18/11/2016 | Fréttir, Stjórnvöld
Fréttatilkynning send til fjölmiðla 18.11.2016
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu fyrr í dag að innflutningsbann á fersku kjöti fæli í sér brot gagnvart EES-skuldbindingum íslenska ríkisins og er því ólögmætt. Niðurstaða dómsins er því í fullu samræmi við fyrri ábendingar SVÞ en samtökin hafa undanfarin ár vakið athygli á málinu og barist fyrir afnámi bannsins en upphaf málsins má rekja til kvörtunar samtakanna til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem ESA komst að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi innflutningsbann á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstætt EES-samningnum.
Ferskar kjötvörur ehf., eitt aðildarfyrirtækja SVÞ, stefndi íslenska ríkinu og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem það varð fyrir sökum synjunar á heimild til að flytja til landsins frá Hollandi ferskt lífrænt ræktað nautakjöt. Undir rekstri málsins krafðist fyrirtækið þess að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins til að fá úr því skorið hvort íslensk löggjöf væri í samræmi við EES-samninginn. Var fallist á þá beiðni og var niðurstaða dómstólsins að bannið samræmist á engan hátt skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.
Að mati Héraðsdóms Reykjavíkur er ekki fullt samræmi á milli EES-löggjafar og íslenskra laga og sýnist misræmið felast í því að innflutningur á fersku kjöti frá öðru aðildarríki EES-samningsins er háður sérstöku leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra auk þess sem þess er krafist að innfluttum matvælum fylgi tiltekin gögn og vottorð. Þvert á móti gerir EES-löggjöfin á hinn bóginn að meginstefnu til ráð fyrir því að ábyrgð á dýraheilbrigðiseftirliti matvæla er hjá því aðildarríki sem matvælin eru send frá, í þessu tilviki Hollandi, og að sérstakt eftirlit fer ekki fram á landamærum viðtökuríkis. Því beri íslenskum stjórnvöldum að virða niðurstöður dýraheilbrigðiseftirlit sem fram fer í öðrum aðildarríkjum í samræmi við sameiginlegar EES-reglur. Þá segir í dóminum að þar sem íslenska ríkið hafi viðhaldið banninu þrátt fyrir niðurstöðu eftirlitsaðila þá hafi slíkt falið í sér vísvitandi og alvarlegt brot gegn skuldbindingum ríkisins.
SVÞ fagna þessum áfanga í málinu enda er það staðföst trú samtakanna að núverandi innflutningsbann á fersku kjöti frá aðildarríkjum EES-samningsins gangi gegn ákvæðum samningsins og samningsskuldbindingum íslenska ríkisins líkt og ESA og EFTA-dómstóllinn, og nú Héraðsdómur Reykjavíkur, hafa áður komist að. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.
Nánari upplýsingar gefa:
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, s. 511-3000/820-4500
Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SVÞ, s. 511-3007/862-0558
Fréttatilkynning á pdf sniði
17/11/2016 | Fræðsla, Fréttir, Viðburðir
SVÞ héldu þann 17. nóvember félagsfund þar sem kynntar voru þær breytingar sem hafa verið gerðar á evrópsku regluverki um persónuverndarlöggjöf. Eins og fram kom á fundinum er um að ræða umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöfinni í tvo áratugi þar sem vernd persónuupplýsinga einstaklinga er tryggð enn frekar og munu reglurnar einnig efla hinn stafræna innri markað Evrópu. Í samræmi við EES-skuldbindingar íslenska ríkisins ber að innleiða þessar breyttu reglur í innlendan rétt í maí 2018.
Frummælendur á fundinum voru frá Persónuvernd, þ.e. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, og Vigdís Eva Líndal, verkefnastjóri EES-mála hjá stofnuninni. Kynnti Helga Þórisdóttir hina nýju Evrópureglugerð um persónuvernd og það breytta landslag sem fram undan er í persónuverndarmálum hérlendis, og í framhaldinu fjallaði Vigdís Eva Líndal nánar um einstaka skyldur sem fyrirtæki þurfa sérstaklega að huga að til að mynda aukna fræðslu til neytenda, skipun persónuverndarfulltrúa, gerð persónusniða o.fl.
Á fundinum kom fram breytingarnar munu að óbreyttu taka gildi hérlendis í maí 2018 og fyrir þann tíma þurfa fyrirtæki að aðlaga starfsemi sína að breyttum og auknum kröfum til persónuverndar og öryggis persónuupplýsinga. Réttindi einstaklinga t.d. til fræðslu og aðgangs að upplýsingum eru bætt og eftirlit persónuverndarstofnana aukið. Aukin ábyrgð fyrirtækja, stórauknar sektarheimildir eftirlitsstofnana og ríkari kröfur til öryggis persónuupplýsinga gera persónuvernd að lykilatriði í rekstri fyrirtækja sem vinna slíkar upplýsingar.
