23/01/2026 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál, Verslun, Þjónusta
Áform Reykjavíkurborgar um breytingar á skipulagi við Suðurlandsbraut hafa vakið áhyggjur meðal fyrirtækja og fasteignaeigenda á svæðinu. Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag er fjallað um að fyrirhugaðar breytingar geti haft áhrif á aðgengi, nýtingu lóða og rekstrarforsendur fyrirtækja í verslun og þjónustu.
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, bendir á að umræðan um svæðið gefi ekki rétta mynd af stöðunni og bendir á að meðal aðildarfyrirtækja SVÞ séu fyrirtæki sem meta stöðuna sem svo að þau verði fyrir 60% skerðingu á bílastæðum.
„Það er ljóst að sú staða verður afar erfið að fást við, ekki síst í þeim tilvikum þar sem í nágrenninu hefur verið reist íbúðabyggð með fáum bílastæðum og íbúar hafa í ýmsu tilliti brugðið á það ráð að leggja bílum sínum á bílastæði fyrir fyrirtæki sem eru staðsett við Suðurlandsbraut“ bendir Benedikt m.a. á í viðtalinu.
SMELLTU HÉR til að lesa allt viðtalið. [Mynd Mbl.]

20/01/2026 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Breytingar á vörugjöldum bifreiða geta haft veruleg áhrif á þróun bílamarkaðarins á næstu misserum, þó að enn sé of snemmt að draga endanlegar ályktanir. Þetta segir Íris Hannah Atladóttir, hagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu, í viðtali í sérstöku bílablaði Morgunblaðsins í dag 20. janúar 2026.
„Tengiltvinnbílar hafa gagnast mörgum Íslendingum vel, og hjálpað þeim að taka skref í átt til rafvæðingar: Það geta verið alls konar ástæður að baki því hversvegna það hentar fólki ekki endilega að velja 100% rafmagnsbíl“ segir Íris.
Sjá viðtal við Írisi hér fyrir neðan:

19/01/2026 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Verslun, Þjónusta
Forysta, ábyrgð og áhrif í íslensku atvinnulífi
Á tímum þar sem rekstrarumhverfi verslunar og þjónustu er undir sífelldu álagi – vegna regluverks, alþjóðlegra sveiflna, hraðra tæknibreytinga og aukinna krafna um sjálfbærni og ábyrgð – skiptir forysta meira máli en nokkru sinni fyrr.
Kjörnefnd SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu kallar nú eftir framboðum til stjórnar samtakanna og til fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins (SA). Á vettvangi stjórnar SVÞ liggja tækifæri fyrir einstaklinga með reynslu af rekstri, stefnumótun og ákvarðanatöku á æðsta stigi, til að setja sitt mark á hvernig hagsmuna verslunar og þjónustu er gætt og hvernig rekstraraðstæður þróast.
Hlutverk stjórnar SVÞ
Stjórn SVÞ mótar stefnu samtakanna, hefur yfirumsjón með forgangsröðun hagsmunagæslu og stuðlar að því að rödd verslunar- og þjónustugreina heyrist skýrt gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og á alþjóðlegum vettvangi.
Seta í stjórn SVÞ er ekki táknræn. Hún felur í sér virka þátttöku í mótun rekstrarskilyrða fyrir stóran og lykilvægan hluta íslensks atvinnulífs.
Hvað er verið að kjósa?
- Þrír meðstjórnendur í stjórn SVÞ til tveggja ára
- Fulltrúar í fulltrúaráð SA til eins árs
Í stjórn SVÞ sitja formaður og sex meðstjórnendur.
Eftirtaldir meðstjórnendur eiga sæti til loka starfsársins 2026/2027:
- Dagbjört Erla Einarsdóttir, Heimar
- Jónas Kári Eiríksson, Askja
- Kristín Lára Helgadóttir, VeritasFormaður stjórnar SVÞ er Auður Daníelsdóttir, Drangar.
Fyrir hverja er þetta?
Þessi áskorun beinist að fólki sem:
- er stjórnendur og stjórnarfólk í aðildarfyrirtækjum SVÞ.
- skilur samspil stefnu, lagaumhverfis og rekstrar,
- hefur áhuga á að taka afstöðu í flóknum og viðkvæmum málum
- og vill leggja sitt af mörkum til langtímahagsmuna atvinnulífsins.
Seta í stjórn SVÞ hefur reynst fólki verulega gagnleg til framtíðar.
Tímasetningar og framboð
Framboðsfrestur: til kl. 12:00, 13. febrúar 2026
Samkvæmt samþykktum rennur framboðsfrestur út 18. febrúar 2026.
