Framkvæmdastjórar SVÞ og BGS tjá sig um fyrirhugað kílómetragjald.

Framkvæmdastjórar SVÞ og BGS tjá sig um fyrirhugað kílómetragjald.

Nýtt kílómetragjald þrengir að grænum skrefum fyrirtækja og heimila, þrátt fyrir yfirlýst loftslagsmarkmið stjórnvalda

Í nýju frumvarpi um kílómetragjald er stefnt að því að allir notendur vegakerfisins leggi til jafns í ríkissjóð eftir því sem þeir aka. Þótt markmið frumvarpsins sé að tryggja sanngirni, mun nýtt gjald sennilega auka kostnað grænni samgangna og í raun refsa þeim sem hafa þegar fjárfest í umhverfisvænum ökutækjum. Þeir sem áður treystu á fyrri hvata stjórnvalda til að skipta yfir í rafmagns- eða sparneytna bíla standa nú frammi fyrir verulega auknum álögum, á meðan kostnaður við rekstur eyðslufrekari ökutækja lækkar. Á sama tíma munu hækkanir einnig falla á ýmsar atvinnugreinar utan vegakerfisins, sem í ljósi aukins skattburðar gætu átt í erfiðleikum með að halda uppi sömu samkeppnisstöðu og lífskjörum.

Morgunblaðið birtir í dag grein frá Maríu Jónu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktssyni, framkvæmdastjória SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni;

UM FARNA KÍLÓMETRA Í ÓHAMINGJUSÖMU HJÓNABANDI

Næsta skref í nýju tekjuöflunarkerfi fyrir ökutæki og eldsneyti var lagt fram á Alþingi þann 22. október af fjármála- og efnahagsráðherra, í formi lagafrumvarps um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja. Eigendur raf- og tengiltvinnbíla þekkja fyrsta skrefið. Markmiðið, samkvæmt frumvarpshöfundi, er að allir sem nota vegakerfið greiði gjald í samræmi við notkunina, innan sama kerfis.

Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti

Þrátt fyrir ætlað sanngirnimarkmið frumvarpsins mun það hafa verulegar afleiðingar og margir munu finna fyrir ójafnri ábyrgð.Bifreiðagjöld frumvarp til breytinga

Á næsta ári munu:
1. Eigendur rafmagnsfólksbíla greiða um 12% hærra kílómetragjald en á þessu ári.
2. Eigendur smábíla sem eyða 5 lítrum af bensíni á hundraðið greiða 19,2% meira en á þessu ári.
3. Eigendur jeppa og annarra stærri fólksbíla sem eyða 15 lítrum á hundraðið greiða 7% minna en á þessu ári.
4. Eigendur eyðslufrekra vöruflutningabíla greiða 8,9% minna en á þessu ári.
5. Eigendur hreinorku vöruflutningabíla greiða 3,1% meira en á þessu ári.

Samkvæmt frumvarpshöfundi er markmiðið að tryggja að allir greiði sanngjarnt gjald fyrir notkun vegakerfisins. Sanngirni er honum augljóslega ofarlega í huga. Hins vegar sýna áhrifin, sem rakin hafa verið, að þeir sem hafa fjárfest í grænni tækni munu bera þyngri byrðar á meðan þeir sem nýta eyðslufrekari ökutæki hagnast.

„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“

Í aðdraganda hjúskapar síðustu ríkisstjórnar var gerður kaupmáli sem frumvarpið vísar til. Samkvæmt skoðanakönnunum voru skilnaðarbörnin, þegnarnir, því fegnir að því sambandi lyki. Ekkert barnanna átti hins vegar von á að fá reikning fyrir búskiptunum.

Fyrirsögnin hér að ofan er tekin úr kaupmálanum en óhætt er að segja að efni hans endurspeglaði bjartsýni. „Markmiðið er að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Áfram verður unnið að því að breytingar á sköttum og gjöldum styðji við loftslagsmarkmið.“

Um síðustu áramót tóku gildi lagabreytingar sem urðu þess valdandi að dýrara varð að fjárfesta í fólksbifreið sem eyðir litlu eða engu. Á sama tíma var eignarhald bifreiðanna gert óhagstæðara með hækkun bifreiðagjalds og upptöku kílómetragjalds.

Lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er ætlað að bæta ríkinu tekjumissi vegna ökutækja og það mun að óbreyttu raungerast. Í þeim efnum er markmiðið að tekjurnar nemi rúmum 102 milljörðum kr. árið 2029, sé tekið mið af spá Hagstofunnar um þróun landsframleiðslu. Til samanburðar námu tekjurnar tæpum 52 milljörðum kr. árið 2023.

Markviss skot geiga síður

Með frumvarpinu er ætlunin að afnema aðra eldsneytisskatta en kolefnisgjald sem hækka mun 100%. Kílómetragjaldið á að stoppa í gatið sem myndast og rúmlega það. Hugmyndafræðin er sú að allir ökutækjaeigendur sem teljast hafa sambærileg áhrif á vegakerfið greiði það sama.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“ sagði ríkisstjórnin.

Afleiðingar frumvarpsins, sem voru raktar hér að framan, bera þess ekki vott að loftslagsmál séu lengur í forgangi. Ekki er lengur gert ráð fyrir að skattar á eigendur ökutækja styðji loftslagsmarkmið. Sjálfur vegurinn er mönnum hins vegar ofarlega í huga og það á að sækja meira skattfé í hann og ríkissjóð en hliðaráhrifin eru orðin aukaatriði.

Hliðaráhrifin

Eins og glögglega má sjá af framangreindri upptalningu afleiðinga mun frumvarpið veikja hvata til orkuskipta í samgöngum. Núverandi kerfi hefur veitt talsverða hvata til einstaklinga og fyrirtækja sem hafa aðlagað sig bæði með kaupum á eyðslugrönnum og umhverfisvænum ökutækjum sem eyða engu eða litlu jarðefnaeldsneyti. Með þessu frumvarpi, ásamt skattabreytingum síðasta árs, birtist sú mynd að þessi aðlögun hafi frekar verið eins og að taka lán og nú sé gjalddagi kominn. Þeir sem hafa fylgt hvötum standa nú frammi fyrir auknum kostnaði, sem birtist hver á fætur öðrum.
Umfjöllun frumvarpsins beinist nær öll að umferð á vegum. Þess er hins vegar lítt getið að áhrifin verði víðtækari en svo að aðeins notkun veganna sé undir. Tvöföldun kolefnisgjalds lendir á þeim sem ekki nota vegi í sinni starfsemi. Eigendur báta, þeir sem hita hús með olíu, iðnaðurinn, landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og eigendur staðbundinna tækja á borð við ljósavélar taka á sig verulega hækkun álaga. Ef fram fer sem horfir munu álögur á strandsiglingar hækka á sama tíma og Vegagerðin er að skoða hvernig þá megi efla eftir skipun hins nýfráskilda innviðaráðherra.

Úr hvaða veski?

En hver mun greiða? Atvinnulífið, svaraði nýskilinn innviðaráðherrann. Flestir gera sér grein fyrir að svarið er ekki einlægt því skattar rata í verðlag vöru og þjónustu. Þeir sem hafa fjárfest í eyðslugrannri bifreið munu greiða og þá helst þeir sem fara þurfa langan veg. Sama á við um þá sem þurfa á vöruflutningi að halda og þá helst þeir sem reka starfsemi langt frá vörudreifingarmiðstöðvum og verslunum. Eigendur smábáta munu greiða, bændur munu greiða, iðnaðurinn mun greiða o.fl.

Á endanum munu tveir hópar fá reikninginn, annars vegar neytendur, líklega fá neytendur á landsbyggðinni hann hæstan, og hins vegar viðskiptavinir útflutningsfyrirtækjanna. Verði staða útflutningsfyrirtækjanna slík að þau geti ekki hækkað verð munu þau sitja uppi með reikninginn með mögulegum áhrifum í heimabyggð.

Tækifæri til úrbóta

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu og Bílgreinasambandið hafa þegar komið á framfæri ábendingum um hvernig megi milda áhrif frumvarpsins og munu halda því áfram. Fróðlegt verður að sjá hvort þingmenn í kosningaham muni gefa sér tíma til að leggja við hlustir.

