Verslun að færast í fyrra horf

Verslun að færast í fyrra horf

Í Morgunblaðinu þann 6. maí er rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ og Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóra Kringlunnar þar sem þeir segja verslunina vera að taka við sér aftur og að þorri íslenskra verslana muni standa af sér kórónuveirufaraldurinn.

Andrés segir í umfjölluninni, „Ef einkaneyslan heldur áfram að aukast eru allar líkur á að verslunin standi þetta af sér.“ Hann segir matvöru- og lyfjaverslun halda sínu og að byggingavöruverslunin hafi gengið mjög vel eftir páska. Raftækjaverslunum hafi gengið þokkalega en margar brugðust við með því að auka netverslun og húsgagnaverslunum hefði líka gengið þokkalega. Þá sé verslun í Kringlunni og Smáralind að nálgast eðlilegt horf en hinsvegar skeri verslun í miðborginni sig úr og útilokað sé að hún komist í eðlilegt form á meðan þetta ástand varir enda sé tekjufallið einna mest hjá verslunum í miðborginni þar sem ferðamenn hafa verið stór hluti viðskiptavina.

Andrés segir einnig netverslun við erlendar netverslanir ekki eins fýsilegar og áður, íslensk netverslun hafi aukið mikið og nokkuð stór hópur fólks sem keypti föt, raftæki og aðra smávöru erlendis nú vera farinn að versla innanlands.

Umfjöllunina í heild sinni má sjá í á bls. 29 í Morgunblaðinu þann 6. maí

Mælst til að starfsfólk verslana noti eingöngu NITRIL hanska

Mælst til að starfsfólk verslana noti eingöngu NITRIL hanska

SVÞ hefur borist eftirfarandi beiðni frá Almannavörnum:

Ábendingar hafa borist frá starfsfólki sem hefur ofnæmi fyrir latex og foreldrum barna með bráðaofnæmi fyrir latex, vegna hanskanotkunar í verslunum. Starfsmenn margra verslana eru farnir að nota hanska og í flestum tilfellum eru það latex hanskar.

Fólk með bráðaofnæmi fyrir latex sem afgreitt er af starfsfólki í latex hönskum finnur strax fyrir einkennum.

SVÞ mælist því til þess og óskar eftir við stjórnendur verslana að starfsfólk noti eingöngu NITRIL hanska og ef viðskiptavinum er boðið upp á hanska að það séu þá einnig NITRIL hanskar.

 

Upptaka af einkar gagnlegum fundi með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins

Upptaka af einkar gagnlegum fundi með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins

Mjög gagnlegar umræður voru á vel sóttum fundi með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í morgun. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, kynnti innri vinnu sem hefur verið í gangi hjá lögreglunni, árangur af henni og ýmislegt sem til mun koma í framhaldinu. Mikið var rætt um mögulegar aðgerðir til að bregðast með áhrifaríkari hætti við þjófnaði í verslunum og afgreiðslu brotamála. Í framhaldi af fundinum mun öryggishópur SVÞ vera í frekara sambandi við lögreglu varðandi samstarf og mögulegar aðgerðir.

Við hvetjum fólk til að horfa á upptöku af fundinum hér fyrir neðan og félagsmenn að setja sig í samband við okkur ef þeir hafa áhuga á að koma að frekari vinnu að þessum málum. Netfangið er svth(hjá)svth.is og síminn 511 3000.

Breyting á Evrópulöggjöf gæti haft áhrif á afslætti í desember

Breyting á Evrópulöggjöf gæti haft áhrif á afslætti í desember

Hinn 27. nóvember sl. staðfestu Evrópuþingið og ráðið tilskipun (EU) 2019/2161 sem inniheldur breytingar á Evrópulöggjöf og á að bæta framfylgd aðildarríkjanna á ákvæðum um neytendavernd. Ákvæði tilskipunarinnar snúa m.a. að viðurlögum við brotum á evrópskri neytendalöggjöf og ýmsum þáttum sem snerta netverslun bæði innan einstakra ríkja og milli ríkja á EES-svæðinu.

Athygli vekur að í 2. gr. tilskipunarinnar er að finna ákvæði sem gæti með óbeinum hætti dregið úr svigrúmi verslunarmanna til að bjóða afslætti. Efnislega er í ákvæðinu kveðið á um þá meginreglu að í auglýsingum um tilboð eða afslætti skuli koma fram á hvaða verði varan hefur áður verið seld. Það verð sem þannig á að tilgreina sem fyrra verð er lægsta útsöluverð síðustu 30 daga.

Í Danmörku hafa fjölmiðlar og verslunarmenn velt því fyrir sér hvort slík regla muni takmarka eða jafnvel útrýma möguleikum verslunarinnar til þess að bjóða vörur á tilboði eða afsláttum í desember í ljósi sérstakra tilboðsdaga í nóvember, t.d. „Black-Friday“ eða „Singles-day“. Tilskipunin kemur til framkvæmda í ríkjum ESB hinn 28. maí 2022 en upptaka hennar í EES-samninginn er enn á skoðunarstigi á EES-EFTA ríkjunum.

Lögreglan ekki nægilega vel búin til að taka á þjófnaðarvandanum

Lögreglan ekki nægilega vel búin til að taka á þjófnaðarvandanum

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, var í viðtali hjá Reykjavík síðdegis á Bylgjunni 2. janúar sl. þar sem hann ræddi jólaverslunina og talningar en fyrst og fremst um þjófnað í verslunum. Þjófnaður í verslunum er skipulögð glæpastarfsemi og erlend glæpagengi koma gagngert til landsins til að stunda þessa iðju. SVÞ hefur verið í stöðugu sambandi við lögregluyfirvöld vegna þessara mála en réttarvörslukerfið er einfaldlega ekki tæknilega nógu vel búið til að bregðast við þessum vanda. SVÞ hefur nýlega átt fund með dómsmálaráðherra og mun halda áfram að þrýsta á yfirvöld að tryggja að réttarvörslukerfið hafi þann tæknibúnað og annað sem til þarf til að taka á þessum málum. Ljóst er að tjón og kostnaður vegna þjófnaðar og öryggismála veltur á milljörðum á ársgrundvelli sem óhjákvæmilega hefur áhrif á rekstur verslana og þar með verðlag.

Verið er að skipuleggja félagsfund með lögreglu um málið. Við hvetjum SVÞ félaga til að fylgjast vel með viðburðadagatalinu, tölvupóstinum og á samfélagsmiðlunum: Facebook, Twitter, LinkedIn.

SMELLTU HÉR TIL AÐ HLUSTA Á VIÐTALIÐ