


Kjólar, borvél, dálítill biti af trjónukrabba og verkefni hins opinbera
Benedikt Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, skrifar á Vísi þann 16. ágúst:
Hinn sérvitri ég nær klökknaði af gleði þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið birti lykiltölur um rekstur hins opinbera á vefsíðunni opinberumsvif.is. Upplýsingarnar vekja upp ýmsar spurningar um breiðu línurnar og ég sá t.d. á fésbókinni að spurt var hvort sjávarútvegurinn gæti ekki lagt meira af mörkum svo lækka mætti verð á áfengi (innskot: Mér sýnist netverslanabransinn vera að takast á við það verkefni). Þó mér finnist upplýsingarnar frábærar segja þær bara hluta af sögunni. Með því að skoða einvörðungu þessa tilteknu heimasíðu er t.d. hægt að álykta sem svo að útgjöld ríkisins séu í góðu horfi. Hver vill ekki leggja sem mest fjármagn í heilbrigðismál, öldrun, menntamál, o.s.frv.? Eins og hagsýnir heimilisrekendur þekkja skiptir hins vegar ekki síst máli hvernig fjármununum er eytt.
Kjólar og borvél
Þegar reikningarnir ógna fjárhag heimilisins hef ég spurt konuna hvort hún hafi hreinlega rými í fataskápnum fyrir nýja kjóla. Svör hennar felast oftlega í hvössum ábendingum, t.d. á þá leið að ég hafi nýverið keypt flottustu gerð af borvél. Slík svör virka um stund en leysa þó ekki aðsteðjandi vanda. Vísitölufjölskyldan skammast sín, segir svo upp áskriftinni af mogganum, dregur úr föndri og fatakaupum og reynir að sannfæra sjálfa sig um að það sé aðeins stigsmunur á lambahakki og lambasteik. Að ætla sér að skoða nákvæmlega hvernig ríkið eyðir fé er hins vegar ekki fyrir meðalmenni. Það þarf að snæða skepnuna bita fyrir bita. Heildarmáltíðin yrði hins vegar jafnvel svo löng að meðlimum vísitölufjölskyldu mundi ekki nægja lífaldurinn til. Undir lokin yrði verulega hætt við ofneyslu matarvíns og samfara kæruleysi, djammviskubit daginn eftir. En reynum þetta. Ég byrja smátt.
Litli bitinn
Á síðasta ári hafði Vinnueftirlit ríkisins 1.020,3 millj. kr. til að sinna verkefnum sínum. Unnin voru 68,6 ársverk hjá stofnuninni og kostaði því hvert þeirra tæplega 14,9 millj. kr. En í hvað fóru peningarnir? Flestir vita af vinnueftirliti og þekkja e.t.v. gagnsemi þess lauslega. Vinnueftirlitið heimsækir vinnustaði, metur aðstæður, m.a. með tilliti til heilsu starfsmanna, og passar m.a. að