Margét Sanders í viðtali hjá Morgunútvarpi Rásar 2

Margét Sanders í viðtali hjá Morgunútvarpi Rásar 2

Margrét Sanders, stjórnaformaður SVÞ, var í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun, 18. desember þar sem hún ræddi um auglýsingar VR með Georg Bjarnfreðarson í aðalhlutverki.

Margrét segir að í auglýsingunni séu atvinnurekendur teiknaðir upp sem vonda fólkið. „Að atvinnurekendur ætli sér að fara illa fólk, að þeim þyki ekki vænt um fólkið sitt, að atvinnurekendur vilji græða sem mest og henda fólkinu út í hafsauga, þarna fara menn of langt og það er það sem okkar fólk er bara mjög reitt yfir.“

Margrét segir að það myndi eitthvað heyrast í VR ef Samtök verslunar og þjónustu færu að tala um að starfsmenn væru að stela úr verslunum. „Við erum að tala um glæpastarfsemi.“

Viðtalið í heild sinni má heyra á vef Rásar 2 hér.

Innlend netverslun líklega aldrei meiri en í nóvember

Innlend netverslun líklega aldrei meiri en í nóvember

Rannsóknarsetur verslunarinnar birti 17. desember nýjar tölur úr íslenskri netverslun:

Í nóvembermánuði síðastliðnum, jókst innlend kortavelta Íslendinga í netverslun um 15% frá sama mánuði í fyrra en velta innlendra greiðslukorta Íslendinga í verslun jókst um 5% á sama tímabili.

Jólaverslun fer að töluverðum hluta fram í nóvember en með stórum verslunardögum að erlendri fyrirmynd færist jólaverslunin sífellt meira fram í þann mánuð. Hér er átt við hinn Bandarískættaða
Svarta föstudag, kínverska dag einhleypra og netmánudaginn, en allir falla þessir dagar í nóvember.

Verðbólga á tímabilinu, samkvæmt Hagstofu Íslands, mældist 3,3% sem að einhverju leyti útskýrir hærri kortaveltu í verslun en raunaukningin er samkvæmt því um 1,6%. Nokkuð dró úr kortaveltu Íslendinga í verslun á haustmánuðum og var samdráttur í októbermánuði til að mynda 4%, samanborið við október 2017 en líkt og áður sagði var aukning í nóvember. Þetta kann að benda til þess að neytendur haldi í auknu mæli í sér með jólainnkaupin fram að þessum stóru afsláttardögum.

Nóvember er mikill netverslunarmánuður en kortavelta í innlendri netverslun Íslendinga var rúmlega 81% meiri í nóvember síðastliðnum samanborið við október á undan. Þessa árstíðarsveiflu má sjá á myndritinu hér að ofan.

Kortavelta Íslendinga hjá innlendum raftækjaverslunum var 2,9% hærri í nóvembermánuði nú, samanborið við fyrra ár. Þá var netverslun í flokknum 21,4% hærri en í nóvember í fyrra. Á milli mánaða nam aukningin í flokknum 153,3% í netverslun, en sú tala varpar ljósi á mikilvægi netverslunar í nóvember hjá raftækjasölum. Heildarvelta í flokknum nam tæpum 2,6 milljörðum kr., þar af nam netverslun 331 milljónum. Hlutfall netsölu flokksins er því 13%.

Innlend fataverslun hefur verið í vexti undanfarna mánuði, hvort sem er í búðum eða á netinu. Í nóvember var þó lítilsháttar lækkun í flokknum eða um 0,6% frá fyrra ári. Líkt og í öðrum flokkum jókst þó netverslun með föt í nóvember eða um 20% frá sama mánuði í fyrra.

Kortavelta Íslendinga í verslunum sem selja heimilisbúnað var 15% hærri í nóvember í ár samanborið við fyrra ár. Netverslun með heimilisbúnað tók þá kipp og var 28% hærri á ár en í fyrra. Svipaða sögu er að segja af byggingavöruverslunum, þar sem að netverslun jókst um rúm 27% í nóvember í ár, samanborið við fyrra ár.

Gögn um kortaveltu Íslendinga hérlendis koma frá innlendum færsluhirðingaraðilum korta og öðrum greiðslumiðlurum. Gögnin byggja á sama grunni og kortavelta erlendra ferðamanna sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur reiknað og birt undanfarin ár. Nánari upplýsingar veita Aron Valgeir Gunnlaugsson og Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður RSV, S. 868 4341.

Staðreyndavillur Georgs Bjarnfreðarsonar

Staðreyndavillur Georgs Bjarnfreðarsonar

Í dag, 17. desember, birtist eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ og Margréti Sanders stjórnarformann, í Morgunblaðinu:

Traust og trúnaður er hin almenna regla í samskiptum vinnuveitenda og starfsfólks. Það er sem betur fer alger undantekning þegar samskipti þessara aðila eru á hinn veginn. Enda er það ein meginforsendan fyrir farsælum og árangursríkum atvinnurekstri að samskipti vinnuveitandans og starfsfólks hans séu byggð á trúnaði og trausti, þ.e. gagnkvæmri virðingu. Fullyrða má að atvinnurekendur upp til hópa, hvort sem þeir eru starfandi í verslun, þjónustu eða öðrum atvinnugreinum, leggi sig fram um að hafa þessi samskipti á sem bestan veg.

