SVÞ: Atvinnulífið hluti af lausninni í loftslagsmálum

SVÞ: Atvinnulífið hluti af lausninni í loftslagsmálum

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, eiga hlut í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka um frumvarp til nýrra heildarlaga um loftslagsmál. 

Í umsögninni er fagnað því að stjórnvöld vinni að heildstæðri loftslagsstefnu. Lagt er þó áherslu á að árangur náist aðeins með nánu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda. 

Helstu áherslur í umsögninni: 

  • Samráð og samstarf – kallað er eftir að atvinnulífið fái raunverulegt vægi í stefnumótun og ákvarðanatöku til að aðgerðir byggi á raunhæfum forsendum og markmiðum verði náð.  
  • Skýr markmið og fyrirsjáanleiki – mikilvægt er að aðgerðir byggji á skýrum ramma og tímalínum. Þannig megi veita fyrirtækjum nauðsynlegan fyrirsjáanleika. 

Nánar má lesa um sameiginlega umsögnina á vef SA: Raunhæf skilyrði nauðsynleg til að ná árangri í loftslagsmálum

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 – opið fyrir tilnefningar.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 – opið fyrir tilnefningar.

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök, þar á meðal SVÞ, hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025.

Við hvetjum öll aðildarfyrirtæki SVÞ til að nýta þetta tækifæri og senda inn tilnefningu.  Einstakt tækifæri til að varpa kastljósi á verkefni og starfsemi sem sýna raunveruleg umhverfisáhrif og frumkvæði til góðra verka.

Tveir verðlaunaflokkar

  • Umhverfisfyrirtæki ársins

  • Framtak ársins

Tilnefna þarf fyrirtæki sérstaklega undir hvorn flokk, en heimilt er að tilnefna sama fyrirtækið í báða flokka.

Frestur til tilnefninga rennur út 22. september 2025.
Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í nóvember, sem haldinn verður á Hilton Reykjavík Nordica.

➡️ Nánari upplýsingar og eyðublað til að skila inn tilnefningu má finna á vef SA — smellið HÉR! 

Af hverju breytist bensínverð ekki um leið og breytingar verða á heimsmarkaðsverði olíu?

Af hverju breytist bensínverð ekki um leið og breytingar verða á heimsmarkaðsverði olíu?

Greining á verðmyndun eldsneytis á Íslandi og hvers vegna hún fylgir ekki alltaf heimsmarkaðsverði.

Með þessum pistli er ætlunin að varpa nokkru ljósi á samhengi eldsneytisverðs á heimsmarkaði og forsendna eldsneytisverðs á Íslandi. Rétt er að taka fram að það er ávallt í höndum fyrirtækja sem annast sölu eldsneytis að ákveða hvernig þau haga sinni verðlagningu. Verðlagning er viðskiptaákvörðun. Pistillinn er aðeins ætlaður til fróðleiks. 

Þegar heimsmarkaðsverð á olíu breytist spyrja margir hvers vegna samsvarandi breytingar verða ekki samtímis á bensínverði hér á landi. Oft er því haldið fram að söluaðilar eldsneytis haldi aftur af sér við verðlækkanir en ekki hækkanir. Er þá oft talað um að ekki gæti samræmis milli verðs á dælu og þróunar heimsmarkaðsverðs. Á þessu kunna að vera nokkrar skýringar sem er unnt að draga fram með því að rýna í opinber gögn sem eru öllum aðgengileg. 

Þessu tengdu hefur forstjóri opinberrar stofnunar greint frá því að skip þeirra sigli til Færeyja til að kaupa eldsneyti í sparnaðarskyni þar sem það er ódýrara en á Íslandi. Hér í framhaldi verður farið yfir hvað getur valdið því. 

Áhrif hins opinbera 

Í raun er verði á dælu að stórum hluta stýrt af hinu opinbera í gegnum skatta sem gerir dæluverðið tregbreytanlegra en ella. Eldsneytisskattar nema lögfestum krónutölum sem ekki breytast þó breytingar verði á innkaupsverði. Af bensínlítra sem kostaði 300 kr. runnu tæplega 170 kr. til ríkisins í formi eldsneytisskatta og virðisaukaskatts. Þetta má nánar sjá á eftirfarandi mynd.

Samsetning eldneytisverðs án blöndunar

Af myndinni leiðir að aðeins 44% dæluverðsins eru eftirstandandi, 130 kr., sem geta haft einhver tengsl við þróun á markaði erlendis.  

Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því en þegar fólk kaupir bensín er það ekki bara að kaupa bensín. Í meira en áratug hefur söluaðilum eldsneytis verið gert að blanda bílaeldsneyti með öðrum eldfimum vökvum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og orkustofnun hafa um 7–16% af dæluverðinu því algjörlega verið óháð heimsmarkaðsverði á olíu. Mengað etylalkóhól, sem íblöndunarefni fyrir bensín, hefur til að mynda verið nálægt því þrefalt hærra í innflutningsverði  en bensín sl. þrjú ár.  

Ef við gefum okkur að íblöndun í bensín nemi að jafnaði 10% af dæluverði breytist myndi hér að framan og verður eins og fram kemur á eftirfarandi mynd. 

Samsetning eldneytisverðs með 10%

 

Eins og sjá má stendur aðeins eftir 38% af dæluverði sem hafa tengsl við þróun eldsneytisverðs á heimsmarkaði eða um 115 kr. 

Verði 10% hækkun eða lækkun á heimsmarkaðsverði skapast með öðrum orðum ekki forsendur til 10% hækkunar eða lækkunar á dæluverði. Ástæðan er sú að sá hluti dæluverðsins sem getur orðið fyrir breytingum vegna tengsla við breytingar á heimsmarkaðsverði nemur ekki nema 38% af dæluverðinu. Aðrir hlutar dæluverðsins eru annað hvort fastir, fastar krónutölur, eða taka breytingum í tengslum við aðrar breytur en þróun heimsmarkaðsverðs. 

Hvaðan fáum við bensínið? 

Þegar rætt er um heimsmarkaðsverð er e.t.v. hætt við að einhverjir líti svo á að það bensín sem er selt á Íslandi komi víða að og hjá söluaðilum sé fólk í vinnu við að kaupa bensín hvar sem það er hagstæðast.  

Ef við skoðum hins vegar upplýsingar á vef Hagstofu Íslands sjáum við að tæp 99% alls blýlauss bensíns sem var flutt til Íslands frá upphafi árs 2023 var frá Noregi. Það bensín sem hér er selt á dælu er því líkast til ekki í raun að koma af heimsmarkaði heldur Noregsmarkaði. Af þeim sökum er eðlilegt að velta fyrir sér hvort verð á Noregsmarkaði sé það sama og verð á heimsmarkaði. Skoðum mynd.

Innflutningsverð á bensíni

Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur þróun á heimsmarkaðsverði á hráolíu sem og innflutningsverð á bensíni sem er innflutt frá Noregi sveiflast töluvert milli mánaða frá janúar 2023. Þótt verðbreytingarnar fylgi ekki alveg sömu sveiflum virðist þónokkur fylgni á milli þeirra á köflum ef tekið er tillit til tímatafar, það er þess tíma sem það tekur að flytja bensínið til landsins. Sem dæmi hafði heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkað um 30% á ársgrundvelli í apríl 2025 á meðan innflutningsverð á bensíni hafði lækkað um 20% á sama tíma. Sú lækkun í bensínverði er nálægt þeirri lækkun sem var á heimsmarkaðsverði á hráolíu í marsmánuði, sem styður þá ályktun að verðbreytingar á heimsmarkaðsverði skili sér með tímatöf í innflutningsverði á bensíni til Íslands.  

Kjarninn í þessu er að þótt heimsmarkaðsverð á olíu sveiflist töluvert þá breytist bensínverð á dælu yfirleitt minna. Það skýrist af því að stór hluti endanlegs verðs eru skattar auk þess sem íblöndunarskylda og flutningstími hafa einnig áhrif á verðmyndunina.   

Af hverju siglir opinber stofnun til Færeyja? 

Allt eldsneyti á Íslandi ber kolefnisgjald þar á meðal skipagasolía ólíkt því sem er gert í Færeyjum. Kolefnisgjald á skipagasolíu er 21,4 kr. á hvern lítra hér á landi. Það þýðir að fyrir skip sem notar eina milljón lítra á ári nemur kostnaður af kolefnisgjald 21,4 milljón króna árlega. Sá kostnaður er ekki innheimtur í Færeyjum.  

Líkt og fram hefur komið sagði forstjóri íslenskrar stofnunar að skip þeirra sigldu til Færeyja til að fylla á eldsneyti, ekki vegna hentugleika heldur í sparnaðarskyni. Eldsneyti þar er einfaldlega ódýrara af fyrrnefndri ástæðu. Þar að auki verður ekki betur séð en að í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2022 hafi eldsneytiskaup stofnunarinnar í Færeyjum verið án virðisaukaskatts. 

