Ný skýrsla EuroCommerce: Mikilvægi kolefnishlutleysis í verslunar- og þjónustugreinum.

Ný skýrsla EuroCommerce: Mikilvægi kolefnishlutleysis í verslunar- og þjónustugreinum.

EuroCommerce og ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman, gáfu í júní sl., út nýja skýrslu sem varpar ljósi á mikilvægi fyrirtækja í verslunar- og heildsölugreinum í að ná kolefnishlutleysi í Evrópu.
Skýrslan, sem ber heitið „Net Zero Game Changer“, leggur áherslu á áhrif greinarinnar á kolefnisútblástur og þörfina á auknu gagnsæi og samvinnu.

Meðal innihalds skýrslunnar má nefna:

  • Mikilvægi greinarinnar.
    Verslunar- og heildsölugreinin er ábyrg fyrir um 1.6 gigatonnum af CO2e útblæstri árlega, sem er um þriðjungur af heildarútblæstri Evrópu. Skýrslan undirstrikar mikilvægi þess að draga úr þessum útblæstri til að ná markmiðum Evrópusambandsins um 55% minnkun útblásturs fyrir árið 2030.
  • Áhersla á Scope 3 útblástur.
    Um 98% af útblæstri í greininni kemur frá því sem kallast ‘Scope 3’, sem felur í sér útblástur frá aðfangakeðjum, svo sem við framleiðslu, flutning og notkun vara. Þetta gerir það að verkum að mikilvægt er að fyrirtæki í verslun og þjónustu vinni náið með birgjum og öðrum aðilum í aðfangakeðjunni til að draga úr þessum útblæstri.
  • Reglugerðarlegar breytingar.
    Nýjar reglur, eins og tilskipun um sjálfbæra skýrslugjöf fyrirtækja [Corporate Sustainability Reporting Directive] (CSRD), munu krefjast meiri gagnsæis og skýrsluskilum varðandi kolefnisútblástur. Þetta býður fyrirtækjum upp á tækifæri til að vera leiðandi í sjálfbærni og auka traust neytenda.
  • Mikilvægi samræmdra mælinga.
    Skýrslan leggur til að þróa samræmdar aðferðir til að mæla og skrá útblástur, til að auka áreiðanleika gagna og bæta samanburð milli fyrirtækja. Þetta mun hjálpa til við að draga úr útblæstri á skilvirkari hátt.
  • Neytendavitund.
    Með því að veita neytendum upplýsingar um kolefnisfótspor vörur geta fyrirtæki í verslun og þjónustu stuðlað að aukinni meðvitund og hvatt til val á umhverfisvænni vörum.

Skýrslan „Net Zero Game Changer“ er mikilvægt innlegg í umræðuna um sjálfbærni og kolefnishlutleysi í verslunar- og heildsölugreininni. Hún kallar eftir samstilltu átaki allra aðila innan greinarinnar til að ná markmiðum um minni kolefnisútblástur og bætta sjálfbærni.

Smelltu HÉR til að hlaða niður allri skýrslunni.

Nýjar áskoranir og tækifæri í sýndarveruleika: Áhrif á stjórnendur í verslun og þjónustu

Nýjar áskoranir og tækifæri í sýndarveruleika: Áhrif á stjórnendur í verslun og þjónustu

Í nýrri skýrslu um friðhelgi einkalífs og metaverse,frá Business at OECD er lýst möguleikum og áskorunum fyrir stjórnendur. Með vaxandi notkun sýndarveruleika [metaverse] verður mikilvægara en nokkru sinni fyrr að tryggja gagnavinnslu og friðhelgi viðskiptavina.

Fyrir verslun og þjónustu er mikilvægt að tryggja trúnað og öryggi við meðferð persónuupplýsinga, sérstaklega þar sem safna á og vinna úr líffræðilegum og persónulegum gögnum. Verslanir geta nýtt metaverse til að bæta viðskiptaupplifun með sýndarverslunum og persónusniðnum þjónustu, en það krefst skýrrar og öruggrar gagnavinnslu til að byggja upp traust viðskiptavina.

Þar kemur m.a. fram að stjórnendur þurfa að taka afstöðu til þess hvernig best er að innleiða nýja tækni á öruggan hátt, til að byggja upp traust og bæta viðskiptaupplifun.
Skýrslan leggur áherslu á að áhrifarík gagnaöryggi og stefnumótun verði lykillinn að velgengni í þessum nýja stafræna heimi.

Lesið nánar um áhrifin og tillögur skýrslunnar hér: Skýrsla OECD um metaverse.

Aukin innbrot og skipulögð glæpastarfsemi í verslunargeiranum

Aukin innbrot og skipulögð glæpastarfsemi í verslunargeiranum

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu lýsa yfir áhyggjum vegna aukinna innbrota og skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi. Innbrot valda miklu tjóni og flest mál komast ekki til ákæru.

