16/11/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur birt mælingar fyrir október sem sýna að velta í fata- og skóverslun dróst saman í október síðastliðnum í frá sama mánuði í fyrra þó svo að verð á fötum hafi verið 5,9% lægra en fyrir ári. Ef borin er saman velta í fataverslun síðustu þrjá mánuði við sömu þrjá mánuði í fyrra sést að nánast engin breyting var á veltunni á milli ára. Vert er að minnast þess að um síðustu áramót voru felldir niður tollar af fötum sem hvati til aukinnar sölu á fötum hér innanlands. Þannig var ætlunin að sporna gegn þeirri þróun að Íslendingar sem ferðist til annarra landa kaupi í miklu magni föt í útlöndum og fataverslunin flyttist heim í staðinn.
Á þessu ári hefur gengi íslensku krónunnar styrkst verulega og þar með er hagstæðara fyrir landsmenn að versla erlendis núna en í fyrra. Enda var greiðslukortavelta Íslendinga erlendis í október síðastliðnum 19% meiri en í október í fyrra, sem gefur vísbendingu um að aukning hafi verið innkaupum landsmanna erlendis. Líklega eru fatakaup þar innifalin.
Dagvara og heimili
Áframhaldandi aukning var í sölu annarra vöruflokka í október. Þannig jókst sala í dagvöruverslun um 4,3% frá október í fyrra. Sala dagvöru síðastliðna þrjá mánuði var 7,3% meiri en á sama tímabili í fyrra.
Heimilin endurnýja húsgögnin fyrir jólin. Í október jókst sala húsgagna um 19,2% frá sama mánuði og í fyrra. Þar af jókst velta sérverslana með rúm um 23,5% frá því í fyrra. Þegar borin er saman velta húsgagna síðustu þriggja mánaða við sömu mánuði í fyrra jókst veltan um 26%. Sór heimilistæki, líkt og kæliskápar og þvottavélar, njóta einnig aukinna vinsælda í aðdraganda jóla. Sala á slíkum tækjum jókst um 13,5% frá október í fyrra.
Gólfefni
Nú er í fyrsta sinn birt veltuvísitala gólfefna. Vísitalan byggir á veltutölum frá flestum sérverslunum í landinu með gólfefni, auk byggingavöruverslana og annarra sem verslana sem selja gólfefni. Velta gólfefna jókst um 33,8% í október í samanburði við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagsbreytingum reiknast aukningin á milli ára vera 32,5%.
Stefnt er að því að bæta við enn fleiri flokkum byggingavöru á næstunni.
Erlend kortavelta
Íslensk verslun nýtur góðs af auknum kaupmætti og vaxandi einkaneyslu. Jafnframt er ljóst að aukinn straumur erlendra ferðamanna hefur nokkur áhrif á verslun. Í október síðastliðnum var heildargreiðslukortavelta erlendra ferðamanna 17,5 milljarðar króna sem er 67,1% hærri upphæð en í október í fyrra
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 4,3% á breytilegu verðlagi í október miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í október um 6,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 0,4% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í október 0,9% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 11,4% á breytilegu verðlagi í október miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 10,9% á föstu verðlagi. Verð á áfengi var 0,5% hærra í október síðastliðnum og 0% lægra en í mánuðinum á undan. Þess ber að geta að 1. janúar 2016 var áfengi fært í neðra þrep VSK en áfengisgjald hækkað. Í gögnum sem hér er stuðst við eru sýndar breytingar á veltu án VSK og þarf því að túlka tölur með tilliti til þessarar kerfisbreytingar
Fataverslun dróst saman um 7,1% í október miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 1,3% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,9% lægra í október síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 8,6% í október á breytilegu verðlagi og minnkaði um 4,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -5,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í október um 3,9% frá október í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 19,2% meiri í október en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 17% á föstu verðlagi.
Velta sérverslana með rúm jókst um 23,5% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi.
Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 16,5% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 1,9% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í október um 12,2% á breytilegu verðlagi og jókst um 11,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,3% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í október um 2,8% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 34,3%.
Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 4,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 13,5% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Fréttatilkynning RSV
08/11/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Áætlað er að jólaverslunin aukist um 10,3% frá síðasta ári og að velta í smásöluverslun verði um 85 milljarðar kr. án virðisaukaskatts í nóvember og desember. Þetta er mesti vöxtur í jólaverslun á milli ára frá bankahruninu. Rannsóknaseturs verslunarinnar birtir hér spá um jólaverslunina þar sem þetta kemur fram.
Af spánni má draga þá ályktun að hver Íslendingur verji að jafnaði 53.813 kr. til innkaupa í nóvember og desember, sem rekja má til árstímans. Í fyrra nam þessi upphæð 49.156. Vöxturinn á milli ára er því 9,5%. Tekið skal fram að mannfjöldi eykst um 1,1% á þessu tímabili samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar.
Í samantekt Rannsóknasetursins um jólaverslunina er einnig að finna umfjöllun um neyslubreytingar sem tengjast jólaversluninni.
Sækja skýrsluna Jólaverslun 2016
02/11/2016 | Fræðsla, Fréttir, Verslun
SVÞ boðar til félagsfundar um réttindi og skyldur vegna sölu á netinu fimmtudaginn 10. nóvember nk. kl. 8.30 – 10.00 í Kviku, Húsi atvinnulífins, Borgartúni 35. Boðið verður upp á kaffi, te og með því frá kl. 8.15.
Á fundinum mun lögfræðingur Neytendastofu fara yfir ákvæði nýrra laga um neytendasamninga og hvaða breytingar þau hafa í för með sér frá lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Farið verður stuttlega yfir almenna upplýsingaskyldu seljenda samkvæmt lögunum en megináhersla verður lögð á að fara yfir skyldur seljenda og réttindi neytenda við fjarsölu og sölu utan fastrar starfsstöðvar.
Að undanförnu hefur sala á netinu færst í aukana og hafa verslanir í síauknum mæli tileinkað sér netverslanir í sinni starfsemi sem valmöguleika fyrir neytendur. Að mörgu þarf að hyggja þegar kemur að netverslun enda geta réttindi og skyldur verið mismunandi frá því sem á við um staðbundna verslun.
Fyrr á þessu ári voru samþykkt ný lög um neytendasamninga sem hafa það að markmiði að samræma reglur aðildarríkja EES-svæðisins um samninga utan fastrar starfsstöðvar seljanda, fjarsölusamninga, sölu- og þjónustusamninga og um hvaða atriði seljanda er skylt að upplýsa neytendur áður en slíkir samningar verða skuldbindandi af hálfu neytenda.
Oops! We could not locate your form.
28/10/2016 | Fréttir, Verslun
Að undanförnu hefur sala á netinu færst í aukana og hafa verslanir í síauknum mæli tileinkað sér netverslanir í sinni starfsemi sem valmöguleika fyrir neytendur. Að mörgu þarf að hyggja þegar kemur að netverslun enda geta réttindi og skyldur verið mismunandi frá því sem á við um staðbundna verslun.
Má í þessu samhengi benda á að réttindi neytenda kunna að vera ítarlegri varðandi viðskipti í gegnum netverslanir, s.s. varðar upplýsingar um vöru og skilarétt, og einnig þarf að gera grein ítarlega grein fyrir kostnaði. Til viðbótar má nefna að fyrr á þessu ári voru samþykkt ný lög um neytendasamninga sem hafa það að markmiði að samræma reglur aðildarríkja EES-svæðisins um samninga utan fastrar starfsstöðvar seljanda, fjarsölusamninga, sölu- og þjónustusamninga og um hvaða atriði seljanda er skylt að upplýsa neytendur áður en slíkir samningar verða skuldbindandi af hálfu neytenda.