vinnuveitendur hafi undirbúið ýmsar öryggisráðstafanir. Nánari skoðun gefur til kynna að Vinnueftirlitið afli tekna og hvaða koma þær? Nærtækast er að átta sig á því með því að skoða verðskrá stofnunarinnar. Í fyrsta hluta verðskrárinnar er að finna gjöld fyrir skráningu og eftirlit með virkni ýmiskonar véla og tækja og fyrir þjónustu við ýmiskonar mælingar og prófanir. Í öðrum hluta er að finna gjöld fyrir námskeið, m.a. til réttinda til að nota vinnuvélar. Í þriðja þættinum er að finna gjöld fyrir fyrirlestra, mælingar og viðurkenningu á erlendum réttindum. En þá vaknar sú spurning hvort þetta sé allt nauðsynlegt?
Trjónukrabbinn
Eftirtektarsamur maður hélt því einu sinni fram að trjónukrabbinn, „framundan þeim veraldarútnánara sem Dalasýsla er“, væri af stjarnfræðilegri stofnstærð. Kallaði hann eftir rannsókn dýrðarmanna fyrir sunnan á dýrinu og vildi „fá plögg, með línuritum og prósentum, svo sem í eina stresstösku til að birja með“.
Voru kjólarnir og borvélin óþarfakaup?
Nú er ég svo heppinn að stresstaska með plöggum er fyrirliggjandi og ég get stytt mér leið að svari. Æðsti eyðslugagnrýnandi ríkisheimilisins hefur ítrekað tjáð sig og um það má t.d. lesa hér og hér:
Ríkisendurskoðun telur að stofnunin ætti að einbeita sér að tilteknum kjarnaþáttum, þ.e. stjórnsýslu og leiðandi verkefnum á sviði vinnuverndar, en láta öðrum sem mest eftir sérhæfða þjónustu og ráðgjöf um vinnuvernd. [L]eggur Ríkisendurskoðun til að kannað verði hvort flytja megi hluta vinnuvélaeftirlits stofnunarinnar til faggiltra skoðunarstofa og stjórnsýslu þess til [Samgöngustofu]. Hér er m.a. átt við eftirlit með farandvinnuvélum, tækjum sem áföst eru bifreiðum og öðrum hjólatækjum sem aka utandyra, og er um margt hliðstætt bifreiðaeftirliti. Að mati Ríkisendurskoðunar gæti slíkt fyrirkomulag orðið bæði hagkvæmara og skilvirkara en það sem nú tíðkast og auk þess hentugra fyrir þá sem notfæra sér þjónustuna. […]
Ríkisendurskoðun telur að samþætting Vinnueftirlitsins á eftirliti, fræðslu og ráðgjöf sé óheppileg. […].
Þarna hefur einhver verið í því hlutverki að benda á kjólana og fyllt heila stresstösku af plöggum. Ég sé ekki betur en að fagráðherrann hafi í kjölfarið bent á borvélina. Lítið virðist hins vegar hafa gerst.
Er ég virkilega sá eini sem skammast mín undir svona kringumstæðum?

