20/10/2016 | Fréttir
Annar fundur í fundaröðinni Menntun og mannauður var haldinn þriðjudaginn 18. október í Húsi atvinnulífsins. Að þessu sinni var fjallað um starfsþjálfun í fyrirtækjum og svokallað TTRAIN (e. Tourism training) verkefni, sem er nýtt og snýst um að mennta fólk í ferðaþjónustu sem sér um þjálfun nýrra starfsmanna í fyrirtækinu og endurmenntun þeirra sem fyrir eru. Sambærilegt verkefni RETRAIN hefur verið útfært fyrir verslunina á Íslandi. Þessi verkefni hafa mælst mjög vel fyrir og geta jafnframt nýst fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum.
Fundarstjóri var María Guðmundsdóttir fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og var fundinum jafnframt sýndur í beinni útsendingu.
Sjá nánar hér.
Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni þriðja þriðjudagsmorgun í mánuði og mun standa til vors 2017.
Næsti fundur verður haldinn 15. nóvember.
14/10/2016 | Flutningasvið, Fréttir
Frá og með 1. janúar 2017 verða heilbrigðisvottorð farmanna aðeins gefin út af læknum sem hafa fengið viðurkenningu Samgöngustofu. Réttindamenn, m.a. skipstjórar, stýrimenn og vélstjórar, sem starfa á farþega- og flutningaskipum þurfa að vera með gilt alþjóðlegt atvinnuskírteini. Slík skírteini eru gefin út skv. STCW-alþjóðasamþykktinni sem snýr að menntun, þjálfun, skírteinum og vaktstöðu sjómanna. Umsókn farmanna um útgáfu eða endurnýjun STCW-atvinnuskírteinis þarf að fylgja heilbrigðisvottorð frá viðurkenndum lækni. Slík heilbrigðisvottorð munu gilda í tvö ár, en ekki fimm ár eins og hingað til.
Ástæða þessa eru breytingar á STCW-alþjóðasamþykktinni sem Ísland er aðili að, skv. reglugerð nr. 676/2015 um menntun og þjálfun farmanna á farþega- og flutningaskipum.
Samgöngustofa hefur að undanförnu, í samstarfi við Embætti landlæknis og Læknafélagið, kynnt þessa breytingu fyrir læknum. Opnað hefur verið fyrir umsóknir þeirra um viðurkenningu á vef Samgöngustofu. Samgöngustofa mun birta á vef sínum lista yfir viðurkennda sjómannalækna.
Sjá nánar á vef Samgöngustofu.
14/10/2016 | Fréttir, Viðburðir
SMELLTU HÉR TIL AÐ HORFA
STARFSÞJÁLFUN Í FYRIRTÆKJUM
Morgunverðarfundur þriðjudaginn 18. október kl. 8.30-10.00 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 1. hæð
DAGSKRÁ
Kynning á TTRAIN verkefninu (Tourism training)*
Magnús Smári Snorrason, verkefnastjóri þróunar á alþjóðasviði Háskólans á Bifröst.
Verkefnið snýst um að mennta einstaklinga innan ferðaþjónustufyrirtækja sem sjá um að þjálfa nýja starfsmenn á vinnustaðnum og endurmennta þá sem fyrir eru. Sambærilegt verkefni RETRAIN hefur verið útfært fyrir verslunina á Íslandi. Þessi verkefni hafa mælst mjög vel fyrir og má yfirfæra til notkunar í fleiri tegundum fyrirtækja.
„Hvernig notum við skapandi aðferðir við þjálfun á vinnustöðum?“
Signý Óskarsdóttir, eigandi Creatrix sem sérhæfir sig í verkefnum og ráðgjöf sem tengjast skapandi hugsun, samfélagslegri nýsköpun og þróunarvinnu.
Hvernig getur TTRAIN verkefnið* nýst fyrirtækjum?
- Aðalheiður Hannesdóttir, verkefnastjóri gæðamála og Erla Ósk Ásgeirsdóttir, forstöðumaður starfsmanna-og gæðasviðs Icelandair hótela.
- Sigríður Inga Þorkelsdóttir tengiliður við hótel og upplýsingamiðstöðvar og Lára B. Þórisdóttir, afgreiðslustjóri Reykjavík Excursions.
- Elísabet Einarsdóttir, starfsmannastjóri Íslandshótela.
Fundarstjóri er María Guðmundsdóttir fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Allir velkomnir en nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér að neðan.
Kaffi, te og með því frá kl. 8.15. Fundurinn hefst kl. 8.30 og verður lokið kl. 10.00.
