15/04/2025 | Fréttir, Greining, Greiningar, Menntun, Ræktum vitið, Stafræna umbreytingin, Verslun, Þjónusta
Niðurstöðuskýrsla úr svörum aðildarfyrirtækja SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, í tengslum við könnun Menntadags atvinnulífsins sýnir m.a., að stjórnendur sjá fram á fjölgun starfsfólks á næstu fimm árum, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Ekkert af þeim 23 fyrirtækjum sem svöruðu á landsbyggðinni ætlar að fækka starfsfólki – og hlutfallslega fleiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu áforma fjölgun.
Á sama tíma greina 42% fyrirtækja á landsbyggðinni frá því að skortur á starfsfólki hamli vexti þeirra – samanborið við 31% fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Hömlurnar eru jafnt yfir stór og lítil fyrirtæki, sem undirstrikar víðtæk áhrif á atvinnulífið.
Mestur er skorturinn í bílgreinum og heilbrigðisþjónustu, en einnig í flutningum og verslun. Þetta endurspeglar ákveðna hæfnibresti sem þarfnast markvissra lausna, bæði innan menntakerfisins og í gegnum símenntun og starfsþróun.
Þrátt fyrir að 89% fyrirtækja sem sjá tækifæri í gervigreind ætli ekki að fækka starfsfólki, eru fá fyrirtæki langt komin í nýtingu hennar. Tækifærin eru þó til staðar – og gervigreindin talin geta aukið samkeppnishæfni fyrirtækja.
Stuðningsúrræði til endurmenntunar, s.s. Áttin og starfsmenntasjóðir, virðast lítið þekkt – meira en 50% stjórnenda þekkja illa eða ekki til þeirra. Þrátt fyrir það nýta 53% fyrirtækja innan SVÞ slík úrræði, sem er örlítið hærra en meðaltal atvinnulífsins (46%).
SVÞ minnir á verkefnið ‘Ræktum vitið‘, sem er samstarfsverkefni SVÞ, VR og LÍV um hæfniaukningu starfsfólks í verslunar og þjónustugreinum.
Smelltu á SVÞ – Menntadagskönnun 2025 til að hlaða niður niðurstöðuskýrslu GALLUP 2025
11/04/2025 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun, Þjónusta
– Tillögur um breytingar á stuðningi við kaup á rafbílum, sem kynntar voru í frétt á Vísi í dag, gætu haft óvæntar neikvæðar afleiðingar fyrir framgang orkuskipta. Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, bendir þar á mikilvægi þess að styrkjakerfið styðji við raunverulegan árangur, ekki aðeins réttlætissjónarmið.
Í fréttinni á Visir.is er fjallað um endurskoðun stjórnvalda á því hvernig styrkir til rafbílakaupa eru veittir. Ný úttekt sýnir að stuðningurinn hefur að mestu runnið til tekjuhærri hópa og þeirra sem eru yfir miðjum aldri. Nú stendur til að færa stuðninginn nær tekjulægri og yngri kaupendum.
„Tilfærsla á styrkjum til hópa í lægri tekjutíundum og yngra fólks mun því ekki skila losunarsamdrætti en gæti hins vegar dregið úr kaupum eldra fólks og fólks í efri hluta tekjutíundanna. Þar með mundi draga úr hraða orkuskipta, að minnsta kosti að sinni,“ segir Benedikt. Hann varar við því að ef styrkirnir verða eingöngu sniðnir að hópi sem sjaldnar kaupir nýja bíla, gæti það dregið úr innflutningi og þannig takmarkað framboð á notuðum rafbílum til framtíðar.
SVÞ leggja áherslu á að orkuskipti krefjist stefnumótunar sem tekur mið af markaðsvirkni, hagkvæmni og raunhæfum aðstæðum neytenda. Nauðsynlegt er að styðja við þá sem raunverulega geta hrundið breytingum af stað. Þá hvetur SVÞ stjórnvöld til samráðs við hagaðila áður en breytingar eru gerðar á styrkjakerfinu.
Markmiðin verða að vera skýr: að flýta orkuskiptum og tryggja að rafbílavæðing Íslands verði bæði hraðari og sanngjörn.
10/04/2025 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun, Þjónusta
Samtök verslunar og þjónustu fylgjast grannt með þróun í alþjóðaviðskiptum, sérstaklega í ljósi nýrra tolla sem Bandaríkin hafa innleitt á fjölbreyttan vöruinnflutning. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, að áhrifin séu enn óljós hér á landi – en mikilvægt sé að vera viðbúinn.
