Sértilboð til félagsmanna á þjónustunámskeið Gerum betur!

Sértilboð til félagsmanna á þjónustunámskeið Gerum betur!

Nú í apríl og maí býður Gerum betur sértilboð til félagsmanna: 25% afslátt á þjónustunámskeiðum sem kennd eru í gegnum netið.

Þrjú námskeið eru í boði og þrjár upphafsdagsetningar fyrir hvert þeirra.

Dagsetningarnar eru 27. apríl, 11. maí og 25. maí.

Kynntu þér námskeiðin með því að smella á viðeigandi hnapp hér fyrir neðan.

Afsláttarkóðinn fyrir félagsmenn er gerumbetur

20 góð ráð í þjónustusímsvörun

Erfiðir viðskiptavinir og kvartanir

Góð ráð í tölvupóstsamskiptum

Upptaka af einkar gagnlegum fundi með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins

Upptaka af einkar gagnlegum fundi með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins

Mjög gagnlegar umræður voru á vel sóttum fundi með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í morgun. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, kynnti innri vinnu sem hefur verið í gangi hjá lögreglunni, árangur af henni og ýmislegt sem til mun koma í framhaldinu. Mikið var rætt um mögulegar aðgerðir til að bregðast með áhrifaríkari hætti við þjófnaði í verslunum og afgreiðslu brotamála. Í framhaldi af fundinum mun öryggishópur SVÞ vera í frekara sambandi við lögreglu varðandi samstarf og mögulegar aðgerðir.

Við hvetjum fólk til að horfa á upptöku af fundinum hér fyrir neðan og félagsmenn að setja sig í samband við okkur ef þeir hafa áhuga á að koma að frekari vinnu að þessum málum. Netfangið er svth(hjá)svth.is og síminn 511 3000.

Sértilboð í kjölfar fyrirlesturs um þjónustusímsvörun

Sértilboð í kjölfar fyrirlesturs um þjónustusímsvörun

Það var mikið rætt og hlegið á einstaklega gagnlegum og skemmtilegum morgunfyrirlestri um þjónustusímsvörun með þjónustusérfræðingnum Margréti Reynisdóttur hjá Gerum betur. Ekki spillti fyrir að með henni var góður gestur, Örn Árnason leikari, sem fór á kostum við að glæða lífi hin ýmsu dæmi sem læra mátti af. Líflegar umræður spunnust og óhætt að segja að allir hafi farið reynslunni ríkari frá okkur þann morguninn.

Í tilefni af fyrirlestrinum býður Margrét sérkjör á nýútkominni bók sinni um þjónustusímsvörun næstu þrjár vikurnar. Og hún gerir enn betur og býður sértilboð á rafrænu námskeið um sama efni. Þú getur nálgast bókina hér og námskeiðið hér og með kóðanum svth færðu 20% afslátt.

 

Helstu straumar í neytendahegðun skv. Euromonitor

Helstu straumar í neytendahegðun skv. Euromonitor

Starfsfólk SVÞ rakst á dögunum á einkar áhugaverða skýrslu sem gefin var út af Euromonitor og fjallar um helstu strauma hvað varðar neytendahegðun á árinu 2019. Þó nú sé vel liðið á árið eiga þeir þó ennþá vel við svo ég ákvað að stikla á stóru í þessum greinarstúf með grófri þýðingu á helstu þáttum skýrslunnar og deila svo skýrslunni í heild sinni með félagsmönnum inni í lokaða Facebook hópnum okkar.*

Í skýrslunni benda höfundarnir, Alison Angus og Gina Westbrook, á tíu atriði sem hafa áhrif og munu halda áfram að hafa áhrif og farið er stuttlega farið yfir hér fyrir neðan:

 

Aldur skiptir ekki máli (e. Age agnostic)

Við erum aldurslaus. Aldur er afstæður. Fólk heldur ekki lengur í gamlar hugmyndir um aldur heldur tengjumst við hvort öðru, sama á hvaða aldri við erum. Lykillinn að því að ná til viðskiptavina og halda tryggð þeirra er að bjóða vörur og þjónustu sem henta öllum aldri, þrátt fyrir að vera hannaðar með eldra fólk í huga. Það sem skiptir fólk máli sem fætt er á áratugunum eftir seinna stríð (e. baby boomers) er mun líkara því sem skiptir þúsaldarkynslóðina og yngra fólk máli heldur en við gerum okkur oft grein fyrir. Við þurfum að skilja þetta hugarfar betur og sníða vörur, þjónustu og markaðssamskipti að því. Það sem skiptir máli er að hugsa vel um sjálfan sig og njóta lífsins. Það sem skiptir máli er jafnvægið á milli hins andlega og hins líkamlega.

