Sumarlokun SVÞ 2025

Sumarlokun SVÞ 2025

Vegna sumarleyfa verður skrifstofa SVÞ lokuð dagana 14. júlí til 4. ágúst (að báðum dögum meðtöldum).
Við mætum eldhress eftir sumarfrí þriðjudaginn 5. ágúst 2024.

Starfsfólk SVÞ

Ísland gengur lengra en Evróputilskipun um peningaþvætti – Benedikt S. Benediktsson í Viðskiptablaði Morgunblaðsins

Ísland gengur lengra en Evróputilskipun um peningaþvætti – Benedikt S. Benediktsson í Viðskiptablaði Morgunblaðsins

Fyrirspurn sem Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins lagði fram á Alþingi í júní hefur vakið nokkra athygli í atvinnulífinu.  Þar er leitað svara við því hvort íslensk stjórnvöld hafi gengið lengra en tilskipun Evrópusambandsins gerir ráð fyrir þegar ákveðið var hvaða fyrirtæki skuli sæta sérstöku eftirliti vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Göngum lengra en tilskipunin

Tilefni fyrirspurnarinnar er meðal annars umræða sem skapaðist eftir umfjöllun í Morgunblaðinu í maí, þar sem fjallað var um svokallaða gullhúðun íslensks regluverks á þessu sviði. Þar var því haldið fram að hér á landi væri eftirlit og tilkynningaskylda látin ná til fleiri aðila en kveðið sé á um í Evróputilskipuninni sem liggur til grundvallar lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Bent hefur verið á að fyrirspurn Bergþórs snúi meðal annars að stöðu fasteignafélaga, sem hér á landi eru tilkynningaskyld en ekki eru nefnd sérstaklega í Evróputilskipuninni. Þar kemur fram að tilkynningaskylda nái til fasteignasala og lögfræðinga þegar þeir koma að afmörkuðum þáttum fasteignaviðskipta, auk annarra tilgreindra aðila sem sinna tilteknum fjármála- og viðskiptalegum þjónustuverkefnum. Sama virðist eiga við þegar kemur að endurskoðendum og bókurum.

Fasteignafélögum bætt við

Við meðferð breytingalaga árið 2020 var ákvæði um fasteignafélög ekki hluti af frumvarpinu í upphafi, heldur var þeim bætt við að tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Sú breyting var rökstudd með vísan til reynslu af framkvæmd laganna og umsagnar Skattsins, sem hefur eftirlit með þeim.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), segir í samtali við Morgunblaðið áhyggjur hafa komið fram meðal fjölmargra fyrirtækja sem hafa þurft að ráðast í viðamiklar og kostnaðarsamar aðgerðir til að mæta settum kröfum á grundvelli regluverks sem hafi verið útvíkkað hér á landi umfram það sem tilskipunin krefst.

Vald framselt til eftirlitsaðila

Hann segir óljóst hvers vegna svo langt hafi verið gengið þegar það virðist hafa verið óþarft. Benedikt nefnir jafnframt að eftirgrennslan samtakanna hafi gefið til kynna að ákvörðunarvald um hvaða starfsemi og í hvaða umfangi væri hér tilkynningaskyld og sætti ströngu eftirliti hefði í raun verið framselt til eftirlitsaðila og ríkislögreglustjóra.

Að mati Benedikts virðist sem tiltölulega almenn aðvörunarorð í áhættumati ríkislögreglustjóra hafi leitt til þess að tiltekin starfsemi eða starfsgreinar hafi í heild sinni verið felldar undir regluverkið. Gaumgæfni eða viðspyrna á vettvangi Alþingis virðist hafa verið afar takmörkuð og lítið mat hafi verið lagt á áhrifin á þá starfsemi sem var undir hverju sinni.

Skatturinn og Seðlabanki Íslands hafa hins vegar áður vísað til þess að útvíkkanir á regluverkinu hafi verið byggðar á reynslu og því markmiði að tryggja að eftirlit nái til þeirra sviða þar sem hætta á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé talin mest.

Viðskiptablað Morgunblaðsins, 8. júlí 2025.

Af hverju breytist bensínverð ekki um leið og breytingar verða á heimsmarkaðsverði olíu?

Af hverju breytist bensínverð ekki um leið og breytingar verða á heimsmarkaðsverði olíu?

Greining á verðmyndun eldsneytis á Íslandi og hvers vegna hún fylgir ekki alltaf heimsmarkaðsverði.

Með þessum pistli er ætlunin að varpa nokkru ljósi á samhengi eldsneytisverðs á heimsmarkaði og forsendna eldsneytisverðs á Íslandi. Rétt er að taka fram að það er ávallt í höndum fyrirtækja sem annast sölu eldsneytis að ákveða hvernig þau haga sinni verðlagningu. Verðlagning er viðskiptaákvörðun. Pistillinn er aðeins ætlaður til fróðleiks. 