Hvað með trukkana?

Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur SVÞ
Trukkur, samkvæmt orðabók, er stór og kraftmikill vörubíll. Trukkar eru okkur mikilvægir þó flest okkar leiði hugann sjaldnast að þeim. Trukkar eru ekki bara öskubílar, olíubílar og mjólkurbílar heldur flutningabílar sem færa vörur milli staða. Trukkar færa t.d. matinn í verslanirnar, byggingarefnið á byggingastað og fiskinn í útflutning. Sérstakir trukkar flytja túrista en eru þá kallaðir rútur, sem væntanlega á að vísa til dálítils kassa af öli. Í þessu ljósi má t.d. ímynda sér að heiti trukksins, sem er frábær réttur á matseðli Gráa Kattarins, vísi til gagnsemi trukksins enda er hann samansettur úr fjölmörgum hráefnum og fullnægir daglegum þörfum afar vel. Það er sennilega ekki tilviljun að þegar rætt er um að taka eitthvað með trukki er gjarnan skírskotað til þess að gera eitthvað að afli, almennilega, fara alla leið.
Tökum það með trukki
Stjórnvöld hafa sett fram afar metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Í gildandi aðgerðaáætlun er m.a. fjallað um hvernig megi draga úr losun koltvísýrings í samgöngum. Ein af aðgerðunum snýr að því hvernig draga megi úr losun í þungaflutningum innanlands, m.ö.o. hvernig tökum við trukkana með trukki án þess að missa trukkið.
Trukkaland
Hér á landi eru margir trukkar í notkun miðað við höfðatölu eða a.m.k. finnst mér rökrænt að álykta á þennan hátt. Samkvæmt Wikipedíu er Ísland 16. stærsta ríki heims, miðað við höfðatölu. Ef íbúaþéttleiki á Íslandi væri hinn sami og í Mónakó byggju hér tæplega 2 milljarðar Íslendinga. Ef íbúaþéttleiki í Mónakó væri hinn sami og hér á landi byggju þar 8 manns. Ef við gefum okkur að nokkuð margir trukkar séu í notkun í okkar stóra, strjálbýla, veðurbarða og mishæðótta landi, miðað við höfðatölu, má jafnframt álykta sem svo að fjarlægðir manna á milli kalli á töluverðan trukkaakstur.
Réttu trukkarnir
Nýverið keypti ég mér rafmagnsbíl. Kaupin voru ekki sérlega frumleg enda fer hver að verða síðastur að kaupa bensín- eða dísilbíl. Bílinn losar ekki gróðurhúsalofttegundir í akstri og nú kaupi ég eingöngu innlenda orku. Umskiptin voru einföld. Fólksbílar knúnir rafmagni eru vel þróaðir, framleiddir á nokkuð hagkvæman máta og hleðsluinnviðir til staðar, bæði heima hjá mér og víða um landið. En ekki eru allir eins. Hyggist eigandi trukks kaupa nýjan trukk, sem gengur fyrir öðru en dísilolíu, vandast málið. Valkostirnir eru fáir og þeir sem eru þó til staðar kosta svo heiftarlega mikið að kaupin ganga ekki upp. Þá er drægi sumra kostanna enn takmörkuð og flutningagetan óljós. Sé trukki stungið í samband er hætt við að það verði ekki margar innstungur eftir fyrir aðra.
Við þurfum öll á trukkunum að halda. Eigendur trukkanna vilja eiga trukka til að þjónusta okkur. Helst vilja þeir aka trukkunum á innlendri orku. Þar liggur vandinn því slíkir trukkar standa enn vart til boða en eru þó á leiðinni, í framtíðinni og vonandi þeirri nánustu. Að hanna og smíða trukk tekur mörg ár, jafnvel fyrir reyndustu menn, og þegar hann hefur verið smíðaður þarf að prófa hann við ýmsar aðstæður. Þar að auki þarf að koma upp tækjum til að koma orkugjafa á trukkinn, þ.e. hliðstæðu olíudælunnar.
Trukkar í loftslagsvísi atvinnulífsins
Hinn 23. júní var Loftslagsvísir atvinnulífsins gefinn út. Eins og önnur fyrirtæki hafa flutningafyrirtæki verulegan áhuga á að taka virkan þátt í orkuskiptum í samgöngum. Þegar kemur að akstri trukka á lengri leiðum virðist vetnisvæðing helsta lausnin framundan. Nokkrir trukkaframleiðendur eru að prófa sína trukka erlendis en það er enn nokkuð í að hægt verði að kaupa þá. Það er hins vegar ljóst að trukkarnir verða ekki bara dýrir í innkaupum heldur verður það töluvert vesen að fara að nota þá. Til dæmis vantar okkur fjölda vetnisstöðva.
Púslin í nýorkuveruleika trukka eru sannarlega mörg en það er búið að taka lokið af öskjunni. Wasgij-púslið blasir við, menn eru búnir að klóra sér svolítið í hausnum en eru sannfærðir um að þetta muni klárast.
Að lokum skora ég á Gráa köttinn að breyta nafninu á trukknum í vetnistrukkinn, svona til að taka af allan vafa.
Benedikt S. Benediktsson
lögfræðingur SVÞ
—
Greinin birtist fyrst á Vísi.is, fimmtudaginn 24. júní 2021.