Þær helstu breytingar sem hin nýju lög hafa í för með sér eru ýmsar formlegar kröfur til samninga utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga, svo sem um staðfestingu á samningi og hvernig upplýsingagjöf skuli háttað. Þá er einnig gert ráð fyrir rýmri rétti neytenda til þess að falla frá samningi miðað við tilteknar aðstæður.
Því er ljóst að sala á vörum og þjónustu í fjarsölu og utan fastrar starfsstöðvar, s.s. sala á netinu, felur í sér þær skyldur að tryggja neytendum nægar upplýsingar og ýmis réttindi við slík kaup. Einnig eru auknar kröfur lagðar á seljendur á netinu að upplýsa neytendur um rétt sinn.
SVÞ munu halda sérstakan félagsfund fimmtudaginn 10. nóvember nk. þar sem fulltrúar frá Neytendastofu munu kynna fyrir aðildarfyrirtækjum samtakanna þau réttindi og skyldur sem snúa að netverslun sem og kynna þær breytingar sem framangreind lög um neytendasamninga hafa í för með sér.
26/10/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Barnavagnar, barnaleikföng og snuð eru dæmi um vörur sem bera núna tolla sem falla niður.
Frá og með 1. janúar 2017 hafa allir tollar verið felldir niður hér á landi nema af hluta af matvöru. Þetta verður mikil kjarabót eins og hefur sýnt sig við niðurfellingu á almennum vörugjöldum 1. janúar 2015 og síðan niðurfellingu á tollum á fötum og skóm 1. janúar 2016.
Skilar niðurfellingin sér til neytenda?
Þrátt fyrir gagnrýnisraddir um annað þá hefur niðurfelling tolla og vörugjalda skilað sér til neytenda eins og efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hefur ítrekað sýnt fram á með tölulegum gögnum. Þetta getur hinn almenni neytandi einfaldlega sannreynt með því að skoða breytingu á vísitölu þessara vara. Neytendur finna þetta einnig á verulegri verðlækkun á þeim vörum sem áður báru þessi gjöld s.s. eldavélum, sjónvörpum, salernum og bílavarahlutum. Einnig hafa föt og skór lækkað töluvert. Þetta hefur haft góð áhrif á þróun verðlags sem kemur öllum til góða.
Það skal þó tekið fram að tollar höfðu þegar verið felldir niður af vörum sem komu frá aðildarríkjum Evrópusambandsins og ríkjum sem gerðir hafa verið fríverslunarsamningar við, s.s. Kína, og báru því um 40% af innfluttum fötum og skóm engan toll þegar tollar voru felldir niður af þessum vörum um síðustu áramót. Niðurfelling á almennum vörugjöldum og tollum hefur ekki eingöngu haft áhrif á verð á tilteknum vörum til neytenda heldur einnig mjög jákvæð áhrif á vísitöluna eins og áður sagði og þar með á verðtryggð lán landsmanna. Því er hagur neytenda af tollaniðurfellingu ekki eingöngu mældur í lægra vöruverði.
Fyrir hverja er niðurfelling tolla og vörugjalda?
Niðurfelling tolla og vörugjalda gagnast fyrst og fremst neytendum og þá ekki síst þeim tekjulægri. Hin þjóðhagslegu áhrif hafa einnig verið jákvæð. Þannig hefur innlend verslun aukist í kjölfar þessara breytinga, skattgreiðslur fyrirtækjanna hækkað og störfum í verslun fjölgað. Sjálfsagt hefur þetta líka haft þau áhrif að þekktar erlendar verslunarkeðjur horfa nú í auknum mæli til Íslands sem ákjósanlegs vettvangs fyrir starfsemi sína. Samtök verslunar og þjónustu hafa lagt áherslu á mikilvægi þess fyrir íslenskt samfélag að sem stærstur hluti verslunar landsmanna fari fram hér á landi, slíkt eykur vöruframboð og hefur jákvæð áhrif á vöruverð. Þannig verði tryggt að íslensk verslun starfi á samkeppnislegum grunni gagnvart erlendri verslun og að opinber álagning hér á landi raski ekki þeirri samkeppni.
