05/09/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Menntun
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið:
Samtök verslunar og þjónustu hafa undanfarin misseri lagt mikla áherslu á mikilvægi menntunar í því skyni að efla veg þeirra starfa sem unnin eru í verslunar– og þjónustufyrirtækjum. Menntun hefur gríðarlega miklu hlutverki að gegna þegar horft er til þeirra öru breytinga sem eru nú að eiga sér stað í öllum störfum, ekki síst störfum í verslun og þjónustu. Hin stafræna bylting hefur þegar haft umtalsverð áhrif á störf í þessum atvinnugreinum og þau áhrif munu aðeins aukast á næstu árum.
Ný námslína við Verzlunarskóla Íslands, unnin í samstarfi við SVÞ, er því mikið fagnaðarefni. Markmið námsins er að koma til móts við nýjar þarfir fyrirtækja í verslun og þjónustu. Þarfir sem lúta með beinum hætti að þeirri stafrænu byltingu sem er að eiga sér stað. Netverslun og -þjónusta eykst hröðum skrefum og upp er að vaxa kynslóð sem mun sækja meirihluta sinnar verslunar og þjónustu á netið. Í kjölfarið tekur umhverfi starfsfólks stórstígum breytingum og því skiptir öllu máli að sú hæfni sem nýr veruleiki krefst sé byggð upp með góðri menntun.
Þessari áskorun hafa SVÞ ákveðið að mæta með samstarfi við Verzlunarskóla Íslands. Nú í haust bauðst nýnemum að hefja nám á nýrri stafrænni viðskiptalínu. Eftirspurn eftir náminu fór fram úr björtustu vonum og komust mun færri að en vildu. Verslunar- og þjónustufyrirtæki munu gegna lykilhlutverki við framkvæmd og þróun námsins, annars vegar með því að miðla af eigin reynslu við innleiðingu stafrænna lausna innan fyrirtækjanna og hins vegar með því að vera leiðbeinendur og bjóða upp á vinnustaðanám fyrir ungmenni á þessari nýju námslínu við Verzlunarskólann.
Það eru mikil tímamót, nú þegar fyrsti nemendahópurinn leggur af stað í þessa vegferð. SVÞ væntir mikils af samstarfinu við Verzlunarskólann og munu vinna ötullega með skólanum að þróun námsins. Það er trú samtakanna að námið muni skila af sér öflugu fólki sem verður í stakk búið til takast á við krefjandi viðfangsefni í nýju og breyttu starfsumhverfi verslunar- og þjónustufyrirtækja.
02/09/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Umhverfismál
Ingvar Freyr Ingvarsson aðalhagfræðingur og Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu, skrifa í Viðskiptablaðið 29. ágúst:
Ríkisstjórnin hefur gefið út metnaðarfullar yfirlýsingar í loftslagsmálum. Við höfum fyrir löngu spilað út okkar helsta trompi; orkuframleiðsla á Íslandi er að langmestu leyti sjálfbær. Við þurfum því að takast á við flóknar áskoranir til að draga úr losun. Í því liggja hins vegar jafnframt tækifæri því við munum þurfa að skapa og vinna með lausnir sem önnur ríki þurfa hugsanlega ekki að leggja jafn ríka áherslu á næstu ár. Haldi menn rétt á spilunum geta Íslendingar orðið nk. fyrirmyndarríki og slík ásýnd eykur seljanleika vöru og þjónustu frá Íslandi. Snemmbærar fjárfestingar í losunarsamdrætti draga úr framtíðaráhættu vegna kostnaðarhækkana. Undir þessum kringumstæðu þurfa bæði stjórnvöld og einkaaðilar að koma auga á tækifærin og nýta þau til hins ýtrasta.
Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar tengjast skuldbindingum á vettvangi Parísarsamkomulagsins. Efasemdum hefur verið lýst um niðurstöður loftslagsráðstefnu SÞ árið 2015. Um þessar mundir hafa komið fram upplýsingar sem sýna að losun koltvísýrings heldur áfram að aukast þrátt fyrir tilvist samkomulagsins. Margir eru þó þeirrar skoðunar að árangur ráðstefnunnar sé meiri en menn gátu vonast eftir. Þeim fer einnig fjölgandi sem telja að það hefði verið æskilegt að ganga mun lengra en gert var. Hvað sem öðru líður er ljóst að árangurinn er m.a. háður því hvernig aðilar Parísarsamkomulagsins haga sér næstu missiri og ár.
Vísbendingar eru um að Parísarsamkomulagið hafi hið minnsta vakið menn til umhugsunar og skapað baráttunni gegn hlýnun jarðar nýjan farveg. Þó að með samkomulaginu hafi aðildarríkin sett sér töluleg markmið verður árangur a.m.k. fyrst um sinn helst mældur í skilgreindum aðgerðum sem aðildarríkin boða. Aðilar samkomulagsins hafa verið meðvitaðir um að þetta er langhlaup en ekki spretthlaup og því er aðildarríkjunum gert að endurmeta gerðar áætlanir fimm ára fresti auk þess sem upplýsingagjöf og eftirlit verður gegnsærra en áður hefur tíðkast. Líkur eru á að samanburður verði í því ljósi einfaldari og aðgengilegri.
Óhjákvæmilega krefst metnaður í loftslagsmálum þess að áætlanir einstakra ríkja séu verði skjótvirkar. Fjölmörg ríki stefna að góðum árangri hverjar svo sem heimturnar verða. Ætla verður að þær aðgerðir sem ráðist verður í muni með einhverjum hætti kalla á breytta hegðun fyrirtækja og einstaklinga.
Virðismat fyrirtækja er m.a. háð þróun rekstrarkostnaðar. Stjórnendur fyrirtækja sem standa í virkri samkeppni hafa það viðvarandi verkefni að lækka slíkan kostnað m.a. með upptöku nýrra rekstraraðferða og nýrra tæknilausna.
Til dæmis standa stjórnendur fyrirtækja sem reiða sig á notkun ökutækja frammi fyrir því að leggja mat á rekstrarkostnað þeirra yfir áætlaðan notkunar- eða líftíma. Efnahagslegir hvatar til orkuskipta í samgöngum eiga að stuðla að því að matið verði nýorkuökutækjum hagfellt. Ábati fyrirtækjanna gefur til kynna það verð sem fyrirtækið greiðir beinlínis fyrir losun. Til viðbótar kann að koma sá ábáti sem hlýst af góðu orðspori.
Kostnaður við losun í fluggeiranum endurspeglast í kostnaði vegna kaupa á ETS losunarheimildum og sama á við um önnur fyrirtæki sem eru háð slíkum kaupum. Flugfélög draga m.a. úr rekstrarkostnaði með því að draga úr eldsneytisnotkun. Verðið sem þau greiða fyrir losun endurspeglast í rekstrarhagræðinu sem þau ná fram annars vegar með minni eldsneytiskaupum og hins vegar sparnaði vegna minni þarfar fyrir losunarheimildir. Í mörgum tilvikum er losunarkostnaður hins vegar óljós til skemmri og lengri tíma litið enda eru loftslagsaðgerðir stjórnvalda enn í mörgu tilliti ófullburða. Þetta á t.d. við í tilviki margra fyrirtæki í orkuiðnaði.
Þessi fyrirtæki standa þannig frammi fyrir nokkrum vanda annars vegar þegar þau vinna rekstraráætlanir og hins vegar þegar þau taka ákvarðanir um fjárfestingar sem eiga að nýtast í meðallangan eða langan tíma. Ákveðin hætta er á að loftslagskostnaður verði þar með látinn liggja á milli hluta. Sterkar líkur eru á að þær aðgerðir sem ráðist verður í því skyni að draga úr losun í starfsemi fyrirtækja muni til framtíðar litið hafa áhrif á afkomu og eignaverð. Skyndilegar loftslagsaðgerðir geta því haft veruleg áhrif á horfur í rekstri fyrirtækja auk þess sem verðlækkun eigna kann að draga úr lánshæfi. Skyndileg áhrif loftslagsaðgerða geta því haft leitt til lakari efnahags- og fjármálastöðugleika.