Fundurinn er hluti af fundarröðinni Menntun og mannauður í Húsi atvinnulífsins veturinn 2016-2017. Næsti fundur er 15. nóvember.
SKRÁNING HÉR.
14/10/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur birt samantekt fyrir septembermánuð sem sýnir að mikil veltuaukning var í smásöluverslun í síðasta mánuði og greinileg merki um kaupmáttaraukningu frá sama mánuði í fyrra. Í sumum vöruflokkum jókst veltan um fjórðung frá því í fyrra, má þar nefna húsgögn, byggingavöru og snjallsíma. Matur og drykkur var heldur ekki skorinn við nögl því velta dagvöruverslana var 9,1% meiri en í september í fyrra og velta áfengisverslana var 30% meiri en í sama mánuði í fyrra.
Við samanburð á veltu áfengis milli ára þarf að hafa í huga kerfisbreytingar sem urðu um síðustu áramót á virðisaukaskatti og áfengisgjaldi sem skekkir samanburð þegar horft er að vöxt án virðisaukaskatts. Engu að síður jókst sala áfengis í september, í lítrum talið, um 15,7% á milli ára.
Kippur varð í fataverslun í september, sem var 8,3% meiri en í september í fyrra. Að magni til jókst sala á fötum 14,8%. Magnaukningin orsakast af því að verð á fötum var 5,7% lægra en í samanburðarmánuðinum í fyrra. Þetta skýrist væntanlega aðallega af afnámi tolla á föt um síðustu áramót.
Þó vöxtur í sölu raftækja sé ekki eins afgerandi og í öðrum flokkum, í samanburði söluna í sama mánuði í fyrra skýrist það af mikilli sölu í fyrra. Þó var velta í sölu á snjallsímum 28,7% meiri en í fyrra. Mikill uppgangur er enn í húsgagnaverslun sem sést á því að veltan var fjórðungi meiri en í september í fyrra. Velta sérverslana sem selja rúm jókst um 65% á milli ára og sala skrifstofuhúsgagna um 36%. Þá njóta byggingavöruverslanir góðs af uppsveiflu í húsbyggingum þar sem salan jókst um 23,6%.
Kortavelta Íslendinga í september nam 73,9 milljörðum eða 5,5% meira en í sama mánuði 2015 samkvæmt tölum Seðlabankans. Af þeirri fjárhæð greiddu Íslendingar 10,3 milljarða erlendis en 63,6 milljarða hér á landi. Erlend kortavelta hérlendis nam í september 21,7 milljörðum og standa erlendir ferðamenn því að baki ríflega fjórðungi kortaveltu hérlendis þó komið sé fram í september. Nánar verður rýnt í kortaveltu erlendra ferðamanna þegar Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlegar tölur sínar á næstu dögum.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 9,1% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 8,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í september um 7,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í ágúst 0,2% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 30% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 29,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í ágúst um 19% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,5% hærra í september síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun jókst um 8,3% í september miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 14,8% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,7% lægra í september síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 16,4% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 13,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 13,9% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í september um 2,3% frá september í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 25,5% meiri í september en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 22,7% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 64,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 35,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2,3% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í ágúst um 23,6% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 23,4% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,2% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum jókst í september um 2,6% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 28,7%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 0,2% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 1,4% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.
Fréttatilkynning RSV.
12/10/2016 | Fréttir, Menntun
Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Samtök atvinnulífsins (SA), BSRB, Kvasir, Leikn, Bandalag háskólamanna (BHM), Samtök íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) og Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) undirrituðu í dag yfirlýsingu um hæfniramma um íslenska menntun sem ætlað er að endurspegla stigvaxandi hæfnikröfur í formlegu og óformlegu námi á Íslandi. Undirritunin markar tímamót.
Sjá nánar á vef SA
07/10/2016 | Fréttir, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur látið útbúa leiðbeiningar um innra mat í leik-, grunn- og framhaldsskólum og sent til allra leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Leiðbeiningarnar:
Innra mat leikskóla
Innra mat grunnskóla
Innra mat framhaldsskóla
Til þess að leiðbeiningarnar nýtist skólum sem best við gerð innra mats fer ráðuneytið þess á leit við þá skóla sem nota leiðbeiningarnar í vetur að þeir sendi athugasemdir og tillögur um breytingar á innihaldi og texta leiðbeininganna á netfangið postur@mrn.is fyrir 10. júní 2017. Allar tillögur eru vel þegnar.