10/01/2022 | Fréttir, Stjórnvöld, Verslun, Þjónusta
Þjónustusamningur á sviði verslunar og þjónustu undirritaður
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV), hafa undirritað þjónustusamning til tveggja ára um framlag ráðuneytisins til rannsókna á sviði verslunar og þjónustu.
Með þjónustusamningum er lögð áhersla á að auka rannsóknir og úrvinnslu tölfræðiupplýsinga á sviði verslunar og þjónustugreina og að þær upplýsingar séu birtar stjórnvöldum, almenningi og fyrirtækjum á aðgengilegan hátt.
RSV mun annast rannsóknir og tölfræðiúrvinnslu fyrir verslunar- og þjónustugreinar á Íslandi í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni verslunar- og þjónustufyrirtækja. Sérstök áhersla verður lögð á gagnavinnslu sem tengist neyslu ferðamanna hér á landi og mun RSV m.a. greina mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna, sundurliðað eftir útgjaldaliðum.
SJÁ FRÉTT FRÁ STJÓRNARRÁÐUNEYTINU HÉR
Mynd: Stjórnarráðið
06/01/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Stafræna umbreytingin
Félagsmenn SVÞ munu í dag fá senda könnun í tölvupósti um stafræna hæfni sem unnin er fyrir Stafræna Hæfniklasann í samstarfi við SVÞ.
Könnunin er byggð á spurningum þróuðum af Center for Digital Dannelse og byggja á DigComp módeli um stafræna hæfni sem er á vegum Evrópusambandsins.
Meginmarkmið könnunarinnar er að leggja mat á almenna stafræna hæfni stjórnenda og á hvaða sviðum er þörf á aukinni hæfni til að efla stafræna hæfni fyrirtækja og stjórnenda í verslun og þjónustu.
Þessi könnun er hluti af stærra verkefni þar sem megin markmið er að efla íslensk fyrirtæki, stjórnendur og starfsfólk í stafrænni hæfni og tryggja það að við séum meðal þeirra fremstu í heimi í nýtingu stafrænnar tækni til að tryggja samkeppnishæfni og lífsgæði.
Prósent sér um framkvæmd könnunar og fer eftir ströngum siðareglum ESOMAR sem settar eru af alþjóðasamtökum markaðsrannsóknarfyrirtækja þar sem sérstaklega er unnið eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Einn heppinn þátttakandi hlýtur 30.000 kr. bankagjafakort.
05/01/2022 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Morgunblaðið birtir í dag, 4.janúar 2022, frétt um nýja Evróputilskipun vegna skoðanna ökutækja. En SVÞ er málsvari skoðanastöðvanna og gerði verulegar athugasemdir við drög að nýrri skoðanahandbók, eins og kemur fram í frétt Morgunblaðsins.
SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA ALLA FRÉTTINA
01/01/2022 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stafræna umbreytingin, Verslun, Þjónusta
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu skrifar í KJARNANUM 1.janúar 2022
Áramótagrein mín í Kjarnanum fyrir ári síðan bar yfirskriftina „Stafrænt stökk til framtíðar“. Þar lýsti ég því að þrátt fyrir allt hefði árið 2020 ekki verið það annus horribilis fyrir verslunar- og þjónustufyrirtækin í landinu sem margir gerðu ráð fyrir. Covid tíminn hafði nefnilega í för með sér ýmsar jákvæðar hliðarverkanir, ekki síst fyrir þær sakir að æ fleiri hafa nú öðlast skilning á mikivægi stafrænna umbreytinga og þeim gífurlegu tækifærum sem þær skapa. Fundarhöld á netinu og stafrænir viðburðir hvers konar sem áður voru nær óhugsandi eru núna daglegt brauð, með tilheyrandi tíma- og orkusparnaði fyrir alla þá sem slíka fundi sækja. Svo ekki sé nú minnst á þau jákvæðu áhrif sem stafræn fundarhöld hafa haft á kolefnisspor þeirra sem slíka fundi sækja.