Þegar heimsmarkaðsverð á olíu breytist spyrja margir hvers vegna samsvarandi breytingar verða ekki samtímis á bensínverði hér á landi. Oft er því haldið fram að söluaðilar eldsneytis haldi aftur af sér við verðlækkanir en ekki hækkanir. Er þá oft talað um að ekki gæti samræmis milli verðs á dælu og þróunar heimsmarkaðsverðs. Á þessu kunna að vera nokkrar skýringar sem er unnt að draga fram með því að rýna í opinber gögn sem eru öllum aðgengileg. 

Þessu tengdu hefur forstjóri opinberrar stofnunar greint frá því að skip þeirra sigli til Færeyja til að kaupa eldsneyti í sparnaðarskyni þar sem það er ódýrara en á Íslandi. Hér í framhaldi verður farið yfir hvað getur valdið því. 

Áhrif hins opinbera 

Í raun er verði á dælu að stórum hluta stýrt af hinu opinbera í gegnum skatta sem gerir dæluverðið tregbreytanlegra en ella. Eldsneytisskattar nema lögfestum krónutölum sem ekki breytast þó breytingar verði á innkaupsverði. Af bensínlítra sem kostaði 300 kr. runnu tæplega 170 kr. til ríkisins í formi eldsneytisskatta og virðisaukaskatts. Þetta má nánar sjá á eftirfarandi mynd.

Samsetning eldneytisverðs án blöndunar

Af myndinni leiðir að aðeins 44% dæluverðsins eru eftirstandandi, 130 kr., sem geta haft einhver tengsl við þróun á markaði erlendis.  

Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því en þegar fólk kaupir bensín er það ekki bara að kaupa bensín. Í meira en áratug hefur söluaðilum eldsneytis verið gert að blanda bílaeldsneyti með öðrum eldfimum vökvum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og orkustofnun hafa um 7–16% af dæluverðinu því algjörlega verið óháð heimsmarkaðsverði á olíu. Mengað etylalkóhól, sem íblöndunarefni fyrir bensín, hefur til að mynda verið nálægt því þrefalt hærra í innflutningsverði  en bensín sl. þrjú ár.  

Ef við gefum okkur að íblöndun í bensín nemi að jafnaði 10% af dæluverði breytist myndi hér að framan og verður eins og fram kemur á eftirfarandi mynd. 

Samsetning eldneytisverðs með 10%

 

Eins og sjá má stendur aðeins eftir 38% af dæluverði sem hafa tengsl við þróun eldsneytisverðs á heimsmarkaði eða um 115 kr. 

Verði 10% hækkun eða lækkun á heimsmarkaðsverði skapast með öðrum orðum ekki forsendur til 10% hækkunar eða lækkunar á dæluverði. Ástæðan er sú að sá hluti dæluverðsins sem getur orðið fyrir breytingum vegna tengsla við breytingar á heimsmarkaðsverði nemur ekki nema 38% af dæluverðinu. Aðrir hlutar dæluverðsins eru annað hvort fastir, fastar krónutölur, eða taka breytingum í tengslum við aðrar breytur en þróun heimsmarkaðsverðs. 

Hvaðan fáum við bensínið? 

Þegar rætt er um heimsmarkaðsverð er e.t.v. hætt við að einhverjir líti svo á að það bensín sem er selt á Íslandi komi víða að og hjá söluaðilum sé fólk í vinnu við að kaupa bensín hvar sem það er hagstæðast.  

Ef við skoðum hins vegar upplýsingar á vef Hagstofu Íslands sjáum við að tæp 99% alls blýlauss bensíns sem var flutt til Íslands frá upphafi árs 2023 var frá Noregi. Það bensín sem hér er selt á dælu er því líkast til ekki í raun að koma af heimsmarkaði heldur Noregsmarkaði. Af þeim sökum er eðlilegt að velta fyrir sér hvort verð á Noregsmarkaði sé það sama og verð á heimsmarkaði. Skoðum mynd.

Innflutningsverð á bensíni

Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur þróun á heimsmarkaðsverði á hráolíu sem og innflutningsverð á bensíni sem er innflutt frá Noregi sveiflast töluvert milli mánaða frá janúar 2023. Þótt verðbreytingarnar fylgi ekki alveg sömu sveiflum virðist þónokkur fylgni á milli þeirra á köflum ef tekið er tillit til tímatafar, það er þess tíma sem það tekur að flytja bensínið til landsins. Sem dæmi hafði heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkað um 30% á ársgrundvelli í apríl 2025 á meðan innflutningsverð á bensíni hafði lækkað um 20% á sama tíma. Sú lækkun í bensínverði er nálægt þeirri lækkun sem var á heimsmarkaðsverði á hráolíu í marsmánuði, sem styður þá ályktun að verðbreytingar á heimsmarkaðsverði skili sér með tímatöf í innflutningsverði á bensíni til Íslands.  

Kjarninn í þessu er að þótt heimsmarkaðsverð á olíu sveiflist töluvert þá breytist bensínverð á dælu yfirleitt minna. Það skýrist af því að stór hluti endanlegs verðs eru skattar auk þess sem íblöndunarskylda og flutningstími hafa einnig áhrif á verðmyndunina.   