Um er að ræða skólabókadæmi í kolefnisleka. Aðgerð sem er ætlað að draga úr kolefnislosun, í þessu tilviki hækkun kolefnisgjald, hefur í för með sér að skip hætta að kaupa eldsneyti á Íslandi og kaupa það þess í stað í Færeyjum þar sem slíkt gjald er ekki innheimt. Ætla má að losunin minnki ekki heldur sé losunin skráð í Færeyjum í stað þess að vera skráð á Íslandi. Það verður að teljast sérstakt að opinber stofnun kaupi skipagasolíu í Færeyjum í því skyni að komast hjá greiðslu skatta. 

SMELLTU HÉR til að hlaða niður greiningu á PDF formati.

 

 

 

Vegna misvísandi upplýsinga um stofn bifreiðahlunninda

Vegna misvísandi upplýsinga um stofn bifreiðahlunninda

SVÞ og Bílgreinasambandinu bárust upplýsingar um að óljóst hefði þótt hvort draga ætti fjárhæð rafbílastyrks úr Loftslag- og orkusjóði frá kaupverði bíls við ákvörðun stofns bifreiðahlunninda. Með öðrum orðum og í dæmaskyni hvort stofn bifreiðahlunninda vegna rafbíls sem var keyptur á 9 millj. kr. nemi 9 millj. kr. eða 8,1 millj. kr., þegar fengist hefur 900 þús. kr. styrkur úr sjóðnum. Að höfðu samráði við Skattinn vilja samtökin koma því á framfæri að bifreiðahlunnindin reiknast af kaupverði að frádregnum styrknum, sé á annað borð sótt um og hann ákvarðaður.

Nánari umfjöllun um bifreiðahlunnindi má finna á vefslóðinni https://www.skatturinn.is/einstaklingar/tekjur-og-fradraettir/skattmat/.
Þá má einnig finna reiknivél bifreiðahlunninda á eftirfarandi vefsíðu: https://www.skatturinn.is/einstaklingar/reiknivelar/reiknivel-bifreidahlunninda/

Norrænt skilagjaldakerfi í hættu – SVÞ varar við neikvæðum áhrifum nýrrar ESB reglugerðar

Norrænt skilagjaldakerfi í hættu – SVÞ varar við neikvæðum áhrifum nýrrar ESB reglugerðar

SVÞ og systursamtök á Norðurlöndum krefjast þess að árangri norrænna skilakerfum drykkjarvöruumbúða verði ekki fórnað vegna nýrrar umbúðareglugerðar ESB.

Áhrif PPWR reglugerðar á Ísland
Ákvæði nýrrar reglugerðar ESB um umbúðir (PPWR) geta haft alvarleg á íslenskt umhverfi, neytendur og fyrirtæki. Í henni eru m.a. settar kvaðir sem eiga að stuðla að endurnotkun drykkjarvöruumbúða. Við undirbúning reglugerðarinnar var ekki tekið tillit til árangurs söfnunar- og endurvinnslukerfa sem hafa skilað framúrskarandi niðurstöðu á Norðurlöndunum. Greiningar óháðra aðila á hinum Norðurlöndum hafa sýnt að í umhverfislegu tilliti geta hinar nýju kvaðir hæglega skilað lakari árangri en þegar hefur náðst.

Segja má að verið sé að boða endurnýjun lífdaga þykku gosflasknanna sem unnt var að skila í sjoppur og verslanir sem komu þeim fyrir í plastkössum og sendu til baka í gosverksmiðjur til þvottar og áfyllingar. Eins og flestir þekkja var það fyrirkomulag lagt af og langsamlega flestir skila nú flöskum og dósum til Endurvinnslunnar eða í dósagáma.

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu ásamt dagvöruverslunarsamtökum á hinum Norðurlöndunum komu nýverið á framfæri við framkvæmdastjóra umhverfismála ESB áskorun þess efnis að sérstakt tillit verði tekið til markaða þar sem skilagjaldakerfi ná yfir 90% skilahlutfalli.

„Við erum með skilakerfi sem virkar. Það skilar háu endurvinnsluhlutfalli, nýtur trausts og almennrar þátttöku almennings og fyrirtækja og dregur úr umhverfisáhrifum. Það væri skref afturábak að fara áratugi aftur í tímann til tíma fyrirkomulags sem hentar ekki okkar aðstæðum og skilar lakari árangri“ segir Benedikt S. Benediktsson hjá SVÞ, sem skrifaði undir áskorunina.

