Sumarlokun SVÞ 2024

Sumarlokun SVÞ 2024

Vegna sumarleyfa verður skrifstofa SVÞ lokuð dagana 15. júlí til 5. ágúst (að báðum dögum meðtöldum).
Við mætum eldhress eftir sumarfrí þriðjudaginn 6. ágúst 2024.

Starfsfólk SVÞ

Kristinn Már Reynisson ráðinn lögfræðingur SVÞ

Kristinn Már Reynisson ráðinn lögfræðingur SVÞ

Kristinn Már Reynisson hefur verið ráðinn til SVÞ – samtaka verslunar og þjónustu og mun hann hefja störf 1. september næstkomandi. Kristinn mun starfa sem lögfræðingur samtakanna og staðgengill framkvæmdastjóra.

Kristinn Már útskrifaðist með M.A. gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands 2010, LL.M. gráðu frá Háskólanum í Stokkhólmi 2012 og doktorsgráðu frá Háskólanum í Árósum 2015.

Á starfsferlinum hefur Kristinn Már m.a. annast kennslu á háskólastigi, starfað sem fulltrúi á lögmannsstofu, unnið ráðgjafarstörf fyrir opinberar stofnanir og starfað sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu, Íslandspósti ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur.

Kristinn Már segir starfið leggjast afar vel í sig: „Ég er ákaflega ánægður með tækifærið sem felst í því að ganga til liðs við SVÞ. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til þess sem samtökin standa fyrir ásamt nýju samstarfsfólki og aðildarfélögunum sjálfum. Miklar breytingar standa yfir í rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem ekki sér fyrir endann á og margar áhugaverðar áskoranir til að takast á við.“

Benedikt S. Benediktsson, verðandi framkvæmdastjóri SVÞ, hefur lýst ánægju með ráðningu Kristins Más: Kristinn Már býr yfir bæði þekkingu og reynslu sem mun gagnast samtökunum og aðildarfyrirtækjum þeirra afar vel. Umhverfismál eru þegar orðin umfangsmikið viðfangsefni aðildarfyrirtækjanna auk þess sem þekking hans á réttarhagfræði, fyrirtækjarétti, skattarétti og samkeppnisrétti verður mjög góð viðbót við þá þekkingu sem þegar er til staðar hjá SVÞ.  Við á skrifstofu SVÞ hlökkum mikið til að Kristinn Már bætist í okkar hóp á komandi hausti. 

 

 

Um traust og vantraust | Visir.is

Um traust og vantraust | Visir.is

Visir.is birtir í dag grein eftir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni; ‘Um traust og vantraust’

Um traust og van­traust

Traust er ein meginundirstaða viðskipta. Alþingi hefur í ýmsu tilliti stutt við bak einstaklinga og ýmissa hópa til að stuðla að jafnri stöðu í viðskiptum. Til grundvallar liggur sú hugmynd að jöfn staða stuðli að trausti og tilvist trausts liðki fyrir viðskiptum. Viðskipti eru meðal forsendna þróunar, framleiðni, nýsköpunar, tæknibreytinga o.fl.

Slíkar hugmyndir liggja að baki fjölmörgum lagabálkum sem lúta að samningum. Neytanda sem kaupir vöru í netverslun er samkvæmt lögum heimilt að skila henni allt að 14 dögum eftir pöntun enda hefur hann ekki fengið tækifæri til að sjá hana berum augum. Af svipuðum meiði er í samkeppnislögum lagt bann við ýmiskonar samstarfi fyrirtækja enda geta áhrif þess á neytendur verið alvarleg og þeim algerlega á huldu. Allir þekkja alvarlegar afleiðingar brota gegn því banni og því skapar bannið traust.