Í framangreindu ljósi er nauðsynlegt að tryggja að stjórnendur og fjárfestar hafi tök á að taka tillit til loftslagsáhættu. Öðrum kosti geta þeir ekki baktryggt fyrir mögulegum áföllum. Óvissan kann þannig að leiða til lakari viðskiptakjara fyrirtækjanna. Skilvirk loftslagsstefna er helsta tækið sem stjórnvöld geta beitt til að draga úr loftslagsáhættu. Verði of seint í taumana gripið er hætt við að samfélagslegur kostnaður aukist. Því meira sem það dregst að stefnan liggi fyrir því meira eykst hættan á harðri aðlögun. Liggi loftslagsstefna fyrir snemma þannig að unnt verði að grípa til aðgerða fyrr en ella eykst hagkvæmni og fyrirsjáanleiki. Það kemur öllum til góða.
Markaðstengd stjórntæki hafa þótt ákjósanlegur kostur í loftslagsmálum. Með þeim er leitast við að fella kostnað vegna losunar inn í beinan kostnað við framleiðslu eða þjónustu sem veldur losun. Samfélagsleg áhrif losunar eru m.ö.o. verðlögð og sá sem losar ber þannig fjárhagslega ábyrgð henni sem aftur endurspeglast í verði sem kaupendur vara og þjónustu greiða. Með þessu móti er skapaður fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki og neytendur til að velja loftslagsvænar lausnir. Þá aukast líkur á að ráðist verði í þær mótvægisaðgerðir sem skila mestum árangri. Stjórntækin geta því dregið úr heildarkostnaði mótvægisaðgerða, stýrt fjármagni í loftslagsvænar tækninýjungar og stuðlað að því að ríkisstjórnin standi við metnaðarfullar yfirlýsingar. Þegar horft er til þess hve mikil áhrif loftslagsbreytingar geta haft á samfélagið er ljóst að stjórntækin eru gríðarlega mikilvæg.
Eitt af mikilvægustu verkefnum fjármálamarkaðarins er að meta áhættu. Svo unnt sé að leggja raunhæft mat á loftslagsáhættu þurfa bestu mögulegu upplýsingar að liggja fyrir. Tilvist slíkra upplýsinga er því veruleg forsenda réttra ákvarðana. Án þeirra ríkir óvissa um kostnaðaráhrif losunaraukningar eða -samdráttar á rekstur og eignir. Þar með er hætt við að mat á félags- og efnahagslegri arðsemi verði skeikult. Engin er betur í stakk búin til að veita upplýsingarnar en stjórnvöld.
02/09/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Fréttablaðinu 29. ágúst sl.:
Á undanförnum mánuðum hefur verulegt magn lambakjöts verið flutt út, m.a. til fjarlægra landa á borð við Japan og Víetnam. Þessi útflutningur varð það mikill að skortur myndaðist á innanlandsmarkaði, sérstaklega á lambahryggjum. Afurðastöðvar í landbúnaði sköpuðu skortinn vísvitandi í þeim tilgangi að geta hækkað verð á lambakjöti til íslenskra neytenda. Plottið gekk upp, verð frá afurðastöðvum hækkaði um tugi prósenta og íslenskir neytendur voru, eins og fyrri daginn, þeir sem borguðu brúsann. Forsvarsmenn afurðastöðvanna gerðu ekki minnstu tilraun til að fela þessa stöðu og greindu frá yfirvofandi skorti á fundi með sauðfjárbændum síðastliðið vor, þegar fjórir mánuðir voru þar til sláturtíð hæfist.
