23/01/2026 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál, Verslun, Þjónusta
Áform Reykjavíkurborgar um breytingar á skipulagi við Suðurlandsbraut hafa vakið áhyggjur meðal fyrirtækja og fasteignaeigenda á svæðinu. Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag er fjallað um að fyrirhugaðar breytingar geti haft áhrif á aðgengi, nýtingu lóða og rekstrarforsendur fyrirtækja í verslun og þjónustu.
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, bendir á að umræðan um svæðið gefi ekki rétta mynd af stöðunni og bendir á að meðal aðildarfyrirtækja SVÞ séu fyrirtæki sem meta stöðuna sem svo að þau verði fyrir 60% skerðingu á bílastæðum.
„Það er ljóst að sú staða verður afar erfið að fást við, ekki síst í þeim tilvikum þar sem í nágrenninu hefur verið reist íbúðabyggð með fáum bílastæðum og íbúar hafa í ýmsu tilliti brugðið á það ráð að leggja bílum sínum á bílastæði fyrir fyrirtæki sem eru staðsett við Suðurlandsbraut“ bendir Benedikt m.a. á í viðtalinu.
SMELLTU HÉR til að lesa allt viðtalið. [Mynd Mbl.]

20/01/2026 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Breytingar á vörugjöldum bifreiða geta haft veruleg áhrif á þróun bílamarkaðarins á næstu misserum, þó að enn sé of snemmt að draga endanlegar ályktanir. Þetta segir Íris Hannah Atladóttir, hagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu, í viðtali í sérstöku bílablaði Morgunblaðsins í dag 20. janúar 2026.
„Tengiltvinnbílar hafa gagnast mörgum Íslendingum vel, og hjálpað þeim að taka skref í átt til rafvæðingar: Það geta verið alls konar ástæður að baki því hversvegna það hentar fólki ekki endilega að velja 100% rafmagnsbíl“ segir Íris.
Sjá viðtal við Írisi hér fyrir neðan:

07/01/2026 | Fréttir, Umhverfismál, Úr hagsmunagæslunni
Úr hagsmunagæslunni
Um þessar mundir hefur eldsneytisverð verið í umræðunni í tengslum við róttækar skattabreytingar um áramót. Í því samhengi hafa fallið ýmis orð, m.a. í þá átt að eldsneytisverð hér á landi hafi ekki þróast í samræmi við breytingar á heimsmarkaðsverði. Ekki er alltaf ljóst hvað átt er við þegar rætt er um heimsmarkaðsverð eldsneytis en t.d. hefur verið litið til heimsmarkaðsverðs á hráolíu, afhendingarverðs bensíns í New York höfn og heimsmarkaðsverð bensíns á Mið-Evrópumarkaði.
Þegar rætt er um heimsmarkaðsverð er t.d. hætt við að einhverjir líti svo á að það bensín sem er selt á Íslandi komi frá höfnum New York . Ef við skoðum hins vegar upplýsingar á vef Hagstofu Íslands sjáum við að tæp 99% alls blýlauss bensíns sem var flutt til Íslands frá upphafi árs 2023 var upprunnið í Noregi. Það bensín sem hér er selt á dælu er því líkast til ekki í raun að koma af heimsmarkaði heldur Noregsmarkaði. Af þeim sökum er eðlilegt að velta fyrir sér hvort verðþróun á innfluttu bensíni sem kemur hingað af Noregsmarkaði sé sú sama og verðþróun á heimsmarkaði.