Í viðtali við VISI.is kallar Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, eftir aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við þessum vanda. Hann bendir á að skipulögð glæpastarfsemi frá erlendum aðilum sé vaxandi vandamál. SVÞ hefur lengi bent á þetta vandamál og biðlað til stjórnvalda að taka málið fastari tökum.

Lestu alla fréttina HÉR!

Sumarlokun SVÞ 2024

Sumarlokun SVÞ 2024

Vegna sumarleyfa verður skrifstofa SVÞ lokuð dagana 15. júlí til 5. ágúst (að báðum dögum meðtöldum).
Við mætum eldhress eftir sumarfrí þriðjudaginn 6. ágúst 2024.

Starfsfólk SVÞ

Kristinn Már Reynisson ráðinn lögfræðingur SVÞ

Kristinn Már Reynisson ráðinn lögfræðingur SVÞ

Kristinn Már Reynisson hefur verið ráðinn til SVÞ – samtaka verslunar og þjónustu og mun hann hefja störf 1. september næstkomandi. Kristinn mun starfa sem lögfræðingur samtakanna og staðgengill framkvæmdastjóra.

Kristinn Már útskrifaðist með M.A. gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands 2010, LL.M. gráðu frá Háskólanum í Stokkhólmi 2012 og doktorsgráðu frá Háskólanum í Árósum 2015.

Á starfsferlinum hefur Kristinn Már m.a. annast kennslu á háskólastigi, starfað sem fulltrúi á lögmannsstofu, unnið ráðgjafarstörf fyrir opinberar stofnanir og starfað sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu, Íslandspósti ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur.

Kristinn Már segir starfið leggjast afar vel í sig: „Ég er ákaflega ánægður með tækifærið sem felst í því að ganga til liðs við SVÞ. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til þess sem samtökin standa fyrir ásamt nýju samstarfsfólki og aðildarfélögunum sjálfum. Miklar breytingar standa yfir í rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem ekki sér fyrir endann á og margar áhugaverðar áskoranir til að takast á við.“

Benedikt S. Benediktsson, verðandi framkvæmdastjóri SVÞ, hefur lýst ánægju með ráðningu Kristins Más: Kristinn Már býr yfir bæði þekkingu og reynslu sem mun gagnast samtökunum og aðildarfyrirtækjum þeirra afar vel. Umhverfismál eru þegar orðin umfangsmikið viðfangsefni aðildarfyrirtækjanna auk þess sem þekking hans á réttarhagfræði, fyrirtækjarétti, skattarétti og samkeppnisrétti verður mjög góð viðbót við þá þekkingu sem þegar er til staðar hjá SVÞ.  Við á skrifstofu SVÞ hlökkum mikið til að Kristinn Már bætist í okkar hóp á komandi hausti. 

 

 

Um traust og vantraust | Visir.is

Um traust og vantraust | Visir.is

Visir.is birtir í dag grein eftir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni; ‘Um traust og vantraust’

Um traust og van­traust

Traust er ein meginundirstaða viðskipta. Alþingi hefur í ýmsu tilliti stutt við bak einstaklinga og ýmissa hópa til að stuðla að jafnri stöðu í viðskiptum. Til grundvallar liggur sú hugmynd að jöfn staða stuðli að trausti og tilvist trausts liðki fyrir viðskiptum. Viðskipti eru meðal forsendna þróunar, framleiðni, nýsköpunar, tæknibreytinga o.fl.

Slíkar hugmyndir liggja að baki fjölmörgum lagabálkum sem lúta að samningum. Neytanda sem kaupir vöru í netverslun er samkvæmt lögum heimilt að skila henni allt að 14 dögum eftir pöntun enda hefur hann ekki fengið tækifæri til að sjá hana berum augum. Af svipuðum meiði er í samkeppnislögum lagt bann við ýmiskonar samstarfi fyrirtækja enda geta áhrif þess á neytendur verið alvarleg og þeim algerlega á huldu. Allir þekkja alvarlegar afleiðingar brota gegn því banni og því skapar bannið traust.

Að efla traust

Árið 2021 heimilaði Samkeppniseftirlitið þremur fyrirtækjum á sviði kjötafurða að sameinast þrátt fyrir að slíkt samstarf væri í raun bannað í ljósi neikvæðra áhrifa á samkeppni og þar með á neytendur og bændur. Málinu lauk með sátt, hið sameinaða fyrirtæki skuldbatt sig til að takast á hendur skilyrði sem áttu að tryggja að dregið yrði úr áhrifunum. Í fyrsta lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að standa ekki í vegi fyrir því að bændur færðu viðskipti sín annað eftir sameininguna. Í öðru lagi skuldbatt það sig til að aðgreina slátrun og vinnslu í eigin bókhaldi og lúta skorðum og reglum við verðlagningu á slátrun, sögun og annarri nánar skilgreindri þjónustu í tiltekinn tíma. Í þriðja lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að selja frá sér eignarhluti í samkeppnisaðilum. Í fjórða lagi skuldbatt það sig til að eiga áfram, um tiltekinn tíma, viðskipti við fyrirtæki sem voru því mjög háð þannig að þau dyttu ekki af markaði vegna samrunans. Í fimmta og síðasta lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að setja sér samkeppnisstefnu, tryggja að unnið væri eftir sáttinni og m.a. að haldin yrði skrá um samskipti við samkeppnisaðila. Orðin „gagnsæi“ og „afltakmörkun“ eru e.t.v. ágæt til að lýsa skilyrðunum. Brot gegn sátt hefur afleiðingar.