Á því ári sem senn líður höfum við hjá SVÞ áfram haldið á sömu braut og áður, trú þeirri staðföstu skoðun okkar að öflugt átak við að efla stafræna hæfni og stafræna þekkingu alls staðar í atvinnulífinu sé ein af frumforsendunum fyrir því að Ísland haldi stöðu sinni áfram meðal fremstu þjóða heims hvað lífskjör varðar. Gert var samkomulag milli stjórnvalda annars vegar og Samtaka verslunar og þjónustu, VR og Háskólans í Reykjavík hins vegar um að setja á laggirnar „Stafrænan hæfniklasa“ sem hefur það hlutverk að efla stafræna hæfni bæði í atvinnulífinu og á hinum almenna vinnumarkaði. Með þessu sameina stjórnvöld, atvinnurekendur í verslun og þjónustu, launþegahreifing og háskólasamfélagið krafta sína í þessu efni. Stafræni hæfniklasinn hefur þegar hafið starfsemi sína.
Ísland áfram samkeppnishæft
Það er mikið í húfi að vel takist hér til. Til þess að Ísland verði áfram samkeppnishæft og íslensk fyrirtæki geti veitt hinum stóru alþjóðlegu fyrirtækjum samkeppni, verður þekking á stafræna sviðinu að taka stökk fram á við. Við erum þegar langt á eftir samanburðarþjóðum okkar í þessum efnum. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er heill kafli um stafrænar umbreytingar þar sem m.a. segir að ríkisstjórnin hafi einsett sér að Ísland verði meðal allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar tækni og þjónustu og að lögð verði áhersla á að styrkja stafræna hæfni fólks og getu þess til að leggja gagrýnið mat á upplýsingar. Óneitanlega hefði verið gaman að sjá í stjórnarsáttmálanum sterkar kveðið að orði um efla menntakerfið til þess að gera því kleift að bæta stafræna hæfni á öllum sviðum samfélagsins. Það er algert lykilatriði að menntakerfið í heild sinni taki þessi mál föstum tökum og efli færni kennara til að miðla þekkingu á þessu sviði til nemenda. Það verður eitt af stóru verkefnum nýhafins kjörtímabils að vinna þeim málum framgang.
Fordæmalausar breytingar
Allt þetta sýnir þær hröðu breytingar sem við nú upplífum, breytingar sem eru algerlega fordæmalausar, svo notað sé það margþvælda orð. Það er ákveðinn vendipunktur að eiga sé stað í öllu viðskiptaumhverfinu. Nýjar og áður óþekktar aðferðir til að ná til viðskiptavinarins spretta upp með reglulegu millibili, þar sem hægt er að fylgjast með neysluhegðun hvers einasta einstaklings af ótrúlegri nákvæmni. Aðferðir til að nálgast viðskiptavininn verða sífellt margbrotnari. Þær aðstæður sem mynduðust í heimsfaraldrinum hafa flýtt þessum breytingum svo um munar.
Stafrænt langstökk til framtíðar hlýtur að verða okkar svar.
Þegar litið er til ársins 2021 er ljóst að löngu þörf viðhorfsbreyting hefur átt sér stað í þeim málum. Á sama hátt er ljóst að betur má ef duga skal. Árið 2022 mun kalla á fleiri og stærri áskoranir í því efni og það sem er undir er hvernig við getum viðhaldið og tryggt samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í þeirri sífellt harðnandi alþjóðlegu samkeppni sem þau eiga við að glíma. Hvorki meira né minna.
SMELLIÐ HÉR TIL AÐ NÁLGAST GREIN Á KJARNANUM
29/12/2021 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun, Þjónusta
Blikur á lofti en sóknarfæri til staðar
Markaðurinn, aukablað Fréttablaðsins, leitaði í dag álits nokkurra aðila á stöðu mála á yfirstandandi ári og horfum fyrir árið 2022.
Þar segir að árið sem er að líða hefur að mörgu leyti komið á óvart. Staða ríkissjóðs við árslok er betri en óttast var fyrir fram. Skatttekjur urðu meiri en reiknað hafði verið með, á sama tíma og kostnaður vegna aðgerða til stuðnings við atvinnulífið vegna Covid varð minni en búist var við.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir rekstrarumhverfi verslunar- og þjónustufyrirtækja hafa verið mjög gott frá upphafi Covid, þrátt fyrir spár um annað. Þar ráði mestu að fólk ferðast ekki eins mikið og fyrir Covid, kaupmáttur hér á landi sé sterkur. Neysla sem áður fór fram erlendis, hafi að miklu leyti færst inn í íslenska hagkerfið og verslunin njóti mjög góðs af því. Undantekningin sé sú verslun sem hafi sérhæft sig í að þjóna ferðamennsku. Þar sé staðan erfið.
