Haustréttir SVÞ 2025 – skráning í fullum gangi.

Haustréttir SVÞ 2025 – skráning í fullum gangi.

Þriðjudaginn 7. október verða haldnir fyrstu Haustréttir SVÞ – Leiðtogafundur verslunar og þjónustu í Vinnustofu Kjarvals, Fantasía 2. hæð við Austurstræti 10, 101 Reykjavík

Rétt eins og í haustréttum landsbyggðarinnar er markmiðið að smala saman, taka stöðuna og horfa fram á veginn. Á fundinum koma fram öflugir fulltrúar atvinnulífsins, stjórnmálanna og alþjóðlegra systursamtaka. Þar verða kynnt ný gögn um stöðu greinarinnar, rætt um forystu og framtíð, og deilt reynslusögum sem varpa ljósi á möguleika íslenskra fyrirtækja á alþjóðavísu.

Markmið Haustrétta er skýrt: að skapa vettvang þar sem æðstu stjórnendur í verslun og þjónustugreinum koma saman, eiga samtal sem verður að stefnu – og stefna að aðgerðum.

Skráning er í fullum gangi og hvetjum við félagsfólk til að tryggja sér sæti.
Athugið: Viðburðurinn er einungis í boði fyrir æðstu stjórnendur aðildarfélaga SVÞ.

🔗 Skráðu þig hér á Haustrétti SVÞ 2025

Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

Í nýju viðtali á Bílablogg.is bendir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, á mótsagnakennda stefnu stjórnvalda. Annars vegar hafa stjórnvöld gripið til aðgerða sem styðja við orkuskipti og styrkja bílakaup. Hins vegar er í fjárlagafrumvarpi boðað að hækka skatta á ökutæki og eldsneyti – sem bitnar á almenningi og fyrirtækjum.

„Þetta gengur einfaldlega ekki upp,“ segir Benedikt í viðtalinu. Hann leggur áherslu á að samræmi þurfi að vera í aðgerðum stjórnvalda svo þau skili árangri.

Lesa má viðtalið í heild á Bílablogg.is:
👉 Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

SVÞ varar við óljósum áformum um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti í fjárlögum

SVÞ varar við óljósum áformum um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti í fjárlögum

Óljós áform um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti

Í frétt Morgunblaðsins í dag, 24. september, kemur fram að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé gert ráð fyrir 7,5 milljarða króna tekjuöflun undir liðnum „endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis“.

Samkvæmt fréttinni er óljóst hvernig áform stjórnvalda eru útfærð, en flest bendir til þess að auknar tekjur verði sóttar með hækkun vörugjalda á ökutæki.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, segir að áformin séu bæði óljós og illa tímasett:

„Í fjárlagafrumvarpinu er boðuð mjög mikil skattahækkun á almenning og fyrirtæki. Óljóst er hvaða breytingar eigi að ráðast í til að afla þeirra 7,5 milljarða sem eru merktir sem endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Flest bendi til að það fé eigi að sækja með hækkun vörugjalda af ökutækjum. Þetta er hrikalegur tímapunktur til að koma fram með svo óljós áform þar sem innflytjendur eru einmitt um þessar mundir að skila innkaupaáætlunum vegna næsta árs.“

SVÞ telur brýnt að stjórnvöld útskýri skýrt hvernig þau hyggjast standa að slíkri skattheimtu og hvaða áhrif hún muni hafa á markaðinn. Óvissa af þessu tagi torveldar áætlanagerð fyrirtækja og getur grafið undan stöðugleika í atvinnulífinu á viðkvæmum tíma.

Fjárlagafrumvarp-hrun-bílasölu

SVÞ: Atvinnulífið hluti af lausninni í loftslagsmálum

SVÞ: Atvinnulífið hluti af lausninni í loftslagsmálum

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, eiga hlut í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka um frumvarp til nýrra heildarlaga um loftslagsmál. 

Í umsögninni er fagnað því að stjórnvöld vinni að heildstæðri loftslagsstefnu. Lagt er þó áherslu á að árangur náist aðeins með nánu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda. 

Helstu áherslur í umsögninni: 

  • Samráð og samstarf – kallað er eftir að atvinnulífið fái raunverulegt vægi í stefnumótun og ákvarðanatöku til að aðgerðir byggi á raunhæfum forsendum og markmiðum verði náð.  
  • Skýr markmið og fyrirsjáanleiki – mikilvægt er að aðgerðir byggji á skýrum ramma og tímalínum. Þannig megi veita fyrirtækjum nauðsynlegan fyrirsjáanleika. 

Nánar má lesa um sameiginlega umsögnina á vef SA: Raunhæf skilyrði nauðsynleg til að ná árangri í loftslagsmálum

Haustréttir SVÞ 2025 – Leiðtogafundur verslunar og þjónustu

Haustréttir SVÞ 2025 – Leiðtogafundur verslunar og þjónustu

Við smölum saman æðstu stjórnendum í SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu – í fyrsta sinn þann 7. október nk.