 

Minna er meira sem stöðutákn (e. Back to basics for status)

Við viljum sýna að við séum einlæg og ekta. Neytendur eru að leita að vörum sem eru ekta og öðruvísi og upplifun sem gerir þeim kleift að tjá persónuleika sinn. Neytendur í þróuðum hagkerfum eru að endurmeta hvernig þeir eyða peningunum sínum og færast frá neysluhyggju yfir í einfaldleika, einlægni og þörf fyrir að endurspegla sérstöðu sína sem einstaklings. Eftir því sem vaxandi markaðir þróast er líklegt að við sjáum samskonar breytingu þar: Neytendur verða leiðir á almennum vörum og vilja fá meiri gæði, vörur sem eru einstakar og öðruvísi og gefa ákveðna samfélagsstöðu til kynna.

 

Meðvitaðir neytendur (e. Conscious consumer)

Við viljum vera meðvituð. Hinir meðvituðu neytendur dagsins í dag eru sveigjanlegir og velja það sem hentar stað og stund. Þar sem áður fyrr voru lítil sérfyrirtæki sem tileinkuðu sér samfélagslega ábyrgð sækja nú hefðbundin fyrirtæki á með því að gera vörur, sem þegar eru á markaði, sjálfbærari. Meðvitaðir neytendur eru áhrifamiklir og munu hafa sífellt meiri áhrif á aðra.

Dýraverndunarsjónarmið munu þróast ferkar og hafa áhrif á fleiri sviðum en í mat, fegurð og tísku. Við munum sjá dýravernd skipta máli í vörum eins og heimilisvörum, húsgögnum, gæludýrafóðri o.s.frv. Markaðurinn gerir sífellt meiri kröfur um ábyrgð og ætlast til þess að vörur sem við notum dags daglega verði sífellt ábyrgari hvað varðar dýravernd.

 

Stafræn samvera (e. Digitally together)

Við getum raunverulega verið saman – á stafrænan hátt. Útbreiðsla háhraða nettengingar, sérstaklega farsímatenginga, er drifkrafturinn á bakvið gagnvirka upplifun á netinu og rauntíma samvinnu. Hvort sem um ræðir stefnumót eða menntun, þá höfum við vanist raunverulegum samskiptum á netinu. Eftir því sem tæknileg færni okkar verður meiri og eftir því sem okkur finnst þægilegra að nota tæknina, því meira munum við geta gert saman á stafrænan hátt.

Eftir því sem við verðum vanari því að deila hlutum á netinu; vinum okkar, staðsetningu, því sem við erum að gera, því meira munu stafrænar samskiptaleiðir þróast. Eftir því sem tæknileg geta okkar eykst og okkur finnst þægilegra að nota tæknina, því meira aukast möguleikarnir á því sem við getum skapað og upplifað saman þrátt fyrir að vera ekki á sama stað.

 

Allir eru sérfræðingar (e. Everyone’s an expert)

Við verðum sífellt upplýstari. Völdin eru að færast frá smásölum og til neytenda. Áður treystu viðskiptavinir á ákveðin vörumerki eða ákveðnar upplýsingarveitur í leit að því sem þeir vildu, en í dag verða fyrirtæki sífellt að koma með eitthvað nýtt, lækka verð, straumlínulaga og bæta útlit vara og þjónustu til að laða að viðskiptavini.

Kjarninn í þessari þróun er næstum því áráttukennd þörf neytenda til að nálgast og deila upplýsingum á stafrænan hátt. Eftir því sem netverslun í heiminum eykst munu allir geirar þurfa að aðlaga sig að kröfum neytenda um að fyrirtæki séu með á nótunum.

