Súkkulaði, nautakjöt og kartöflur í verðbólguskoti – ný greining frá RSV

Súkkulaði, nautakjöt og kartöflur í verðbólguskoti – ný greining frá RSV

Verðbólga á matvöru heldur áfram að hækka

RSV birtir nýjustu tölur frá maí 2025 – fylgstu með þróun á Veltan.is.

Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) hefur birt verðbólgutölur fyrir maímánuð á vefnum veltan.is. Þar kemur fram að hækkun á matvælum heldur áfram að tengjast við þróun á alþjóðlegu hrávöruverði og aukinn innflutning.

Mesta verðhækkun mældist á súkkulaði (22,7%), sem skýrist af hækkun á heimsmarkaðsverði kakós. Næst mest var hækkun á kartöflum (19,8%), káli (15,6%) og nautakjöti (14,5%). Athygli vekur að innflutningur á nautakjöti jókst um rúm 60% á fyrstu fjórum mánuðum ársins, en verðmæti innflutnings jókst um tæp 90%.

RSV birtir reglulega verðþróun eftir vöruflokkum sem og þróun hrávöruverðs, sem styður við að greina kostnaðarþróun og meta áhrif á rekstur og verðlag.

Nánari upplýsingar og tölur má nálgast á veltan.is.

 

„Stjórnmálin skilja ekki atvinnulífið“ – Benedikt S. Benediktsson í Svipmynd Viðskiptablaði Morgunblaðsins

„Stjórnmálin þurfa að skilja að fyrirtæki í atvinnulífinu ráða ekki við hvaða kröfur og byrði sem er og að í upphafi þurfi endinn að skoða.  Margir virðast halda að fyrirtækjarekstur sé jafnvel ekki hluti af samfélaginu heldur verkefni afmarkaðs hóps sem hafi takmarkað með það að gera að hafa skoðun á fyrirhuguðum breytingum eða hvernig samfélagið virkar“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu m.a., í Svipmynd hjá Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag, 21. maí 2025.

Sjá allt viðtalið hér fyrir neðan:

Benedikt S. Benediktsson, Svipmynd Viðskiptamoggans 21. maí 2025

 

SVÞ varar við óhóflegum breytingum á lyfjalögum

SVÞ varar við óhóflegum breytingum á lyfjalögum

Samtök lyfjaheildsala, sem starfa innan SVÞ, hafa skilað umsögn um frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á lyfjalögum, þar sem varað er við því að frumvarpið kunni að draga úr framboði lyfja á Íslandi – þvert á yfirlýst markmið þess að tryggja lyfjaöryggi.

Í umsögninni kemur fram að frumvarpið byggi á ófullnægjandi greiningu og að það kunni að hafa í för með sér inngrip í daglega starfsemi fyrirtækja á lyfjamarkaði sem hvorki séu nauðsynleg né réttlætanleg. Sérstaklega er gagnrýnt að raska eigi þeim undanþágum sem hingað til hafa tryggt að lyf með markaðsleyfi, en ekki markaðssett, séu aðgengileg á íslenskum markaði.

SVÞ leggur áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld ræði við hagaðila áður en gerðar eru umfangsmiklar breytingar á viðkvæmum markaði – og hvetur til opins samtals um raunhæfar lausnir sem styðja við markmið um lyfjaöryggi.

Umsögnina má lesa í heild sinni hér: Umsögn frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum 2025-05-16

Ný skýrsla um erlenda netverslun – Tækifæri til að meta áhrif á íslenska markaðinn

Ný skýrsla um erlenda netverslun – Tækifæri til að meta áhrif á íslenska markaðinn

RSV – Rannsóknasetur verslunarinnar hefur kynnt nýja og yfirgripsmikla skýrslu um erlenda netverslun sem gefur íslenskum verslunar- og þjónustufyrirtækjum einstakt tækifæri til að greina áhrif erlendrar netverslunar á þeirra starfsemi.

Skýrslan er sérsniðin að þörfum fyrirtækja sem vilja skilja þróun markaðarins og nýta sér innsýnina til stefnumótunar.

Skýrslan inniheldur m.a.:

  • Spálíkan um þróun innlendrar verslunar og netverslunar til ársins 2030.
  • Spálíkan um þróun erlendrar netverslunar til ársins 2030.
  • Nýjustu tölur um erlenda netverslun, brotnar niður eftir:
    • Stærstu útflutningslöndum.
    • Grófum verslunarflokkum.
    • Undirflokkum og yfirtollflokkum.

Fyrirtæki fá því nákvæma yfirsýn yfir hvað Íslendingar eru að panta á netinu og frá hvaða löndum. Auk þess eru birtar niðurstöður rannsókna frá 2020, 2021 og 2024 sem skoða meðal annars hvort íslenskar verslanir séu nýttar sem „mátunarklefar“ og hvernig neytendur kjósa að fá vörur afhentar úr netverslunum.