Gagnlegar umræður sköpuðust um þessi málefni á fundinum og er einnig ljóst að margt á enn eftir að skýrast um framkvæmdina samhliða innleiðingu á regluverkinu. Hins vegar er mikilvægt að fyrirtæki hefji sem fyrst undirbúning að því að aðlaga starfsemi sína að breyttu regluverki.
Kynningar frá fundinum:
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar – Ný Evrópureglugerð um persónuvernd og það breytta landslag sem fram undan er í persónuverndarmálum hérlendis
Vigdís Eva Líndal, verkefnastjóri EES-mála hjá Persónuvernd – Skyldur sem fyrirtæki þurfa sérstaklega að huga að
Hlekkur inn á heimasíðu Persónuverndar þar sem unnt er að nálgast frekari upplýsingar og kynningarefni.
http://www.personuvernd.is/ny-personuverndarloggjof-2018/
17/11/2016 | Fréttir, Menntun, Viðburðir
Óskað eftir tilnefningum
Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 2. febrúar 2017. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála fyrir 12. desember nk.
Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum, menntafyrirtæki og menntasproti ársins 2017, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.
Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:
• að skipulögð fræðsla sé innan fyrirtækisins,
• að stuðlað sé að markvissri menntun og fræðslu,
• að sem flest starfsfólk taki virkan þátt og
• að hvatning til frekari þekkingaröflunar sé til staðar.
Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:
• að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja,
• samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.
Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta verkefni. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja.
Tilnefningar sendist í tölvupósti á sa@sa.is– eigi síðar en mánudaginn 12. desember nk.
Ekki er tekið við tilnefningum eða gögnum eftir þann tíma.
Verðlaunin verða veitt á Menntadegi atvinnulífsins 2. febrúar 2017 en þetta er í fjórða sinn sem dagurinn er haldinn.
Íslensk máltækni, menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður í kastljósinu.
Marel var valið menntafyrirtæki ársins 2015 og Síldarvinnslan á Neskaupstað menntasproti ársins. Samskip var fyrsta fyrirtækið til að hljóta menntaverðlaunin 2014 og ferðaþjónustufyrirtækið Nordic Visitor var fyrsti menntasprotinn.
Hægt er að horfa á innslög um verðlaunahafana 2016 hér að neðan í Sjónvarpi atvinnulífsins.
Icelandair er menntafyrirtæki ársins 2016
Securitas er menntasproti ársins 2016
17/11/2016 | Fréttir, Stjórnvöld
Fréttatilkynning send til fjölmiðla 17.11.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa á undanförnum árum haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsumhverfi faggiltra skoðunarstofa á Íslandi en samtökin gæta hagsmuna meginþorra þessara fyrirtækja hér á landi. Faggiltar skoðunarstofur gegna mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem og eftirliti í þágu almennings. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi, s.s. á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu, og hafa því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits.
Að mati SVÞ hefur stjórnsýsla faggildingar ekki að öllu leyti staðið undir þeim væntingum og skyldum sem samevrópskt regluverk leggur á herðar innlendra stjórnvalda. Þar til íslenska ríkið bætir úr þeim ágöllum sem uppi eru mun starfsemi faggildingaryfirvalda hér á landi vera marklaus og sem afleiðing þessa er að faggildingar sem stafa frá Íslandi teljast ekki gildar og ekki unnt að byggja á þeim sem slíkum. Ástand þetta hefur haft í för með sér verulegan kostnað fyrir innlenda aðila og hafa faggiltar skoðunarstofur á mörgum sviðum þurft að sækja nauðsynlega þjónustu erlendis frá með tilheyrandi kostnaði og óhagræði.
Að mati SVÞ hefur núverandi ástand mála verulega skaðleg áhrif á starfsemi faggiltra skoðunarstofa og gengur gegn markmiði samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins um frelsi til að veita þjónustu og frjálsa vöruflutninga. Í ljósi þessa sendu SVÞ í maí sl. kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þar sem þess er óskað að stofnunin taki mál þetta til skoðunar.
Hinn 21. október sl. sendi ESA erindi á innlend stjórnvöld þar sem tekið er undir sjónarmið SVÞ í málinu um að starfsemi stjórnvalda á sviði faggildingar uppfylli á engan hátt þær kröfur sem gerðar eru til slíkrar starfsemi. Málinu er enn ekki lokið af hálfu ESA en SVÞ telja þó að framkomnar athugasemdir stofnunarinnar séu þess eðlis að ekki verður undan þeim vikið. Því skora SVÞ á stjórnvöld að taka stjórnsýslu faggildingar til gagngerar endurskoðunar með það að markmiði að uppfylla þær skyldur sem á íslenska ríkinu hvíla og þannig tryggja framgang faggildingar hér á landi.