 

Að finna gleðina í að missa af hlutunum (e. Finding my JOMO)

Við viljum vera meðvituð um það sem við gerum. Hræðslan við að missa af (e. FOMO eða fear of missing out) víkur nú fyrir því að eignast tíma okkar aftur þegar við finnum gleðina í því að missa af hlutunum (e. JOMO eða the joy of missing out). Til að vernda andlega heilsu vill fólk vera meðvitaðra um hvernig það notar tímann sinn, setja mörk og vera vandlátara á það sem það gerir. Á heimsvísu finnur þúsaldarkynslóðin meiri þörf fyrir að efla sig á þennan hátt en aðrar kynslóðir. Skipulagður tími þar sem fólk aftengir sig, gefur sér frelsi til að hugsa og gera hluti sem þau virkilega vilja og njóta þess að gera. Á mörkuðum í þróun þar sem fólk reiðir sig sífellt meira á netið mun það orsaka aukna streitu, sérstaklega eftir því sem nettenging verður sífellt nauðsynlegri fyrir grundvallarþjónustu.

 

Ég get séð um mig sjálf(ur) (e. I can look after myself)

Við erum sífellt að verða meira sjálfum okkur næg. Kjarninn í þessari þróun er allt það sem fólk getur gert til að koma í veg fyrir veikindi, óhamingju og óþægindi án þess að þurfa á aðstoð fagfólks að halda. Fólk nýtir smáforrit og sérsniðnar þjónustu án þess að þurfa sífellt að vera á samfélagsmiðlum eða fylgjast með ímyndamarkaðssetningu fyrirtækja. Að geta séð um sjálfa(n) sig á þennan hátt er álitinn lúxus sem gerir fólki kleift að vera fjölhæfara og auka möguleika þeirra í lífinu. Með því að ráða lífi þínu, hanna það og sérsníða það á þann hátt sem þú vilt hefurðu meiri sveigjanleika.

 

Ég vil plastlausan heim (e. I want a plastic free world)

Við viljum hafa áhrif á heiminn okkar. Óskir fólks um plastlausan heim hafa haldið áfram að vaxa og munu halda áfram að vaxa. Plast mengar umhverfið og fólk er farið að skoða vandlega endingu plastpakkninga. Neytendur munu í sífellt meira mæli nota veskið til að mótmæla óábyrgri plastnoktun, sem getur leitt til jákvæðra áhrifa í ýmsum iðnaði sem aukið getur sjálfbærni sína, s.s. í mat, drykk, fegurðar- og hreinlætisvörum o.fl.

 

Ég vil fá þetta núna! (e. I want it now)

Við viljum að hlutirnir gerist strax. Skilvirkni skiptir sífellt meira máli. Neytendur vilja upplifanir án núnings eða árekstra, upplifanir sem henta lífstíl þeirra og gera þeim kleift að eyða meiri tíma í störf og félagslíf. Helsta áhyggjuefnið er meðferð notendaupplýsinga og aðgangur fyrirtækja að þeim upplýsingum. Traust almennings á því að vel sé farið með þennan upplýsingaaðgang og að hann sé notaður á ábyrgan hátt verður það sem sker úr um hversu lengi þessi þróun heldur áfram.

 

Einfaralíf (e. Loner living)

Við höfum aldrei verið eins mikið ein. Einbúum fjölgar á heimsvísu og það verður algengasta fyrirkomulagið á næstu árum. Búist er við að stór hluti þeirra sem koma til með að búa einir séu og verði fólk fætt á áratugunum eftir seinna stríð (e. Baby boomers). Margir af yngri kynslóðum hafa hafnað hjónabandi og sambúð algjörlega. Þetta er tilhneiging sem virðist ætla að halda áfram með næstu kynslóðum. Um allan heim þykir ekki lengur slæmt að búa ein(n) heldur nýtur fólk sjálfstæðs lífstíls og einfaralífsins. Skv. Pew Research Center er gert ráð fyrir að þegar ungt fólk í Bandaríkjunum í dag verður fimmtugt muni fjórðungur þeirra hafa verið einhleyp allt sitt líf.

 

* Til að fá aðgang að hópnum þarftu sækja um og svara nokkrum laufléttum spurningum svo við getum sannreynt að þú starfir hjá aðildarfyrirtæki í SVÞ. Við hlökkum til að sjá þig í hópnum!

 

Þóranna K. Jónsdóttir
Markaðs- og kynningarstjóri SVÞ