18/10/2021 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Í viðtali við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, í Viðskiptablaðinu og á Vb.is nýlega kemur fram að SVÞ óttast frekari verðbólguþrýstings vegna hrávöruverðhækkana og sumar verslanir hafa áhyggjur af afhendingu jólavarnings.
Viðtalið má sjá hér á vb.is og á bls. 10 í nýjasta tölublaði Víðskiptablaðsins.
Mynd: Haraldur Guðjónsson fyrir Viðskiptablaðið
18/05/2021 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun
Í umfjöllun Fréttablaðsins föstudaginn 14. maí fagna SVÞ starfsemi frönsku netverslunarinnar Santewines og segist Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ jafnframt vona að hún verði upphafið á endalokunum á löngu úreltu kerfi.
Í umfjölluninni segir m.a.: “Erlendar netverslanir hafa um langt árabil selt áfengi til íslenskra neytenda og byggist slíkt einfaldlega á einni grunnstoð EES samningsins, það er, um frjálst flæði vöru. Íslenskir neytendur hafa nýtt sér þennan möguleika í auknum mæli á undanförnum árum. Eini munurinn í þessu máli er að hér er hin franska netverslun með vörulager á Íslandi og verður að telja að bann við slíku færi gegn tilgreindu ákvæði EES samningsins. Að þessu sögðu verður ekki annað séð en hér sé um fyllilega löglega starfemi að ræða.”
06/05/2021 | Fræðsla, Fréttir, Stjórnvöld, Verslun
Tollskóli ríkisins hefur tekið upp samstarf við fræðslufyrirtækið Promennt um utanumhald og framkvæmd á námskeiði fyrir tollmiðlara um ýmis atriði er lúta að samskiptum við tollayfirvöld.
Kennarar eru sérræðingar hjá Skattinum-Tollgæslu Íslands og er nú í fyrsta sinn boðið upp á námskeiðið í fjarnámi.
Frekari upplýsingar og skráning hér: https://www.promennt.is/is/namsleidir/markads-og-solunam/tollmidlaranamskeid
29/04/2021 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Í Fréttablaðinu í dag, 29. apríl, birtist umfjöllun þar sem rætt er við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ um fullyrðingar verðlagseftilits ASÍ um að álagning smásölufyrirtækja hafi aukist að undanförnu. Í umfjölluninni segir m.a.:
„Það er athyglisvert hvernig verðlagseftirlit ASÍ les í þessa stöðu þar sem því er haldið fram að álagning smásölufyrirtækja hafi aukist að undanförnu, án þess að sú fullyrðing hafi verið rökstudd með einhverjum hætti,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í samtali við Markaðinn.
„Verðlagseftirlit ASÍ hlýtur að gera sér grein fyrir því að þær gífurlegu, erlendu verðhækkanir sem fyrirtækin hafa verið að horfast í augu við að undanförnu, hafa áhrif hér á landi.“
Bendir Andrés að aðildarfyrirtæki hafi miklar áhyggjur af tilkynningum sem berast frá erlendum birgjum um hækkanir á hrávöruverði á sama tíma og flutningskostnaður er að hækka gífurlega.
SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA UMFJÖLLUNINA Í HEILD SINNI
Mynd: Fréttablaðið/Valli
16/04/2021 | COVID19, Fréttatilkynningar, Fréttir, Stafræna umbreytingin, Stjórnvöld, Verslun
EuroCommerce, samtök smásölu- og heildverslunar í Evrópu, í samvinnu við UNI Europe, sem eru samtök launafólks í Evrópu, hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem skorað er á evrópsk stjórnvöld að styðja við verslunarfyrirtækin með því að efla stafræna hæfni fyrirtækja og starfsfólks í verslunum. Skilaboðin bæði til Evrópusambandsins og ríkisstjórna í álfunni eru skýr:
Við höfum staðið vaktina í heimsfaraldri, nú er komið að ykkur að styðja verslunargeirann í stafrænni hæfni og umbreytingu.
Þetta er í fullkomnu samræmi við hvatningu SVÞ og VR til stjórnvalda um að styðja við íslensk fyrirtæki og starfsfólk þeirra í þessari stóru umbreytingu. Eins og kunnugt er hafa þessi tvö samtök, ásamt Háskólanum í Reykjavík, leitað eftir stuðningi stjórnvalda við að koma á klasasamstarfi um eflingu stafrænnar hæfni. Er það von þeirra sem að verkefninu standa að í framhaldinu komist á sem víðtækast og öflugast samstarf um eflingu stafrænnar hæfni í atvinnulífi og á vinnumarkaði almennt.
Í fréttatilkynningu EurocCommerce, sem lesa má í heild sinni hér, er m.a. haft eftir framkvæmdastjóra EuroCommerce, Christian Verschueren:
„Verslun snýst um fólk, þjónustu við fólk. Allir sem vinna í verslun hafa unnið hörðum höndum til að tryggja að neytendur hafi áreiðanlegt aðgengi að nauðsynjavörum nú í COVID-19 faraldrinum. Margir smásalar sem ekki selja matvöru hafa orðið fyrir miklum neikvæðum áhrifum af endurteknum og löngum lokunum í mörgum löndum. Faraldurinn hefur hraðað stafrænni umbreytingu og netsölu gríðarlega. Evrópusambandið og stjórnvöld í ríkjum Evrópu þurfa nú að hjálpa fyrirtækjunum okkar, sérstaklega litlum og meðalstórum fyrirtækjum, að byggja upp þá færni sem starfsfólki þeirra er nauðsynleg til að nýta sem best þessi stafrænu tól.”
Hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða, eins og allir vita. Langflest fyrirtæki í verslun í Evrópu eru annað hvort lítil eða meðalstór og veita um 28 milljónum manna vinnu. Það skiptir því sköpum fyrir framtíð þessarar atvinnugreinar hvernig henni tekst að aðlaga sig að þeim stafrænu umbreytingum sem eru þegar skollnar á allt í kring um okkur. Stjórnvöld, hvar sem er í Evrópu, geta ekki setið hjá á þess að koma að þessari vegferð með atvinnulífinu. Þessi skilaboð geta ekki verið skýrari.