Fjórði hver Íslendingur vinnur í verslun og þjónustu

Fjórði hver Íslendingur vinnur í verslun og þjónustu

Ný grein Benedikts S. Benediktssonar, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, var birt á Vísi í dag þar sem hann fjallar um mikilvægi verslunar- og þjónustugreina í íslensku samfélagi.

Í greininni kemur fram að um 49 þúsund manns – tæplega fjórði hver starfandi Íslendingur – starfi í verslun og þjónustu, og að greinin gegni lykilhlutverki í að skapa verðmæti, atvinnu og tækifæri fyrir ungt fólk og fólk af erlendum uppruna.

Benedikt bendir á að verslun og þjónusta sé í dag einn stærsti vettvangur framtíðarstarfa á Íslandi, þar sem margir hefja feril sinn og vinna sig áfram í ábyrgðarstöður.

Mannauður verslunar og þjónustu er einn af sprotum Íslands – verðmæti sem erlendir fjárfestar sjá og kunna að meta.“ segir Benedikt m.a. í greininni.

Greinina má lesa í heild sinni á Vísir.is.

Haustréttir SVÞ 2025 – skráning í fullum gangi.

Haustréttir SVÞ 2025 – skráning í fullum gangi.

Þriðjudaginn 7. október verða haldnir fyrstu Haustréttir SVÞ – Leiðtogafundur verslunar og þjónustu í Vinnustofu Kjarvals, Fantasía 2. hæð við Austurstræti 10, 101 Reykjavík

Rétt eins og í haustréttum landsbyggðarinnar er markmiðið að smala saman, taka stöðuna og horfa fram á veginn. Á fundinum koma fram öflugir fulltrúar atvinnulífsins, stjórnmálanna og alþjóðlegra systursamtaka. Þar verða kynnt ný gögn um stöðu greinarinnar, rætt um forystu og framtíð, og deilt reynslusögum sem varpa ljósi á möguleika íslenskra fyrirtækja á alþjóðavísu.

Markmið Haustrétta er skýrt: að skapa vettvang þar sem æðstu stjórnendur í verslun og þjónustugreinum koma saman, eiga samtal sem verður að stefnu – og stefna að aðgerðum.

Skráning er í fullum gangi og hvetjum við félagsfólk til að tryggja sér sæti.
Athugið: Viðburðurinn er einungis í boði fyrir æðstu stjórnendur aðildarfélaga SVÞ.

🔗 Skráðu þig hér á Haustrétti SVÞ 2025

Við fylgjum þér frá getnaði til grafar

Við fylgjum þér frá getnaði til grafar

Ég veit ekki hvort þú veist það en það eru allar líkur á að í dag, í gær eða a.m.k. í vikunni eigir þú viðskipti við fyrirtæki sem er í SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu. Fyrirtækin stuðla að frjósemi, reka leikskóla, selja matvörur, föt og byggingarvörur, miðla líftryggingum, leigja fasteignir, selja og gera við bíla, reka kvikmyndahús og veita útfararþjónustu – og allt þar á milli.

SVÞ eru málsvari um 430 fyrirtækja sem fylgja þér frá getnaði til grafar.

Þetta er ekki aðeins áhugaverð staðreynd því einkennandi greinar verslunar og þjónustu hafa mikil áhrif á samfélagið:

  • Um 19% verðmætasköpunar þjóðarbúsins má rekja til verslunar og þjónustu en fyrir þá fjárhæð mætti kaupa hátt í 280 milljónir brauðosta af dýrari gerðinni.
  • Um 40% einkaneyslunnar fer um hendur greinanna en fyrir þá fjárhæð mætti kaupa um 130 þúsund bíla af gerðinni Suzuki Vitara.
  • Um 50 þúsund manns starfa í greinunum en með þeim fjölda væri unnt að kjaftfylla Laugardalsvöllinn rúmlega fimm sinnum.
  • Árlega skila greinarnar 200 milljörðum króna í opinber gjöld sem er svipað og það kostar að mennta hátt í 70 þúsund grunnskólabörn.

Án fyrirtækjanna væri lítið um útrás annarra atvinnugreina. Hvar væri sjávarútvegurinn án eldsneytis og orku, varahluta og vöruflutnings? Hvernig stæði hugverkasköpunin án tæknibúnaðar? Hvernig ætli starfsmönnum í iðnaði liði án vinnufatnaðar? Væru allir ferðamennirnir enn í Reykjanesbæ ef engir væru bílarnir? Með hverju á að hræra í pottunum ef engar eru sleifarnar?

Það er hlutverk SVÞ að minna á þetta samhengi – og skapa vettvang þar sem fólk stillir saman strengi, ræðir áskoranir og horfir til framtíðar. Hinn 7. október næstkomandi fara fram Haustréttir SVÞ – leiðtogafundur verslunar og þjónustu.

Frá getnaði til grafar og inn í framtíðina. SVÞ standa vörð um hagsmuni sem snerta alla landsmenn, á hverjum einasta degi.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

 Grein á Vísi Við fylgjum þér frá getnaði til grafar – Vísir

Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

Í nýju viðtali á Bílablogg.is bendir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, á mótsagnakennda stefnu stjórnvalda. Annars vegar hafa stjórnvöld gripið til aðgerða sem styðja við orkuskipti og styrkja bílakaup. Hins vegar er í fjárlagafrumvarpi boðað að hækka skatta á ökutæki og eldsneyti – sem bitnar á almenningi og fyrirtækjum.

„Þetta gengur einfaldlega ekki upp,“ segir Benedikt í viðtalinu. Hann leggur áherslu á að samræmi þurfi að vera í aðgerðum stjórnvalda svo þau skili árangri.

Lesa má viðtalið í heild á Bílablogg.is:
👉 Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

SVÞ varar við óljósum áformum um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti í fjárlögum

SVÞ varar við óljósum áformum um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti í fjárlögum

Óljós áform um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti

Í frétt Morgunblaðsins í dag, 24. september, kemur fram að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé gert ráð fyrir 7,5 milljarða króna tekjuöflun undir liðnum „endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis“.

Samkvæmt fréttinni er óljóst hvernig áform stjórnvalda eru útfærð, en flest bendir til þess að auknar tekjur verði sóttar með hækkun vörugjalda á ökutæki.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, segir að áformin séu bæði óljós og illa tímasett:

„Í fjárlagafrumvarpinu er boðuð mjög mikil skattahækkun á almenning og fyrirtæki. Óljóst er hvaða breytingar eigi að ráðast í til að afla þeirra 7,5 milljarða sem eru merktir sem endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Flest bendi til að það fé eigi að sækja með hækkun vörugjalda af ökutækjum. Þetta er hrikalegur tímapunktur til að koma fram með svo óljós áform þar sem innflytjendur eru einmitt um þessar mundir að skila innkaupaáætlunum vegna næsta árs.“

SVÞ telur brýnt að stjórnvöld útskýri skýrt hvernig þau hyggjast standa að slíkri skattheimtu og hvaða áhrif hún muni hafa á markaðinn. Óvissa af þessu tagi torveldar áætlanagerð fyrirtækja og getur grafið undan stöðugleika í atvinnulífinu á viðkvæmum tíma.

Fjárlagafrumvarp-hrun-bílasölu