Hvaða breytingar verða 1. janúar 2017?
Nú standa einungis eftir tollar á aðrar vörur sem og tollar af hluta af matvörum. Dæmi um vörur sem tollar verða felldir niður af næstu áramót eru barnavagnar, leikföng, reiðtygi, ýmsar hreinlætisvörur, heimilisvörur og húsgögn. Þessar breytingar eru enn ein kjarabótin fyrir heimilin sem skilar sé í lækkun á vöruverði og hefur því áhrif til lækkunar verðbólgu og kaupmáttaraukningu fyrir heimilin.
Samtök verslunar og þjónustu fagna þessum breytingum og eru verslunarmenn þegar farnir að undirbúa sig undir þær.
Birt á visir.is 25. okt. 2016
Höfundar: Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ og Margrét Sanders formaður SVÞ
14/10/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur birt samantekt fyrir septembermánuð sem sýnir að mikil veltuaukning var í smásöluverslun í síðasta mánuði og greinileg merki um kaupmáttaraukningu frá sama mánuði í fyrra. Í sumum vöruflokkum jókst veltan um fjórðung frá því í fyrra, má þar nefna húsgögn, byggingavöru og snjallsíma. Matur og drykkur var heldur ekki skorinn við nögl því velta dagvöruverslana var 9,1% meiri en í september í fyrra og velta áfengisverslana var 30% meiri en í sama mánuði í fyrra.
Við samanburð á veltu áfengis milli ára þarf að hafa í huga kerfisbreytingar sem urðu um síðustu áramót á virðisaukaskatti og áfengisgjaldi sem skekkir samanburð þegar horft er að vöxt án virðisaukaskatts. Engu að síður jókst sala áfengis í september, í lítrum talið, um 15,7% á milli ára.
Kippur varð í fataverslun í september, sem var 8,3% meiri en í september í fyrra. Að magni til jókst sala á fötum 14,8%. Magnaukningin orsakast af því að verð á fötum var 5,7% lægra en í samanburðarmánuðinum í fyrra. Þetta skýrist væntanlega aðallega af afnámi tolla á föt um síðustu áramót.
Þó vöxtur í sölu raftækja sé ekki eins afgerandi og í öðrum flokkum, í samanburði söluna í sama mánuði í fyrra skýrist það af mikilli sölu í fyrra. Þó var velta í sölu á snjallsímum 28,7% meiri en í fyrra. Mikill uppgangur er enn í húsgagnaverslun sem sést á því að veltan var fjórðungi meiri en í september í fyrra. Velta sérverslana sem selja rúm jókst um 65% á milli ára og sala skrifstofuhúsgagna um 36%. Þá njóta byggingavöruverslanir góðs af uppsveiflu í húsbyggingum þar sem salan jókst um 23,6%.
Kortavelta Íslendinga í september nam 73,9 milljörðum eða 5,5% meira en í sama mánuði 2015 samkvæmt tölum Seðlabankans. Af þeirri fjárhæð greiddu Íslendingar 10,3 milljarða erlendis en 63,6 milljarða hér á landi. Erlend kortavelta hérlendis nam í september 21,7 milljörðum og standa erlendir ferðamenn því að baki ríflega fjórðungi kortaveltu hérlendis þó komið sé fram í september. Nánar verður rýnt í kortaveltu erlendra ferðamanna þegar Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlegar tölur sínar á næstu dögum.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 9,1% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 8,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í september um 7,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í ágúst 0,2% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 30% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 29,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í ágúst um 19% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,5% hærra í september síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun jókst um 8,3% í september miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 14,8% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,7% lægra í september síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 16,4% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 13,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 13,9% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í september um 2,3% frá september í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 25,5% meiri í september en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 22,7% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 64,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 35,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2,3% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í ágúst um 23,6% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 23,4% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,2% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum jókst í september um 2,6% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 28,7%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 0,2% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 1,4% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.
Fréttatilkynning RSV.