Þegar innlend framleiðsla getur ekki annað eftirspurn, ber lögum samkvæmt að heimila innflutning á viðkomandi vöru. Samtök verslunar og þjónustu sendu því erindi til ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara í júní sl., þar sem farið var fram á að heimild yrði veitt til tollfrjáls innflutnings á lambahryggjum. Eftir að hafa sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni, ákvað nefndin að leggja til við ráðherra að innflutningur, með lækkuðum tollum, yrði heimilaður í einn mánuð. Ekkert benti til annars en að heimildin yrði veitt, enda lögboðnar forsendur til staðar. Þá gripu pólitískir hagsmunaaðilar í taumana, landbúnaðarráðherra lét undan og heimildin var ekki veitt. Íslenskir neytendur sátu eftir með sárt ennið, lambahryggir voru fluttir inn á fullum tollum og neytendur nutu þ.a.l. ekki þess ábata sem að var stefnt. SVÞ hafa þegar sent viðeigandi stofnunum erindi vegna þeirra viðskiptahátta sem afurðastöðvarnar sýndu af sér í þessu máli.
Á Íslandi er nú framleitt um 30% meira af lambakjöti en þörf er fyrir á innanlandsmarkaði, eða um 3 þúsund tonn. Það magn er allt flutt út, á verði sem er langt undir því sem innlendri verslun stendur til boða. Kolefnisfótspor af þeim útflutningi hefur hins vegar ekki verið kannað. SVÞ munu því á næstunni senda erindi til umhverfisráðherra þar sem óskað verður eftir að kolefnisfótspor útflutnings á lambakjöti verði kannað sérstaklega.
Það er nefnilega full ástæða til að allur herkostnaður þess útflutnings sé uppi á borðinu. Skattgreiðendur eiga heimtingu á því.
28/08/2019 | Fréttir, Stjórnvöld
Við minnum verslanir á breytingar á virðisaukaskatti á tíðavörum en hann lækkar úr 24% í 11% nú um mánaðarmótin, 1. september 2019.
28/08/2019 | Fréttir, Stjórnvöld
Samtök verslunar og þjónustu brýna fyrir aðildarfyrirtækjum sínum að fylgjast náið með því að tilskyldar breytingar verði á milligjöldum í kortaviðskiptum þegar lög um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur taka gildi þann 1. september n.k.
Frekari upplýsingar má sjá í grein Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra SVÞ, hér.
28/08/2019 | Fréttir, Stjórnvöld
Frá og með 1. september nk. verður verslunum alfarið óheimilt að gefa viðskiptavinum burðarpoka. Bannið nær til allrar afhendingar burðarpoka og ekki skiptir máli úr hvaða efni þeir eru. Koma verður fram á kassakvittun hvert endurgjaldið er.
Nokkurs ruglings hefur gætt um þær breytingar sem eru að eiga sér stað því eftir rúmlega eitt og hálft ár, þ.e. hinn 1. janúar 2021, tekur gildi algert bann við afhendingu burðarpoka úr plasti jafnvel þó endurgjald verði innheimt fyrir afhendingu þeirra. Frá og með þeim tíma verður hins vegar heimilt að afhenda burðarpoka úr öðru en plasti, en þá eingöngu gegn endurgjaldi.
Með burðarpoka úr plasti er átt við alla burðarpoka sem innihalda eitthvert magn plasts. Bannið nær ekki til lífbrjótanlega poka úr maís sem ekki innihalda plast eða poka úr pappír. Slíka poka má afhenda gegn endurgjaldi frá og með 1. september nk. og það mun ekki breytast.
Skyldan til að innheimta endurgjald fyrir burðarpoka nær aðeins til burðarpoka, þ.e. poka sem eru afhentir neytendum á sölustað, hvort sem þeir eru með eða án halda. Þetta hefur ekki áhrif á poka sem t.d. eru seldir á rúllum, í pökkum eða öðrum sölueiningum í verslunum, s.s. ruslapoka, poka fyrir gæludýraúrgang eða klakapoka.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur tekið saman afar gagnlegar upplýsingar um málið sem gott er að glöggva sig á: https://www.stjornarradid.is/default.aspx?PageID=f178b0cc-2b5a-4861-9c4c-cc446b1a6443