Við fylgjum þér frá getnaði til grafar

Við fylgjum þér frá getnaði til grafar

Ég veit ekki hvort þú veist það en það eru allar líkur á að í dag, í gær eða a.m.k. í vikunni eigir þú viðskipti við fyrirtæki sem er í SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu. Fyrirtækin stuðla að frjósemi, reka leikskóla, selja matvörur, föt og byggingarvörur, miðla líftryggingum, leigja fasteignir, selja og gera við bíla, reka kvikmyndahús og veita útfararþjónustu – og allt þar á milli.

SVÞ eru málsvari um 430 fyrirtækja sem fylgja þér frá getnaði til grafar.

Þetta er ekki aðeins áhugaverð staðreynd því einkennandi greinar verslunar og þjónustu hafa mikil áhrif á samfélagið:

  • Um 19% verðmætasköpunar þjóðarbúsins má rekja til verslunar og þjónustu en fyrir þá fjárhæð mætti kaupa hátt í 280 milljónir brauðosta af dýrari gerðinni.
  • Um 40% einkaneyslunnar fer um hendur greinanna en fyrir þá fjárhæð mætti kaupa um 130 þúsund bíla af gerðinni Suzuki Vitara.
  • Um 50 þúsund manns starfa í greinunum en með þeim fjölda væri unnt að kjaftfylla Laugardalsvöllinn rúmlega fimm sinnum.
  • Árlega skila greinarnar 200 milljörðum króna í opinber gjöld sem er svipað og það kostar að mennta hátt í 70 þúsund grunnskólabörn.

Án fyrirtækjanna væri lítið um útrás annarra atvinnugreina. Hvar væri sjávarútvegurinn án eldsneytis og orku, varahluta og vöruflutnings? Hvernig stæði hugverkasköpunin án tæknibúnaðar? Hvernig ætli starfsmönnum í iðnaði liði án vinnufatnaðar? Væru allir ferðamennirnir enn í Reykjanesbæ ef engir væru bílarnir? Með hverju á að hræra í pottunum ef engar eru sleifarnar?

Það er hlutverk SVÞ að minna á þetta samhengi – og skapa vettvang þar sem fólk stillir saman strengi, ræðir áskoranir og horfir til framtíðar. Hinn 7. október næstkomandi fara fram Haustréttir SVÞ – leiðtogafundur verslunar og þjónustu.

Frá getnaði til grafar og inn í framtíðina. SVÞ standa vörð um hagsmuni sem snerta alla landsmenn, á hverjum einasta degi.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

 Grein á Vísi Við fylgjum þér frá getnaði til grafar – Vísir

Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

Í nýju viðtali á Bílablogg.is bendir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, á mótsagnakennda stefnu stjórnvalda. Annars vegar hafa stjórnvöld gripið til aðgerða sem styðja við orkuskipti og styrkja bílakaup. Hins vegar er í fjárlagafrumvarpi boðað að hækka skatta á ökutæki og eldsneyti – sem bitnar á almenningi og fyrirtækjum.

„Þetta gengur einfaldlega ekki upp,“ segir Benedikt í viðtalinu. Hann leggur áherslu á að samræmi þurfi að vera í aðgerðum stjórnvalda svo þau skili árangri.

Lesa má viðtalið í heild á Bílablogg.is:
👉 Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

SVÞ varar við óljósum áformum um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti í fjárlögum

SVÞ varar við óljósum áformum um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti í fjárlögum

Óljós áform um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti

Í frétt Morgunblaðsins í dag, 24. september, kemur fram að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé gert ráð fyrir 7,5 milljarða króna tekjuöflun undir liðnum „endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis“.

Samkvæmt fréttinni er óljóst hvernig áform stjórnvalda eru útfærð, en flest bendir til þess að auknar tekjur verði sóttar með hækkun vörugjalda á ökutæki.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, segir að áformin séu bæði óljós og illa tímasett:

„Í fjárlagafrumvarpinu er boðuð mjög mikil skattahækkun á almenning og fyrirtæki. Óljóst er hvaða breytingar eigi að ráðast í til að afla þeirra 7,5 milljarða sem eru merktir sem endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Flest bendi til að það fé eigi að sækja með hækkun vörugjalda af ökutækjum. Þetta er hrikalegur tímapunktur til að koma fram með svo óljós áform þar sem innflytjendur eru einmitt um þessar mundir að skila innkaupaáætlunum vegna næsta árs.“

SVÞ telur brýnt að stjórnvöld útskýri skýrt hvernig þau hyggjast standa að slíkri skattheimtu og hvaða áhrif hún muni hafa á markaðinn. Óvissa af þessu tagi torveldar áætlanagerð fyrirtækja og getur grafið undan stöðugleika í atvinnulífinu á viðkvæmum tíma.

Fjárlagafrumvarp-hrun-bílasölu

Alþjóðleg netverslun – hvað er að gerast?

Alþjóðleg netverslun – hvað er að gerast?