Haustréttir SVÞ verða haldnir í fyrsta sinn þriðjudaginn 7. október 2025 í fundarsalnum Fantasíu á Vinnustofu Kjarvals kl. 15:00–17:30. 

Rétt eins gerist í haustréttum í víða um land þar sem fólk kemur saman eftir sumarið, verða Haustréttir SVÞ árlegur vettvangur þar sem æðstu stjórnendur í verslun og þjónustu stilla saman strengi, ræða áskoranir og horfa til framtíðar. Þar verða kynnt gögn og greiningar, við fáum að heyra sterkar raddir úr atvinnulífinu og stjórnmálunum og fáum að njóta alþjóðlegrar reynslu sem kann að varpa ljósi á stöðu Íslands í breyttum heimi. 

Markmið Haustrétta er skýrt: Að kalla leiðtoga í greininni saman, rýna í stöðuna, breyta samtali í stefnu – og stefnu í aðgerðir. 

👉 Þetta er viðburður sem enginn æðsti stjórnandi innan SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, má missa af.
Taktu daginn frá – og fylgstu með þegar skráning opnar svo þú getir tryggt þér sæti. 

Opnum fyrir skráningu 1. september 2025.

Ísland gengur lengra en Evróputilskipun um peningaþvætti – Benedikt S. Benediktsson í Viðskiptablaði Morgunblaðsins

Ísland gengur lengra en Evróputilskipun um peningaþvætti – Benedikt S. Benediktsson í Viðskiptablaði Morgunblaðsins

Fyrirspurn sem Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins lagði fram á Alþingi í júní hefur vakið nokkra athygli í atvinnulífinu.  Þar er leitað svara við því hvort íslensk stjórnvöld hafi gengið lengra en tilskipun Evrópusambandsins gerir ráð fyrir þegar ákveðið var hvaða fyrirtæki skuli sæta sérstöku eftirliti vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Göngum lengra en tilskipunin

Tilefni fyrirspurnarinnar er meðal annars umræða sem skapaðist eftir umfjöllun í Morgunblaðinu í maí, þar sem fjallað var um svokallaða gullhúðun íslensks regluverks á þessu sviði. Þar var því haldið fram að hér á landi væri eftirlit og tilkynningaskylda látin ná til fleiri aðila en kveðið sé á um í Evróputilskipuninni sem liggur til grundvallar lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Bent hefur verið á að fyrirspurn Bergþórs snúi meðal annars að stöðu fasteignafélaga, sem hér á landi eru tilkynningaskyld en ekki eru nefnd sérstaklega í Evróputilskipuninni. Þar kemur fram að tilkynningaskylda nái til fasteignasala og lögfræðinga þegar þeir koma að afmörkuðum þáttum fasteignaviðskipta, auk annarra tilgreindra aðila sem sinna tilteknum fjármála- og viðskiptalegum þjónustuverkefnum. Sama virðist eiga við þegar kemur að endurskoðendum og bókurum.

Fasteignafélögum bætt við

Við meðferð breytingalaga árið 2020 var ákvæði um fasteignafélög ekki hluti af frumvarpinu í upphafi, heldur var þeim bætt við að tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Sú breyting var rökstudd með vísan til reynslu af framkvæmd laganna og umsagnar Skattsins, sem hefur eftirlit með þeim.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), segir í samtali við Morgunblaðið áhyggjur hafa komið fram meðal fjölmargra fyrirtækja sem hafa þurft að ráðast í viðamiklar og kostnaðarsamar aðgerðir til að mæta settum kröfum á grundvelli regluverks sem hafi verið útvíkkað hér á landi umfram það sem tilskipunin krefst.

Vald framselt til eftirlitsaðila

Hann segir óljóst hvers vegna svo langt hafi verið gengið þegar það virðist hafa verið óþarft. Benedikt nefnir jafnframt að eftirgrennslan samtakanna hafi gefið til kynna að ákvörðunarvald um hvaða starfsemi og í hvaða umfangi væri hér tilkynningaskyld og sætti ströngu eftirliti hefði í raun verið framselt til eftirlitsaðila og ríkislögreglustjóra.

Að mati Benedikts virðist sem tiltölulega almenn aðvörunarorð í áhættumati ríkislögreglustjóra hafi leitt til þess að tiltekin starfsemi eða starfsgreinar hafi í heild sinni verið felldar undir regluverkið. Gaumgæfni eða viðspyrna á vettvangi Alþingis virðist hafa verið afar takmörkuð og lítið mat hafi verið lagt á áhrifin á þá starfsemi sem var undir hverju sinni.

Skatturinn og Seðlabanki Íslands hafa hins vegar áður vísað til þess að útvíkkanir á regluverkinu hafi verið byggðar á reynslu og því markmiði að tryggja að eftirlit nái til þeirra sviða þar sem hætta á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé talin mest.

Viðskiptablað Morgunblaðsins, 8. júlí 2025.