SVÞ tekur þátt í sameiginlegri umsögn um framtíðarstefnu Íslands gagnvart ESB

SVÞ tekur þátt í sameiginlegri umsögn aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins um drög að forgangslista Íslands í samskiptum við Evrópusambandið fyrir árin 2024–2029. Þar er lögð áhersla á mikilvægi skýrrar og markvissrar stefnu stjórnvalda gagnvart ESB til að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og hámarka ávinning af þátttöku í innri markaði Evrópu.

Í umsögninni, er EES-samningurinn kallaður hornsteinn utanríkis- og efnahagsstefnu Íslands og minnt á að samningurinn kalli á stöðuga og öfluga hagsmunagæslu þar sem ný löggjöf ESB geti haft veruleg áhrif á starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja.

Sjá nánar -> Forgangslisti við hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu 2024-2029

Af hverju breytist bensínverð ekki um leið og breytingar verða á heimsmarkaðsverði olíu?

Af hverju breytist bensínverð ekki um leið og breytingar verða á heimsmarkaðsverði olíu?

Greining á verðmyndun eldsneytis á Íslandi og hvers vegna hún fylgir ekki alltaf heimsmarkaðsverði.

Með þessum pistli er ætlunin að varpa nokkru ljósi á samhengi eldsneytisverðs á heimsmarkaði og forsendna eldsneytisverðs á Íslandi. Rétt er að taka fram að það er ávallt í höndum fyrirtækja sem annast sölu eldsneytis að ákveða hvernig þau haga sinni verðlagningu. Verðlagning er viðskiptaákvörðun. Pistillinn er aðeins ætlaður til fróðleiks. 

Þegar heimsmarkaðsverð á olíu breytist spyrja margir hvers vegna samsvarandi breytingar verða ekki samtímis á bensínverði hér á landi. Oft er því haldið fram að söluaðilar eldsneytis haldi aftur af sér við verðlækkanir en ekki hækkanir. Er þá oft talað um að ekki gæti samræmis milli verðs á dælu og þróunar heimsmarkaðsverðs. Á þessu kunna að vera nokkrar skýringar sem er unnt að draga fram með því að rýna í opinber gögn sem eru öllum aðgengileg. 

Þessu tengdu hefur forstjóri opinberrar stofnunar greint frá því að skip þeirra sigli til Færeyja til að kaupa eldsneyti í sparnaðarskyni þar sem það er ódýrara en á Íslandi. Hér í framhaldi verður farið yfir hvað getur valdið því. 

Áhrif hins opinbera 

Í raun er verði á dælu að stórum hluta stýrt af hinu opinbera í gegnum skatta sem gerir dæluverðið tregbreytanlegra en ella. Eldsneytisskattar nema lögfestum krónutölum sem ekki breytast þó breytingar verði á innkaupsverði. Af bensínlítra sem kostaði 300 kr. runnu tæplega 170 kr. til ríkisins í formi eldsneytisskatta og virðisaukaskatts. Þetta má nánar sjá á eftirfarandi mynd.

Samsetning eldneytisverðs án blöndunar

Af myndinni leiðir að aðeins 44% dæluverðsins eru eftirstandandi, 130 kr., sem geta haft einhver tengsl við þróun á markaði erlendis.  

Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því en þegar fólk kaupir bensín er það ekki bara að kaupa bensín. Í meira en áratug hefur söluaðilum eldsneytis verið gert að blanda bílaeldsneyti með öðrum eldfimum vökvum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og orkustofnun hafa um 7–16% af dæluverðinu því algjörlega verið óháð heimsmarkaðsverði á olíu. Mengað etylalkóhól, sem íblöndunarefni fyrir bensín, hefur til að mynda verið nálægt því þrefalt hærra í innflutningsverði  en bensín sl. þrjú ár.  

Ef við gefum okkur að íblöndun í bensín nemi að jafnaði 10% af dæluverði breytist myndi hér að framan og verður eins og fram kemur á eftirfarandi mynd. 

Samsetning eldneytisverðs með 10%

 

Eins og sjá má stendur aðeins eftir 38% af dæluverði sem hafa tengsl við þróun eldsneytisverðs á heimsmarkaði eða um 115 kr. 

