nýja stuðningsins liggur enn ekki fyrir en ljóst er að fjármála- og efnahagsráðherra fellir breytinguna í flokk aðhaldsaðgerða sem ætlað er að vinna gegn verðbólgu.
Tvístígandi stjórnvöld hafa misst móðinn og hafa þau áhyggjur af dvínandi skatttekjum af ökutækjum og eldsneyti. Staðan hefur hins vegar verið fyrirséð allt frá þeim tíma þegar ákveðið var að beita efnahagslegum hvötum skattkerfisins til að vinna að orkuskipta- og loftslagsmarkmiðum. Hinar nýtilkomnu áhyggjur ríkisstjórnarinnar hafa leitt hana inn á ranga braut viðbragða sem draga úr virkni eigin aðgerða og hægja hraða orkuskipta. Fyrir vikið mun Ísland fjarlægjast sett markmið.
Einstaklingar og fyrirtæki eru um þessar mundir að velta fyrir sér hvernig sé skynsamlegt að haga sér við fjárfestingu í ökutækjum á næsta og þar næsta ári. Hvaða bíla geta söluaðilar boðið upp á? Hvað munu bílar kosta? Hvað mun kosta að reka bíla? Er e.t.v. skynsamlegra að fjárfesta í bíl sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti þar til framtíðin verður skýrari? Þetta eru stórar spurningar en svörin fá í þeirri óvissu sem nú er uppi. Undirbúningur fjárlaga hefst að jafnaði að vori og því hlýtur að vera unnt að gera þá kröfu að stjórnvöld skipuleggi sig, vandi undirbúning og kynningu, svo fyrirsjáanleiki verði tryggður.
Einfalt að snúa blaðinu við.
Stjórnvöld geta með einföldum hætti snúið við blaðinu og stutt við eigin markmið í loftslagsmálum næstu fimm árin með eftirfarandi aðgerðum og það án aukinna útgjalda á heildina litið.
- Fellt niður lágmarksvörugjald af hreinorkubílum sem lagt var á um áramót en í staðinn lækkað losunarviðmið og gjaldþyngd vörugjalds af bílum sem ganga að hluta eða öllu leiti fyrir jarðefnaeldsneyti.
- Aukið fjárhagslegt umfang stuðnings í gegnum Orkusjóð vegna kaupa á hreinorkubílum á árunum 2024 og 2025 en dregið á móti úr umfanginu sem aukningunni nemur árin 2027 og 2028.
- Innleitt aðgerðir til hröðunar orkuskipta í vegasamgöngum sem vinnuhópur Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandsins og Samtaka ferðaþjónustunnar skilaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í júní síðastliðnum í tengslum við loftslagsvegvísa atvinnulífsins.
- Frestað upptöku notkunargjalds á hreinorkubíla a.m.k. til ársins 2025. Þar með gefst betri tími til undirbúnings og upptöku gjaldanna á alla ökutækjaflokka eftir vandlega greiningu og tímanlega kynningu fyrir almenningi og fyrirtæki.
Orkuskiptin eru eitt stærsta og mikilvægasta verkefni síðari tíma og þau er mikilvægt að taka föstum tökum. Glundroði getur reynst sandur í vél þeirra. Öllu skiptir að undirbúningur og framkvæmd aðgerða helgist af jafn miklum metnaði og markmiðin sem að er stefnt. Þær séu í samhengi, fyrirsjáanlegar, hagkvæmar, samvirkar og mælanlegar.
Höfundar: Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og Egill Jóhannsson, stjórnarmaður í Bílgreinasambandinu og SVÞ.
__________________________________________________________________
Sjá grein í Morgunblaðinu hér fyrir neðan:
Síða 1 af 2112345...1020...»Síðasta »