Nánari upplýsingar gefur Lárus M. K. Ólafsson hdl., lögmaður SVÞ, s. 511-3007/862-0558
Fréttatilkynning á pdf sniði
16/11/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur birt mælingar fyrir október sem sýna að velta í fata- og skóverslun dróst saman í október síðastliðnum í frá sama mánuði í fyrra þó svo að verð á fötum hafi verið 5,9% lægra en fyrir ári. Ef borin er saman velta í fataverslun síðustu þrjá mánuði við sömu þrjá mánuði í fyrra sést að nánast engin breyting var á veltunni á milli ára. Vert er að minnast þess að um síðustu áramót voru felldir niður tollar af fötum sem hvati til aukinnar sölu á fötum hér innanlands. Þannig var ætlunin að sporna gegn þeirri þróun að Íslendingar sem ferðist til annarra landa kaupi í miklu magni föt í útlöndum og fataverslunin flyttist heim í staðinn.
Á þessu ári hefur gengi íslensku krónunnar styrkst verulega og þar með er hagstæðara fyrir landsmenn að versla erlendis núna en í fyrra. Enda var greiðslukortavelta Íslendinga erlendis í október síðastliðnum 19% meiri en í október í fyrra, sem gefur vísbendingu um að aukning hafi verið innkaupum landsmanna erlendis. Líklega eru fatakaup þar innifalin.
Dagvara og heimili
Áframhaldandi aukning var í sölu annarra vöruflokka í október. Þannig jókst sala í dagvöruverslun um 4,3% frá október í fyrra. Sala dagvöru síðastliðna þrjá mánuði var 7,3% meiri en á sama tímabili í fyrra.
Heimilin endurnýja húsgögnin fyrir jólin. Í október jókst sala húsgagna um 19,2% frá sama mánuði og í fyrra. Þar af jókst velta sérverslana með rúm um 23,5% frá því í fyrra. Þegar borin er saman velta húsgagna síðustu þriggja mánaða við sömu mánuði í fyrra jókst veltan um 26%. Sór heimilistæki, líkt og kæliskápar og þvottavélar, njóta einnig aukinna vinsælda í aðdraganda jóla. Sala á slíkum tækjum jókst um 13,5% frá október í fyrra.
Gólfefni
Nú er í fyrsta sinn birt veltuvísitala gólfefna. Vísitalan byggir á veltutölum frá flestum sérverslunum í landinu með gólfefni, auk byggingavöruverslana og annarra sem verslana sem selja gólfefni. Velta gólfefna jókst um 33,8% í október í samanburði við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagsbreytingum reiknast aukningin á milli ára vera 32,5%.
Stefnt er að því að bæta við enn fleiri flokkum byggingavöru á næstunni.
Erlend kortavelta
Íslensk verslun nýtur góðs af auknum kaupmætti og vaxandi einkaneyslu. Jafnframt er ljóst að aukinn straumur erlendra ferðamanna hefur nokkur áhrif á verslun. Í október síðastliðnum var heildargreiðslukortavelta erlendra ferðamanna 17,5 milljarðar króna sem er 67,1% hærri upphæð en í október í fyrra
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 4,3% á breytilegu verðlagi í október miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í október um 6,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 0,4% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í október 0,9% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 11,4% á breytilegu verðlagi í október miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 10,9% á föstu verðlagi. Verð á áfengi var 0,5% hærra í október síðastliðnum og 0% lægra en í mánuðinum á undan. Þess ber að geta að 1. janúar 2016 var áfengi fært í neðra þrep VSK en áfengisgjald hækkað. Í gögnum sem hér er stuðst við eru sýndar breytingar á veltu án VSK og þarf því að túlka tölur með tilliti til þessarar kerfisbreytingar
Fataverslun dróst saman um 7,1% í október miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 1,3% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,9% lægra í október síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 8,6% í október á breytilegu verðlagi og minnkaði um 4,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -5,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í október um 3,9% frá október í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 19,2% meiri í október en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 17% á föstu verðlagi.
Velta sérverslana með rúm jókst um 23,5% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi.
Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 16,5% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 1,9% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í október um 12,2% á breytilegu verðlagi og jókst um 11,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,3% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í október um 2,8% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 34,3%.
Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 4,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 13,5% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Fréttatilkynning RSV
15/11/2016 | Fréttir, Viðburðir
Í tilefni af útgáfu Margrétar Reynisdóttur hjá Gerum betur ehf. á fimmtu bókinni í ritröð: 50 uppskriftir að góðri þjónustu býður SVÞ ykkur að hlusta á reynslusögur meistaranna. Margrét mun kynna bókina auk þess sem forsvarsmenn nokkurra fyrirtækja deila reynslu sinni.
Tími: Þriðjudaginn, 22. nóvember, kl 8.30-10. Morgunkaffi og meðlæti frá kl. 8.15
Staður: SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu, Kvika, Borgartúni 35
Aðgangseyrir: 5.990 kr. Innifalið: Bókin 50 uppskriftir að góðri þjónustu (2016) – fullt verð 6.490 kr.
Fyrirlesarar sem deila sínum uppskriftum að þjónustu:
• Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Sjónlags og Eyeslands
• Sigurbjörg Sigþórsdóttir, framkvæmdastjóri Bakarameistarans
• Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR
Oops! We could not locate your form.