Til að tryggja skýra kynningu á efni skýrslunnar er boðið uppá frían persónulegan kynningafund á Teams þar sem farið er yfir helstu niðurstöður.

Verð á skýrslunni fyrir áskrifendur Veltunnar 69.900 kr. en fyrir aðra 79.900 kr.

Við hvetjum stjórnendur í verslunar- og þjónustugeiranum til að nýta þetta tækifæri til að dýpka skilning sinn á markaðnum og aðlaga rekstraráætlanir að þróuninni.
Fyrir frekari upplýsingar hafið samband við forstöðumann RSV Klöru Símonardóttur á netfangið: klara(hja)rsv.is

Ísland gengur lengra en Evrópa – Bílasala í uppnámi vegna reglna um peningaþvætti

Ísland gengur lengra en Evrópa – Bílasala í uppnámi vegna reglna um peningaþvætti

Ísland hefur tekið upp strangara regluverk um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í bílasölu en Evrópa. Þetta hefur valdið bílaumboðum og bílasölum miklum vanda, þar sem þeim er gert skylt að safna viðkvæmum gögnum um viðskiptavini sína, halda úti ferlum og verklagi og tryggja varðveislu safnaðra upplýsinga. Það sem ætti að vera einfalt viðskiptasamband hefur breyst í flókna eftirlitsstarfsemi þar sem sölufólk er sett í hlutverk lögreglu. 

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, bendir á að þessi þróun hafi gert verslunarfólk að óviljugum eftirlitsaðilum. „Verslunarfólk upplifir sig sem sakamenn í eigin starfsemi. Við erum að tala um kerfi sem líkist forvirkri lögreglurannsókn,“ segir Benedikt í nýrri grein. 

Hann útskýrir að íslensk löggjöf gangi lengra en Evróputilskipanir kveða á um, þar sem bílasölur eru skyldugir til að safna upplýsingum sem jafnvel bankar hafa þegar aflað. Þetta auki kostnað, flækjustig og óöryggi í atvinnulífinu. 

„Þetta er sjálfnærandi kerfi þar sem breytilegar og huglægar kröfur leiða alltaf til sektar. Eina leiðin út er að samþykkja sekt og borga eða leita til dómstóla,“ segir Benedikt. 

SVÞ kallar eftir endurskoðun á núverandi regluverki. Fyrirtæki eru hvött til að fylgjast með.
_____

SMELLTU HÉR til að nálgast alla greinina.
SMELLTU HÉR til að lesa umfjöllun Viðskiptablaði Morgunblaðsins.

Fyrirkomulag kílómetragjalds skerðir skilvirkni – SVÞ varar við auknu flækjustigi

Fyrirkomulag kílómetragjalds skerðir skilvirkni – SVÞ varar við auknu flækjustigi

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, varar við að fyrirhugaðar breytingar á frumvarpi til laga um kílómetragjald gætu leitt til aukins flækjustigs og kostnaðar, sérstaklega m.t.t. vöruflutninga. Þetta kemur fram í nýrri grein Benedikts þar sem hann greinir frá áhyggjum sínum vegna áforma stjórnvalda um að skipta út eldsneytissköttum fyrir víðtækt kílómetragjald.

Í greininni bendir Benedikt á að núverandi kerfi eldsneytisskatta hafi verið álitið einfalt, skilvirkt og sanngjarnt, þar sem þeir sem nota meira eldsneyti greiða meira. Með fyrirhugaðri breytingu, þar sem kílómetragjald verður lagt á alla bíla, óháð eldsneytistegund, skapast verulegar flækjur fyrir rekstraraðila vöruflutningabíla.

„Rekstraraðilar vörubíla munu þurfa að halda utan um skráningu fjölmargra bíla sem er ekið af mörgum bílstjórum. Þar sem kílómetragjald á bílana og eftirvagnana verður hátt mun nákvæmt utanumhald og regluleg skráning skipta sköpum,“ segir Benedikt í greininni.

Benedikt lýsir einnig áhyggjum sínum af því að nýja fyrirkomulagið auki álag á fyrirtæki og ríkissjóð þar sem eftirlit og skráningarkröfur verði flóknari. Hann varar við að rekstraraðilar vörubíla gætu lent í miklum viðbótarkostnaði og að aukinn rekstrarkostnaður skili sér að lokum í hærra verði.

SVÞ mun halda áfram að fylgjast með þróun málsins og beita sér fyrir skýru og sanngjörnu fyrirkomulagi sem tekur tillit til hagsmuna aðildarfyrirtækja samtakanna. Fyrirtæki eru hvött til að fylgjast með og kynna sér áhrif breytinganna á rekstur.

SMELLTU HÉR til að lesa alla greinina.
SMELLTU HÉR fyrir frétt á VB.is