Aðalfundur Samtaka heilbrigðisfyrirtækja 2021
Aðalfundur Samtaka heilbrigðisfyrirtækja 2021 var haldinn 19. maí s.l. Gestur fundarins var Bjarni Benediksson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Dagný Jónsdóttir, formaður SH hóf umræðuna með því að draga saman helstu staðreyndir um stöðu einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja innan heilbrigðiskerfisins. Vakti hún m.a. athygli á því að um þriðjungur árlegra heimsókna sjúklinga til læknis eru til þess hóps sem eru aðilar að Samtökum heilbrigðisfyrirtækja. Þau tækju hins vegar einungis til sín um 5% af því fjármagni sem hið opinbera ver til heilbrigðismála. Sérgreinalæknar og fyrirtækin sem þeir væru með á bak við sig væru því „þriðja stoðin“ í heilbrigðiskerfinu og hefðu því miklu hlutverki að gegna. Þá gerði Dagný að umtalsefni þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í viðræðum Læknafélags Reykjavíkur, f.h. sérgreinalækna, við Sjúkratryggingar Íslands, en þeir hafa verið samningslausir síðan haustið 2019.
Bjarni greindi frá þeim áherslum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði lagt á þegar flokkurinn hefði farið með heilbrigðismálin. Vísaði m.a. í að Sjúkratryggingum Íslands var falið samingshlutverkið í tíð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem heilbrigðisráðherra og þegar ákveðið var að fjármagn fylgdi sjúklingum í heilsugæslunni sem gert var í tíð Kristjáns Þórs Júlíussonar.
Bjarni svaraði síðan fjölmörgum fyrirspurnum frá fundarmönnum sem allar litu með einum eða öðrum hætti að þeirri þröngu stöðu sem uppi er í samskiptum sjálstætt starfandi fyrirtækja í heilbrigðiskerfinu við hið opinbera.
Dagný Jónsdóttir var endurkjörin formaður SH til næsta starfsárs. Í stjórn til næstu tveggja ár voru kjörnir þeir Kristján Guðmundsson og Sigurður Ingibergur Björnsson, Varamenn í stjórn eru áfram þeir Stefán E. Matthíasson og Þórarinn Guðnason.

Aðalfundur Samtaka heilbrigðisfyrirtækja 2021

Kynning á frambjóðendum til stjórnar SVÞ 2021
Kosið er um þrjá meðstjórnendur til tveggja ára og einn til árs. Alls bárust tólf framboð.
Hver félagsaðili fer með atkvæði í hlutfalli við greidd félagsgjöld ársins 2020. Hverjum heilum 1.000 krónum í greidd félagsgjöld fylgir eitt atkvæði. Tekið skal fram að enn er hægt að öðlast atkvæðisrétt með greiðslu vangoldinna félagsgjalda ársins 2020.
Í framboði til stjórnar SVÞ eru:

Ari Þórðarson
Meira um Ara
„Ég sækist eftir áframhaldandi stjórnarsetu hjá SVÞ. Framboð mitt grundvallast á því að ég tel skynsamlegt að stjórn SVÞ endurspegli sem best samsetningu fulltrúa, bæði í verslun og þjónustu. Mér finnst miklu máli skipta að SVÞ sinni af krafti hagsmunagæslu aðildarfyrirtækja sinna og stuðli að heilbrigðu rekstrarumhverfi hér á landi. Þá eiga samtökin að sinna með öflugum hætti fræðslumálum í verslun og þjónustu og vera sterkur bakhjarl í kjaratengdum málum, í samstarfi við Samtök atvinnulífsins.“

Guðmundur Nikulásson
Meira um Guðmund
Guðmundur er B.Sc. verkfræðingur frá Háskóla Íslands og með M.Sc. próf frá Danmarks Tekniske Universitet í Kaupmannahöfn. Hann hefur setið í stjórnum dótturfélaga Eimskips á Íslandi og einnig tekið þátt í fjölmörgum stórum umbreytinga-, hagræðingar- og fjárfestingaverkefnum á vegum félagsins.
Sem stjórnandi til margra ára innan flutningagreinarinnar tel ég mig búa að fjölbreyttri þekkingu og reynslu á atvinnulífinu sem myndi nýtast vel innan SVÞ. Á tímum örra breytinga er mér umhugað um mikilvægi þróunar og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í verslun og þjónustu, að þeim sé búið hvetjandi og hagfellt rekstrarumhverfi sem styrkir stöðu þeirra, bæði hér á landi og einnig í alþjóðlegu samhengi. Samhliða því tel ég mjög mikilvægt að auka framleiðni og hagkvæmni í rekstri ásamt því að efla menntun og færni atvinnulífsins til að takast á við þær hröðu breytingar sem eiga sér nú stað og eru fyrirséðar eftir því sem tækninni fleygir fram og hefur stöðugt meiri áhrif á okkar samfélag. Ég vil leggja mitt af mörkum til að efla samtökin og styðja við framfarir í verslun og þjónustu til hagsbóta fyrir fyrirtæki og almenning í landinu.

