28/08/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Viðskiptablað Morgunblaðsins birtir í dag, 28.ágúst 2024, viðtal við Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing samtakanna en SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa lýst yfir óánægju með ummæli Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna, sem fullyrti að samkeppnisaðilar á dagvörumarkaði hefðu haft með sér þögult samkomulag um að halda markaðnum óbreyttum. Tilefni ummælanna var opnun lágvöruverðsverslunarinnar Prís við Smáralind í Kópavogi fyrr í ágúst.
SVÞ telja að Breki hafi með þessum orðum borið fyrirtækin á markaðinum þungum sökum án rökstuðnings. Þeir benda á að afkomutölur fyrirtækjanna sýni ekki merki um slíkt samkomulag og að það sé alvarlegt að setja fram slíkar ásakanir án sannana.
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, segir ma., í viðtali við Morgunblaðið, að „það sé óraunhæft að saka fyrirtækin um að viðhalda stöðugleika á markaðnum þar sem afkomutölur sýni að þau hafi ekki grætt óeðlilega. Hann bendir á að verðkannanir séu eðlilegur hluti af samkeppni, bæði hér á landi og erlendis.“
Að lokum taka SVÞ fram að þau fagna aukinni samkeppni með innkomu Prís og telja að gagnrýni á markaðsaðstæður sé á misskilningi byggð.
23/08/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Verslun
Í gær lét formaður Neytendasamtakanna efnislega í ljós í viðtali að hann teldi samkeppnisaðila á dagvörumarkaði hafa haft með sér það sem hann kallaði „nokkurs konar þögult samkomulag um að hafa þetta eins og þetta er“.
Framangreind ummæli formannsins verða ekki skilin á annan hátt en að hann telji ráðandi fyrirtæki á dagvörumarkaði hafa átt með sér ígildi samráðs eða samstilltra aðgerða sem fara í bága við bannákvæði 10. gr. samkeppnislaga.
SVÞ mótmæla framangreindum ummælum formanns Neytendasamtakanna. Formaðurinn færði hvorki nokkur rök máli sínu til stuðnings né gerði tilraun til að útskýra mál sitt nánar. Ummælin eru haldlaus. Til að mynda gefa afkomutölur fyrirtækja á dagvörumarkaði hið gagnstæða til kynna.
Í huga SVÞ er alvarlegt að formaður neytendasamtaka skuli hafa látið ummælin falla. Í þeim felst nokkuð harkaleg ásökun sem SVÞ fá ekki séð að eigi við nokkur rök að styðjast.
Aukin samkeppni er af hinu góða. Fyrirsvarsmenn fyrirtækja á dagvörumarkaði hafa í viðtölum fagnað innkomu Prís á markaðinn. SVÞ fagna innkomunni sömuleiðis. Aukin verðsamkeppni kemur neytendum ekki aðeins til góða heldur getur aukin samkeppni hvatt keppinauta á dagvörumarkaði til hagræðingar og nýsköpunar og þannig aukið skilvirkni markaðarins.
Nánari upplýsingar veitir:
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ
Sími: 864 9136
19/08/2024 | Fréttir, Greining, Þjónusta
Aukinn fjöldi færsluhirða kallar á nýjar áskoranir
Rannsóknasetrur verslunarinnar (RSV) sendi í dag frá sér fréttatilkynningu þar sem kemur ma. fram að RSV leggur mikla áherslu á áreiðanleika gagna við öflun upplýsinga fyrir Veltuna, sem er eitt af mikilvægustu verkefnum setursins. Söfnun gagna byggir á sjálfviljugri þátttöku færsluhirða sem starfa á íslenskum markaði, þar sem RSV hefur engan lagalegan rétt til að krefja þá um upplýsingar. Í gegnum árin hefur setrið byggt upp gott samstarf við þessi fyrirtæki, sem hefur skilað mikilvægu gagnasafni fyrir íslenskt viðskiptalíf.
Þróun síðustu missera hefur þó kallað á nýjar áskoranir. Fjöldi færsluhirða hefur aukist verulega og verið hefur unnið hörðum höndum að því að kortleggja þessa aðila og fá þá til samstarfs. Því miður hefur sú vinna ekki gengið eins vel og vonir stóðu til. Þó íslenskir aðilar hafi verið opnir fyrir samtali, hefur reynst erfiðara að sannfæra erlenda færsluhirða um að afhenda gögn. Samræming á tölum RSV við Seðlabanka Íslands (SÍ) hefur sýnt fylgni, en erfiðleikar við að ná öllum aðilum hafa gert það nær ómögulegt að áætla heildarstærð markaðarins.