Að efla traust

Árið 2021 heimilaði Samkeppniseftirlitið þremur fyrirtækjum á sviði kjötafurða að sameinast þrátt fyrir að slíkt samstarf væri í raun bannað í ljósi neikvæðra áhrifa á samkeppni og þar með á neytendur og bændur. Málinu lauk með sátt, hið sameinaða fyrirtæki skuldbatt sig til að takast á hendur skilyrði sem áttu að tryggja að dregið yrði úr áhrifunum. Í fyrsta lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að standa ekki í vegi fyrir því að bændur færðu viðskipti sín annað eftir sameininguna. Í öðru lagi skuldbatt það sig til að aðgreina slátrun og vinnslu í eigin bókhaldi og lúta skorðum og reglum við verðlagningu á slátrun, sögun og annarri nánar skilgreindri þjónustu í tiltekinn tíma. Í þriðja lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að selja frá sér eignarhluti í samkeppnisaðilum. Í fjórða lagi skuldbatt það sig til að eiga áfram, um tiltekinn tíma, viðskipti við fyrirtæki sem voru því mjög háð þannig að þau dyttu ekki af markaði vegna samrunans. Í fimmta og síðasta lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að setja sér samkeppnisstefnu, tryggja að unnið væri eftir sáttinni og m.a. að haldin yrði skrá um samskipti við samkeppnisaðila. Orðin „gagnsæi“ og „afltakmörkun“ eru e.t.v. ágæt til að lýsa skilyrðunum. Brot gegn sátt hefur afleiðingar.

Annars konar traust

Eins og þekkt er tók Alþingi sérstakt skref fyrir skemmstu. Orð stjórnmálamanna bera með sér að tilteknum fyrirtækjum sé frekar treystandi en öðrum. Nýfengið traust Alþingis endurspeglaðist í breytingum sem gerðar voru á búvörulögum, að frumkvæði meiri hluta atvinnuveganefndar, sem hafa það m.a. í för með sér að skilyrði á borð við þau sem Samkeppniseftirlitið setti árið 2021 þurfa ekki að vera uppfyllt lengur. Það var niðurstaða hagsmunamats Alþingis að traust til eigenda fyrirtækjanna væri svo ríkt að óþarft væri að gæta að stöðu bænda og neytenda, óþarft væri að tryggja gagnsæi og afltakmarkanir væru óþarfar.

Um helgina voru fluttar fréttir af kaupum KS á Kjarnafæði Norðlenska. Af ummælum sem fallið hafa má draga þá ályktun að traust Alþingis hafi í raun ráðið niðurstöðunni. Samþjöppun er leyfileg og markaðsafl sameinaðs fyrirtækis eykst. Stjórnmálamenn og talsmenn bænda virðast í ýmsu tilliti enn sannfærðir, leyfa sér að treysta því að stöðu bænda verði ekki ógnað og að ekki verði gengið á stöðu neytenda. Hryggilegast er að það gætti sameiginlegs skilnings á hagræðingarþörf í framleiðslu nautgripa- og lambakjöts og að stöðu bænda þyrfti að bæta. Það var viðfangsefni lagafrumvarps matvælaráðherra sem Alþingi breytti með þeim hætti að stuðningurinn sem til stóð að veita endaði hjá viðsemjendum þeirra. Þá hefur engin vakið máls á vanda framleiðslu svína- og kjúklingakjöts eða eggja. Afurðastöðvum í þeim bransa treysti Alþingi á sama hátt og öðrum.

Vantraust?

Ekki fyrr en eftir u.þ.b. þrjú ár mun matvælaráðherra flytja Alþingi skýrslu og segja frá hvernig til tókst, upplýsa hvort fyrirtækjunum hafi í raun og veru verið treystandi. Í millitíðinni er Samkeppniseftirlitinu ætlað að passa upp á að fyrirtækin sem Alþingi treysti safni afurðum frá öllum bændum á sama verði, selji þær öðrum fyrirtækjum á sömu viðskiptakjörum og tengdum fyrirtækjum, hamli því ekki að bændur fari með viðskipti sín annað og haldi úti þjónustuúrvali við bændur um afmarkaða þætti. Á þeim tíma má beinlínis gera má ráð fyrir að mun fleiri fyrirtæki muni hefja samstarf, sameinast og efla afl sitt í ljósi þess trausts sem Alþingi hefur sýnt þeim enda mega þau óáreitt bergja af þeim brunni. Afleiðingar yfirsjóna verða engar.