Guðrún Jóhannesdóttir
Meira um Guðrúnu
Ég gekk til liðs við SVÞ árið 2010, hef tekið þátt í ýmissi starfsemi samtakanna og sat í stjórn Rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir þeirra hönd. Ég hef setið í stjórn SVÞ síðan 2018.
Að mínu mati er mikilvægt að raddir minni og meðalstórra fyrirtækja heyrist innan samtakanna, enda áherslurnar oft ólíkar eftir stærð. Einnig þykir mér nauðsynlegt er að samtökin styðji áfram við stafræna þróun á sviði verslunar og þjónustu til að efla samkeppnishæfni greinarinnar. Að lokum tel ég ekki síður mikilvægt að hlúa að þeim þætti viðskipta sem felst í þjónustu maður á mann, enda fjölmargir félagsmenn sem afla meirihluta tekna sinna á þann hátt.

Herdís Pála Pálsdóttir
Meira um Herdísi Pálu
Samhliða mínum störfum hef ég sinnt kennslu í HÍ og HR, og haldið fjölda námskeiða um stjórnun og mannauðsmál.
Ég lauk MBA-námi árið 2000, frá University of New Haven í CT, USA. Einnig hef ég lokið B.Ed námi og námi í stjórnendamarkþjálfun, auk þess að hafa verið dugleg að sækja ráðstefnur og námskeið, taka netnámskeið og lesa, til að halda mér faglega við og vel upplýstri um það sem best þykir og efst er á baugi hverju sinni.
Ég hef mikinn áhuga á að starfa fyrir SVÞ og tel að reynsla mín af stýringu mannauðs og breytingastjórnun muni koma sér vel við að finna leiðir til að styðja betur við fyrirtækin í SVÞ.
Ekki síst í kjölfar heimsfaraldurs og þeirra áhrif sem hann hefur haft á áherslur í vinnuumhverfi – og ekki síður á væntingar og hugmyndir starfsfólks um störf og starfsumhverfi.
Ég hef lengi velt fyrir mér framtíð vinnu, vinnustaða og vinnuafls, lesið, skrifað og tjáð mig um þau mál á opinberum vettvangi. Hluti af þeim áskorunum sem blasa við tel ég vera miklar áskoranir þegar kemur að því að endurnýja hæfnisett starfsfólks í verslun og þjónustu.
Sérstaklega þar sem ljóst er að framtíðin verður mun stafrænni og skilvirkari en við höfum áður þekkt.
Einnig hafa væntingar og kröfur viðskiptavina og starfsfólks um góða upplifun, aðgengi og þjónustu aukist mjög.
Ég mun leggja mitt af mörkum til þess að SVÞ nái að fylgjast vel með og bregðast við breytingum sem eru að verða á viðskiptaumhverfi fyrirtækja í verslun og þjónustu og veit að þekking mín og reynsla mun nýtast vel í þeim spennandi verkefnum sem framundan eru.

Hinrik Örn Bjarnason
Meira um Hinrik Örn
Hinrik Örn er fæddur 15. september 1972 og er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.
Gríðarlegar breytingar eru að eiga sér stað í alþjóðlegu atvinnulífi þar sem reynsla, þekking og framsýni munu gegna lykilhlutverki. Næstu skref geta skipt sköpum hvað varðar samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og þar þarf að líta til allra þátta, ekki síst tækniþróunar, umhverfisvitundar, markaðsstöðu og aðlögunarhæfni. Ég býð fram krafta mína í stjórn SVÞ með það að markmiði að efla samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og eiga þátt í að móta framtíðina á alþjóðavettvangi.