Annars konar traust

Eins og þekkt er tók Alþingi sérstakt skref fyrir skemmstu. Orð stjórnmálamanna bera með sér að tilteknum fyrirtækjum sé frekar treystandi en öðrum. Nýfengið traust Alþingis endurspeglaðist í breytingum sem gerðar voru á búvörulögum, að frumkvæði meiri hluta atvinnuveganefndar, sem hafa það m.a. í för með sér að skilyrði á borð við þau sem Samkeppniseftirlitið setti árið 2021 þurfa ekki að vera uppfyllt lengur. Það var niðurstaða hagsmunamats Alþingis að traust til eigenda fyrirtækjanna væri svo ríkt að óþarft væri að gæta að stöðu bænda og neytenda, óþarft væri að tryggja gagnsæi og afltakmarkanir væru óþarfar.

Um helgina voru fluttar fréttir af kaupum KS á Kjarnafæði Norðlenska. Af ummælum sem fallið hafa má draga þá ályktun að traust Alþingis hafi í raun ráðið niðurstöðunni. Samþjöppun er leyfileg og markaðsafl sameinaðs fyrirtækis eykst. Stjórnmálamenn og talsmenn bænda virðast í ýmsu tilliti enn sannfærðir, leyfa sér að treysta því að stöðu bænda verði ekki ógnað og að ekki verði gengið á stöðu neytenda. Hryggilegast er að það gætti sameiginlegs skilnings á hagræðingarþörf í framleiðslu nautgripa- og lambakjöts og að stöðu bænda þyrfti að bæta. Það var viðfangsefni lagafrumvarps matvælaráðherra sem Alþingi breytti með þeim hætti að stuðningurinn sem til stóð að veita endaði hjá viðsemjendum þeirra. Þá hefur engin vakið máls á vanda framleiðslu svína- og kjúklingakjöts eða eggja. Afurðastöðvum í þeim bransa treysti Alþingi á sama hátt og öðrum.

Vantraust?

Ekki fyrr en eftir u.þ.b. þrjú ár mun matvælaráðherra flytja Alþingi skýrslu og segja frá hvernig til tókst, upplýsa hvort fyrirtækjunum hafi í raun og veru verið treystandi. Í millitíðinni er Samkeppniseftirlitinu ætlað að passa upp á að fyrirtækin sem Alþingi treysti safni afurðum frá öllum bændum á sama verði, selji þær öðrum fyrirtækjum á sömu viðskiptakjörum og tengdum fyrirtækjum, hamli því ekki að bændur fari með viðskipti sín annað og haldi úti þjónustuúrvali við bændur um afmarkaða þætti. Á þeim tíma má beinlínis gera má ráð fyrir að mun fleiri fyrirtæki muni hefja samstarf, sameinast og efla afl sitt í ljósi þess trausts sem Alþingi hefur sýnt þeim enda mega þau óáreitt bergja af þeim brunni. Afleiðingar yfirsjóna verða engar.

Að rúmlega þremur árum liðnum verður fyrst hægt að sjá hvernig ógagnsæið og aflaukningin nýttist fyrirtækjunum, hvort traustið var þess virði. Á þeim tímapunkti verður okkur fyrst fært að átta okkur á hvort og hvernig þau huguðu að stöðu bænda og neytenda og gengu ekki á stöðu samkeppnisaðila. Þá fyrst er okkur ætlað að ræða hvers vegna fyrirtækjunum var treyst og þá fyrst ræðum við mögulega um fyrirtækið eitt, kjötafurðastöð Íslands.

Á tímum vantrausts

Samkeppniseftirlitið hefur verið vængstíft m.t.t. háttsemi tiltekinna fyrirtækja og við það munum við því miður búa næstu árin. Undir þeim kringumstæðum getum við annað hvort látið þetta yfir okkur ganga eða gripið til eigin aðgerða.

Verkefnið er að veita aðhald sem jafnast á við það sem Samkeppnieftirlitið getur ekki veitt lengur. Verslunin og samkeppnisaðilar verða að beita sér og tjá sig og neytendur líka, m.a. með buddunni. Bændur verða að gæta sín og vera tilbúnir til viðspyrnu. Að óbreyttu mun engin annar gæta þess að ábati hagræðis rati til neytenda og bænda en ekki eitthvert annað.

Greinin inn á visir.is