„Enn sem komið er er ekki unnt að koma auga á bein áhrif tollahækkana og verðlag á neytendamarkaði á Íslandi,“ segir Benedikt.
Bandaríkin hafa beitt 10% viðbótartollum á fjölbreyttan innflutning vegna ágreinings um viðskiptahætti. Ísland hefur ekki gripið til hefndaraðgerða, en fylgst er með hvort áhrif gætu birst í verðlagi á íslenskum markaði.
„Á íslenskum neytendamarkaði eru ýmsar bandarískar vörur á boðstólum á borð við sætar kartöflur, morgunkorn, ávexti, sósur, rúsínur, brauð, gosdrykki, safa, baunir og kornmeti, grænmeti, hveiti, fæðubótarefni, hjólbarða, matarolíur og margt fleira. Við sjáum ekki að verðlagning þessara vara ætti að breytast beinlínis vegna tolla, a.m.k. enn sem komið er,“ segir Benedikt.
Hann bendir á að svigrúm til að meta langtímaáhrif tollanna sé enn af skornum skammti, en að það sé brýnt að hafa auga með þróuninni: „Ef svo óheppilega myndi fara að Ísland yrði fyrir barðinu á breiðvirkum hefndartollum annara ríkja, sem myndu þá væntanlega helgast af einhvers konar einangrunarstefnu, gætu áhrifin orðið allt önnur, beinni og miklu meiri. Á þessum tímapunkti virðist það þó heldur ólíkleg sviðsmynd,“ segir Benedikt.
SVÞ tekur undir mikilvægi þess að greina möguleg áhrif tolla á aðfangakeðjur íslenskra fyrirtækja, sérstaklega þar sem vörur framleiddar eða seldar undir bandarískum vörumerkjum kunna að verða fyrir verðbreytingum.
04/04/2025 | Fréttir, Verslun, Þjónusta
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnt um innleiðingu 10% lágmarkstolls á allar innfluttar vörur til Bandaríkjanna, þar á meðal íslenskar vörur. Þessar aðgerðir munu hafa víðtæk áhrif á íslenskan útflutning og verslunar- og þjónustufyrirtæki sem treysta á bandaríska markaðinn.
Tollarnir taka gildi í tveimur áföngum:
- 5. apríl 2025: 10% lágmarkstollur á allar innfluttar vörur.
- 9. apríl 2025: Gagntollar sem fela í sér 20% toll á vörur frá Evrópusambandinu
Þó að Ísland falli í lægsta tollflokkinn, mun þessi þróun hafa neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á bandarískum markaði. Evrópusambandið hefur lýst yfir samningsvilja en boðað sterk viðbrögð ef ekki næst samkomulag við Bandaríkin.
Sjá nánari frétt og samantekt frá SA hér!
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hvetja íslensk stjórnvöld til að tryggja hagstæð skilyrði fyrir íslenskt atvinnulíf í ljósi þessara breytinga. Við munum fylgjast náið með þróun mála og veita aðildarfyrirtækjum okkar uppfærðar upplýsingar og leiðbeiningar eftir því sem málin skýrast.
31/03/2025 | Fréttir, Ræktum vitið, Verslun, Þjónusta
Samstarfsverkefni SVÞ, VR og LÍV er á góðri siglingu eftir formlega opnun á verkefninu Ræktum vitið.
Markmiðin eru skýr: að gera sí- og endurmenntun að eðlilegum og sjálfsögðum hluta af starfsumhverfi í verslunar- og þjónustugreinum.
Til að halda áfram á þessari braut og tryggja árangur – komum við til með að kanna árlega stöðuna hjá aðildarfélögum okkar og nú stendur einmitt yfir árleg könnun Maskínu og við hvetjum stjórnendur hjá aðildarfyrirtækjum SVÞ sérstaklega til þátttöku.
✔ Það tekur aðeins örfáar mínútur að svara
✔ Þín skoðun skiptir máli
✔ Með þátttöku leggur þú þitt af mörkum til áframhaldandi uppbyggingar
Líkt og áður eru tvær kannanir í gangi:
🔹 Ein fyrir starfsfólk innan VR
🔹 Og ein fyrir stjórnendur innan SVÞ
Við ætlum að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem sett voru í samstarfssamningnum – en við gerum það ekki án ykkar.
Maskína hefur nú sent út könnunartengil með tölvupósti – framlag þitt skiptir máli.
20/03/2025 | Fræðsla, Fréttir, Innra starf, Innri, Stafræna umbreytingin, Upptaka, Útgáfa, Verslun, Þjónusta
Ráðstefna SVÞ 2025 UPPBROT: Fólk - Tækni - Samkeppni .pdf