Af hverju siglir opinber stofnun til Færeyja? 

Allt eldsneyti á Íslandi ber kolefnisgjald þar á meðal skipagasolía ólíkt því sem er gert í Færeyjum. Kolefnisgjald á skipagasolíu er 21,4 kr. á hvern lítra hér á landi. Það þýðir að fyrir skip sem notar eina milljón lítra á ári nemur kostnaður af kolefnisgjald 21,4 milljón króna árlega. Sá kostnaður er ekki innheimtur í Færeyjum.  

Líkt og fram hefur komið sagði forstjóri íslenskrar stofnunar að skip þeirra sigldu til Færeyja til að fylla á eldsneyti, ekki vegna hentugleika heldur í sparnaðarskyni. Eldsneyti þar er einfaldlega ódýrara af fyrrnefndri ástæðu. Þar að auki verður ekki betur séð en að í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2022 hafi eldsneytiskaup stofnunarinnar í Færeyjum verið án virðisaukaskatts. 

Um er að ræða skólabókadæmi í kolefnisleka. Aðgerð sem er ætlað að draga úr kolefnislosun, í þessu tilviki hækkun kolefnisgjald, hefur í för með sér að skip hætta að kaupa eldsneyti á Íslandi og kaupa það þess í stað í Færeyjum þar sem slíkt gjald er ekki innheimt. Ætla má að losunin minnki ekki heldur sé losunin skráð í Færeyjum í stað þess að vera skráð á Íslandi. Það verður að teljast sérstakt að opinber stofnun kaupi skipagasolíu í Færeyjum í því skyni að komast hjá greiðslu skatta. 

SMELLTU HÉR til að hlaða niður greiningu á PDF formati.

 

 

 

Sprenging í erlendri netverslun: Byggingavörur upp um 50%

Sprenging í erlendri netverslun: Byggingavörur upp um 50%

Ný gögn RSV sýna mikla aukningu í netinnkaupum Íslendinga – fatnaður og byggingavörur leiða sóknina.

Erlend netverslun Íslendinga heldur áfram að vaxa og hefur náð nýjum hæðum á fyrsta fjórðungi ársins 2025. Samkvæmt nýjustu gögnum Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) jókst byggingavöruverslun um 50,3% á tímabilinu – sem endurspeglar auknar þarfir og væntingar neytenda gagnvart hagkvæmum og fjölbreyttum innkaupamöguleikum.

Heildarvelta erlendrar netverslunar tæpum milljarði króna, sem er 22,7% aukning miðað við sama tímabil árið áður. Mikil aukning mældist einnig í fataverslun (18%) og öðrum vöruflokkum (22,3%).

Þessar tölur sýna greinilega hvernig íslenskir neytendur nýta sér erlenda netverslun í auknum mæli – þróun sem kallar á vandaða greiningu og aðlögun að nýjum aðstæðum.

RSV býður upp á ítarlega skýrslu þar sem farið er í spálíkön, sundurliðaðar tölur og kaupvenjur Íslendinga á erlendum mörkuðum. Félagsfólk SVÞ fá skýrsluna með afslætti – verð er 69.900 kr.

 Pantaðu skýrsluna með því að senda póst á: rsv(hjá)rsv.is

Heimurinn verslar í sófanum – og traustið skiptir meira máli |  McKinsey

Heimurinn verslar í sófanum – og traustið skiptir meira máli | McKinsey

Neytendur treysta sínum nánustu – ekki áhrifavöldum

Ný McKinsey-grein varpar ljósi á breytta kauphegðun neytenda frá 2019.

Ný skýrsla McKinsey, State of the Consumer 2025, sýnir að kauphegðun neytenda er að breytast hratt um allan heim. Netverslun og afhendingarþjónusta halda áfram að vaxa og þjónusta sem skilar hraða, þægindum og einfaldleika hefur aldrei verið mikilvægari. Í dag eru 21% máltíða borðaðar heima með aðstoð afhendingarþjónustu – tvöföldun frá 2019.

En það sem vekur sérstaka athygli er að neytendur taka ákvarðanir byggðar á trausti – og það traust byggir ekki á áhrifavöldum eða samfélagsmiðlum, heldur fjölskyldu, vinum og persónulegum tengslum. Samfélagsmiðlar eru taldir minnsti traustvekjandi þátturinn í kaupákvörðunum.

McKinsey greinin bendir á mikilvægi á:

  • Nýja nálgun í markaðssetningu: minna af ópersónulegum skilaboðum – meira af tengslamarkaðssetningu.

  • Endurmat á þjónustuferli: hversu hratt og þægilega getum við afhent vörur og þjónustu?

  • Nýsköpun og samvinna: ný tækifæri til að þróa staðbundnar lausnir með alþjóðlegri innblástur.

Kynntu þér niðurstöður skýrslu McKinsey – State of the Consumer 2025: When disruption becomes permanent SMELLTU HÉR!