Heimild: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands og U.S. Energy Information Administration
Eldsneyti á Íslandi kemur ekki frá New York – heldur frá Noregi
Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur heimsmarkaðsverð í New York höfn umreiknað í íslenskar krónur sveiflast töluvert milli mánaða og það sama á við um innflutningsverð á bensíni sem er innflutt frá Noregi. Þótt verðbreytingarnar fylgi ekki alveg sömu sveiflum virðist þónokkur fylgni á milli þeirra á köflum ef innflutningsverð er tafið um mánuð sem kann að endurspegla tafir vegna flutnings– og afhendingartíma.
Þegar árið 2025 er skoðað sérstaklega virðist sambandið á milli þróunar á heimsmarkaðsverði og innflutningsverðs á bensíni sem er flutt inn frá Noregi vera veikara en að jafnaði á tímabilinu 2023–2024. Í október hafði heimsmarkaðsverð til að mynda lækkað um 23% frá ársbyrjun á meðan innflutningsverð á bensíni frá Noregi hafði lækkað um 9%. Þetta misræmi kann að skýrast að hluta til af töf vegna flutnings– og afhendingartíma á eldsneyti til Íslands en líkt og sjá má á myndinni er áfram töluverður munur milli heimsmarkaðsverðs og innflutningsverðs með mánaðartímatöf. Það bendir til þess að fleiri þættir en þróun heimsmarkaðsverðs hafi áhrif á innflutningsverð á bensíni frá Noregi.