Að rúmlega þremur árum liðnum verður fyrst hægt að sjá hvernig ógagnsæið og aflaukningin nýttist fyrirtækjunum, hvort traustið var þess virði. Á þeim tímapunkti verður okkur fyrst fært að átta okkur á hvort og hvernig þau huguðu að stöðu bænda og neytenda og gengu ekki á stöðu samkeppnisaðila. Þá fyrst er okkur ætlað að ræða hvers vegna fyrirtækjunum var treyst og þá fyrst ræðum við mögulega um fyrirtækið eitt, kjötafurðastöð Íslands.

Á tímum vantrausts

Samkeppniseftirlitið hefur verið vængstíft m.t.t. háttsemi tiltekinna fyrirtækja og við það munum við því miður búa næstu árin. Undir þeim kringumstæðum getum við annað hvort látið þetta yfir okkur ganga eða gripið til eigin aðgerða.

Verkefnið er að veita aðhald sem jafnast á við það sem Samkeppnieftirlitið getur ekki veitt lengur. Verslunin og samkeppnisaðilar verða að beita sér og tjá sig og neytendur líka, m.a. með buddunni. Bændur verða að gæta sín og vera tilbúnir til viðspyrnu. Að óbreyttu mun engin annar gæta þess að ábati hagræðis rati til neytenda og bænda en ekki eitthvert annað.

Greinin inn á visir.is

Búðahnupl og vísbendingar um skipulagða brotastarfsemi, varnaðaráhrif eru takmörkuð.

Búðahnupl og vísbendingar um skipulagða brotastarfsemi, varnaðaráhrif eru takmörkuð.

Þjófnaður úr verslunum hefur aukist verulega á undanförnum misserum. Langstærsti hluti þjófnaða tengist skipulagðri brotastarfsemi, sem hefur valdið verslunum landsins miklu fjárhagslegu tjóni.

Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi, greinir frá því í Viðskiptablaðinu 25.júní sl., að öryggishlið, myndavélar, aukinn mannskapur sem sinnir eftirliti og kærur til lögreglu séu meðal aðgerða sem Krónan hefur gripið til. „Þjófnaður í verslunum er því miður viðvarandi vandi og virðist sem þetta sé frekar að færast í aukana en hitt, þrátt fyrir öflugt og sýnilegt eftirlit,“ segir Ásta ma.í viðtalinu.

Samkvæmt sömu grein í Viðskiptablaðinu er óútskýrð rýrnun í matvöruverslunum metin á 2,5 til 3,8 milljarða króna á ári og nær þessi upphæð upp í 6 til 8 milljarða þegar öll smásala er tekin með í reikninginn . Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, bendir á að stór hluti tjónsins sé vegna skipulagðrar brotastarfsemi og kallar eftir meiri eftirfylgni ákæruvaldsins. Hann telur að lítil eftirfylgni leiði til þess að varnaðaráhrif séu lítil sem engin, og brotamenn komist upp með athæfi sitt .

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, tekur í sama streng og segir að „rýrnun vegna þjófnaðar sé hluti af rekstrarkostnaði sem endi á viðskiptavinum í formi hærra vöruverðs“. Hann bætir við að „Hagar hafi einnig aukið eftirlit og gripið til annarra mótvægisaðgerða“.

Sérstök umfjöllun á fréttatíma RÚV í gærkveldi.
Þar lýsti Pétur Alan Guðmundsson, eigandi Melabúðarinnar, yfir óánægju með eftirlit lögreglu og kallar eftir hraðari og skilvirkari vinnubrögðum. Hann segir þjófa af öllum gerðum, frá börnum til eldri borgara, og telur það nauðsynlegt að lögreglan hafi betri tæki og kerfi til að takast á við þessi brot og tók Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur og næsti framkvæmdastjóri  SVÞ, undir þau orð og bætti við að verslanir væru margar hverjar að innleiða nýja tækni með aðstoð gervigreindar til að stöðva þjófnað í verslunum.