SMELLIÐ HÉR TIL AÐ LESA ALLA GREININA
25/12/2021 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun, Þjónusta
Ár innfluttrar verðbólgu
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ skrifar á Vísi.is INNHERJI þann 25.desember 2021.
Eins og allir vita segir sagan okkur að verðbólga á Íslandi hefur jafnan verið hærri en í nágrannalöndum okkar. Svo ekki sé nú minnst á ástandið á sumum tímabilum síðustu aldar þegar verðbólgan var tugum prósenta hærri hér á landi en í helstu nágrannalöndum. Ástandið í þessum efnum var því fremur sérstakt á árinu 2021 þegar verðbólgan var hærri í Bandaríkjunum en hér á landi og litlu lægri í Þýskalandi, landi sem er þekkt fyrir flest annað en óstöðugt verðlag.
Áhrifin af Covid eru meginorsökin hérna, um það er ekki deilt.
Heimsmarkaðsverð á hrávörum, bæði til matvælaframleiðslu og til almennrar iðnaðarframleiðslu hafa rokið upp í verði. Ofan í kaupið hefur flutningskostnður milli heimsálfa margfaldast og við lok árs er þessi kostnaður orðinn þre- til fjórfalt hærri en hann var í upphafi ársins. Sú staðreynd að nær 30% af allri framleiðslu í heiminum er í Kína hefur leitt til þess að þessi hækkun á flutningskostnaði hefur smitast út í vöruverð um allan heim.
En af hverju þessi hækkun á flutningskostnaði?
Ástæðan er einkum sú að bæði markaðsaðilar og skipafélög sem sigla á leiðunum milli heimsálfa misreiknuðu áhrifin af Covid. Flestir áttu von á að eftirspurn eftir vörum og þjónustu myndi dragast saman, sem varð svo ekki raunin eins og berlega hefur komið í ljós. Skipafélög seldu flutningaskip í brotajárn, verslun hélst áfram öflug en fluttist að töluverðu leyti á netið. Það skapaði síðan ýmis tæknileg vandamál, þegar gífurlegt magn einstaklinga kaupir vörur á netinu og fær vörurnar sendar heim að dyrum.
Framleiðsluferlar hafa raskast, sem bein afleiðing af Covid, sem hefur haft þær afleiðingar að afhending vöru hefur seinkað og í verstu tilfellum leitt af sér vöruskort. Allt þetta hefur svo haft í för með sér hækkanir á vöru og þjónustu langt umfram það sem nokkur gat ímyndað sér. Það sem er nýtt fyrir okkur Íslendinga er að verðbólgan sem við höfum átt við að eiga er að verulegu leyti innflutt. Það vonda er að þar með er það utan áhrifasvæðis Seðlabankans að taka á þessari stöðu. Þau tæki sem bankinn hefur í vopnabúri sínu duga hér ekki.
Ekki er heldur hægt að hæla Samkeppniseftirlitinu í þessu sambandi sem hefur sett verulegar skorður við því hvernig hagsmunasamtök mega fjalla um þessi mál.
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni hér á landi, en það verður ekki komið tölu á hversu oft hefur verið fjallað um þessi mál á opinberum vettvangi.
Við sem höfum því hlutverki að gegna að gæta hagsmuna fyrir verslunar- og þjónustufyrirtækin í landinu höfum eftir megni skýrt það út í fjölmiðlum hvað liggi að baki þessu sérstaka ástandi. Ekki er annað að sjá en að skilaboð okkar hafi náð til alls almennings. Öðru máli hefur gegnt um fulltrúa verkalýðshreyfingar og Neytandasamtaka sem hafa reynt að gera lítið úr málinu og haldið því fram að afkoma í verslun sé með þeim hætti að öll fyrirtæki í greininni geti auðveldlega tekið þennan viðbótarkostnað á sig. Slíkt er auðvitað fjarri öllu lagi, þar sem ekki er hægt að yfirfæra afkomu örfárra fyrirtæka yfir á öll fyrirtæki í greininni. Ekki er heldur hægt að hæla Samkeppniseftirlitinu í þessu sambandi sem hefur sett verulegar skorður við því hvernig hagsmunasamtök mega fjalla um þessi mál.
Við lok árs er ekkert sem bendir til annars en að það ástand sem hér er lýst muni vara vel fram á næsta ár. Um það eru allir greiningaraðilar sammála. Því er hætt við að glíman við innflutta verðbólgu verði einnig ein af stóru áskorunum ársins 2022.
SJÁ HÉR GREININA Á VISI.IS