Karl J. Jóhannesson
Meira um Karl
Menntun: MBA, M.Sc. í stjórnun og tækniskipulagning fyrirtækja frá DTU í Danmörku.
Ég vann sem stjórnunarráðgjafi frá árinu 1999 – 2005 þegar ég kom heim að námi loknu í Danmörku. Eftir það starfaði ég sem framkvæmdastjóri og forstjóri til ársins 2010 þegar ég sneri mér alfarið að eigin fyrirtæki, Aurum, sem ég stofnaði með konunni minni, Guðbjörgu skartgripahönnuði, 1999. Strax 2010 lagði ég mikla áherslu á netverslun og verslun á netinu almennt. Ég hef yfirgripsmikla þekkingu á verslun og verslun á netinu og hef passað upp á að fylgja eftir þeirri hröðu breytingum sem hefur orðið í mínu eigin fyrirtæki. Ég þekki einnig vel til sölu erlendis og hvernig því regluverki er háttað. Segja má að umhverfið í verslunarrekstri hafi breysts mikið undanfarin ár. SVÞ hefur verið sterk rödd út á við og því verður að halda á lofti ásamt því að fylgja eftir þeim breytingum sem hafa orðið og eru framundan í verslun og verslunarrekstri almennt. Ég tel mig geta lagt töluvert til svo að rödd SVÞ verði ennþá sterk og jafnvel sterkari en áður, þar sem passað verður upp á regluverk, breytingar framundan og að fylgjast vel með hvernig verslun er að breytast. Einnig að passa upp á að hlúa að félagsmönnum / fyrirtækjum samtakanna, að styðja við þau bæði á þessum krefjandi tímum og vera áfram sterkur bakhjarl fyrir félagsmennn. Ég mun stuðla að því að SVÞ verði áfram á tánum, í fremstu röð og til fyrirmyndar í að kynna fyrir félagsmenn það nýjasta sem er að gerast í verslunarrekstri, hvort sem er skattamál, sölumál, útflutningsmál o.þ.h. í gegnum fyrirlestra, ráðstefnur eða kynningarefni sem félagsmenn geta nálgast.

Kristinn Már Reynisson
Meira um Kristinn
Fæðingarár: 1983
Starfsheiti: Lögfræðingur
Aðildarfyrirtæki: Íslandspóstur
Menntun: M.A. lögfræði Háskóli Íslands, Phd lögfræði Háskólinn Árósum
Starfsreynsla: Fjeldsted og Blöndal lögmannsstofa, Samkeppniseftirlitið, Íslandspóstur
Kristinn Már Reynisson hefur starfað sem lögfræðingur Íslandspósts frá árinu 2019 og tekið þátt í umbreytingu félagsins frá þeim tíma.
Sérsvið Kristins eru hlutafélagaréttur og stjórnarhættir fyrirtækja, samkeppnisréttur og alþjóðlegur skattaréttur. Kristinn hlaut Phd gráðu frá Háskólanum í Árósum fyrir störf á sviði stjórnarhátta og ábyrgðarreglna fyrirtækjasamstæðna en hann hefur einnig starfað hjá Samkeppniseftirlitinu sem og á lögmannsstofum í Reykjavík.
Kristinn hyggst nýta bakgrunn sinn sem lögfræðingur og beita sér fyrir því að SVÞ verði áfram sterk rödd í þeirri vegferð að einfalda regluverk.
Breyting hefur orðið á neysluháttum innanlands og íslenskt hagkerfi stendur frammi fyrir 4. iðnbyltingunni, auk þess að kröfur neytenda til aukinnar sjálfbærni kalla á nýja nálgun. Regluverk sem aðildarfélög SVÞ starfa eftir var hins vegar byggt upp í umhverfi sem nú hefur tekið stakkaskiptum. Því er ljóst að mikið verk er fyrir höndum að gæta þess að reglur sem komnar eru fram yfir síðasta neysludag reynist ekki hindrun við uppbyggingu verslunar og þjónustu fram á veginn.