Verði 10% hækkun eða lækkun á heimsmarkaðsverði skapast með öðrum orðum ekki forsendur til 10% hækkunar eða lækkunar á dæluverði. Ástæðan er sú að sá hluti dæluverðsins sem getur orðið fyrir breytingum vegna tengsla við breytingar á heimsmarkaðsverði nemur ekki nema 38% af dæluverðinu. Aðrir hlutar dæluverðsins eru annað hvort fastir, fastar krónutölur, eða taka breytingum í tengslum við aðrar breytur en þróun heimsmarkaðsverðs. 

Hvaðan fáum við bensínið? 

Þegar rætt er um heimsmarkaðsverð er e.t.v. hætt við að einhverjir líti svo á að það bensín sem er selt á Íslandi komi víða að og hjá söluaðilum sé fólk í vinnu við að kaupa bensín hvar sem það er hagstæðast.  

Ef við skoðum hins vegar upplýsingar á vef Hagstofu Íslands sjáum við að tæp 99% alls blýlauss bensíns sem var flutt til Íslands frá upphafi árs 2023 var frá Noregi. Það bensín sem hér er selt á dælu er því líkast til ekki í raun að koma af heimsmarkaði heldur Noregsmarkaði. Af þeim sökum er eðlilegt að velta fyrir sér hvort verð á Noregsmarkaði sé það sama og verð á heimsmarkaði. Skoðum mynd.

Innflutningsverð á bensíni

Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur þróun á heimsmarkaðsverði á hráolíu sem og innflutningsverð á bensíni sem er innflutt frá Noregi sveiflast töluvert milli mánaða frá janúar 2023. Þótt verðbreytingarnar fylgi ekki alveg sömu sveiflum virðist þónokkur fylgni á milli þeirra á köflum ef tekið er tillit til tímatafar, það er þess tíma sem það tekur að flytja bensínið til landsins. Sem dæmi hafði heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkað um 30% á ársgrundvelli í apríl 2025 á meðan innflutningsverð á bensíni hafði lækkað um 20% á sama tíma. Sú lækkun í bensínverði er nálægt þeirri lækkun sem var á heimsmarkaðsverði á hráolíu í marsmánuði, sem styður þá ályktun að verðbreytingar á heimsmarkaðsverði skili sér með tímatöf í innflutningsverði á bensíni til Íslands.  

Kjarninn í þessu er að þótt heimsmarkaðsverð á olíu sveiflist töluvert þá breytist bensínverð á dælu yfirleitt minna. Það skýrist af því að stór hluti endanlegs verðs eru skattar auk þess sem íblöndunarskylda og flutningstími hafa einnig áhrif á verðmyndunina.   

Af hverju siglir opinber stofnun til Færeyja? 

Allt eldsneyti á Íslandi ber kolefnisgjald þar á meðal skipagasolía ólíkt því sem er gert í Færeyjum. Kolefnisgjald á skipagasolíu er 21,4 kr. á hvern lítra hér á landi. Það þýðir að fyrir skip sem notar eina milljón lítra á ári nemur kostnaður af kolefnisgjald 21,4 milljón króna árlega. Sá kostnaður er ekki innheimtur í Færeyjum.  

Líkt og fram hefur komið sagði forstjóri íslenskrar stofnunar að skip þeirra sigldu til Færeyja til að fylla á eldsneyti, ekki vegna hentugleika heldur í sparnaðarskyni. Eldsneyti þar er einfaldlega ódýrara af fyrrnefndri ástæðu. Þar að auki verður ekki betur séð en að í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2022 hafi eldsneytiskaup stofnunarinnar í Færeyjum verið án virðisaukaskatts. 

Um er að ræða skólabókadæmi í kolefnisleka. Aðgerð sem er ætlað að draga úr kolefnislosun, í þessu tilviki hækkun kolefnisgjald, hefur í för með sér að skip hætta að kaupa eldsneyti á Íslandi og kaupa það þess í stað í Færeyjum þar sem slíkt gjald er ekki innheimt. Ætla má að losunin minnki ekki heldur sé losunin skráð í Færeyjum í stað þess að vera skráð á Íslandi. Það verður að teljast sérstakt að opinber stofnun kaupi skipagasolíu í Færeyjum í því skyni að komast hjá greiðslu skatta. 

SMELLTU HÉR til að hlaða niður greiningu á PDF formati.