SVÞ hafa unnið með lögreglunni að þróun nýs samskiptakerfis til að bæta viðbragðstíma við afbrotum í verslunum. Þetta kerfi, sem verið er að taka í notkun, mun bæta upplýsingaflæði milli verslana og lögreglu og tryggja hraðari viðbrögð .

Heimildir:

Viðskiptablaðið
Viðskiptablaðið
RÚV

Áfengisumræða?

Áfengisumræða?

VISIR.is birtir í dag eftirfarandi grein frá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu um umræðu í áfengismálum.

__________________

Undanfarið hafa átt sér stað endurteknar umræður um verslun með áfengi. Í þessum áfanga má segja að ÁTVR hafi slegið tóninn og ýmsir sungið með, þ. á m. stjórnmálamenn, hver með sínu nefi.

Áfengi og menning

Það ætti að teljast nokkuð óumdeilt að óhófleg áfengisneysla er hættuleg þeim sem hana stunda auk þess sem hún hefur jafnan neikvæð á áhrif á aðstandendur, vinnuveitendur og fleiri. Sjálf tilvist áfengis skapar þannig samfélagslega áhættu. Það ætti að einnig að teljast nokkuð óumdeilt að tilvist áfengis og neysla þess er ekki aðeins samfélagslega viðurkennd, a.m.k. í vestrænum ríkjum, heldur er hún hluti af menningu, m.a. matarmenningu.

Segja má að samfélagið hafi ákveðið að áfengisneysla sé í menningarlegu tilliti þess virði að ástæða sé til að sætta sig við þá áhættu sem henni fylgir. Fáir hafa talað fyrir því að banna áfengi. Hins vegar hafa margir skoðun á því hvernig eigi að hafa áhrif á neyslu þess.

Færa má rök fyrir því að nokkur sátt ríki um að það sé eitt af verkefnum löggjafans að hafa áhrif á áfengisneysluna með lagasetningu. Fólk er hins vegar alls ekki sammála um hvernig það er gert.

Óþroskuð umræða

Umræðan verður að þroskast. Allra mikilvægast er þó að löggjafinn meðtaki skilaboðin sem fram eru sett, skilji kjarnann frá hisminu, framkvæmi hagsmunamat og komist að niðurstöðu. Á lóðarskálunum eru annars vegar áhættan sem fylgir áfengi og hins vegar nútíminn, veruleikinn og vilji fólks.

Þó sett hafi verið stefna er það óhjákvæmilegur fylgifiskur stefnumótunar að markmið, aðgerðir og mælikvarða þarf að endurskoða með reglubundnum hætti. Er markmiðið enn raunhæft? Er aðgerð enn til þess bær að markmiðinu verði náð? Gerir mælikvarðinn okkur enn fært leggja mat á hvar við stöndum gagnvart markmiðinu?

Af hálfu SVÞ eru skilaboðin skýr; einkarekin verslun á að annast áfengissölu innan ramma skýrs regluverks. Skilaboð andstæðinga verslunar með áfengi hafa ekki verið eins skýr; minna aðgengi að áfengi en ekkert má breytast nema þá mögulega að ríkið verði opnað á sunnudögum.

Vandinn sem ætla má að þingmenn standi frammi fyrir felst að ákveðnu leyti í því að það hafa orðið og eru að eiga sér stað breytingar m.a. á verslunarháttum og menningu, bæði hér heima og erlendis. Í því samhengi væri eðlilegt að umræða um verslun með áfengi snerist um það hvernig sé skynsamlegt að hafa áhrif neyslu þess. Í því tilliti virðist hins vegar helst upp á það boðið að banni gegn innlendri netverslun með áfengi verði við haldið en fólki sætti sig áfram við um fimmtíu útsölustaði ÁTVR, netverslun ÁTVR, erlenda netverslun, áfengissölu á veitinga- og öldurhúsum, áfengissölu hjá smáframleiðendum og jafnvel stöku vegasjoppum.