Erlendar netverslanir á borð við Shein og Temu eru fyrirferðarmiklar á neytendamarkaði og íslensk verslunarfyrirtæki hafa af þeim sökum staðið frammi fyrir áskorunum. Fjölmörg dæmi eru um að netverslanir sem selja vörur beint frá ríkjum utan EES-svæðisins gæti þess ekki að uppfylltar séu strangar kröfur sem fyrirtæki á EES-svæðinu þurfa að fylgja, m.a. hvað varðar vöruöryggi, efnainnihald, eða upplýsingagjöf til neytenda. 

Þetta er ekki bara spurning um ójafna samkeppni – þetta snýst um traust, öryggi og framtíð íslenskrar verslunar. 

SVÞ Samtök verslunar og þjónustu bjóða til upplýsingafundar miðvikudaginn 29. október kl. 08:30 í Húsi atvinnulífsins, þar sem við ræðum stöðuna á Íslandi, þróun í Evrópu og aðgerðir sem eru í sjónmáli. 

Á fundinum koma saman fulltrúar frá Rannsóknasetri verslunarinnar, Umhverfisstofnun, Mannvirkjastofnun, Neytendastofu og Kringlunni – auk SVÞ . 

👉 Vertu með – mótaðu framtíðina með okkur! 

Þetta er tækifærið til að taka þátt í samtali sem skiptir máli.  

Skráðu þig hér – umræðan fer fram 29. október kl. 08:30. 

 Ekki láta þetta fram hjá þér fara – þetta snýst um framtíðina. 

 

SVÞ: Atvinnulífið hluti af lausninni í loftslagsmálum

SVÞ: Atvinnulífið hluti af lausninni í loftslagsmálum

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, eiga hlut í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka um frumvarp til nýrra heildarlaga um loftslagsmál. 

Í umsögninni er fagnað því að stjórnvöld vinni að heildstæðri loftslagsstefnu. Lagt er þó áherslu á að árangur náist aðeins með nánu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda. 

Helstu áherslur í umsögninni: 

  • Samráð og samstarf – kallað er eftir að atvinnulífið fái raunverulegt vægi í stefnumótun og ákvarðanatöku til að aðgerðir byggi á raunhæfum forsendum og markmiðum verði náð.  
  • Skýr markmið og fyrirsjáanleiki – mikilvægt er að aðgerðir byggji á skýrum ramma og tímalínum. Þannig megi veita fyrirtækjum nauðsynlegan fyrirsjáanleika. 

Nánar má lesa um sameiginlega umsögnina á vef SA: Raunhæf skilyrði nauðsynleg til að ná árangri í loftslagsmálum

SVÞ telja reglugerðardrög ósanngjörn í garð kvenna

SVÞ telja reglugerðardrög ósanngjörn í garð kvenna

Í drögum að reglugerð kemur fram að merkja eigi umbúðir tiltekinna vara þannig að það sé skýrt að þær innihaldi plast. Þessi krafa kemur frá ESB. Efnislega gerir ESB þá kröfu að merkingarnar séu á íslensku og ekki nægi að þær séu á ensku eða öðru norðurlandamáli.

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu telja að vegna kröfunnar muni innflutningverð varanna hækka og hætt sé við að  vöruúrval kunni að dragast saman. Ef það raungerist er hætt við að staðan geri hag íslenskra neytenda lakari.

SVÞ skiluðu umsögn um drögin, ásamt Samtökum atvinnulífsins þar sem athygli er vakin á hversu harkalega þessi krafa kemur niður á Íslandi, samanborið við fjölmennari málsvæði og stærri hagkerfi.  Auðsætt er að ekki er eins hætt við að innflytjendur og neytendur í stærri ríkjum verði fyrir neikvæðum áhrifum.

SVÞ vilja vekja sérstaka athygli á að krafa ESB mun, umfram aðra, bitna á konum sem nota tíðavörur, þ.e. dömubindi og túrtappa. Það telja SVÞ ómálefnalegt og ekki í takt við tímann.

SVÞ telja jafnframt að framkvæmdastjórn ESB hafi gert mistök við lagasetningu, framkvæmdastjórnin hafi farið út fyrir valdsvið sitt eða lagt rangt mat til grundvallar þegar ákveðið var að ekki nægði að merkja vörurnar á ensku eða öðru norðurlandamáli.

Þó efni reglugerðardraganna beri ekki mikið yfir sér má halda því fram að meðferð stjórnvalda á þessu máli geti orðið prófsteinn á hvort og hvaða tækifæri Ísland hefur til að hafa áhrif á þær reglur sem gilda á innri markaði EES og þá ekki síst hvaða vægi ESB gefur séríslenskum hagsmunum. Undanfarin misseri hafa á almennum vettvangi átt sér stað umræður um mögulega ESB-aðild Íslands. Vera kann að þetta mál geti orðið innlegg í slíka umræðu. Þegar efni og eðli málsins er haft í huga telja SVÞ að íslensk stjórnvöld eigi að láta reyna á lögmæti tungumálakröfunnar og þannig gæta íslenskra hagsmuna, t.a.m. fyrir EFTA-dómstólnum.