24/05/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Viðskiptablaðið greinir í dag frá nýundirrituðum tollasamningi Íslands við Kína.
Í frétta blaðsins kemur m.a. fram að fyrr í þessum mánuði skrifuðu kínversk tollayfirvöld og ríkisskattstjóri undir svokallaða AEO-vottun á tollaráðstefnu í Shenzhen í Kína. Samhliða samkomulaginu sem Kína gerði við Ísland var einnig undirritaður svipaður samningur við afríska ríkið Búrúndí.
AEO stendur fyrir „Authorised Economic Operator“ og hefur verið nefnt „viðurkenndir rekstraraðilar“ á íslensku. AEO er viðurkenning sem veitt er fyrirtækjum sem gegna hlutverki í alþjóðlegu vörukeðjunni.
Að sögn skattsins er kerfinu er fyrst og fremst ætlað að greiða fyrir milliríkjaviðskiptum og auka öryggi alþjóðlegu vörukeðjunnar. Íslensk fyrirtæki sem gegna hlutverki í þessari vörukeðju geta sótt um að hljóta slíka vottun.
SMELLA HÉR fyrir alla greinina.
15/05/2024 | Fréttir, Greining, Verslun, Þjónusta
Innlend kortavelta eykst um 0,12% á milli ára
Rannsóknasetur verslunarinnar RSV birtir mánaðarlega gögn um kortaveltu á Veltunni. Kortaveltan er sundurliðuð eftir þjóðerni og tegundum verslana og þjónustu auk þess sem netverslun er sundurgreind frá verslun í búðum og kortavelta erlendra ferðamanna er skoðuð sérstaklega.
Kortavelta innanlands nam 81,8 milljörðum króna í apríl 2024. Það er 0,12% hækkun á milli ára á breytilegu verðlagi. Kortavelta í innlendri netverslun nemur 15,025 ma.kr. og eykst um 17,4% á milli ára. Þá er samdráttur í neyslu ferðamanna á landinu í apríl en erlend kortavelta nemur 16,75 ma.kr. og dregst saman um 23,6% á milli ára.
Innlend kortavelta er tvískipt eftir þjónustu og verslun.
Þjónusta nemur 37,4 milljörðum króna og eykst um 0,8% á milli ára og verslun nemur 44,4 milljörðum króna og dregst saman um 0,5% á milli ára
Nánari upplýsingar um aðra undirflokka má nálgast á Veltunni.
09/05/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu bendir á í viðtali við Mbl.is í dag að viðvarandi skortur á lyfjafræðingum sé hér á landi og slegist sé um hvern þann sem útskrifast frá háskólanum. „Ef þarna verður ekki breyting á mun það hafa í för með sér alvarlega röskun á starfsemi apótekanna í sumar, ekki síst í apótekum á landsbyggðinni,“ segir Andrés ma. í viðtalinu. Útlit sé fyrir að nýútskrifaðir lyfjafræðingar fái ekki útgefin starfsleyfi fyrr en í júlí og geti þ.a.l. ekki hafið störf í apótekum fyrr en þá.
Smelltu HÉR fyrir allt viðtalið frá 9. maí 2024
26/04/2024 | Fréttir, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Aðalfundur Sjálfstæðra skóla 2024 var haldinn þriðjudaginn 23. apríl í Húsi atvinnulífsins.
Eftirtaldir voru kjörnir í stjórn Samtaka sjálfstæðra skóla 2024-2025:
Formaður – Alma Guðmundsdóttir, Hjallastefnan
Varaformaður – Kristrún Birgisdóttir, Skóli í skýjum
Meðstjórnandi og gjaldkeri – Jón Örn Valsson, Korpukot
Meðstjórnandi – María Sigurjónsdóttir, Arnarskóli
Meðstjórnandi – Sigríður Stephensen, Félagsstofnun stúdenta
Varastjórn – Bóas Hallgrímsson, Hjallastefnan
Varastjórn – Guðmundur Pétursson, Skólar
Varastjórn – Hildur Margrétardóttir, Waldorfskóli Lækjarbotnum
Úr stjórn fara Íris Jóhannesdóttir og Atli Magnússon, nýjar inn, Kristrún Birgisdóttir og María Sigurjónsdóttir.
Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.
Eftir að hefðbundnum aðalfundastörfum lauk fór Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, yfir stöðuna í samningaviðræðunum við Reykjavikurborg.
Ólafur Þór Kristjánsson, skólastjóri Tónasala, var með kynningu á skólanum fyrir félagsmenn. Tónsalir er nýr félagsmaður og fyrsti tónlistarskólinn sem gengur í samtökin.
Fundarstjóri var Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla.
___________________________________________________
16/04/2024 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Innra starf
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og mun hann hefja störf 1. september nk.
Benedikt útskrifaðist með Mag. Jur. gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands 2010. Hann var nefndarritari á nefndasviði Alþingis 2010–2015, deildarsérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti 2015–2019 og hefur frá ársbyrjun 2019 gegnt starfi lögfræðings SVÞ ásamt því að vera staðgengill framkvæmdastjóra.
Benedikt hefur sem lögfræðingur SVÞ aðstoðað aðildarfyrirtæki samtakanna á breiðu sviði, ásamt því að annast almenna og sértæka hagsmunagæslu fyrir hönd samtakanna. Hann þekkir því starfsemi samtakanna afar vel.
Benedikt segir starfið leggjast afar vel í sig: „Starfsemi aðildarfyrirtækja SVÞ er á afar breiðu sviði, viðfangsefnin fjölbreytt og við stjórnendum blasa sífelldar áskoranir. Við finnum að fyrirtækin reiða sig oft samtakamáttinn sem starf SVÞ grundvallast á og það er verðugt verkefni að gæta hagsmuna rúmlega fjögur hundruð fyrirtækja. Það er eitt megin verkefni SVÞ að tryggja að til staðar séu tækifæri til hagræðingar, ekki síst með nýtingu stafrænnar tækni og gervigreindar. EES-samningurinn hefur reynst okkur afar vel en honum fylgja líka áskoranir. Innleiðing viðbótakrafna verður að taka mið af mati á getu fyrirtækja til að takast á við þær. Ég þakka traustið og stuðninginn sem stjórn SVÞ hefur sýnt mér en vil nota tækifærið og hrósa starfsfólki aðildarfyrirtækja samtakanna því án ykkar stæðum við ekki í þeim sporum sem við stöndum nú.“
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ kveðst afar ánægður með þessa niðurstöðu: „Það var einhugur innan stjórnar samtakanna um að ráða Benedikt sem framkvæmdastjóra. Hann hefur sýnt það í störfum sínum fyrir samtökin sl. fimm ár að hann hefur víðtæka þekkingu og reynslu til að bera sem án vafa mun nýtast vel í starfi hans sem framkvæmdastjóra. Hann þekkir innviði stjórnsýslunnar, er vanur samskiptum við stjórnvöld og hefur haldgóða þekkingu og reynslu af áskorunum sem blasa við atvinnulífinu á borð við stafræna umbreytingu, sí- og endurmenntun starfsfólks og auknar kröfur um sjálfbærni.“
15/04/2024 | Fréttir, Innra starf, Stafræna umbreytingin, Upptaka, Verslun, Þjónusta
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu héldu hátíðlega uppá 25 ára starfsafmælið sitt á Parliament Hótel Reykjavik v/Austurvöll miðvikudaginn 10.apríl sl., undir þemanu ‘Framtíðin bíður ekki!’
Uppselt var á ráðstefnuna og komust færri að en vildu.
Nú er hægt að nálgast allar upptökur frá 18 viðburðum, fyrirlestrum, pallborðum og Á Trúnó.
Smelltu HÉR til að nálgast sérstaka afmælisútgáfu myndaalbúm sem verður opið til 7.maí nk.
Ath! félagsfólk SVÞ hefur ótakmarkaðan aðgang að öllu efni ráðstefnunnar inn á ‘Mínar síður’