Höfundar: María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

_____________________

Grein MBL 25.10.2024

SVÞ gagnrýna styrki til Bíós Paradísar sem skekkja samkeppni

SVÞ gagnrýna styrki til Bíós Paradísar sem skekkja samkeppni

SVÞ vara við ríkisstyrkjum til Bíós Paradísar – skekkja samkeppni á kvikmyndamarkaði

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa lýst yfir áhyggjum af því að styrkbeiðni Bíós Paradísar um 50 milljóna króna framlag frá ríkinu skekki samkeppni á kvikmyndamarkaðnum. Samtökin telja að slíkir ríkisstyrkir, sem Bíó Paradís hefur nú óskað eftir annað árið í röð, séu óhjákvæmilega skaðlegir fyrir önnur kvikmyndahús sem einnig leggja mikið af mörkum til félagslegrar og menningarlegrar starfsemi.

Vitnað er í Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóra SVÞ, sem bendir á að: „Það er áhyggjuefni að ekki sé tryggt jafnræði í stuðningi við kvikmyndahús. Rekstrargrundvöllur Bíós Paradís virðist byggður á ríkisstyrkjum og slíkt skapar ósanngjarnt samkeppnisumhverfi. Við verðum að gæta þess að önnur bíóhús, sem eins og Bíó Paradís sinna menningarhlutverki og styðja íslenska kvikmyndagerð, fái einnig tækifæri til að blómstra.“

Þá leggur SVÞ einnig áherslu á nauðsyn þess að lækka virðisaukaskatt á kvikmyndahúsamiða úr 24% í 11%, til að jafna samkeppnisstöðu kvikmyndahúsa gagnvart erlendum streymisveitum. „Þetta misræmi er ósanngjarnt og dregur úr getu kvikmyndahúsa til að keppa á jafnréttisgrundvelli við risastórar erlendar veitur,“ segir Benedikt að lokum.

Smellið hér til að lesa alla greinina.

*Mynd frá vef VB.

BM Vallá og Kapp hrepptu Umhverfisverðlaun atvinnulífsins í ár

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, afhenti verðlaunin ásamt verðlaunahöfum fyrra árs. Umhverfisfyrirtæki ársins er BM Vallá en framtak ársins á sviði umhverfismála á KAPP.

Það er ljóst á þeim fjölda tilnefninga sem bárust inn til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins að umhverfis- og loftslagsmál eru órjúfanlegur hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi. Fjölmargar umsóknir bárust og fjöldi fyrirtækja vinna ötult starf á þessu sviði.

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja formaður dómnefndar, Reynir Smári Atlason, CreditInfo, Elma Sif Einarsdóttir, Stiku  umhverfislausnum og Jóna Bjarnadóttir, Landsvirkjun.

BM Vallá
Umhverfisfyrirtæki ársins 2024

BM Vallá framleiðir hágæða byggingarvörur fyrir mannvirkjagerð, má þar helst nefna steinsteypu, forsteyptar húseiningar, hellur og múrvörur.

Umhverfismál og sjálfbær nýting auðlinda er rauður þráður í starfsemi BM Vallá sem hefur sett sér það markmið að verða umhverfisvænasti steypuframleiðandi landsins með því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, efla hringrásarhugsun og stuðla að aukinni sjálfbærni. Markvisst er stefnt að því að starfsemi og steypuframleiðsla BM Vallár verði kolefnishlutlaus árið 2030.

Fyrirtækið er með skýra umhverfisstefnu og forgangsröðun sem miðar meðal annars að því að taka ábyrgð á losun steypunnar í gegnum alla virðiskeðjuna. Markviss fræðsla og innri hvatar (umhverfisátak/keppni) hafa stuðlað að mælanlegum árangri í daglegum rekstri.

Markmið um kolefnishlutleysi í starfseminni kallar á markvissa vöruþróun og nýsköpun ásamt breytingum á verkferlum og metnaðarfullum mótvægisaðgerðum svo hægt verði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í öllu sem viðkemur framleiðslu og rekstri fyrirtækisins.

Það er forgangsverkefni hjá BM Vallá að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum steypu með því að nota vistvænna sement ásamt því að draga úr notkun þess. Sementshlutinn er um 85-90% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi fyrirtækisins og er það því forgangsmál að bjóða upp á nýjar tegundir steypu sem eru með vistvænna sementi.