Þegar umræðan er skoðuð nánar og öllu er á botninn hvolft hefur umræðan um áhrif á neyslu áfengis upp á síðkastið hvað helst snúist um tilvist og afkomu ÁTVR og hvort netverslun verður kennd við Hagkaup. Ekki örlar t.d. á umræðum um hvers vegna það þykir forsvaranlegt að halda úti rekstri fimmtíu útsölustaða ÁTVR í því skyni að takmarka aðgengi að áfengi. Er hægt að ná sama árangri með tuttugu og fimm útsölustöðum, tíu eða e.t.v. með allt öðrum hætti? Ef svo er af hverju er það þá ekki gert? Ekki er heldur rætt um hvernig takast eigi að halda loki á aðgengi að áfengi með því að viðhalda banni gegn innlendri netverslun með áfengi en sætta sig áfram við netverslun ÁTVR og alla erlenda netverslun. Af hverju dó t.d. umræðan um netverslun Costco með áfengi nánast um leið og hún hófst en ekki þegar rótgróin íslensk verslun er kennd við slíka sölu?

Ábyrg umræða?

Hvernig gerðist það að forstjóri ÁTVR ræsti umræðuna með því að bera því við að reksturinn væri að lenda í járnum vegna umfangs netverslunar með áfengi, Hagkaup ræddu sín áform og í kjölfarið fóru menn að ræða stöðuna á svipuðum nótum og þegar náttúruógn er yfirvofandi?

Getur talist eðlilegt að bjóða eigendum fyrirtækja upp á þá óvissureið að málsmetandi einstaklingar í stjórnmálum fullyrði að eitthvað sé bannað og aðrir hið gagnstæða? Þeir sem þekkja til rekstrar vita að pólitísk óvissa er slæm og hvað þá þegar í pólitískri umræðu er misvísandi lagaskilningi beinlínis haldið á lofti.

Upp úr hjólförunum

Viðfangsefni umræðunnar er áhrif á áfengisneyslu. Hana þarf að taka á vettvangi Alþingis. Væri ekki tilvalið fyrir þingið að ræða málið af alvöru?

Benedikt S. Benediktsson
lögfræðingur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

Sjá grein inná VISIR.is

Sjá viðtal á síðdegisútvarpi Rásar II (hefst á 47:15 mín) HÉR! 

„Rétturinn til viðgerðar“ samþykktur á vettvangi Evrópusambandsins

„Rétturinn til viðgerðar“ samþykktur á vettvangi Evrópusambandsins

Ráð Evrópusambandsins hefur samþykkti nýja tilskipun sem á að stuðla að viðgerð bilaðra eða gallaðra vara, einnig þekkt sem rétturinn til viðgerðar, R2R-tilskipunin. Með henni er ætlunin að gera neytendum auðveldara um vik að óska viðgerða í stað þess að skipta út vörum, og viðgerðarþjónusta verður aðgengilegri, gegnsærri o.fl.

Tilskipunin er hluti af neytendaáætlun ESB og aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfi og er viðbót við löggjöf ESB sem er ætlað að stuðla að sjálfbærri neyslu.

Tilskipunin felur í sér kröfur um að söluaðilar (framleiðendur) verði að laga vörur sem er hægt að laga samkvæmt lögum ESB; stöðlun upplýsingagjafar um viðgerðarferli (tímarammar, verð o.s.frv.); stofnun evrópsks netvettvangs þar sem neytendur eiga að geta fundið viðgerðarþjónustu og framlengingu á ábyrgðartíma vara um 12 mánuði ef neytendur velja viðgerð í stað útskipta.

Tilskipunin er merkt EES-tæk og því má búast við því að innan tíðar hefjist upptökuferli hennar í EES-samninginn og í kjölfarið verði íslenskum lögum breytt til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar.

Sjá nánar frétt HÉR!