Heimild: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands og U.S. Energy Information Administration
Niðurstaða: Heimsmarkaðsverð er ekki nægjanlegt viðmið
Kjarninn í þessu er sá að heimsmarkaðsverð við New York höfn er ekki fullkomið viðmið til að leggja mat á verðþróun bensíns á Íslandi. Þótt innflutningsverð á bensíni, sem hefur bein áhrif á verðmyndun innanlands, hreyfist oft í takt við heimsmarkaðsverð líkt og fjallað er um hér að framan er sambandið þar á milli misríkt og virðist hafa verið veikara árið 2025 en árin á undan.
06/01/2026 | Fréttamolar SVÞ, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Innra starf, Stjórnvöld, Umhverfismál, Útgáfa, Verslun, Viðburðir, Þjónusta
Desember einkenndist af virkri hagsmunagæslu þar sem augu beindust að samkeppnishæfni verslunar og þjónustu í breyttu evrópsku og íslensku umhverfi, áhrif skatta og regluverks á rekstur og rekstrarkostnað.
Þá er undirbúningur að ráðstefnunni UPPBROT SVÞ 2026 sem haldin verður á Parliament Hótel Reykjavík við Austurvöll 12. mars nk., í fullum gangi.
SVÞ FRÉTTAMOLAR DESEMBER 2025.pdf
19/12/2025 | Fréttir, Stjórnvöld, Umhverfismál
Niðurfelling bensíngjalda og olíugjalds um áramótin. Hver verða áhrifin?
Þegar lög um kílómetragjald á ökutæki taka gildi um áramótin munu almennt og sérstakt vörugjald af bensíni (bensíngjöld) ásamt olíugjaldi falla brott. Á móti mun kolefnisgjald hækka um 30–32% (án virðisaukaskatts).
Einstaklingar og fyrirtæki hafa velt fyrir sér hvaða áhrif gjaldabreytingarnar hafa á útsöluverð á dælu. Einfalda svarið er að áhrifin ráðast ekki aðeins af gjaldabreytingunum sjálfum heldur fleiri þáttum, þ. á m. því hversu hátt hlutfall bílaeldsneytis er blandað endurnýjanlegu eldsneyti.
Á vefsíðunni vegirokkarallra.is sem er haldið úti af stjórnvöldum kemur t.d. eftirfarandi fram í svari við spurningunni hvort breytingarnar hafi áhrif á dæluverð bensíns og dísilolíu: „Olíu- og bensíngjöld munu falla niður og dæluverð mun lækka til samræmis. Uppfært kolefnisgjald verður hærra en áður og vegur því á móti lækkuninni. Hversu mikil lækkunin verður ræðst af hlutfalli vistvænna íblöndunarefna í eldsneyti. Hluti þessara íblöndunarefna af hverjum lítra hefur hvorki borið kolefnisgjald né olíu- eða bensíngjöld.“
Af hverju skiptir íblöndun máli?
Það sem margir átta sig ekki á er að þegar bensín eða dísilolía er keypt á dælu er ekki afhent 100% jarðefnaeldsneyti. Í meira en áratug hefur söluaðilum eldsneytis verið gert að blanda bílaeldsneyti öðrum efnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og því er bílaeldsneyti á dælu ávallt blandað öðrum efnum.
Söluaðilum eldsneytis er skylt samkvæmt lögum að tryggja að minnst 5% af heildarorkugildi eldsneytis í vegasamgöngum sé endurnýjanlegt eldsneyti.
Skattar sem falla brott leggjast ekki á íblöndunarefni
Bensíngjöld og olíugjald, sem falla niður um áramótin, eru ekki lögð á íblandaða hluta eldsneytis heldur aðeins þann hluta sem telst hreint jarðefnaeldsneyti þ.e. hreint bensín og hreina dísilolíu.
Það þýðir að ef lítri af bensíni á dælu inniheldur 10% íblöndun þá er aðeins 90% af lítranum jarðefnaeldsneyti og því leggst niðurfelling bensíngjalda aðeins á 90% lítrans en ekki allan lítrann. Þannig mun skattalækkunin á eldsneyti verða í hlutfalli við hversu stór hluti eldsneytis er hreint jarðefnaeldsneyti.
Dæmi um áhrif breytinganna á dæluverð
Samkvæmt vefnum GSM bensín nam lægsta bensínverðið hinn 19. desember 2025 279,7 kr./lítra. Bensíngjöld og kolefnisgjald (með virðisaukaskatti) nema samanlagt 134,9 kr./lítra en hlutur þeirra í lítraverði breytist eftir því hversu mikil íblöndun er í eldsneytinu. Um áramótin falla bensíngjöld brott og þá stendur eftir kolefnisgjald að fjárhæð 30,1 kr./lítra (með virðisaukaskatti).
Miðað við þessar forsendur, bensínverð 279,7 kr./lítra og skattlagningu annars vegar í dag og hins vegar eftir áramót má áætla að bensínverð geti lækkað um 89,1–104,8 kr./lítra miðað við íblöndun á bilinu 0–15%. Þess ber að geta að samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og orkustofnun nam íblöndun í bensíni um 10% að meðaltali á tímabilinu janúar til október 2025.
Samkvæmt vefnum GSM bensín nam lægsta dísilverðið hinn 19. desember 292,7 kr./lítra. Olíugjald og kolefnisgjald (með virðisaukaskatti) nema samanlagt 122,4 kr./lítra en hlutur þeirra í lítraverði breytist eftir því hversu mikil íblöndun er í eldsneytinu. Um áramótin fellur olíugjald brott og eftir stendur kolefnisgjald að fjárhæð 35,1 kr./lítra (með virðisaukaskatti).
Miðað við þessar forsendur, dísilverð sem nemur 292,7 kr./lítra og skattlagningu annars vegar í dag og hins vegar eftir áramót má áætla að dísilverð geti lækkað um 74,2–87,3 kr./lítra miðað við íblöndun á bilinu 0–15%. Þess ber að geta að samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og orkustofnun nam íblöndun í dísilolíu í vegasamgöngum um 8% að meðaltali á tímabilinu janúar til október 2025.

Tekið skal fram að hér er um dæmi að ræða. Við útreikninganna er eingöngu tekið mið af breytingum á skattlagningu en ýmsir aðrir þættir á borð við innkaupsverð á eldsneyti og íblöndunarefnum hafa einnig veruleg áhrif á lítraverð. Þá skal ítrekað að verðlagning á bensín og dísilolíu er á endanum ávallt ákvörðuð af söluaðilum, slík ákvarðanataka er á þeirra ábyrgð enda um viðskiptalegar ákvarðanir að ræða.