Kristín Ögmundsdóttir
Meira um Kristínu
Kristín hefur starfað sem framkvæmdastjóri Borgarleikhússins frá árinu 2018. Borgarleikhúsið er stór vinnustaður og umsvif þess mikil á fjölbreyttum sviðum. Þar starfa að jafnaði 200 starfsmenn og árlega heimsækja um 180.000 gestir leikhúsið. Áður gegndi Kristín starfi framkvæmdastjóra hjá Íslenska dansflokknum.
Kristín starfaði sem viðskiptastjóri á smásölumarkaði í London um árabil hjá Christian Dior gagnvart verslunum eins og Boots, Debenshams og John Lewis og sem sérfræðingur fyrir skartgripakeðjuna Aurum Holdings í London.
„Allan minn starfsferil hef ég unnið við verslun og þjónustu eða allt frá því að ég hóf störf hjá fyrirtæki fjölskyldunnar, Skarthúsinu á Laugavegi. Síðar fékk ég dýrmæta reynslu og innsýn inn í rekstur og starfssemi alþjóðlegra fyrirtækja. Síðustu ár hef ég unnið að markaðssetningu og rekstri menningartengdrar upplifunar. Ég tel að reynsla mín geti nýst vel á vettvangi SVÞ. Á tímum Covid-19 hefur komið í ljós hversu mikilvæg nýsköpun og innleiðing starfrænna lausna er fyrir framþróun í íslenskri verslun og þjónustu. Tel ég að stafrænar lausnir og aukin fræðsla- og menntun muni styðja við samkeppnishæfni okkar til framtíðar.“
Kristín er með hagfræðimenntun frá University of Wisconsin og M.Sc. í fjármálum frá Cass Business School London og hefur m.a. setið í stjórn Landsnefndar UN Women síðan 2017 og í stjórn Samtaka atvinnuveitenda í sviðslistum síðan 2013.

Oddur Ragnar Þórðarson
Meira um Odd Ragnar
Giftur Ragnhildi Guðrúnu Pálsdóttur, framkvæmdarstjóra Eignareksturs.
Eignarekstur var stofnað 2015 sem þjónustufyrirtæki við almenn húsfélög, leigufélög og sveitarfélög. Í dag þjónustar Eignarekstur hart nær 200 húsfélög víðsvegar um landið varðandi bókhald og alla almenna þjónustu.
Fyrir hef ég víðtæka reynslu af störfum í upplýsingatækni. Ég starfaði í 20 ár við ýmis störf hjá nokkrum af stærstu tæknifyrirtækjum Íslands. Samhliða upplýsingatæknistörfum var ég í 8 ár bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Vogar og á tímabili forseti bæjarstjórnar. Fyrir hönd bæjastjórnar sat ég í sex ár í stjórn Kölku, Sorpeyðingarstöð Suðurnesja.
Ég hef mikinn áhuga á almennum og sameiginlegum hagsmunarmálum Samtaka verslunar og þjónustu. Þess vegna býð ég mig fram sem meðstjórnenda í stjórn SVÞ á aðalfundi 18. mars næstkomandi.

Sigurður Ólafsson
Meira um Sigurð
Sigurður starfar nú sjálfstætt við ráðgjöf auk þess að sitja í stjórn lífeyrissjóðs, í stjórn þriggja fyrirtækja og í ráðgjafaráði nýsköpunarfyrirtækisins Proency. Auk eigin ráðgjafar á sviði mannauðsmála þá hefur hann unnið með ráðgjafafyrirtækinu Kontra Nordic að verkefnum tengdum góðum stjórnarháttum og ábyrgð stjórnarmanna á upplýsingagjöf í útgefnum upplýsingum fyrirtækja s.s. í skýrslu stjórnar.
Í störfum sínum hefur hann borið ábyrgð á áætlanagerð, rekstri og efnahag tveggja fyrirtækja og nú síðast rekið mannauðssvið í flóknum rekstri Isavia ohf. Sigurður starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri á íslenskum vátryggingamarkaði og hefur nokkra reynslu af alþjólegum viðskiptum frá þeim tíma sem hann var framkvæmdastjóri Calidris (Sabre Ísland) sem var í harðri samkeppni við stærri aðila á markaði fyrir sérhæfða tekjustýringarþjónustu fyrir flugfélög.
Sigurður situr í dag í stjórn Lyfja og heilsu, Trésmiðjunnar Barkar, Glerverksmiðjunnar Samverks og í stjórn lífeyrissjóðsins Festu. Hann hefur því fengið viðurkenningu FME á hæfi til stjórnarsetu í lífeyrissjóði og áður lokið hæfnimatsferli FME sem framkvæmdastjóri Varðar Íslandstryggingar hf. árið 2006.
Sigurður er viðskiptafræðingur með MBA gráður frá Rotterdam School of Management frá árinu 1990.
Áherslur
Nái ég kjöri mun ég vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna auk þess að stuðla að því að:
- efla starfræna þróun í verslun og þjónustu og bæta um leið árangur og draga úr sóun á tíma og verðmætum.
- vinna að því að einfalda regluverk og lækka álögur á rekstur fyrirtækja.
- draga úr opinberum rekstri þar sem einkarekstur getur nýtt sameiginlega fjármuni okkar betur.