Þær sjónvarpsauglýsingar frá VR sem birtast þessa dagana eru að mati SVÞ fjarri öllum raunveruleika um það hvernig vinnuveitendur umgangast starfsfólk sitt. Það handrit að mannlegum harmleik sem sett er á svið á kómískan en um leið gildishlaðinn hátt er verulega vandmeðfarið og ekki til þess fallið að gera gaman að. Við þekkjum a.m.k. ekki þann vinnuveitanda sem vill misbjóða starfsfólki sínu á þann veg sem þar er lýst. Þó að mörgum þyki þessar auglýsingar með þeim hætti að þær nái að kitla hláturtaugar hjá fólki er undirtónn þeirra og þau skilaboð sem þær senda mjög alvarleg árás á atvinnurekendur almennt. Ef kaupmaðurinn á horninu, sem er aðalpersónan í auglýsingunum, er gott dæmi um „skúrkinn“ á íslenskum vinnumarkaði þá er sú lýsing okkur mjög framandi. Í það minnsta væri áhugavert að þeir aðilar sem standa að slíkri aðför standi keikir með staðreyndir að vopni í stað almennra alhæfinga um atvinnurekendur upp til hópa.

Hafa skal það sem sannara reynist en SVÞ hafa á undanförnum árum lagt sig fram við að eiga gott samstarf við VR á sem flestum sviðum. Þetta samstarf á ekki hvað síst að stuðla að bættri starfs- og endurmenntun félagsmanna VR, enda hafa báðir aðilar litið svo á að með því verði hinn almenni starfsmaður búinn undir þær miklu breytingar sem fyrirsjáanlegar eru í verslun og þjónustu á allra næstu árum. Breytt starfsumhverfi verslunar- og þjónustufyrirtækja kallar óhjákvæmilega á breyttar kröfur um hæfni starfsfólks.

Við lítum svo á að kröftum SVÞ og VR verði mun betur varið í að vinna í sameiningu við að takast á við þær miklu áskoranir sem eru framundan í stað þess að munnhöggvast um veruleika sem er flestum mjög fjarlægur. SVÞ mun a.m.k. leggja sig fram um að hafa samskiptin á þeim nótum og áfram hvetja sitt fólk til að hlúa vel að starfsfólki sínu og byggja upp gagnkvæmt traust vinnuveitanda og starfsfólks. Það er von SVÞ að VR sjái hag síns fólks að sama skapi betur borgið með því að tryggja slíkan framgang síns fólks í stað þess að mála upp þá hræðilegu mynd af framandi vinnusambandi sem auglýsingar undanfarið hafa teiknað upp.

Taktu daginn frá – Aðalfundur og ráðstefna SVÞ 14. mars 2019

Taktu daginn frá – Aðalfundur og ráðstefna SVÞ 14. mars 2019

Aðalfundur SVÞ verður haldinn fimmtudaginn 14. mars nk.

Að venju verður haldin vegleg ráðstefna í tengslum við aðalfundinn síðar um daginn. Ráðstefnan fer fram á Hilton Reykjavik Nordica. Aðalfyrirlesari verður Greg Williams, aðalritstjóri WIRED Magazine.

 

Taktu daginn frá!

 

Um Greg Williams:

  • Sérfræðingur í umbreytingaþróun og fyrstur til að vita hvað kemur næst
  • Getur sett fram upplýsingar um flóknar breytingar á skemmtilegan og skiljanlegan hátt sem nær til áheyrenda
  • Ögrar áheyrendum og fær þau til að endurhugsa viðskiptamódel til að nýta sem best tæknina sem er að hrista upp í heiminum

Greg Williams er virtur sérfræðingur þegar kemur að tæknibreytingum og hvernig þær hafa áhrif á viðskiptalífið og samfélög okkar í heild. Í starfi sínu sem aðalritstjóri tímaritsins WIRED hittir Greg frumkvöðla, hugsuði, vísindafólk, athafnafólk og skapandi fólk sem er að breyta heiminum og skrifar um fjölmörg málefni á borð við nýsköpun, tækni, viðskipti, sköpun og hugmyndir.

Auk þess að stýra WIRED hefur Greg skrifað fyrir miðla á borð við The Guardian, Obeserver, Arena, The Face, Details og Newsweek. Hann er einnig höfundur fimm skáldsagna undir nafninu Gregory Lee. Ritgerð hans um taugahagfræði (e. neuroeconomics) birtist nýlega í bókinni ‘Connecting Minds, Creating the Future’ ásamt aðilum á borð við Hans Rosling og Bill Gates.

Sem ráðgjafi hefur Greg unnið með fyrirtækjum í orkugeiranum, samskiptum, fjármálum, tísku, tækni og smásölu. Meðal verkefna hans hjá WIRED er að ritstýra árlegri útgáfu blaðsins um það sem búast má við á komandi ári, The WIRED World.

Greg hefur talað víða um heim, m.a. hjá Strelka Institue í Moskvu, Instite of Practicitioners in Advertising í London og hjá Oxford háskóla. Hann hefur stýrt pallborðsumræðum með stjórnendum FTSE 100 og Fortune 500 fyrirtækja m.a. á Advertising Week Europe og fyrir LinkedIn á Cannes Lions.

Greg hefur einstaka hæfileika til að flétta saman sagnahæfileika sína og djúpa þekkingu á framtíð tækni og viðskipta. Saman gerir þetta honum kleift að setja flóknar hugmyndir fram á skemmtilegan og aðgengilegan hátt og undirbúa áheyrendur undir það sem koma skal.

Frekari upplýsingar og skráning síðar. Fylgstu vel með!