Mikil gróska og nýsköpun hefur átt sér stað hjá fyrirtækinu með samstarfsaðilum um vistvænni lausnir í mannvirkjagerð. Fyrirtækið vinnur í samstarfi við birgja og þjónustuaðila við að ná settu marki og hefur það nú þegar skilað vistvænna sementi inn á markað hér á landi. Nú þegar getur fyrirtækið boðið viðskiptavinum sínum upp á Berglindi, vistvænni steypu, sem er með allt að 45% minna kolefnisspor en hefðbundin steypa samanborið við steypu samkvæmt kröfu byggingarreglugerðar.

Nýjar steypuuppskriftir með umhverfisvænna sementi skipta lykilmáli í vöruframboði fyrirtækisins. Þannig styður vegferð BM Vallár við framkvæmdaraðila á byggingarmarkaði sem vilja umhverfisvænni lausnir.

Slagorð fyrirtækisins „Byggjum vistvænni framtíð“ endurspeglar stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum, þar sem lögð er áhersla á sjálfbærni og þróun endingargóðra vara fyrir komandi kynslóðir.

Stefna BM Vallá í vistvænni hönnun mannvirkja endurspeglar ekki aðeins umhverfislega ábyrgð heldur einnig fjárhagslegan ávinning, bætt lífsgæði og náttúruvernd. Með skapandi hugsun og sjálfbærum lausnum hefur fyrirtækið sýnt fram á hæfni sína til að stuðla að sjálfbærari framtíð.

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár, þakkaði verðlaunin og þá viðurkenningu sem í þeim fælist „Við erum þakklát fyrir þennan heiður sem er til marks um að áherslur okkar í umhverfismálum séu eftirtektarverðar og hafi skilað raunverulegum árangri. Þennan árangur eigum við öflugu starfsfólki, viðskiptavinum og samstarfsaðilum að þakka sem deila þeirri sýn að breyta þurfi nálgun við hönnun og byggingu mannvirkja. Samnefnari þeirra áherslna er metnaður, drifkraftur og þor til að leiða fram breytingar þar sem umhverfisvænni lausnir gegna lykilhlutverki. Að vera valin umhverfisfyrirtæki ársins er mikil hvatning til að gera enn betur í þróun lausna sem hafa jákvæðari umhverfisáhrif. Við hlökkum til að halda áfram til að leggja okkar af mörkum til að byggja vistvænni framtíð,“ sagði Þorsteinn.

 

KAPP
Umhverfisframtak ársins 2024

KAPP er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í kæliþjónustu, vélasmíði, innflutningi og þjónustu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Í 25 ár hefur fyrirtækið framleitt OptimICE® krapavélar fyrir sjávarútveg sem notaðar eru í bátum og skipum af nánast öllum stærðum við fjölbreyttar veiðar víða um heim.

OptimICE® krapakerfið kemur í staðinn fyrir hefðbundinn flöguís. Krapaísinn er framleiddur úr sjóvatni eða saltvatni bæði um borð og í landvinnslu. Fljótandi krapaísinn umlykur fiskinn og kælir hann fljótt niður fyrir frostmark og heldur hitastiginu í kringum -0.5°C. Þannig helst hitastigið meðan á veiðiferðinni stendur, við löndun, við flutning til framleiðslu og til neytanda, án þess að frjósa. Hraðkælingin, sem er um 10x hraðari en kæling með flöguís, tryggir ferskleika og hámarksgæði afurðarinnar. Hillutíminn eykst um 5-7 daga. Hraðkælingin minnkar myndum baktería umtalsvert auk þess sem OptimICE® ískrapinn er framleiddur í lokuðu kerfi án snertingar við utanaðkomandi óhreinindi.

Nú er komin ný krapavél, sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, sem nýtir koldíoxíð sem kælimiðli í stað F-gasa með mjög háan hlýnunarmátt. Vélin er hönnuð og framleidd af KAPP ehf í höfuðstöðvum þess við Turnahvarf í Kópavogi.

Krapavélin er nýjung sem stuðlar að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda með því að skipta út kælimiðlum með mjög mikinn hlýnunarmátt. Auk sjávarútvegs eru möguleikar á að nýta krapavélina til kælingar í annarri matvinnslu eins og í kjúklingavinnslu og stærri bakaríum.