 

 

 

Ójafnvægi í skattkerfinu: Atvinnuhúsnæði skattlagt þrefalt hærra

Ójafnvægi í skattkerfinu: Atvinnuhúsnæði skattlagt þrefalt hærra

SVÞ kallar eftir skynsamlegri skattstefnu sveitarfélaga.  

Fasteignamat fyrir árið 2026 hækkar – og með því skattbyrði fyrirtækja um tvo milljarða króna. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu birta nú umfjöllun um áhrif fasteignaskatta á atvinnulífið og greiningu úr skýrslu PWC sem dregur fram hvernig atvinnulífið stendur undir stórum hluta af skatttekjum af fasteignum. 

Þrátt fyrir að atvinnuhúsnæði telji aðeins 9% af öllum fasteignum bera fyrirtæki 53% af fasteignasköttum landsins. Álag fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði getur verið allt að þrefalt hærra en á íbúðarhúsnæði. Reykjavíkurborg, sem einn stærsti áhrifaaðilinn, er með hærri fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði en tíðkast að meðaltali á landsvísu. 

Greining SVÞ leiðir í ljós að fasteignagjöld eru einn stærsti liður í rekstrarkostnaði atvinnuhúsnæðis eða sem nemur 40% og  skýrslan PwC sýnir hvernig Ísland sker sig úr miðað við samanburðarlönd með hæstu skattbyrði fasteigna sem hlutfall af landsframleiðslu. 

Við hvetjum sveitarfélög til að fylgja fordæmi þeirra sem nú þegar hafa lýst vilja til að lækka skatthlutfall fasteignaskatts og láta lækkunina ná til atvinnuhúsnæðis. Það er sérstaklega mikilvægt að sveitarfélögin taki virkan þátt í að halda niðri rekstrarkostnaði í atvinnulífinu.“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ. 

Skoðaðu skýrsluna í heild:Fasteignamat 2026 og áhrif á atvinnulífið 

Súkkulaði, nautakjöt og kartöflur í verðbólguskoti – ný greining frá RSV

Súkkulaði, nautakjöt og kartöflur í verðbólguskoti – ný greining frá RSV

Verðbólga á matvöru heldur áfram að hækka

RSV birtir nýjustu tölur frá maí 2025 – fylgstu með þróun á Veltan.is.

Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) hefur birt verðbólgutölur fyrir maímánuð á vefnum veltan.is. Þar kemur fram að hækkun á matvælum heldur áfram að tengjast við þróun á alþjóðlegu hrávöruverði og aukinn innflutning.

Mesta verðhækkun mældist á súkkulaði (22,7%), sem skýrist af hækkun á heimsmarkaðsverði kakós. Næst mest var hækkun á kartöflum (19,8%), káli (15,6%) og nautakjöti (14,5%). Athygli vekur að innflutningur á nautakjöti jókst um rúm 60% á fyrstu fjórum mánuðum ársins, en verðmæti innflutnings jókst um tæp 90%.

RSV birtir reglulega verðþróun eftir vöruflokkum sem og þróun hrávöruverðs, sem styður við að greina kostnaðarþróun og meta áhrif á rekstur og verðlag.

Nánari upplýsingar og tölur má nálgast á veltan.is.

 

SVÞ varar við óhóflegum breytingum á lyfjalögum

SVÞ varar við óhóflegum breytingum á lyfjalögum

Samtök lyfjaheildsala, sem starfa innan SVÞ, hafa skilað umsögn um frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á lyfjalögum, þar sem varað er við því að frumvarpið kunni að draga úr framboði lyfja á Íslandi – þvert á yfirlýst markmið þess að tryggja lyfjaöryggi.

Í umsögninni kemur fram að frumvarpið byggi á ófullnægjandi greiningu og að það kunni að hafa í för með sér inngrip í daglega starfsemi fyrirtækja á lyfjamarkaði sem hvorki séu nauðsynleg né réttlætanleg. Sérstaklega er gagnrýnt að raska eigi þeim undanþágum sem hingað til hafa tryggt að lyf með markaðsleyfi, en ekki markaðssett, séu aðgengileg á íslenskum markaði.

SVÞ leggur áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld ræði við hagaðila áður en gerðar eru umfangsmiklar breytingar á viðkvæmum markaði – og hvetur til opins samtals um raunhæfar lausnir sem styðja við markmið um lyfjaöryggi.

Umsögnina má lesa í heild sinni hér: Umsögn frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum 2025-05-16