Aðalfundur SVÞ verður haldinn 12. mars 2026
Tillögur um breytingar á samþykktum SVÞ þurfa að berast stjórn eigi síðar en 11. febrúar 2026.
Hvernig býður fólks sig fram?
Tilnefningar til stjórnar SVÞ og/eða fulltrúaráðs SA skulu sendar:
á netfangið kosning@svth.is, eða í pósti merktum „Kjörnefnd SVÞ“ á:
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu
Borgartún 35, 105 Reykjavík
Tilkynning um framboð þarf ekki að vera flókin, í henni þarf að aðeins að koma fram nafn frambjóðanda, nafn vinnuveitanda (aðildarfyrirtækis SVÞ) og stjórnarstaða innan fyrirtækis eða að viðkomandi sitji í stjórn þess.
Varanleg áhrif á samkeppnishæfni verslunar og þjónustu á Íslandi
SVÞ hafa hlutverki að gegna þar sem ákvarðanir stjórnvalda á næstum árum geta haft varanleg áhrif á samkeppnishæfni, arðsemi og samfélagslegt hlutverk verslunar og þjónustu á Íslandi.
Ef þú hefur skýra sýn á hvað þarf að gera – þá skiptir þitt framlag máli.
Kjörnefnd SVÞ
15/01/2026 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Það er óhætt að segja að margir innan bílgreinarinnar hafi hváð þegar þeir hlýddu á orð fjármálaráðherra.
Miðvikudaginn 13. janúar 2026 var birt frétt á Vísi þar sem fjallað var um viðbrögð fjármála- og efnahagsráðherra vegna tíðinda af spám greiningardeilda bankanna um þróun verðbólgu í janúar. Í fréttinni mátti finna myndband með viðtali við ráðherra þar sem hann sagðist ekki rengja spá Landsbankans um 0,7 prósentustiga hækkun verðbólgu sem ætti að miklu leyti rót sína að rekja til þróunar á verðlagningu fólksbifreiða. Í viðtalinu sagði ráðherra m.a. eftirfarandi:
Það er hins vegar þannig að núna um áramótin eru ekki bara að verða breytingar á vörugjöldum heldur er það líka þannig að verð á bílum hefur verið að hækka alþjóðlega þannig að ég ætla ekki að rengja spánna en þetta er meira en það sem við höfðum gert ráð fyrir.
Stöðugt verð þrátt fyrir að ráðherra segi annað
Það er óhætt að segja að margir innan bílgreinarinnar hafi hváð þegar þeir hlýddu á þessi orð þar sem þeir telja sig ekki hafa orðið vara við þessa alþjóðlegu verðþróun ráðherrans. Nægir því til stuðnings að benda á að ekkert í fyrirliggjandi gögnum Hagstofu Íslands gefur til kynna að innkaupsverð bifreiða hafi farið hækkandi svo einhverju nemi að undanförnu. Sömu sögu segja gögn sem endurspegla þróun kaupverðs frá Hagstofu Íslands, Eurostat og Evrópska Seðlabankanum. Þvert á móti má halda því fram að verð hafi verið óvenjulega stöðug, a.m.k. frá byrjun árs 2024, og litlum breytingum tekið eftir að verð hækkuðu á árunum í kringum heimsfaraldur og upphaf Úkraínustríðsins. Þá hafa erlendir fjölmiðlar sagt í fréttum frá spám greiningaraðila sem eru heilt yfir á þeirri skoðun að verðstöðugleika muni áfram gæta á alþjóðavísu en verð fólksbifreiða muni þó áfram verða há árið 2026.
Ekki brugðist við
Það má hins vegar segja í hálfkæringi að ákveðið sannleikskorn sé fólgið í orðum ráðherra ef horft er til framtíðarþróunar innkaupsverðs nýrra tengiltvinnbifreiða eftir að hærra vörugjaldi hefur við það verið bætt. Þannig vill nefnilega til að SVÞ og Bílgreinasambandið bentu efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ítrekað og með rökstuddum hætti á að gera þyrfti breytingar á tillögum nefndarinnar, um hækkun vörugjalds, í ljósi breytinga á alþjóðlegri prófunaraðferð tengiltvinnbifreiða. Við því var hins vegar ekki nægilega brugðist og af þeim sökum mun hækkun vörugjalda koma mun harðar niður á kaupendum slíkra bifreiða en annarra á næstu árum.
Á þennan hátt má sumsé halda því fram að þróun á sviði prófunaraðferða í samblandi við innlent fyrirkomulag vörugjalds muni leiða til mikillar hækkunar bæði innanlands sem og í öðrum þeim ríkjum sem leggja skatta á eigendur ökutækja með vísan til skráðrar losunar, a.m.k. að því marki sem þau hafa ekki brugðist við og lagfært fyrirkomulag skattlagningarinnar til mótvægis. Með svona leiðréttingu, sem er sett fram af ákveðinni lagni, getur ráðherra áfram haldið því fram að verðþróun fólksbifreiða hér á landi tengist þróun alþjóðlega.
Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ og Bílgreinasambandsins.
Grein Benedikts S. Benediktssonar má lesa í Viðskiptablaðinu Smelltu HÉR!
07/01/2026 | Fréttir, Umhverfismál, Úr hagsmunagæslunni
Úr hagsmunagæslunni
Um þessar mundir hefur eldsneytisverð verið í umræðunni í tengslum við róttækar skattabreytingar um áramót. Í því samhengi hafa fallið ýmis orð, m.a. í þá átt að eldsneytisverð hér á landi hafi ekki þróast í samræmi við breytingar á heimsmarkaðsverði. Ekki er alltaf ljóst hvað átt er við þegar rætt er um heimsmarkaðsverð eldsneytis en t.d. hefur verið litið til heimsmarkaðsverðs á hráolíu, afhendingarverðs bensíns í New York höfn og heimsmarkaðsverð bensíns á Mið-Evrópumarkaði.
Þegar rætt er um heimsmarkaðsverð er t.d. hætt við að einhverjir líti svo á að það bensín sem er selt á Íslandi komi frá höfnum New York . Ef við skoðum hins vegar upplýsingar á vef Hagstofu Íslands sjáum við að tæp 99% alls blýlauss bensíns sem var flutt til Íslands frá upphafi árs 2023 var upprunnið í Noregi. Það bensín sem hér er selt á dælu er því líkast til ekki í raun að koma af heimsmarkaði heldur Noregsmarkaði. Af þeim sökum er eðlilegt að velta fyrir sér hvort verðþróun á innfluttu bensíni sem kemur hingað af Noregsmarkaði sé sú sama og verðþróun á heimsmarkaði.

Heimild: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands og U.S. Energy Information Administration
Eldsneyti á Íslandi kemur ekki frá New York – heldur frá Noregi
Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur heimsmarkaðsverð í New York höfn umreiknað í íslenskar krónur sveiflast töluvert milli mánaða og það sama á við um innflutningsverð á bensíni sem er innflutt frá Noregi. Þótt verðbreytingarnar fylgi ekki alveg sömu sveiflum virðist þónokkur fylgni á milli þeirra á köflum ef innflutningsverð er tafið um mánuð sem kann að endurspegla tafir vegna flutnings– og afhendingartíma.
Þegar árið 2025 er skoðað sérstaklega virðist sambandið á milli þróunar á heimsmarkaðsverði og innflutningsverðs á bensíni sem er flutt inn frá Noregi vera veikara en að jafnaði á tímabilinu 2023–2024. Í október hafði heimsmarkaðsverð til að mynda lækkað um 23% frá ársbyrjun á meðan innflutningsverð á bensíni frá Noregi hafði lækkað um 9%. Þetta misræmi kann að skýrast að hluta til af töf vegna flutnings– og afhendingartíma á eldsneyti til Íslands en líkt og sjá má á myndinni er áfram töluverður munur milli heimsmarkaðsverðs og innflutningsverðs með mánaðartímatöf. Það bendir til þess að fleiri þættir en þróun heimsmarkaðsverðs hafi áhrif á innflutningsverð á bensíni frá Noregi.

Heimild: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands og U.S. Energy Information Administration
Niðurstaða: Heimsmarkaðsverð er ekki nægjanlegt viðmið
Kjarninn í þessu er sá að heimsmarkaðsverð við New York höfn er ekki fullkomið viðmið til að leggja mat á verðþróun bensíns á Íslandi. Þótt innflutningsverð á bensíni, sem hefur bein áhrif á verðmyndun innanlands, hreyfist oft í takt við heimsmarkaðsverð líkt og fjallað er um hér að framan er sambandið þar á milli misríkt og virðist hafa verið veikara árið 2025 en árin á undan.
06/01/2026 | Fréttamolar SVÞ, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Innra starf, Stjórnvöld, Umhverfismál, Útgáfa, Verslun, Viðburðir, Þjónusta
Desember einkenndist af virkri hagsmunagæslu þar sem augu beindust að samkeppnishæfni verslunar og þjónustu í breyttu evrópsku og íslensku umhverfi, áhrif skatta og regluverks á rekstur og rekstrarkostnað.
Þá er undirbúningur að ráðstefnunni UPPBROT SVÞ 2026 sem haldin verður á Parliament Hótel Reykjavík við Austurvöll 12. mars nk., í fullum gangi.
SVÞ FRÉTTAMOLAR DESEMBER 2025.pdf
Síða 1 af 17512345...102030...»Síðasta »