Meðfylgjandi er innslag um KAPP & BM VALLÁ sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2024:

Áhrif svartsýni á fyrirtæki í verslun og þjónustu

Áhrif svartsýni á fyrirtæki í verslun og þjónustu

Fyrirtæki í verslun og þjónustu undir pressu.

Ný könnun Samtaka atvinnulífsins (SA) sýnir að stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins hafa auknar áhyggjur af rekstraraðstæðum á næstu mánuðum. Fyrirtæki í verslun og þjónustu eru meðal þeirra sem vissulega finna fyrir álaginu, þar sem hækkandi verðbólga, launakostnaður og breytt neyslumynstur hafa þrengt að mörgum rekstraraðilum.

Fjárfestingar dragast saman

Niðurstaða könnunarinnar sýnir m.a. að fjárfestingavísitalan sem vísar til breytinga í fjárfestingu á milli ára hefur ekki verið lægri í rúm þrjú ár. 34% stjórnenda gera ráð fyrir minni fjárfestingu í ár samanborið við árið áður, 21% gera ráð fyrir meiri fjárfestingu og 45% áætla að fjárfesting verði óbreytt milli ára. Fjárfestingar dragast mest saman í verslun og ýmissi sérhæfðri þjónustu en eykst mest í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu, fjármála- og tryggingastarfsemi og sjávarútvegi.

Launahækkanir helsti áhrifaþáttur verðlagsbreytinga

Sem fyrr telja stjórnendur að launahækkanir séu megin áhrifaþáttur verðhækkana hjá fyrirtækjunum sem þeir stýra. 52% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni, sem er þó lækkun um 17 prósentustig frá síðustu könnun. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 24% stjórnenda telja að aðföng hafi mest áhrif. Aðrir þættir vega talsvert minna.

Skortur á starfsfólki fer minnkandi

Skortur á starfsfólki fer minnkandi á milli kannana en 73% stjórnenda telja sig ekki búa við skort á starfsfólki, samanborið við 69% í síðustu könnun. Skorturinn er minnstur hjá fyrirtækjum í fjármála- og tryggingastarfsemi en sem fyrr mestur í byggingariðnaði.

Smelltu hér til að lesa alla fréttina inná vef SA.is

EuroCommerce e-Report 2024: Vöxtur og áskoranir netverslunar í Evrópu

EuroCommerce e-Report 2024: Vöxtur og áskoranir netverslunar í Evrópu

Í nýútgefinni EuroCommerce e-Report 2024 kemur í ljós að evrópsk B2C netverslun óx um 3% árið 2023, en vöxtur var mismikill eftir svæðum. Vestri hluti Evrópu dróst lítillega saman, á meðan Suður- og Austur-Evrópa sýndu verulega aukningu um 14-15%. Áskoranir eins og samkeppni frá löndum utan ESB og nýjar sjálfbærnikröfur hafa áhrif á framgang greinarinnar. Spár benda þó til 8% vaxtar árið 2024.

Sjá nánar í skýrslunni hér.

Sjá upptöku af Webinar eCommerceEurope hér.

Aðildarfélög SA og ASÍ sameinast í baráttunni gegn vinnumansali

Aðildarfélög SA og ASÍ sameinast í baráttunni gegn vinnumansali

Sameiginleg yfirlýsing ASÍ og SA gegn vinnumannsali.

Í gær, fimmtudaginn 26.september tóku Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins höndum saman gegn vinnumansali á vel heppnaðari ráðstefnu í Norðurljósasal Hörpu.

Vinnumansal er að mati ASÍ og SA ólíðandi og nauðsynlegt að leita lausna til þess að uppræta slíka háttsemi. Áhyggjur ASÍ og SA lúta ekki síst að stöðu erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði enda sýna dæmin bæði hérlendis og erlendis að einstaklingar í viðkvæmri stöðu sem flutt hafa um langan veg í leit að betra lífi eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir vinnumansali. Sameiginlegir hagsmunir allra eru að tryggja heilbrigðan vinnumarkað sem tekur vel á móti því fólki sem kemur hingað í atvinnuskyni.

Með vísan í allt framangreint skora ASÍ og SA á stjórnvöld að grípa til almennra aðgerða með sameiginlegri yfirlýsingu sem lesa má á hlekknum hér fyrir neðan.

Yfirlysing-ASI-SA.pdf (vinnan.is)