Greiðslumiðlunarfyrirtæki hafa þróast hratt með nýrri tækni, breyttum neytendavenjum og aukinni samkeppni. Þessi þróun, ásamt alþjóðavæðingu greiðslulausna, hefur leitt til þess að fyrirtæki geta náð til nýrra markaða með minna flækjustigi. Á sama tíma hefur þessi þróun gert það erfiðara fyrir RSV að tryggja heildstæð gögn.
Í byrjun sumars hættu gögn að berast frá einum af stærri færsluhirðunum hér á landi, sem leiddi til verulegra skekkja þegar gögnin voru borin saman við tölur Seðlabankans. Af þessum sökum var tímabundið gert hlé á birtingu gagna hjá RSV þar til hægt er að ná utan um alla færsluhirða á Íslandi. Stjórn RSV hefur sent beiðni til Seðlabankans um gögn beint frá þeim til að tryggja enn frekar áreiðanleika gagna og er von á svari fljótlega.
RSV leggur mikla áherslu á trúverðugleika gagna og hefur verið að vinna að breytingum á þessu ári til að styrkja áreiðanleika þeirra enn frekar. Það er nauðsynlegt að Ísland sé í takt við aðrar Evrópuþjóðir hvað varðar söfnun, greiningu og birtingu gagna um stóra útgjaldaliði í hagkerfinu, þar sem gott aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum er lykilatriði.
Kíkið HÉR til að skoða Veltuna hjá RSV.
16/08/2024 | Fréttir
15. ágúst 2024 markaði tímamót hjá Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ) þegar Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, tók þátt í sínum síðasta stjórnarfundi með samtökunum. Eftir að hafa leitt SVÞ af miklum krafti og byggt upp samtökin með glæsibrag frá því hann hóf störf þann 1. júní 2008, kveður hann nú starfið 1. september nk.
Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá hluta af stjórn SVÞ að kveðja Andrés með hlýhug. Frá vinstri má sjá Jón Ólaf Halldórsson, formann stjórnar SVÞ, Andrés Magnússon, Guðrúnu Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Kokku, Guðrúnu Aðalsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar, Eddu Rut Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Mannauðs og samskiptasviðs Eimskips, allar stjórnarkonur í SVÞ, og Benedikt S. Benediktsson, núverandi lögfræðing SVÞ og tilvonandi framkvæmdastjóra samtakanna.
Andrés hefur á undanförnum árum átt stóran þátt í að styrkja stöðu verslunar og þjónustugreina á íslenskum markaði, og undir hans stjórn hafa samtökin eflst og vaxið, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Stjórn SVÞ þakkar Andrési fyrir hans framlag og óskar honum velfarnaðar í öllum framtíðarverkefnum.
12/08/2024 | Fræðsla, Fréttir, Viðburðir
Ársfundur atvinnulífsins hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur atvinnulífs og stjórnmála til að ræða brýn málefni samfélagsins og leiðir til að bæta lífskjör landsmanna.
Dagsetning: 19. september nk.
Staður: Silfurberg, Harpa
Tími: 15:00 – 17.00
Græn orka er lykill að orkuskiptum og kolefnishlutleysi Íslands. Á komandi starfsári Samtaka atvinnulífsins beinum við kastljósinu að grænni orku og grænum lausnum. Við ræsum þá vegferð á Ársfundi atvinnulífsins 19. september undir yfirskriftinni Samtaka um grænar lausnir.
Nánari dagskrá fundarins er kunngjörð síðar í ágúst.
Skráning nauðsynleg HÉR!
12/08/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Verslun
Samstarf og gagnsæi lykilatriði í þróun viðskiptaveltu RSV
Rekstur greiðslumiðlunarfyrirtækja hefur tekið miklum breytingum að undanförnu, sem hefur haft áhrif á gagnagrunn RSV – Rannsóknaseturs verslunarinnar.
Í frétt frá RSV – segir að mikilvægt sé að tryggja áreiðanleg gögn fyrir verslunar- og þjónustugeirann, og því er RSV í samstarfi við stjórnvöld til að bæta aðgengi að gögnum. Fjölgun nýrra fyrirtækja og hæg gagnaskil frá stærri aðilum hafa skapað áskoranir fyrir RSV sem þakkar þolinmæðina á meðan unnið er að lausnum og munum upplýsa áskrifendur um framvindu mála fljótlega.