Hagsmunir almennings og fyrirtækja í húfi

Kostnaður við nýjar drykkjarumbúðir
Afleiðingar nýju umbúðareglugerðarinnar verða þær að léttum, endurvinnanlegum áldósum og plastflöskum verður að hluta skipt út fyrir þyngri umbúðir úr plasti sem er bæði kostnaðarsamt og verra fyrir umhverfið. Í viðskiptahagkerfinu verður til mikill kostnaður þar sem í auknum mæli þarf að flytja vökva í umbúðum til og frá landinu eða halda þarf úti tveimur skilakerfum. Við höfum náð góðum árangri þar sem mikill hluti kaupa á drykkjarvörum er í auðendurvinnanlegum álumbúðum en hætt er að við þeim árangri verði fórnað.

Á Íslandi hefur skilagjaldakerfið verið hluti af daglegum neysluvenjum í áratugi og tryggt að verulegur hluti drykkjarumbúða ratar í endurvinnslu aftur í nýja framleiðslu.

Sameinuð rödd Norðurlanda

Framtíð skilagjaldakerfisins á Norðurlöndum
Áskorunin er liður í samstilltri hagsmunagæslu Norðurlanda. Þar er m.a. bent á að lífsferilsgreiningar (LCA) hafi sýnt að núverandi endurvinnslukerfi á Norðurlöndunum skila betri árangri m.t.t. loftslags- og umhverfismála en þau kerfi sem reglugerðin leggur upp með.

Framtíðarsýn sem byggir á því sem virkar

SVÞ telja afar mikilvægt að regluverk framtíðarinnar taki tillit til þess sem þegar hefur sannað gildi sitt og því verði ekki fórna á altari samræmingar sem tekur mið á lakari stöðu ríkja ESB.

„Við viljum umhverfisvænar lausnir, en þær verða að grundvallast á skynsemi og staðreyndum. Það má ekki refsa fyrir árangur – við verðum að byggja á honum,“ segir Benedikt.

 

Fyrirkomulag kílómetragjalds skerðir skilvirkni – SVÞ varar við auknu flækjustigi

Fyrirkomulag kílómetragjalds skerðir skilvirkni – SVÞ varar við auknu flækjustigi

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, varar við að fyrirhugaðar breytingar á frumvarpi til laga um kílómetragjald gætu leitt til aukins flækjustigs og kostnaðar, sérstaklega m.t.t. vöruflutninga. Þetta kemur fram í nýrri grein Benedikts þar sem hann greinir frá áhyggjum sínum vegna áforma stjórnvalda um að skipta út eldsneytissköttum fyrir víðtækt kílómetragjald.

Í greininni bendir Benedikt á að núverandi kerfi eldsneytisskatta hafi verið álitið einfalt, skilvirkt og sanngjarnt, þar sem þeir sem nota meira eldsneyti greiða meira. Með fyrirhugaðri breytingu, þar sem kílómetragjald verður lagt á alla bíla, óháð eldsneytistegund, skapast verulegar flækjur fyrir rekstraraðila vöruflutningabíla.

„Rekstraraðilar vörubíla munu þurfa að halda utan um skráningu fjölmargra bíla sem er ekið af mörgum bílstjórum. Þar sem kílómetragjald á bílana og eftirvagnana verður hátt mun nákvæmt utanumhald og regluleg skráning skipta sköpum,“ segir Benedikt í greininni.

Benedikt lýsir einnig áhyggjum sínum af því að nýja fyrirkomulagið auki álag á fyrirtæki og ríkissjóð þar sem eftirlit og skráningarkröfur verði flóknari. Hann varar við að rekstraraðilar vörubíla gætu lent í miklum viðbótarkostnaði og að aukinn rekstrarkostnaður skili sér að lokum í hærra verði.

SVÞ mun halda áfram að fylgjast með þróun málsins og beita sér fyrir skýru og sanngjörnu fyrirkomulagi sem tekur tillit til hagsmuna aðildarfyrirtækja samtakanna. Fyrirtæki eru hvött til að fylgjast með og kynna sér áhrif breytinganna á rekstur.

SMELLTU HÉR til að lesa alla greinina.
SMELLTU HÉR fyrir frétt á VB.is