Þór Bínó Friðriksson
Meira um Þór Bínó
Þór Bínó hefur mikinn áhuga á félagsstarfi og hefur setið í stjórnum félagasamtaka ss. Björgunarfélags Akraness, KFUM og KFUK á Íslandi, Sumarbúðunum í Ölveri og Káldárseli ásamt fleiri félögum, bæði sem almennur stjórnarmaður og formaður.
,,Ég tel mikilvægt að efla en frekar það góða starf sem SVÞ hefur verið að sinna undanfarin ár. Til að ná því tel ég mikilvægt að samtökin haldi áfram að vaxa og ættu að horfa meira til lítilla fyrirtækja og einyrkja innan verslunar og þjónustu geirans. Eftir að hafa starfað sem stjórnandi í stórum og litlum fyrirtækjum og séð hversu mikilvæg svona samtök eins og SVÞ eru fyrir minni fyrirtæki þar sem baklandi er lítið eða ekkert tel ég mig hafa mikið fram að færa sem gæti nýst SVÞ til frekari uppbyggingar á komandi árum og öflunar nýrra félagsmanna.
Einnig tel ég mikilvægt að minni verslanir hafi talsmann innan stjórnar SVÞ“

Tinna Jóhannsdóttir
Meira um Tinnu
Tinna Jóhannsdóttir starfar sem forstöðumaður markaðsmála hjá fasteignafélaginu Reginn og stýrir markaðsmálum Smáralindar og Regins auk þess að sinna viðskiptaþróun og öðru. Tinna situr einnig í stjórn Miðborgarinnar okkar og Markaðsstofu Kópavogs. Tinna er 41 árs gömul.
Tinna hefur áratuga reynslu sem stjórnandi í smásölufyrirtækjum en síðustu ár hefur hún stýrt markaðsmálum í stórum félögum.
Tinna er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands, viðskiptafræðingur með áherslu á markaðssamskipti og með diploma í mannauðsstjórnun.
„Sem stjórnandi til margra ára hef ég öðlast breiða og góða þekkingu á rekstri fyrirtækja sem mun nýtast innan hagsmunasamtakanna, SVÞ. Mér er annt um íslenska verslun og þjónustu og hef mikinn áhuga á leggja mitt á vogarskálarnar til að styrkja stöðu innlendra fyrirtækja innan SVÞ og rekstrarumhverfi þeirra.
Við þurfum að auka gagnaöflun til handa fyrirtækjum í landinu, styrkja stoðir okkar í alþjóðlegri samkeppni og auka á virðingu fyrir þeim störfum sem innan málaflokksins eru og gera verslunar- og þjónustustörf í landinu enn meira aðlaðandi starfsvettvang.
Ég tel mig búa yfir þekkingu, reynslu og áhuga sem nýtist SVÞ á þeirri vegferð að gera samtökin enn öflugari og gagnlegri málsvara atvinnurekenda í verslunar- og þjónustufyrirtækjum landsins“.